Í klípu með stefnumálin

Valgerður Bjarnadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, segir að innan flokksins sé eftirspurn eftir því að „opinber umræða snúist um stefnu flokksins, jafnaðarstefnuna, en ekki stöðu formannsins“. Í pistli sem birtist á vefritinu Herðubreið dregur þingmaðurinn fram helstu stefnumál flokksins og koma þau fæstum á óvart:

  • Aðild að Evrópusambandinu
  • Breytingar á stjórnarskrá
  • Innköllun veiðiheimilda
  • Hærri skattar á fyrirtæki og einstaklinga

 

Fyrirsögn pistilsins er: Jafnaðarmenn í klípu. Eftir að hafa lesið skrif Valgarðar Bjarnadóttur hefur Þröstur betri skilning á vandræðum Samfylkingarinnar. En Valgerður kemst sjálf að eftirfarandi niðurstöðu:

„Sjálf er ég því marki brennd að ég tel að gera þurfi gagngerar breytingar á þjóðfélaginu til að jafnaðarstefnan fái vel notið sín umfram það sem nú gerist. Þær hugmyndir minna líklegast um of á stóru markmiðin sem við vildum ná á síðasta kjörtímabili en gerðum ekki. Og það var líklegast ástæðan fyrir fylgishruninu fyrir þrem árum.“