Frelsið til þess að ráða sér sjálfur

Við Íslendingar fögnum á næsta ári aldarafmæli fullveldis Íslands. Það var 1. desember 1918 sem íslenzka þjóðin varð loks frjáls og fullvalda eftir að hafa verið undir yfirráðum erlendra ríkja í rúmlega sex og hálfa öld. Þessi áfangi var niðurstaða frelsisbaráttunnar sem staðið hafði yfir áratugina á undan. Rúmum aldarfjórðungi síðar varð Ísland lýðveldi þegar konungssambandinu við Danmörku var formlega slitið. Þetta er saga sem flestir Íslendingar þekkja vel.

Tímabært er hins vegar að hefja 1. desember til frekari vegs og virðingar. Ekki sízt á meðal þeirra sem hafa sérstakan skilning a mikilvægi frelsisins. Fullveldisdagurinn er í raun mun merkilegri dagur en 17. júní. Lýðveldisstofnunin var vitanlega mikilvægur atburður en 1. desember 1918 urðu Íslendingar fyrst aftur sínir eigin herrar eftir að hafa í aldir verið undir yfirstjórn annarra. Saga Íslands er enn fremur skólabókardæmi um náið samspil frelsis og framfara.

Vafalaust þykir ýmsum hugtakið fullveldi gamaldags í dag. En staðreyndin er þó sú að þar er í raun aðeins um að ræða annað nafn á frelsi. Fullveldið, öðru nafni frelsið til þess að ráða sér sjálfur, er þannig forsenda þjóðlegra framfara rétt eins og frelsi einstaklingsins er forsenda þess að hann geti nýtt sköpunargáfu sína. Eins mætti þannig tala um fullveldi einstaklingsins og frelsi hans. Hugsunin er sú sama í grunninn. Að ráða sem mest sjálfur sér og sínum málum.

Þessi hugsun hefur einmitt lengi fylgt Sjálfstæðisflokknum og er í raun kjarni sjálfstæðisstefnunnar. Heiti flokksins vísar þannig bæði til sjálfstæðis einstaklingsins og þjóðarinnar í heild. Þess sjónarmiðs að fólk geti staðið á eigin fótum og haft sem mest um eigin mál að segja í stað þess að fá fyrirskipanir frá öðrum í þeim efnum. Þá ekki sízt ríkisvaldinu vegna yfirburðastöðu þess og tangarhalds á borgurunum. Ráði til að mynda sem mest ráðstöfun tekna sinna.

Vorum gerendur í þorskastríðunum

Fjöldi dæma er um það í sögu Íslands síðustu hundrað árin hvernig fullveldið hefur skipt sköpum fyrir hagsmuni þjóðarinnar. Bæði stór og smá. Þorskastríðin eru þar eðlilega áberandi. Við hefðum ekki fært út efnahagslögsöguna ítrekað þar til hún náði 200 sjómílum nema vegna þess að við höfðum valdið til þess. Fullveldið skipti þar grundvallarmáli. Aðrir hefðu ekki fært út efnahagslögsöguna fyrir okkur nema í bezta falli ef það hefði hentað þeirra hagsmunum.

Við vorum gerendur í þorskastríðunum en biðum þess ekki einungis að einhverjir aðrir tækju ákvarðanir út frá sínum eigin hagsmunum sem vonandi hentuðu hagsmunum okkar líka. Vitað er að Bandaríkjamenn þrýstu á stjórnvöld í Bretlandi á bak við tjöldin á tímum í þorskastríðunum að láta undan kröfum Íslendinga en það gerðu þeir fyrst og fremst vegna áhyggja af því að Ísland gæti hugsanlega annars sagt skilið við Atlantshafsbandalagið (NATO).

Þannig hefðu bandarískir ráðamenn og önnur erlend stjórnvöld seint haft frumkvæði að því að færa út efnahagslögsögu Íslands. Nema það færi saman með hagsmunum þeirra eigin þjóða. Á þessum tíma beittu stór ríki eins og Bretland og Vestur-Þýzkaland sér enda gegn því að ríki gætu tekið sér sérstaka efnahagslögsögu. Við færðum út lögsöguna vegna þess að við höfðum valdið innanlands til þess að taka slíkar ákvarðanir út frá okkar eigin hagsmunum.

