Birgitta segir af sér þingmennsku í apríl

Þröstur reiknar með því að Birgitta Jónsdóttir leiðtogi Pírata segir af sér þingmennsku í apríl næstkomandi. Hann á ekki von á öðru en að þingmaður sem segist berjast gegn spillingu standi við gefin loforð.

Birgitta Jónsdóttir er oddviti Pírata í Reykjavíkurkjördæmi norður. Hún var fyrst kjörin á þing árið 2009 fyrir Borgarahreyfinguna. Eitt af baráttumálum Birgittu og félaga hennar fyrir kosningarnar 2009 var:

„Við viljum að þingmenn sitji ekki lengur en 8 ár á þingi.“

Í apríl næstkomandi verða átta ár frá því að Birgitta var kjörin á þing.

Jón Þór Ólafsson, fyrrverandi þingmaður og nú oddviti Pírata í Suðvesturkjördæmi benti á í viðtali að Birgitta væri búin að „margsegja“ að hún verði aðeins tvö kjörtímabil á þingi. Hann ætlaði sjálfur ekki aftur fram, en það hefur ekki staðist:

„Ekkert okkar ætlar að fara fram aftur. Birgitta er búin að margsegja að hún verði ekki á þingi í fleiri en tvö kjörtímabil. Helgi Hrafn ætlar ekki aftur fram og ég ætla ekki aftur fram.“

Þetta sagði Jón Þór í viðtali við DV 30. maí 2014. Í viðtali við Fréttablaðið 24. október 2013 sagði hann:

„Ef Ásta Helgadóttir, varaþingmaður minn, ákveður að halda áfram þingstörfum ætla ég að stíga til hliðar, jafnvel eftir tvö ár. Við verðum að fara inn í næstu kosningar með þingmenn sem hafa reynslu og halda áfram vegferð okkar um gegnsæi, beint lýðræði og friðhelgi einkalífsins.“

Ásta Guðrún Helgadóttir, sem tók sæti Jóns Þórs, er oddviti Pírata í Reykjavíkurkjördæmi suður.

Jón Þór bætti við:

„Birgitta fer ekki heldur fram því hún er þeirrar skoðunar að þingmenn eigi ekki að sitja lengur en átta ár. Ég er henni sammála því menn verða óskaplega fastsetnir eftir átta ár á þingi; það sér maður skýrt á Alþingi hjá þingmönnum með langan starfsaldur.“

Birgitta Jónsdóttir er oddviti Pírata í Reykjavíkurkjördæmi norður og sækist eftir sínu þriðja kjörtímabili. En átta ára markinu – loforðinu – verður ná næsta vor. Þröstur á ekki von á öðru en að Birgitta standi við gefin fyrirheit og víki af þingi þegar fer að vora.