Stríðið mikla og upphaf íslenskrar utanríkisstefnu

Björn Bjarnason

Gunnar Þór Bjarnason: Þegar siðmenningin fór fjandans til. Mál og menning, Reykjavík 2015, 369 bls.Þegar siðmenningin fór fjandans til

Gunnari Þór Bjarnasyni sagnfræðingi hefur að nýju tekist að skrifa fróðlega og aðgengilega bók um mikilvægan þátt í sögu lands og þjóðar. Varð verðugt að veita Gunnari Þór bókmenntaverðlaunin árið 2016 fyrir bókina.

Ég segi að nýju og vísa þar til hve vel hefur tekist til við tvær fyrri bækur hans Upp með fánann! Baráttan um uppkastið 1908 og sjálfsæðisbarátta Íslendinga frá 2012 og Óvænt áfall eða fyrirsjáanleg tímamót? frá 2008 þar sem segir frá brottför varnarliðsins árið 2006 og aðdraganda hennar.

Nýja bókin frá Gunnari Þór heitir Þegar siðmenningin fór fjandans til. Íslendingar og stríðið mikla 1914-1918. Í bókinni tvinnar Gunnar Þór saman sögu fyrri heimsstyrjaldarinnar og framvinu mála á Íslandi.

Bókin skiptist í 19 kafla og hver kafli í nokkra undirkafla þannig að allt er skýrt fram sett og þess gætt að skilja lesandann ekki eftir í lausu lofti. Þess er til dæmis getið að árið 2011 hafi síðasti maðurinn sem barðist á vígstöðvunum í stríðinu mikla andast. Að láta þess getið sýnir að Gunnar Þór lætur sér ekki nægja að draga saman staðreyndir frá árunum 1914 til 1918 heldur nýtir hann þær einnig til að bregða ljósi á viðburði og viðhorf í samtímanum.

Framvinda frásagnarinnar er almennt í tímaröð. Lýst er átökum í Norðurálfu oft með tilvísunum í íslensk blöð. Brugðið er ljósi á viðbrögð fjölda einstaklinga hér á landi, fjölmiðla og samtaka. Undir lok bókarinnar er síðan fróðleg samantekt um þátttöku Vestur-Íslendinga í stríðinu undir merkjum Kanada. Aftast í bókinni er skrá yfir tilvísanir, heimildir og nöfn.

Heiti bókarinnar endar á forsetningu. Betur hefði farið á að fara orðrétt eftir því sem segir í hinum tilvitnaða texta og segja „til fjandans“. Mikið er um dagsetningar í bókinni. Þegar svo er og frásögnin sveiflast á milli ára auðveldar lesturinn að skrifa ártal með dagsetningunni.
Í inngangi bókarinnar segir:

„Ófriðurinn breytti líka Íslandi. Landsmenn urðu að standa á eigin fótum í samskiptum við umheiminn og fundu óþyrmilega fyrir því hve háðir þeir voru utanlandsverslun. Brýnasta verkefni íslenskra stjórnvalda var að tryggja aðflutninga til landsins og firra þjóðina vandræðum vegna skorts á eldsneyti og matvöru. Viðskipti hófust við Bandaríkin. Landstjórnin í Reykjavík leigði og keypti skip til millilandasiglinga og hlutaðist til um verslun og viðskipti á margvíslegan hátt annan. Stóraukin ríkisafskipti voru ein varanlegasta afleiðing stríðsins. […]

Í upphafi stríðs gerðu bresk stjórnvöld út af örkinni ræðismann til að gæta hagsmuna Bretaveldis hér á landi. Sá ágæti maður var í raun eins manns hernámslið. Hann hikaði ekki við að segja íslenskum ráðamönnum fyrir verkum og réð eiginlega öllu sem hann vildi.[…]

Stríðið mikla færði íslensku þjóðinni ekki velmegun og velsæld, fólk hafði ekki ástæðu til að segja „blessað stríðið“ eins og þegar næsti heimsófriður teygði anga sína hingað.“

Með þessum orðum boðar höfundurinn lesandanum viðfangsefni sitt við ritun bókarinnar, það er að greina og skýra afleiðingar stríðsins fyrir íslensku þjóðina í bráð og lengd.