Við þurfum annars ekki að fara svo langt aftur í tímann til þess að finna dæmi um gildi fullveldisins. Nóg er að skoða sögu síðustu ára. Við hefðum til dæmis ekki getað staðið vörð um hagsmuni okkar í makríldeilunni ef ekki hefði verið fyrir fullveldið. Þá hefði Evrópusambandið einfaldlega úthlutað okkur þeirri hlutdeild í makrílstofninum sem ráðamenn í Brussel töldu okkur upphaflega eiga rétt á. Sem sennilega hefði varla verið mikið meiri en í kringum eitt prósent.

Sigur í Icesave þrátt fyrir Evrópureglur

Hægt er að sama skapi að rifja upp Icesavemálið í þessu sambandi. Hefðum við ekki verið fullvalda ríki utan Evrópusambandsins hefði okkur klárlega verið gert af sambandinu að axla ábyrgð á skuldum Landsbanka Íslands. Rétt eins og Evrópusambandið fór fram á að við gerðum og studdi meðal annars í þeim tilgangi málshöfðun Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) gegn Íslandi sem lauk með dómi EFTA-dómstólsins í lok janúar 2013 þar sem landið var sýknað af þeim kröfum.

Rifja má einnig upp í því sambandi hvernig skattgreiðendum á Írlandi var gert að ábyrgjast skuldir írskra banka1 og grískum skattgreiðendum að ábyrgjast skuldir þarlendra banka að kröfu Evrópusambandsins. Einhverjir hafa haft á orði vegna niðurstöðu EFTA-dómstólsins að regluverk Evrópusambandsins hafi tryggt það að við Íslendingar höfðum sigur í Icesave-málinu. Staðreyndin er hins vegar þvert á móti sú að það voru reglur frá sambandinu sem urðu þess valdandi að Icesave-málið varð til.

Þannig gerði reglan um frjálst flæði fjármagns, sem gildir hér á landi vegna aðildar Íslands að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið (EES), útrásina svonefnda mögulega. Meingölluð tilskipun Evrópusambandsins um innistæðutryggingar lék síðan lykilhlutverk í að skapa þann vanda sem var kjarni Icesave-málsins. Innistæðutryggingakerfi sambandsins réð hreinlega ekki við þær aðstæður sem sköpuðust hér á landi í kjölfar falls viðskiptabankanna þriggja.

Einnig hefur stundum verið rætt um það af þeim sem vilja að Ísland gangi í Evrópusambandið að það hafi verið evrópskur dómstóll sem hafi sýknað Ísland í Icesave-málinu. Það er vissulega rétt þó að Evrópusambandið hafi lagt alla áherzlu á að málið færi ekki fyrir dómstóla og síðan reynt að beita sér fyrir annarri dómsniðurstöðu. Hins vegar er ekki ósennilegt að dómstóll sambandsins hefði komizt að annarri niðurstöðu, en sem betur fer lá slíkt dómafordæmi ekki fyrir.

Tekin ákvörðun um að fórna Íslendingum

EFTA-dómstólnum er þannig skylt að fylgja dómafordæmum dómstóls Evrópusambandsins (en sú skylda er hins vegar ekki gagnkvæm samkvæmt EES-samningnum) séu þau fyrir hendi. Ekki er því ósennilegt að hefði dómstóll Evrópusambandsins dæmt áður í hliðstæðu máli hefði niðurstaðan orðið önnur. Hefði Ísland verið innan sambandsins eru hins vegar allar líkur á að málið hefði aldrei endað fyrir dómi. Ekki frekar en hefur gerzt í tilfelli Írlands og Grikklands.

Þannig hefði niðurstaðan þá að öllum líkindum orðið pólitísk líkt og hjá Írum og Grikkjum. Líkt og ráðamenn innan Evrópusambandsins lögðu einmitt áherslu á í Icesave-deilunni. Þeir vildu alls ekki að málið færi fyrir dómstóla. Sem er skiljanlegt í ljósi þess hversu lagalegur málstaður þeirra var veikur, sem andstæðingar Icesave-samninganna bentu margoft á. Ákveðið var að fórna Íslendingum til þess að fela það. Það tókst hins vegar ekki vegna fullveldis Íslands.

