Píratar krafðir svara

Líkt og fleiri hefur Þröstur átt erfitt með að átta sig á stefnu Pírata í einstökum málum. Þannig stóð Þröstur í þeirri trú að sjóræningjarnir vildu taka upp borgaralaun en því mótmælir Birgitta Jónsdóttir, sem er þinglýstur eigandi Pírata. Engu skiptir þótt hún sé meðflutningsmaður á þingsályktunartillögu um borgaralaun.

En eftir því sem nær dregur kosningum verður erfiðara fyrir Pírata að komast undan því að svara spurningum og skýra út fyrir kjósendum afstöðu þeirra til mikilvægra mála.

Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins, hefur á bloggsíðu sinni varpað fram nokkrum spurningum:

  • Hver er afstaða þeirra til aðildar Íslands að Atlantshafsbandalaginu? Eru þeir mótfallnir þeirri aðild eða hlynntir?
  • Auðlindagjald er nú tekið í sjávarútvegi en það er líka ástæða til að leggja á auðlindagjald vegna nýtingu fallvatna og varma í iðrum jarðar. Svo og ber að leggja á auðlindagjald vegna notkunar símarása. Hver er afstaða Pírata til þessara álitamála?
  • Hver er afstaða Pírata til verðtryggingar? Vilja þeir banna hana með eða eru þeir fylgjandi því að hún verði til staðar sem þáttur í fjármálakerfi okkar? Vilja Píratar einkavæða þá banka, sem nú eru í ríkiseigu? Vilja þeir koma upp samfélagsbanka?

Styrmir spyr einnig um afstöðuna til Evrópusambandsins en Píratar segjast vilja þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort „ljúka“ beri „samningum“ við ESB um aðild Íslands:

  1. Gera þeir sér grein fyrir því að þessar viðræður snúast um aðlögun Íslands að regluverki ESB en ekki með hvaða skilmálum Ísland gæti fengið aðild? Með öðrum orðum að skilmálarnir liggja þegar fyrir og þá m.a. þeir að fiskveiðilögsaga Íslands og yfirstjórn hennar falli undir stjórn Brussel. Varanlegar undanþágur frá þessu ákvæði eru óhugsandi en líklegt að tímabundnar undanþágur til nokkurra ára mundu fást. Eru Píratar tilbúnir til að afsala auðlindinni við Ísland til Evrópuríkjanna til allrar framtíðar?
  2. Hvers vegna vilja þeir þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort klára eigi þær aðlögunarviðræður en ekki þjóðaratkvæðagreiðslu um þá spurningu, hvort þjóðin vilji yfirleitt aðild Íslands að ESB?

 

Þröstur bíður spenntur eftir skýrum svörum frá Birgittu og félögum.