Hægt að efla samkeppnishæfni Íslands með heildstæðri stefnumörkun

Stefnumótun er mikilvægasta verkefni stjórnvalda hverju sinni. Með skýrri sýn og eftirfylgni má vinna að raunverulegum umbótum og leggja grunn að betri framtíð. Með því að nálgast málin á heildstæðan hátt má ná enn meiri árangri en með því að líta eingöngu til afmarkaðra þátta.
Þetta segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, í grein í nýjasta hefti Þjóðmála þar sem hann fjallar um mikilvægi þess að stjórnvöld setji sér skýr markmið og fylgi þeim eftir.

„Hér á landi eru ýmis dæmi um þetta, svo sem losun fjármagnshafta og efnahagsleg endurreisn þar sem tekið var heildstætt á málum. Árangur þessa hefur vakið eftirtekt víða um heim. Algengara er þó að móta stefnu í hverjum málaflokki fyrir sig án þess að horfa til þess hvernig stefna í einum málaflokki getur stutt við markmið í öðrum málaflokki,“ segir Sigurður í grein sinni.

„Fjölbreytt atvinnulíf er eftirsóknarvert því þar með geta ólíkir hæfileikar notið sín. Fábreytt atvinnulíf gerir hagkerfið viðkvæmara en ella, eins og við Íslendingar þekkjum mæta vel í gegnum söguna, þar sem uppgangur einnar greinar hefur leitt hagsveiflu sem síðan endar með búsifjum og tilheyrandi samdrætti. Það er ekki síður eftirsóknarvert að fjölbreytt atvinnulíf blómstri um land allt því ella er hætta á ofhitnun á höfuðborgarsvæðinu, þar sem húsnæðisverð hækkar og þensla myndast á vinnumarkaði meðan byggðir landsins eiga undir högg að sækja. Góð atvinnustefna á að snúast um að byggja upp þekkingu og innviði svo að fólk um land allt geti stofnað fyrirtæki og til verði ný störf.“

Sigurður bendir jafnframt á að hið opinbera eyðir 45 krónum af hverjum 100 í hagkerfinu. Með heildstæðri stefnumótun, þar sem málin eru skoðuð frá mörgum hliðum, gæti hið opinbera nýtt fjármuni til markvissrar uppbyggingar.

„Þess vegna skiptir miklu máli að stefna stjórnvalda sé heildstæð þannig að fjármunir nýtist sem allra best,“ segir Sigurður og vísar í dæmi frá Bretlandi þar sem bresk stjórnvöld mörkuðu sér skýra stefnu í atvinnuuppbyggingu í Norður-Englandi.

Hér verður birtur bútur úr grein Sigurðar um þetta efni:

Höfuðborgin er þungamiðja mannlífs og atvinnusköpunar í mörgum ef ekki flestum löndum. Bretland er gott dæmi um slíkt, þar sem London laðar til sín það besta víðs vegar af Bretlandi. Störf í London eru vel launuð, fasteignamarkaðurinn er nokkuð dýrari þar en annars staðar í landinu og nokkur önnur samfélög í landinu standa verr. Þýskaland er aftur á móti gott dæmi um hið gagnstæða, þar sem atvinnulífið dafnar um land allt. Stjórnsýslan er í Berlín, iðnaður hefur byggst upp í kringum München, og Frankfurt er fjármálamiðstöð Þýskalands svo dæmi séu tekin. Þannig nást fram jafnari lífsgæði í landinu. Bresk stjórnvöld vildu fylgja þessu fordæmi og styrkja svæði utan London. Eitt þeirra var Norður-England, nálægt vöggu iðnbyltingarinnar hinnar fyrstu, með fimm af tíu stærstu borgum landsins, 15 milljónir íbúa, 12 stórskipahafnir, 7 alþjóðaflugvelli, yfir 20 háskóla og milljón fyrirtæki. Hagkerfi svæðisins er stærra að umfangi en bæði sænska og belgíska hagkerfið. Hins vegar er framleiðni þarna lægri en annars staðar í Bretlandi, færri fyrirtæki verða til, stofnað er til færri einkaleyfa á svæðinu en annars staðar í landinu, menntunarstig er lægra og erlend fjárfesting minni. Verkefninu Northern Powerhouse var því hrundið af stað, en það miðar að því að efla atvinnu og auka framleiðni á svæðinu. Um er að ræða heildstæða stefnu sem byggir á mörgum stoðum, m.a. uppbyggingu innviða og eflingu rannsókna, menntunar og menningar.