Frjálst flæði fjármagns er almennt séð af hinu góða en fyrirkomulagið í kringum það þarf hins vegar að vera reist á heilbrigðum grunni. Þar er lykilatriði að frelsi og ábyrgð haldist í hendur. Það vantaði tilfinnanlega í aðdraganda falls bankanna. En það er gjarnan meiri áhugi hjá mörgum að njóta ávaxta frelsisins en talsvert minni á því að axla þá ábyrgð sem því fylgir. Rétt eins og margir eru oft áhugasamari um þau réttindi sem þeir hafa en skyldurnar sem því fylgja.

Ég hef annars bent á það að hefði ríkt eiginlegur kapítalismi hér á landi fyrir fall bankanna hefði fall þeirra ekki haft jafn alvarlegar afleiðingar og það hafði. Fyrir liggur að síðustu tvö árin, þegar staða bankanna varð hvað verst og Icesave-reikningarnir urðu meðal annars til, var þeim einkum haldið á floti á þeim forsendum að ríkið kæmi þeim til bjargar. Það hefði eiginlegur kapítalismi aldrei boðið upp á. Bankarnir hefðu þá mögulega fallið 2006 og jafnvel alls ekki.

Færeyingar meira fullvelda en Bretland

Makríldeilan var jafnvel enn meira lýsandi fyrir gildi fullveldisins en Icesave-málið. Deiluaðilar voru fjórir; Ísland, Noregur, Færeyjar og Evrópusambandið. Hvorki Bretland né Írland höfðu beina aðkomu að deilunni enda hafa ríkin framselt stjórn sína yfir eigin sjávarútvegsmálum til sambandsins eins og í svo mörgum öðrum málaflokkum. Ráðherrar ríkjanna urðu fyrir vikið að láta sér nægja að reyna að þrýsta á framkvæmdastjórn Evrópusambandsins að aðhafast í deilunni.

Færeyingar eru ekki fullvalda þjóð en höfðu engu að síður sjálfstæða aðkomu að makríldeilunni. Bretar og Írar sátu ekki við samningaborðið þar sem reynt var að ná samkomulagi um makrílveiðarnar. Færeyingar voru þannig meira fullvalda í makríldeilunni en Bretar og Írar þrátt fyrir að vera ekki fullvalda. Talað var iðulega í erlendum fjölmiðlum um strandríkin fjögur („four coastal states“) sem ættu aðild að deilunni. Þar á meðal Evrópusambandið.

Brezkir og þó einkum írskir ráðamenn gerðu hvað þeir gátu til þess að þrýsta á framkvæmdastjórn Evrópusambandsins að taka hart á Íslendingum og Færeyingum og beita þjóðirnar refsiaðgerðum vegna veiða þeirra á makríl í eigin lögsögum. Önnur ráð höfðu þeir í raun ekki, eins og áður er getið. Formleg aðkoma þeirra var í gegnum ráðherraráð sambandsins en þar þarf aðeins í algerum undantekningartilfellum einróma samþykki þegar ákvarðanir eru teknar.

Þannig fór að lokum að Evrópusambandið, Noregur og Færeyjar sömdu um makrílveiðar þessara aðila. Var það í raun gert á bak við Íslendinga. Færeyingar töldu sig neyðast til þess eftir að sambandið beitti þá refsiaðgerðum vegna síldveiða þeirra í þeirra eigin lögsögu. Írsk stjórnvöld voru hins vegar á móti því að semja við Færeyinga. Töldu þá fá of stóran hluta kvótans og þar með væri verið að verðlauna þá. Írar urðu hins vegar undir í ráðherraráði Evrópusambandsins.

