Þröstur hristir hausinn líkt og fleiri yfir stöðu Samfylkingarinnar en samkvæmt nýjasta þjóðarpúlsi Gallup er flokkurinn aðeins með 10,4% fylgi. Árni Páll Árnason, sem höfundur Staksteina Morgunblaðsins bendir á að sitji sem formaður í krafti eins atkvæðis, nær ekki vopnum sínum. Hann nýtur nú lítils stuðnings innan þingflokksins. Meðal þingmanna Samfylkingarinnar er talið útilokað annað en að nýr formaður verði kjörinn á næstu mánuðum, annars blasi við hreint hrun í kosningum 2017.
Fáum svíður meira undan veikri stöðu en gömlum krötum – Alþýðuflokksmönnum sem líta á það sem stórkostleg pólitísk mistök að hafa tekið þátt í stofnun Samfylkingarinnar. Þeir hafi orðið undir við sameininguna og róttækir vinstri menn sem flestir voru aldir upp í Alþýðubandalaginu, ráði nánast öllu. Ofan af þessum mistökum verði að vinda og það verði aðeins gert með;
- að næsti formaður Samfylkingarinnar verði „góður krati“ sem höfði til miðjunnar, launafólks og millistéttarinnar.
- eða að Alþýðuflokkurinn verði endurreistur (hann lifir enn að nafninu til) og bjóði fram í öllum kjördæmum í næstu kosningum.