Íslenskir sósíalistar hafa í áratugi sungið lofræður um sósíalistastjórnir annarra ríkja. Nægir þar að nefna Kína, Kúbu, Sovétríkin sálugu, Venesúela og loks Norður Kóreu. Í öllum þessum ríkjum hefur sósíalisminn leitt af sér eintómar hörmungar fyrir almenning og dregið tugi milljóna manns til dauða. En takmarkinu um efnahagslegan jöfnuð hefur þó verið náð, þannig að vinstri menn hér á landi hafa gjarnan vísað til þess.
Um miðjan ágúst 1971 birtist umfjöllun í Þjóðviljanum um ferð nokkra fulltrúa Fylkingarinnar, sem voru baráttusamtök sósíalista, sem þá höfðu nýlega heimsótt Pyongyang, höfuðborg N-Kóreu. Birna Þórðardóttir, sem var þekktur aðgerðarsinni, var til frásagnar um fimm vikna dvöl sína í landinu og það er óhætt að segja að viðtalið sé að mörgu leyti kostulegt en um leið lýsandi fyrir hugsunargang sósíalista. Það sem er þó síður kostulegt er að hugsunarhátturinn hefur lítið breyst á þeim tæpu 40 árum sem liðin eru frá því að frásögnin birtist.
Þröstur rýndi í þetta áhugaverða viðtal við Birnu.
Birna segir frá því í upphafi viðtalsins hvernig öllum smájörðum í landinu var steypt saman í stór ríkisbú. Þar væri bændum skipt niður í vinnuhópa, allir fengju sömu laun og ókeypis hrísgrjónaskammta sem áttu að duga fjölskyldunni út árið.
„Þetta er mjög nostursamt fólk og minnir helzt á iðnar býflugur,“ segir Birna í viðtalinu og það má skilja það þannig að henni þyki þetta allt saman vera til fyrirmyndar.
Hún heldur síðan áfram og segir að það sem komi hvað mest á óvart sé „hin stórkostlega efnahagslega uppbygging“ sem hafi átt sér stað í Norður Kóreu. Þá nefnir hún Pyongyang sérstaklega sem dæmi um fallega borg án fátæktarhverfa og að það séu engar „blikkbeljur“ enda engir einkabílar leyfðir.
Til gamans má geta að í stað þess að nota orðið blikkbeljur tala vinstri menn í Reykjavíkurborg um áldósir í dag, en það er annað mál.
Þá rifjar Birna upp hvernig skæruliðasveitir frelsuðu Kóreu undan hernaðaroki Japana árið 1945 með aðstoð deilda úr Rauða hernum. Tveimur vikum síðar hafi bandarískur her lent í Seoul, skipt landinu um 38. breiddarbauginn og hafið ofsóknir á hendur kommúnistum og öðrum þjóðfrelsisöflum. Síðar í viðtalinu lýsir hún því hvernig kóreustríðið hafi hafist árið 1950 með innrás „lepphers Bandaríkjanna í Suður-Kóreu inn í Norður-Kóreu, þótt alls staðar sé sagt í Moggum heimsins að Norður-Kórea hafi gert innrás í Suður-Kóreu.“
Þetta verður að teljast heldur léttúðleg söguskýring hjá Birnu, svo vægt sé til orða tekið en rétt er að halda því til haga að stríðið hófst með innrás Norður Kóreu inn í suðurhlutann þann 25. júní 1950.
Í viðtalinu er Birna spurð að því hvort að hún hafi orðið vör við mikla persónudýrkun á „félaga“ Kim Il Sung, þáv. leiðtoga N-Kóreu. Birna svaraði því til að Kim Il Sung væri ekki „dýrkaður sem einstaklingur“ heldur væri fólki „stöðugt bent á starf hans sem fyrirmynd“ og vísaði þar til upploginna staðreynda um foringjann. Birna bætti um betur og sagði að þegar „Íslendingar hneykslast á persónudýrkun sem þessari af litlum skilningi mætti minna á, að enn hafa ýmisir góðborgarar á ákveðnu aldursskeiði hangandi mynd uppi á vegg hjá sér af Jóni Sigurðssyni, þingmanni Danaveldis.“ Það er einmitt það sama.
Birna segir í viðtalinu að vegna hernámsins (og á þá við meint hernám Bandaríkjanna) hafi ekki verið hægt að hefja neina efnahagslega uppbyggingu í Suður Kóreu. Aftur á móti geri Japanir „efnahagslega innrás með fjárfestingu, þeir reisa fyrirtæki, verksmiðjur og banka…“ á meðan iðnaður og landbúnaður blómstri í Norður Kóreu. Í Norður Kóreu sé m.a. stunduð fjölbreytt ávaxta- og grænmetisrækt.
Staðreyndin er þó sú að Suður Kórea er í dag eitt ríkasta land heims á meðan íbúar í Norður Kóreu upplifa hungursneyð ár eftir ár. í dag er engin grænmetisrækt í Norður Kóreu. Þar er heldur ekkert fuglalíf því hungraðir íbúar landsins hafa lagt alla fugla sér til munns.
Lofræðan um það hversu lífið sé frábært í Norður Kóreu heldur áfram en Þröstur ætlar að láta hér staðar numið. Áhugasamir geta nálgast viðtalið HÉR.
Enn má þó halda því til haga að áherslan sem hún leggur á jöfnuð og forsjá ríkisins á öllum sviðum er enn kjarnaatriði í stjórnmálastarfi vinstri flokka hér á landi, t.d. í VG, hluta Samfylkingarinnar, Pírata og ekki síst í hinum nýstofnaða Sósíalistaflokk Íslands.