„Írland er aðeins lítill fiskur í þessari tjörn“

Frásagnir í írskum fjölmiðlum af ósigri írskra ráðamanna eru mjög lýsandi í þessum efnum. Þannig var haft eftir Martin Howley, formanni Samtaka sjómanna í Killybegs, stærsta útgerðarbæ Írlands, á fréttavef írska dagblaðsins Irish Examiner í mars 2014 þegar samkomulagið við Færeyinga lá fyrir að ríkisstjórn Írlands hefði barizt af hörku gegn því. En þegar allt kæmi til alls snerist málið um atkvæði á vettvangi Evrópusambandsins og stóru ríkin innan þess hefðu ekki haft áhuga.

„Ríkisstjórn okkar og Coveney sjávarútvegsráðherra börðust af hörku gegn þessu en þetta snýst allt um atkvæði á vettvangi Evrópusambandsins. Þýskaland hafði ekki áhuga á þessu og Bretland vildi aðeins binda enda á bannið á innflutningi á fiski frá Færeyjum. Írland er aðeins lítill fiskur í þessari tjörn. Við áttum aldrei möguleika. Við fáum aukna aflaheimild en við teljum þetta ekki vera gott samkomulag fyrir Írland,“ sagði Howley meðal annars í viðtalinu.

Þannig gátu írsk stjórnvöld ekki staðið vörð um sjávarútvegshagsmuni Íra og urðu að sætta sig við samkomulag sem þau voru andvíg og töldu ganga gegn þeim hagsmunum vegna þess að þau urðu undir í atkvæðagreiðslu í ráðherraráði Evrópusambandsins. Á sama tíma gátum við Íslendingar varið hagsmuni okkar og ráðið því hvað við veiddum innan eigin lögsögu í krafti fullveldisins. Sama gilti um Færeyinga því þó að þeir séu ekki fullvalda stjórna þeir eigin sjávarútvegsmálum. Málið var enn meira lýsandi í tilfelli Dana, sem neyddust til þess að framfylgja refsiaðgerðum Evrópusambandsins gegn Færeyjum, sem eru jú hluti danska konungsríkisins, á meðan þær voru í gildi þrátt fyrir að hafa talað gegn þeim á vettvangi sambandsins. Líkt og fulltrúar Íra lentu þeir hins vegar í minnihluta í ráðherraráði Evrópusambandsins og urðu fyrir vikið meðal annars að loka höfnum sínum fyrir færeyskum fiskiskipum sem verið höfðu á síldveiðum.

Vægi ríkja innan ESB fer eftir íbúafjölda

Fyrir okkur Íslendinga er áhugavert að hafa í huga að innan Evrópusambandsins fer vægi einstakra ríkja þess fyrst og fremst eftir því hversu fjölmenn þau eru samkvæmt ákveðnum reglum. Því fámennari sem þau eru, þeim mun minni möguleika eiga þau á að hafa áhrif innan stofnana sambandsins. Til að mynda í ráðherraráðinu þar sem ráðherrar ríkjanna í hverjum málaflokki eiga sæti. Til að mynda í sjávarútvegsmálum þegar mál tengd þeim málaflokki eru til umræðu.

Þrátt fyrir að vera eitt af fjölmennustu ríkjunum innan Evrópusambandsins og með vægi í samræmi við það í stofnunum þess hefur verið sýnt fram á að Bretar hafa iðulega staðið frammi fyrir ákvörðunum í andstöðu við vilja þeirra. Þannig sýndi rannsókn samtakanna Business for Britain í marz 2014 að brezk stjórnvöld hefðu greitt atkvæði gegn 55 málum í ráðherraráðinu frá 1996-2014. Þau hefðu hins vegar öll náð fram að ganga þrátt fyrir að Bretar hefðu lagzt gegn þeim. Hliðstæða sögu er að segja af Evrópuþinginu samkvæmt rannsókn sömu samtaka. Samkvæmt henni voru 1.936 atkvæðagreiðslur í þinginu á tímabilinu 2009-2014. Meirihluti þingmanna Bretlands greiddi atkvæði gegn umræddri lagasetningu í 576 þeirra en í 485 tilfellum var hún engu að síður samþykkt með atkvæðum þingmanna annarra ríkja Evrópusambandsins. Þannig urðu bresku þingmennirnir undir í 86% tilfella þegar þeir lögðust gegn lagasetningu.