Innviðir íslenska stjórnkerfisins voru ekki viðamiklir við upphaf heimsátakanna. Árið 1904 kom stjórnarráðið til sögunnar með einum ráðherra og landritara, Klemens Jónssyni, sem stjórnaði daglegum rekstri. Íslenska stjórnarskrifstofan í Kaupmannahöfn, Jón Krabbe, var tengiliður landstjórnarinnar við dönsk stjórnvöld. Við upphaf árs 1914 var fólksfjöldi á Íslandi 87.137 og starfsmenn stjórnarráðsins 16 og sinntu allir störfum sínum í stjórnarráðshúsinu við Lækjartorg. Hannes Hafstein lét af ráðherraembætti 21. júlí 2014. Sigurður Eggerz tók við af honum. Daginn sem Austurríkismenn sögðu Serbum stríð á hendur, þriðjudaginn 28. júlí, var Sigurður á heimleið af konungsfundi í Kaupmannahöfn, þaðan hélt hann til Englands og fékk far til Víkur í Mýrdal með enskum togara frá Hull. Til Víkur kom hann miðvikudaginn 29. júlí 2014 og hélt ríðandi að bænum Ægissíðu við Ytri-Rangá. Þar beið bifreið frá Reykjavík ráðherrans og þangað kom hann skömmu eftir miðnætti aðfaranótt föstudags 31. júlí. Á meðan ráðherrann var á leiðinni frá Vík spurði stjórnarráðið tengilið sinn í Kaupmannahöfn um horfur í Evrópu og fékk þau svör „að brýnt væri að birgja landið tafarlaust upp af matvöru og öðrum nauðsynjum“. Föstudaginn 31. júlí barst annað stutt og skorinort skeyti frá Kaupmannahöfn: „Horfurnar voðalegar“. Daginn eftir sögðu Þjóðverjar Rússum stríð á hendur. Þá hafði alþingi samþykkt bjargráðafrumvarp eða neyðarlög. (Bls. 112 til 115.)

Í lok árs 2015 voru íbúar á Íslandi um 330.000 eða tæplega fjórfalt fleiri en árið 1914. Sé litið á fjölda stafsmanna í stjórnarráðinu, það er aðalskrifstofum ráðuneyta, starfa þar um 500 manns sem er þó ekki nema 2,5% ríkisstarfsmanna, segir á vefsíðunni rikiskassinn.is. Fjöldi starfsmanna stjórnarráðsins hefur rúmlega 30 faldast á 100 árum. Upphaf þessa vaxtar í umsvifum ríkisins má rekja til stríðsins mikla. Kröfurnar um aðgerðir af hálfu hins opinbera jukust jafnt og þétt eftir því sem á stríðið leið.

Í upphafi árs 1917, 4. janúar, var ákveðið að fjölga ráðherrum úr einum í þrjá. Fyrsta ríkisstjórn landsins kom til sögunnar undir forsæti Jóns Magnússonar og sat hún fram á árið 1920. „Þessi fyrsta ríkisstjórn Íslands var skilgetið afkvæmi heimsstyrjaldarinnar,“ segir Gunnar Þór og vitnar í Jón Magnússon sem sagði ákvörðun um að fjölga ráðherrum „fyrirvaralaust“ hefði einkum verið tekin „vegna Norðurálfuófriðarins og þess ástands, er af honum leiðir“. Telur Gunnar Þór réttilega að þarna hafi hin fyrsta þjóðstjórn komið til sögunnar en ekki með ríkisstjórn Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks í apríl 1939, en hún er jafnan nefnd sem eina þjóðstjórnin í sögu Íslands. Gunnar Þór segir:

„Vorið 1939 var annar Evrópuófriður í aðsigi og efnahagsástand bágborið. Í janúar 1917 hafði heimsstyrjöld geisað í nærfellt tvö og hálft ár og horfur voru ískyggilegar. En í báðum tilvikum leituðu stjórnmálamenn eftir samstöðu á viðsjárverðum tímum. Ríkisstjórn Jóns Magnússonar, fyrsta ríkisstjórn Íslands, er réttnefnd þjóðstjórn þótt það hugtak hafi fram til þessa hafi ekki verið notað um hana. Hennar beið risvaxið verkefni.“ (Bls. 274.)

