Aðskilnaður viðskiptabanka og fjárfestingarbanka kemur ekki í veg fyrir fjármálakrísur

Viðbrögð stjórnmálamanna við fjármálakreppum eru oftast nær þau sömu; að koma í veg fyrir slíkar kreppur til frambúðar. Undantekningalaust felur það í sér hertar reglur, aukna lagasetningu, aukið vald eftirlitsstofnana og þannig mætti áfram telja. Hið opinbera ætlar að gera sitt besta til að tryggja að fjármálamarkaðir hrynji aldrei aftur.

Viðbrögðin við fjármálakreppunni 2008 voru einmitt þessi og taka ekki tillit til þeirrar staðreyndar fjármálakreppur skella á hvað sem lagasetningu líður og það eina sem er hægt að fullyrða um næstu fjármálakreppu er að hún verður ekki í líkingu við þá síðustu. Eitt af því sem mikið hefur verið rætt er nauðsyn þess að aðskilja starfsemi viðskiptabanka og fjárfestingarbanka. Sú umræða hefur verið áberandi frá árinu 2008 og svo virðist sem margir telja þetta vera algjört grundvallaratriði við endurskipulagningu fjármálakerfisins.

Í nýjasta tölublaði Þjóðmála er fjallað um ítarlega grein sem Oonagh Anne McDonald, bresk athafnakona og fræðimaður, birti í vetur ítarlega grein á vef bandarísku hugveitunnar Cato Institute þar sem hún fjallaði um hina þekktu Glass-Steagall löggjöf. Sú löggjöf var sett í kreppunni miklu árið 1933 og kvað meðal annars á um aðskilnað viðskiptabanka- og fjárfestingarbankastarfsemi. Afnám meginþorra löggjafarinnar í forsetatíð Bill Clinton er stundum talin ein af meginorsökum fjármálakreppunnar sem skall á um áratug síða.

Ástæða er að leggja við hlustir þegar McDonald tjáir sig um fjármálaheiminn enda er hún með yfirgripsmikla reynslu af honum. Hún sat á þingi fyrir breska verkamannaflokkinn í tæpan áratug og hefur síðan þá unnið sem sérfræðingur á alþjóðlegum fjármálamarkaði auk þess að starfa fyrir Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og stýra breska fjármálaeftirlitinu um tíma.

McDonald heldur því fram í grein sinni að Glass-Steagall löggjöfin hefði ekki komið í veg fyrir Kreppuna miklu (sem hófst í Bandaríkjunum árið 1929) hefði hún verið í gildi þá og ekki heldur fjármálakrísuna árið 2008 þó svo að hún hefði verið enn í gildi. Það séu aðrir þættir sem skýri báðar þessar kreppur sem séu aðskilnaði viðskiptabanka og fjárfestingarbanka óviðkomandi. Sú trú stjórnmálamanna á því að endurupptaka Glass-Steagall löggjafarinnar leysi allan vanda fjármálageirans er á misskilningi byggð að mati McDonald.

Nánari umfjöllun um grein McDonald má nálgast í nýjasta tölublaði Þjóðmála.