Þannig er það ekki aðeins í sjávarútvegsmálum sem Bretar verða iðulega undir þegar teknar eru ákvarðanir á vettvangi Evrópusambandsins þrátt fyrir fjölmenni og verða fyrir vikið að fara að ákvörðunum sem einhverjir aðrir tóku. Oftar en ekki þvert á þeirra eigin hagsmuni. Ástæðan er ekki sízt sú að Bretar hafa oft sérstakra hagsmuna að gæta sem fara ekki saman við hagsmuni margra annarra ríkja innan sambandsins. Það er ein ástæða þess að þeir eru nú á leið úr því.

Einróma samþykki á hröðu undanhaldi

Bretar hafa margfalt það vægi innan Evrópusambandsins sem við Íslendingar hefðum værum við þar innanborðs. Danir og Írar hafa einnig miklu meira vægi innan sambandsins en við hefðum. Engu að síður gengur þeim ekki betur en raun ber vitni að standa vörð um hagsmuni sína eftir að hafa framselt mikinn hluta fullveldis síns til stofnana þess. Ekki bætir úr skák að einróma samþykki ríkjanna heyrir nánast sögunni til og þeim sviðum sem það á við um fækkar stöðugt.

Við Íslendingar værum þannig í slæmri stöðu innan Evrópusambandsins hvað þetta varðar á tvöfaldan hátt ef svo má að orði komast. Þannig værum við ekki aðeins fámennasta ríkið innan sambandsins heldur hefðum við einnig sérstakra hagsmuna að gæta eins og í sjávarútvegsmálum. Raunveruleikinn er sá að færi Ísland inn í Evrópusambandið yrðum við eftirleiðis að vona að teknar yrðu ákvarðanir sem hentuðu hagsmunum okkar enda yrðu þær seint teknar af okkur.

Fyrirkomulagið innan Evrópusambandsins er þannig á skjön við það sem alla jafna þekkist innan alþjóðastofnana, þar sem aðildarríkin koma að öllu jöfnu saman eins og einstaklingar þar sem hvert þeirra hefur eitt atkvæði. En sambandið er ekki alþjóðastofnun heldur fyrirbæri sem er einhvers staðar á milli þess og ríkis. Raunar hefur Evrópusambandið stöðugt færzt nær því að uppfylla skilyrði þess að teljast eitt ríki á liðnum árum og vantar orðið heldur lítið upp á það.

Forystumenn innan Evrópusambandsins hafa enda í gegnum tíðina í vaxandi mæli lagt áherzlu á þetta lokatakmark svokallaðs Evrópusamruna. Síðast kallaði Martin Schulz, leiðtogi þýzka Jafnaðarmannaflokksins og fyrrverandi forseti Evrópuþingsins, eftir því 7. desember. Ríki sem ekki samþykktu þetta yrðu sjálfkrafa rekin úr sambandinu.3 Áður hefur til dæmis Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, ítrekað kallað eftir einu ríki.

Gamaldags landfræðileg Útþenslustefna

Raunar hafa forystumenn Evrópusambandsins jafnvel gengið enn lengra þegar kemur að skilgreiningum þeirra á því. Þannig líkti José Manuel Barroso, þáverandi forseti framkvæmdastjórnar sambandsins, því við heimsveldi í júlí 2007.5 Valéry Giscard d’Estaing, fyrrverandi forseti Frakklands og aðalhöfundur stjórnarskráar sambandsins sem síðar var kölluð Lissabon-sáttmálinn og er grunnlöggjöf Evrópusambandsins í dag, sagði í ræðu í Aachen í Þýzkalandi árið 2003:

„Heimsálfan okkar hefur orðið vitni að ítrekuðum tilraunum til þess að sameina hana; Sesar, Karlamagnús og Napóleon ásamt öðrum. Markmiðið hefur verið að sameina álfuna með vopnavaldi, með sverðinu. Við viljum hins vegar sameina hana með pennanum. Mun penninn ná árangri þar sem sverðið hefur endanlega beðið ósigur?“

Með öðrum orðum sama gamla heimsvaldastefnan í grunninn og á öldum áður. Aðeins önnur aðferðafræði í þetta skiptið.

