Er allt leyfilegt í Stjörnustríði Ríkisútvarpsins?

Þau í Efstaleitinu hamra á því að Ríkisútvarpið sé eign allra landsmanna – „RÚV okkar allra“ hljómar stöðugt. Fjölmiðill í almannaþágu er annað slagorð sem Efstaleitisfólkinu er tamt að nota, ekki síst þegar barist er fyrir því að komast örlítið dýpra í vasa skattgreiðenda. Slagorðasmíði er sérstök íþrótt í stóra húsinu.
Stjórnendur Ríkisútvarpsins segjast vilja „opna samtalið við þjóðina“ – „eiga daglegt samtal við þjóðina“ um leið og þeir „huga að faglegum vinnubrögðum og starfsháttum RÚV“. Í ársskýrslu Ríkisútvarpsins 2014 lýsir útvarpsstjóri hlutverki ríkismiðilsins meðal annars með þessum orðum:

„Ríkisútvarpið á að virkja samtakamátt þjóðarinnar á stórum stundum, setja ný viðmið og skara fram úr, leiða nýsköpun og taka áhættu.“

Í takt við slagorðin eru menn stórhuga í Efstaleiti. Í ársskýrslunni segir útvarpsstjóri:

„Meðal þess sem okkur þykir mikilvægt er að bæta framboð á leiknu íslensku efni og gæðaefni fyrir börn á íslensku enda verður á næstu árum gerð enn ríkari krafa um að Ríkisútvarpið bjóði nýjum kynslóðum Íslendinga upp á vandað íslenskt efni þegar erlent afþreyingarefni á erlendum tungumálum er á hverju strái.“

Landsmenn fengu að kynnast því á gamlársdag hvað telst „gæðaefni fyrir börn“ og hvernig hægt er að „virkja samtakamátt þjóðarinnar“.

Stjörnustríð Ríkisútvarpsins

Stundin okkar á sérstakan sess í huga Íslendinga, ekki síst þeirra sem ólust upp við eina útvarpsstöð og eina sjónvarpsstöð í eigu ríkisins. Þá var ekki sjónvarpað á fimmtudögum og tekið gott sumarfrí í júlí, en á sunnudögum var þess gætt að börnin fengju eitthvað við sitt hæfi. Umsjónarmenn Stundarinnar urðu vinir og jafnvel fyrirmyndir barna; Hinrik Bjarnason, Kristín Ólafsdóttir og Bryndís Schram svo fáeinir umsjónarmenn séu nefndir sem lögðu metnað í búa til efni fyrir börn til „skemmtunar og fróðleiks“. Krummi kom á skjáinn, Glámur og Skrámur skemmtu ekki aðeins börnum heldur foreldrum einnig. Og ekki má gleyma Þórði húsverði eða Eiríki Fjalari í boði Ladda.

Tæknilega og fjárhagslega var Ríkisútvarpinu þröngur stakkur skorinn en metnaðurinn var þeim mun meiri.

Nú eru aðrir tímar. Stundin okkar er orðin vettvangur pólitískra árása á þá sem ekki eru þóknanlegir í Efstaleitinu.

Í „Stundarskaupi“ á gamlársdag var gengið í smiðju Stjörnustríðmyndanna og yfir skjáinn rann texti sem einnig var lesinn upp:

„Eftir fall velmegunarríkisins eru afleiðingar áralangs erfiðis og leiðinda að koma í ljós.

Uppreisnarmenn og konur hafa hreiðrað um sig í mikilvægum stofnunum grunnstoða mannlífsins og heimta það eitt að fá að lifa eðlilegu lífi fyrir sig og fjölskyldur sínar.

Skjótandi í myrkrinu ferðast æðstu yfirmenn hins nýstofnaða velmegunarríkis stjórnlaust um óravíddir alheimsins á hinu endurnýjaða, ógnarstóra og misskilda flotaskipi „Einkavæðaranum“.