Geir H. Haarde forsætisráðherra bauð Davíð Oddssyni seðlabankastjóra að sitja fund ríkisstjórnarinnar 30. september 2008 eftir að ríkið hafði eignast 75% hlut í Glitnibanka og áður en Landsbankinn og Kaupþing féllu. Á fundinum taldi Davíð ástandið alvarlegt og horfur slæmar, aðstæður væru þannig að þjóðstjórn kynni að eiga rétt á sér. Viðbrögð ýmissa ráðherra urðu á þann veg að engu var líkara en þeir vissu ekki að í orðum Davíðs fólst skírskotun til fyrri atburða úr stjórnmálasögunni. Á þeim tíma sem Davíð nefndi þetta var staðan á þann veg að þessi kostur hlaut að koma til skoðunar enda sagði Geir H. Haarde í setningarræðu landsfundar Sjálfstæðisflokksins 26. mars 2009:

„Þegar horft er til baka [til hinnar pólitísku stöðu við bankahrunið í október 2008] er mín niðurstaða sú að hyggilegast hefði verið að freista þess strax í haust að mynda þjóðstjórn allra flokka. Hún hefði hugsanlega getað setið út veturinn, gert nauðsynlegar ráðstafanir í efnahags- og atvinnumálum og undirbúið kosningar. Vandinn var sá að vinstri grænir, sem vildu komast í þjóðstjórn, vildu láta kjósa strax í nóvember og voru algjörlega á móti samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Samfylkingin var hins vegar á móti þjóðstjórn af ýmsum ástæðum og ég gaf þennan kost frá mér að vandlega athuguðu máli. Þegar áramótin nálguðust áttum við formenn stjórnarflokkanna ítarlegar viðræður um möguleika á margs konar breytingum, m.a. á ríkisstjórninni. Var mín hugmynd sú að formaður Samfylkingarinnar yrði fjármálaráðherra samhliða annarri uppstokkun í stjórninni. Ein af hugmyndunum sem voru ræddar af minni hálfu á þessum tíma var hugsanleg sameining eða aukið samstarf Seðlabanka og Fjármálaeftirlits.“

Af þessum orðum má ráða að sundurlyndi hafi verið meira milli stjórnmálamanna haustið 2008 þegar fjármálakerfið hrundi en árin 1917 og 1939. Fjármálahruni verður aldrei jafnað við heimsstyrjöld en áhrif hrunsins hér og það sem við blasti í byrjun október var geigvænlegt. Sagan sýnir að réttar ákvarðanir voru teknar með setningu neyðarlaganna í byrjun október 2008. Um þær náðist víðtæk samstaða á alþingi.

Gunnar Þór segir að viðgangsefni ríkisstjórnar Jón Magnússonar hafi verið „risavaxið“. Hann telur raunar að hagur almennings hafi á þessum tíma aldrei verið verri síðan á kuldaskeiðinu um og upp úr 1880. (Bls. 301.)

Oftar en einu sinni víkur Gunnar Þór að reynsluleysi íslenskra stjórnmálamanna og stjórnmálavalda í utanríkismálum. Danir fóru með þessi mál en Íslendingar litu á sig sem hlutlausa. Bretar vildu hins vegar hafa fulla stjórn á öllum ferðum til og frá landinu og sendu hingað 27 ára gamlan mann, Eric Cable, sem ræðismann og Gunnar Þór gefur góða mynd af hlutverki hans og valdi með því að kalla hann einsmanns hernámslið. Bretar miðluðu frétta- og kvikmyndaefni til landsins, opnuðu allan millilandapóst og hleruðu millilandasímtöl fyrir utan að stjórna ferðum skipa og farmi þeirra.

