Óli Björn Kárason
„Ekkert okkar ætlar að fara fram aftur. Birgitta er búin að margsegja að hún verði ekki á þingi í fleiri en tvö kjörtímabil. Helgi Hrafn ætlar ekki aftur fram og ég ætla ekki aftur fram.“
Þetta sagði Jón Þór Ólafsson, þáverandi þingmaður Pírata, í viðtali við DV 30. maí 2014. Hann lýsti því yfir að hann myndi hætta á þingi á komandi ári. Ástæðan var einföld: Þar sem enginn hinna þriggja sitjandi þingmanna ætlaði að halda áfram vildi hann gefa varaþingmanni sínum tækifæri:
„Það að fara inn í næstu kosningabaráttu með engan þingmann væri svolítið mikill missir á þeirri þekkingu sem hefur skapast. Ef ég stíg til hliðar á miðju kjörtímabilinu þá hefur Ásta [Guðrún Helgadóttir], varaþingmaðurinn minn, sem er Pírati inn að beini og blóðheit í baráttunni, tvö
ár til að sanna sig og ná tökum á starfinu.“
Hámark átta ár á þingi
Jón Þór stóð við yfirlýsingar sínar og lét af þingstörfum sumarið 2015. Hann hefði áhyggjulaus getað haldið áfram því ljóst er að Birgitta Jónsdóttir, sem var fyrst kjörin á þing 2009 fyrir Borgarahreyfinguna, ætlar að sækjast eftir endurkjöri. Eitt af baráttumálum Birgittu og félaga
hennar fyrir kosningarnar 2009 var:
„Við viljum að þingmenn sitji ekki lengur en 8 ár á þingi.“
Nokkrum vikum eftir að Jón Þór hvarf af þingi héldu Píratar aðalfund og í setningarræðu lýsti Birgitta Jónsdóttir því yfir að Píratar væru tilbúnir til að gera bindandi samkomulag við aðra flokka fyrir kosningar um að næsta kjörtímabil verði aðeins níu mánuðir og að á sex mánuðum verði annars
vegar lögfest ný stjórnarskrá og hins vegar boðað til þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort halda eigi aðildarviðræðum við Evrópusambandið áfram:
„Mér finnst þetta vera verkefni sem ég er til í að leggja allt í sölurnar fyrir og það eina sem gæti orðið til þess að ég treysti mér aftur í framboð.“
Flokkseigendafélag Pírata
Í skjóli yfirlýsingar um bindandi samkomulag fyrir kosningar, ákvað Birgitta að lengja þingmennsku sína um a.m.k. níu mánuði. En bindandi samkomulag er ekki lengur forsenda þess að Birgitta haldi áfram þingmennsku. Nú er það baráttan við frjálshyggjufólk sem rekur þingmanninn aftur í framboð.
Birgitta skrifaði eftirfarandi skilaboð á fésbókarsíðu Frjálshyggjufélagsins 26. janúar síðastliðinn:
„Ég ætla að bjóða mig fram þó það væri ekki nema til að tryggja að ykkar hugmyndafræði taki ekki yfir Pírata.“
Gamall „flokkseigandi“ hefði vart getað orðað þetta með skýrari hætti: Þetta er flokkurinn minn, ég ræð og móta stefnuna. Þeir sem stíga ekki í takt við mig eru óæskilegir og óvelkomnir.
Flokkseigendafélag Pírata hefur ákveðið að gera þá sem aðhyllast frjálshyggju útlæga úr flokknum. Þannig eru Píratar að líkjast æ meira hefðbundnum vinstri flokki, þar sem agavaldi er beitt og fámenn „klíka“ ákveður hverjir skuli vera framboði og hverjir ekki.
Í takt við aðra vinstri flokka
Í störfum sínum á þingi og í meirihluta borgarstjórnar hafa Píratar tekið upp siði hinna hefðbundnu stjórnmálamanna. Borgarbúar eiga erfitt með að átta sig á því hver munurinn er á Pírötum og Samfylkingunni og mörkin milli Vinstri grænna og Pírata eru enn óskýrari. Munurinn á Pírötum og Bjartri framtíð virðist fyrst og fremst liggja í því að síðarnefndi flokkurinn er orðinn að engu.
Á þingi stíga Píratar í takt við stjórnarandstöðuna. Þeir taka þátt í málþófi í náinni samvinnu við aðra vinstri flokka og gerast meðflutningsmenn frumvarpa sem gera ráð fyrir aukinni skattheimtu og auknum útgjöldum ríkissjóðs.
Jafnvel forseti lýðveldisins fer fyrir brjóstið á flokkseigendum Pírata sem sverja sig þannig í bræðralag með gömlum flokkseigendum Alþýðubandalagsins. Við setningu Alþingis á liðnu hausti varaði Ólafur Ragnar Grímsson við vanhugsuðum breytingum á stjórnarskrá lýðveldisins. Þá var Birgittu nóg boðið og sakaði forseta að hafa „fært sig inn á háskalegar og gerræðislegar brautir gagnvart þingræðinu“.
Vonir um breiðfylkingu
Össur Skarphéðinsson, sem kallar sjálfan sig heiðurspírata, hefur gert hosur sínar grænar fyrir Birgittu og félögum. Miðað við fylgi Samfylkingarinnar er skiljanlegt að Össur leiti skjóls hjá Pírötum sem hann lítur „á sem pólitíska frændur og frænkur“, en ekki hægri flokk. „Ég man varla eftir þingmáli frá þeim sem ég gat ekki stutt og þeir hafa stutt mörg mál okkar í Samfylkingunni,“ sagði Össur í viðtali við Fréttablaðið 13. nóvember á síðasta ári.
Draumur Össurar er að mynduð verði „breiðfylking“ til að breyta stjórnarskránni, kjósa um aðildarumsókn að Evrópusambandinu og „leysa deilur um fiskveiðistjórnun og hálendið í eitt skipti fyrir öll í þjóðaratkvæðagreiðslu“:
„Ég get vel hugsað mér að starfa með sjóræningja fyrir borðsendanum í stjórnarráðinu.“
Össur vill að næsta vinstri stjórn verði undir forsæti Birgittu Jónsdóttur en sjálfur fékk hann rúmlega fjögur ár til að hrinda hugmyndum sínum í framkvæmd en varð lítið úr verki, annað en að senda inn aðildarumsókn til Brussel og koma í veg fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu. Nú leitar hann á náðir pólitískra skyldmenna sem geta vart annað en tekið honum vel. Össur, líkt og Píratar, vill að kosningarnar á komandi ári snúist um breytingar á stjórnarskrá.
Það er skiljanlegt að vinstri menn vilji ekki láta kjósa um efnahagsmál og bætt lífskjör. Þess vegna hafa þeir sérstaka hagsmuni af því að ekki náist samstaða í stjórnarskrárnefnd þannig að hægt sé að breyta stjórnarskrá í þjóðaratkvæðagreiðslu á sumri komandi – löngu fyrir kosningar.