Þegnar hins nýja ríkis telja niður að áramótum og vona það eitt að jafnvægi og friður ríki að nýju í sólkerfinu.“

Síðan birtast Bjarni Benediktsson [BB] í búningi aðmíráls á stríðskipinu Einkavæðarinn og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson [SDG] í gervi geimverunnar Jabba the Hutt – harðsnúins glæpaforingja:

BB: Ha, ha það eru spennandi tímar framundan.

SDG: Ójá Bjarni minn kær, við erum á góðri leið með að klára þetta. Nú fljúgum við Einkavæðaranum yfir landið. Það er svo gaman að rústa

Fyrsta innlaginu lýkur með geðveikislegum hlátri Bjarna og Sigmundar Davíðs og innslag tvö hefst með sömu geðveikinni:

SDG: Þá er Einkavæðarinn kominn yfir Ísland.

BB: Geðveikur hlátur.

BB: Byrjum á Landspítalanum. Þessir læknar og hjúkrunarfólk eru sívælandi, aldrei ánægð með neitt, ha, ha, ha.

SDG: Góð hugmynd, góóð hugmynd. Við höfum ekkert að gera með Landspítala. Nú fá uppreisnarseggirnir fyrir ferðina.

Þeir félagar hlæja illkvittnislega og Landspítalinn er skotinn í tætlur með dauðageislanum.

Þriðja innslag úr brú Einkavæðarans hefst eins og áður með geðveikislegum hlátri þeirra félaga og nú ættu flest börn að hafa áttað sig á að hér eru illmenni á ferð:

SDG: Hvað núna?

BB: Klárum RÚV núna.

SDG: Ég fíla hvernig þú hugsar.

BB: Það er svo gaman, gaman að rústa að rústa – geðveikislegur hlátur.

RÚV skotið í tætlur af dauðageislanum!

BB: Allt í botn, siglum stjórnlaust áfram.

SDG: Stjórnlaust, já stjórnlaust.

Geðveikislegur hlátur enn og aftur.

Ný viðmið

Útvarpsstjóri lofaði að Ríkisútvarpið myndi „setja ný viðmið“. Um það verður varla deilt að við það loforð hefur verið staðið. Stundarskaupið setti nýjan staðal svo auðveldara sé að „huga að faglegum vinnubrögðum og starfsháttum RÚV“.

Nú er svo komið að „gæðaefni fyrir börn“ og „vandað íslensk efni“ sem „nýjum kynslóðum Íslendinga“ er boðið upp á í skjóli ríkisrekstrar og skylduáskriftar, eru pólitískir áróðursþættir. Glámur og Skrámur, Krummi, Þórður húsvörður og Eiríkur Fjalar eru fyrir löngu horfnir af skjánum. Og foreldrar þurfa að velta því fyrir sér hvort börnin þeirra séu ekki betur sett með því að horfa á erlent afþreyingarefni en íslensk barnaefni Ríkisútvarpsins.

Það hefur myndast ákveðið andrúmsloft í Efstaleiti. Engu er líkara en að stór hluti starfsmanna Ríkisútvarpsins líti á stofnunina sem sína eigin og að enginn þurfi að standa reikningsskil gagnvart einum eða neinum.

Verst er að þeir hafa rétt fyrir sér. Enginn getur sagt upp „áskriftinni“, gagnrýni er mætt með tómlæti, stundum yfirlæti og jafnvel hroka. „Samtal við þjóðina“ felst ekki í að hlusta á aðfinnslur heldur kveða niður gagnrýni. Í Efstaleiti er litið á gagnrýni sem tilraun til ritskoðunar. Í reynd er því „samtal við þjóðina“ einræða starfsmanna Ríkisútvarpsins. Allt í þvinguðu boði skattgreiðenda sem hafa lagt fyrirtækinu til 31 þúsund milljónir frá því að opinbert hlutafélag tók til starfa árið 2007. Í stóra húsinu, sem Eykon vildi breyta í kartöflugeymslu, finnst mönnum þetta alltof lítið og vilja miklu meira. En skattgreiðendur geta lítið annað gert en velt því fyrir sér hvort allt sé leyfilegt í því Stjörnustríði sem Ríkisútvarpið hefur ákveðið að hefja.

Óli Björn Kárason er ritstjóri og útgefandi Þjóðmála