Í þann mund sem stríðið hófst, 4. ágúst 1914, lagði Guðmundur Björnsson, þingmaður, landlæknir og læknaprófessor við HÍ, fram fyrirspurn á alþingi um stöðu Íslands í ófriðnum og hvað danska utanríkisráðuneytið hefði gert gagnvart Bretum til að tryggja íslenskum skipum frjálsa för. Fylgdi hann fyrirspurn sinni úr hlaði með ræðu – „ræðunni miklu“ eins og hún var kölluð – þar sem hann meðal annars sagði Íslendinga seka um vítavert andvaraleysi í samskiptum sínum við aðrar þjóðir. Í bókinni segir:

„Menn yrðu að glöggva sig á því „að utanríkismálin eru aðalatriði í stjórnarfari þessa lands“. Sagðist hann oft hafa hugleitt „hvernig á því muni standa, að við Íslendingar erum svo hræðilega sinnulausir um okkar mesta vandamál, viðskipti okkar við önnur ríki, öll okkar utanríkismál“. „Við höfum aldrei lært að haga okkur eins og ríki, vitum ekki, hvað það er, kunnum það ekki, vitum ekki, að utanríkismálin eru nú orðin okkar mestu og vandasömustu velferðarmál.“ […]

Aldrei fyrr hafði alþingismaður talað af slíkum þunga um utanríkismál Íslands. Ef til vill mætti segja að hann hafi verið á undan sinni samtíð. Ræðan vakti að minnsta kosti engin viðbrögð á þingi, kveikti engar umræður.“ (Bls. 123).

Guðmundur sá fyrir hættuna af því að skipaferðum yrðu settar skorður af Bretum. Hann dró þá ályktun meðal annars af reynslunni af Napóleonsstríðunum. Í stríðinu mikla þurftu Bretar ekki að senda nema einn ungan mann til að gæta hagsmuna sinna á Íslandi, í síðari heimsstyrjöldinni sendu þeir mörg þúsund manna hernámslið, í þorskastríðunum beittu þeir fyrst löndunarbanni og síðan sendu þeir herskip nokkrum sinnum á vettvang, í bankahruninu beittu þeir hryðjuverkalögum og síðan Icesave-töngum. Þetta er í raun mikil átakasaga í samskiptum nágranna án þess að til vinslita hafi komið.

Nú hafa Bretar skert svo eigin herflota og eftirlitsbúnað með skipaferðum að þeir eru lítils megnugir á N-Atlantshafi og treysta meðal annars á bandarískar kafbátaleitarvélar á Keflavíkurflugvelli til að leita að hugsanlegum óvinabátum undan strönd Skotlands.

Hér skal efni þessarar ágætu bókar ekki frekar rakið. Hún er á sinn hátt leiðarvísir um helstu viðfangsefni íslenskra utanríkismála eins og þau hafa verið allt frá því að gamli sáttmáli var gerður til að tryggja skipaferðir til landsins. Stærsti ótti Íslendinga sem blundað hefur í þjóðarsálinni allt frá því land byggðist er að einangrast, að geta ekki leitað eftir björgum annars staðar. Ný vídd skapaðist í því efni í stríðinu mikla með viðskiptatengslunum við Bandaríki Norður-Ameríku og með eigin skipastóli.

Þótt óttinn við einangrun hafi verið og sé mikill stendur hin tilfinningin ekki síður djúpum rótum, að samskiptin við aðra verði að vera á íslenskum forsendum en ekki með framsali á fullveldisréttinum í hendur annarra. Þegar verulega reyndi á vegna stríðsátaka höfðu Danir enga burði til að skapa íslensku þjóðinni hinn nauðsynlega tengilið við umheiminn. Tilraunin til fullveldisframsals með ESB-aðildarumsókninni misheppnaðist af mörgum ástæðum en ekki síst þeirri að beitt var blekkingum um eðli umsóknarinnar og aðildar – látið var í veðri vaka að unnt yrði að halda í hinar nauðsynlegu íslensku forsendur með fyrirvörum og varanlegum undanþágum. Íslendingum vegnar aðeins vel hafi þeir vald og frelsi til samskipta við ríki austan hafs og vestan.