Steingrímur J. Sigfússon, fyrrverandi fjármálaráðherra, neitar að viðurkenna að honum urðu á mistök þegar hann lét Svavar Gestsson semja um Icesave-skuld Landsbankans við bresk og hollensk stjórnvöld. Þvert á móti ber hann hausnum við stein og heldur því fram að Íslendingar væru jafnvel settir með Svavar-samningana og þeir eru nú. Þessu heldur fjármálaráðherrann fyrrverandi fram í grein sem birtist í Kjarnanum.
Ólafur Egilsson, einn meðlima Indefence-hópsins, sem berðist harðlega gegn því að skattgreiðendur urðu látnir bera skuldir Landsbankans, segir í grein á Eyjunni að sú tilhneiging manna „að geta ekki viðurkennt að hafa haft rangt fyrir sér“ sé leiðinleg. Ólafur telur nauðsynlegt að halda til haga nokkrum staðreyndum fyrst Steingrímur J. Sigfússon neiti að viðurkenna mistök:
„1. Hefðu Íslendingar samþykkt fyrstu Icesave samningana þá stæði skuld Íslands við Breta og Hollendinga nú í 230 milljörðum í erlendri mynt og ættu fyrstu greiðslur að hefjast á þessu ári.
Þessi upphæð hefði lagst ofan á þær greiðslur sem Bretar og Hollendingar hafa nú fengið úr þrotabúi Landsbankans. Um er að ræða umsaminn vaxtakostnað (5,6% af u.þ.b.700 milljörðum) sem hefði safnast upp á þeim tíma sem tók að koma eigum bankans í verð. Með því að fella fyrstu Icesave samningana, sluppu Íslendingar við að greiða þessa óréttmætu kröfu Breta og Hollendinga.
2. Þvert á venjur og reglur sem gilda um fall einkabanka, gerðu Icesave samningarnir ráð fyrir að íslenska þjóðarbúið tæki á sig ábyrgð á að borga kröfu Breta og Hollendinga í þrotabú Landsbankans, óháð því hvað fengist úr þrotabúinu.
Þótt komið hafi í ljós að þrotabúið hafi náð að selja eigur upp í alla upphæðina, þá var gríðarleg áhætta sem fylgdi samningunum. Ef sala eigna bankans hefði ekki dugað þá hefði mismunurinn, auk 230 milljarðanna, verið greiddur af Íslendingum.
3. Það er nú almenn grundvallarregla sem er búið að leiða í lög, bæði í Evrópu og Bandaríkjunum, að almenningur eigi ekki að bera kostnað af falli fjármálafyrirtækja.
Vandséð er af hverju annað ætti að gilda hérlendis. http://ec.europa.eu/finance/bank/crisis_management/“
Þröstur tekur undir hvatningu Ólafs til Steingríms að sýna manndóm og viðurkenna augljós mistök, sem þjóðin kom í veg fyrir með aðstoð forseta lýðveldisins. En Þröstur á von á því að fyrr frjósi í helvíti en Steingrímur J. horfist í augu við staðreyndir, hvað þá að hann viðurkenni að hafa gert mistök.