Fræðimenn á sviði stjórnmálafræði hafa lengi bent á að Evrópusambandið sé þegar að miklu og vaxandi leyti „federalískt“. Einkum yfirþjóðlegar stofnanir þess eins og Evrópudómstóllinn og Evrópski seðlabankinn. Framkvæmdastjórn sambandsins starfar þegar á hliðstæðan hátt og ríkisstjórn, og ráðherraráðið virkar svipað og efri deild þýzka þingsins. Evrópusambandið hefur fjölmörg fleiri einkenni ríkis og næstu skref eru meðal annars evrópskur ríkissjóður og Evrópuher.

Belgíski sagnfræðingurinn David Van Reybrouck sagði nýverið að þróun og uppbygging Evrópusambandsins minnti í vaxandi mæli á nýlenduveldi fyrri tíma. Valdið kæmi fyrst og fremst að ofan og þaðan væri smæstu smáatriðum í lífi íbúa ríkja sambandsins stjórnað. Ólíkt Bandaríkjunum, sem leggja megináherzlu á að tryggja pólitísk og efnahagsleg áhrif sín í heiminum, er Evrópusambandið fyrst og fremst í gamaldags landfræðilegri útþenslustefnu.

Baráttunni fyrir frelsinu lýkur aldrei

Kannski kemur ekki á óvart þegar allt þetta er skoðað að heilmiklu púðri sé varið í að ræða um Evrópusambandið í greininni. Helzta ógnin við fullveldi Íslands í dag er hugmyndir um að landið fari undir yfirstjórn sambandsins. Hvort sem er með beinum hætti í gegnum inngöngu í Evrópusambandið eða óbeint í gegnum til að mynda EES-samninginn og Schengen-samstarfið sem fylgja samrunaþróun sambandsins á þeim sviðum sem þeir ná til. Þetta er þó vissulega ekki eina ógnin.

Þess má geta að fullveldið og lýðræðið eru nátengd. Hvaða máli skiptir þannig íslenzkt lýðræði í raun ef valdið til þess að stjórna Íslandi er meira eða minna komið úr landi til einstaklinga og stofnana sem íslenzkir kjósendur hefðu lítið eða ekkert yfir að segja? Forsenda þess að fulltrúalýðræðið hér á landi hafi einhverja þýðingu er að þeir sem eru kosnir séu raunverulega í aðstöðu til þess að taka ákvarðanir um það með hvaða hætti haldið er á íslenzkum hagsmunamálum.

Fullveldið er þannig í raun algert grundvallarfrelsi fyrir hverja þjóð. Forsenda þess að hægt sé að taka ákvarðanir um öll málefni þjóðarinnar er að valdið til þess sé innanlands í höndum kjörinna fulltrúa sem kosnir eru af Íslendingum. Eða þjóðinni sjálfri með beinum hætti. Þeir sem vilja Ísland undir yfirstjórn annarra hafa fyrir vikið eðlilega horn í síðu fullveldisins og hafa reynt ýmislegt til þess að reyna að grafa undan því. Sagt það úrelt, flókið eða að það sé jafnvel ekki til.

Raunveruleikinn er vitanlega sá að frelsið er sígilt og verður seint úrelt. Baráttunni fyrir frelsinu lýkur heldur aldrei enda verða alltaf til öfl sem vilja draga úr og gera að engu frelsi annarra. Frelsisbaráttan er þannig einfaldlega ævarandi. Þar með talin sjálfstæðisbarátta Íslendinga. Henni lauk hvorki árið 1918 né með lýðveldisstofnuninni 1944. Fram að 1918 snerist baráttan um að endurheimta fullveldið yfir íslenskum málefnum en eftir það hefur hún snúizt um að standa vörð um það.

Höfundur er sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur.

 

Greinin birtist í vetrarhefti Þjóðmála, 4. tbl. 2017. Nánari heimildarskrá er að finna í prentútgáfu blaðsins.