Markvisst voru störf flutt á svæðið. Breska ríkisútvarpið BBC setti upp höfuðstöðvar sínar á Norður-Englandi í útjaðri Manchester og flutti þangað starfsemi frá London. Fljótlega myndaðist klasi fyrirtækja í atvinnugreinum tengdum kvikmyndagerð og eru þar nú hundruð stórra jafnt og smárra fyrirtækja sem skapa fjölmörg störf. Með markvissum hætti var byggð upp sérþekking á svæðinu.

Viðamesta framlag breska ríkisins til verkefnisins felst í uppbyggingu innviða, meðal annars til að gera svæðið að einu atvinnusvæði. Þar er bæði horft til samgangna innan sem og til svæðisins og einnig til gagnatenginga. Talsverðan tíma tekur að ferðast milli staða innan svæðisins og helgast það af gömlum innviðum; bæði vegum og lestarsamgöngum. Með uppbyggingu þessara innviða styttist ferðatími á milli staða. Lykilatriðið er að þar með verður svæðið eitt atvinnusvæði þar sem fólk getur búið á einum stað en unnið á öðrum. Vinnumarkaðurinn verður skilvirkari fyrir vikið og hæfileikar fólks nýtast betur. Eins er hafin uppbygging á hraðlest milli London og Manchester. Sú uppbygging er langtímaverkefni sem tekur um 20 ár. Ferðatími milli borganna tveggja verður rúm klukkustund í stað rúmlega tveggja klukkustunda nú. Fyrirtæki geta þannig verið með starfsemi á Norður-Englandi án þess að fjarlægð til höfuðborgarinnar sé mikil hindrun.

Á fyrrnefndu svæði eru 20 háskólar, þar af eru fjórir af hundrað bestu háskólum heims. Tugþúsundir nemenda stunda þar nám á hverju ári. Markmið stjórnvalda er að sem flestir nemanna geti hugsað sér að búa og starfa á svæðinu að námi loknu. Lögð er áhersla á að efla rannsóknir og þróun með því að styrkja verkefni og setja á laggirnar stofnanir um afmörkuð rannsóknarefni. Þá er fjármagni beint í minni fyrirtæki. Eins er sérstakt átak í því að fjölga iðnmenntuðum á svæðinu.

Ekki má gleyma því að allt snýst þetta um fólk og svæðið þarf því að vera aðlaðandi fyrir íbúana. Þess vegna er lögð áhersla á menningu og að gera umhverfið heillandi. Ný leikhús og söfn hafa verið sett á laggirnar og svæði til útivistar byggð upp til að þola frekari umferð fólks. Þá er bygging íbúðarhúsnæðis mikilvægur liður í uppbyggingunni og fjárfestingartækifærum er sérstaklega beint til erlendra fjárfesta.

Fyrirtæki eru jákvæð í garð stefnunnar og hafa hug á því að setja upp starfsemi á svæðinu enda er margt sem mælir með því. Húsnæði er ódýrara og það er ódýrara að lifa. Í verkefni sem þessu þarf að koma til samvinna hins opinbera og einkaaðila. Hið opinbera markar stefnuna sem fólkið tekur þátt í að koma í framkvæmd.

Hér er um að ræða skýrt dæmi þess að hægt er að ná meiri árangri ef stefnan er heildstæð og tekur til margra þátta í stað þess að einblína á afmarkaða hluta.

 

Sigurður Hannesson,
framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins.