Martröð vinstri manna – skiptastjórar Samfylkingarinnar

Fylgi vinstri flokkannaÞeir hafa notað ýmis nöfn, verið sundur og saman, talað hlýlega til hvers annars en tekist á með pólitískum banaspjótum þess á milli. Þeir hafa flandrað á milli flokka, klofið flokka og stofnað nýja, en alltaf dreymt um sameinaðan stóran vinstri flokk. Flestir vinstri manna héldu að draumurinn væri að rætast með stofnun Samfylkingarinnar en nokkrir voru á öðru máli og stofnuðu Vinstri græna. Í alþingiskosningunum 2009 rann upp þeirra tími – með meirihluta atkvæða og góðan meirihluta á Alþingi ætluðu vinstri menn að breyta íslensku samfélagi. Fjórum árum síðar biðu þeir afhroð í kosningum. Nú er svo komið að staða hinna hefðbundnu vinstri flokka hefur aldrei verið veikari.

Samanlagt meðalfylgi vinstri flokkanna í alþingiskosningum frá 1963 er rétt liðlega 38% en samkvæmt þjóðarpúlsi Gallup í janúar sl. er fylgið komið niður í 23,6%. Flokkana vantar því 14,5%-stig upp á meðalfylgið en svo einkennilega vill til að það er svipað og meðalfylgi gamla Alþýðuflokksins frá 1963 og fram að stofnun Samfylkingarinnar.

Samfylkingin að hverfa?

Samfylkingin hefur orðið sérstaklega hart úti. Fylgi flokksins hrundi úr 30% árið 2009 í tæp 13% í síðustu kosningum og þrátt fyrir að vera í stjórnarandstöðu hefur flokknum ekki tekist að rétt úr kútnum. Þvert á móti. Fylgið er samkvæmt nýjast þjóðarpúlsi Gallups aðeins 9,2%. Þetta þýðir í raun að tveir af hverjum þremur stuðningsmönnum flokksins árið 2009 hafa snúið baki við honum.

Eins og sést á meðfylgjandi línuriti hófst hrun Samfylkingarinnar í formannstíð Jóhönnu Sigurðardóttur. Árni Páll Árnason tók við af henni í febrúar 2013. Þá mældist fylgi flokksins 15,6% eða tæplega helmingi minna en flokkurinn hafði fengið í þingkosningum fjórum árum áður.

Samfylkingar hafa eðlilega áhyggjur af stöðu flokksins og hávær krafa er um að boða til landsfundar á næstu mánuðum og að skipt verði um „kallinn í brúnni“ sem lítið fiskar.

Allt frá því að Árni Páll Árnason náði kjöri sem formaður hefur verið unnið gegn honum innan flokksins og á síðasta ári var gerð tilraun til hallarbyltingar þegar Sigríður Ingibjörg Ingadóttir bauð sig fram til formennsku. Árni Páll hélt velli með einu atkvæði.

Þegar Sigríður Ingibjörg gerði atlöguna að Árna Páli var fylgi Samfylkingarinnar svipað og þegar Jóhanna Sigurðardóttir lét af embætti í febrúar 2013.

Augljóst er að unnið er skipulega við að grafa undan Árna Páli og andstæðingar hans telja að nú sé aftur tækifæri. Flokkurinn er sundurþættur en margir draga í efa að lausn á erfiðleikunum liggi í að skipta um formann. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrverandi formaður, er í þeirra hópi. Í viðtali á Rás 2 föstudaginn 5. febrúar sagði Ingibjörg:

„Ég held að það séu engar einfaldar lausnir til á vanda Samfylkingarinnar. Það er mjög þægilegt að líta svo á að það sé bara karlinn í brúnni eins og Jón Baldvin einhvern tíma orðaði það en ég held að það risti miklu dýpra, þessi vandi.“

Fósturflokkurinn þurrkast út

Björt framtíð glímir við enn meiri vanda en Samfylkingin. Samkvæmt skoðanakönnunum mun flokkurinn ekki eiga fulltrúa á þingi á næsta kjörtímabili, ef fer sem horfir. Samkvæmt þjóðarpúlsi er fylgið 3,6%. Þar hefur breyting á forystu engu skipt. Fylgið reitist stöðugt af.

Vinstri grænir konstant

Fylgi Vinstri grænna er svipað og það var í kosningunum 2013, eða tæp 10%. Frá því að flokkurinn var stofnaður hefur meðalfylgið í þingkosningum verið um 13%. Sé litið framhjá kosningum 2009, þegar flokkurinn vann mikinn kosningasigur, er meðaltalið hins vegar 10,8%.

Liggur vonin í Pírötum?

Vinstri flokkarnir og þá fyrst og fremst samfylkingar hafa gert hosur sínar grænar fyrir Pírötum. Þangað vilja þeir leita skjóls í vandræðum sínum. Össur Skarphéðinsson, fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar, telur að Píratar séu pólitískir frændur og frænkur. Hann vill mynda „breiðfylkingu“ vinstri flokkanna undir forsæti Pírata.

Össur líkt og fleiri lítur á Pírata sem vinstri flokk og því ekki óeðlilegt að hann horfi til þeirra um samvinnu og pólitískt bandalag. Það gæti fleytt honum og fleirum inn í ríkisstjórn að loknum kosningum.

Kannski verða Píratar þannig eins konar pólitískir skiptastjórnar Samfylkingarinnar.

Höfundur Staksteina Morgunblaðsins orðar þetta með öðrum hætti 4. febrúar:

„Þegar einingar verða gjaldþrota er skiptastjóri kallaður til. Að Samfylkingunni, sem nú hefur um 9% fylgi, stóðu Alþýðuflokkur, Alþýðubandalag, Kvennalisti og Þjóðvaki.

Þrír fyrst nefndu flokkarnir höfðu hver um sig meira fylgi en Samfylkingin nú. Eftir skiptameðferð á Samfylkingu fengi hver stofnaðili 2,3% fylgi í sinn hlut.

Það væri mjög dapurleg ávöxtun fylgis fyrir stóru flokkana þrjá, en Þjóðvaki, sem var að hverfa þegar hann flaut með, má vel við una.“