Friður í Evrópu í 75 ár

Kort af Evrópu um miðjan níunda áratug síðustu aldar. Mikið hefur breyst síðan þá.

Að undanskildum átökunum í fyrrverandi Júgóslavíu snemma á tíunda áratug síðustu aldar hefur ríkt friður í Evrópu frá lokum seinni heimsstyrjaldarinnar – eða í hartnær 75 ár. Það er vissulega ánægjulegt, því það er langur tími í sögulegu samhengi í heimsálfu sem í gegnum aldirnar hefur logað í átökum og illdeilum milli ýmissa þjóða og þjóðarbrota.

Það er þó dálítil einföldun að tala um algjöran frið. Fyrrnefnd átök í Júgóslavíu leiddu til þess að landið var brotið upp í það sem nú eru sjö ríki og flestum eru kunnug átök á milli mótmælenda og kaþólikka á NorðurÍrlandi, sem leitt hafa af sér hroðalega atburði á köflum. Loks ber að nefna að framin hafa verið hryðjuverk í hinum ýmsu Evrópuríkjum á liðnum árum. Allt eru þetta átök sem kostað hafa mannslíf. Það gerðu líka voðaverk kommúnista í Austur-Evrópu á tímum járntjaldsins, svo sem í Prag, Austur-Berlín og á fleiri stöðum.

Það hefur þó ríkt friður í þeim skilningi að ekkert ríki í Evrópu hefur lýst yfir stríði við annað ríki (að undanskildum átökunum á Balkanskaga). Það er af þeirri ástæðu sem menn tala um að ríkt hafi friður frá lokum seinni heimsstyrjaldar. Ekkert bendir heldur til þess að stríð muni brjótast út í Evrópu í náinni framtíð. Reyndar er það afar ólíklegt og svo gæti farið að árið 2045 muni menn fagna því að friður hafi ríkt í Evrópu í 100 ár – líklega í fyrsta sinn frá því að menn hófu að skrá sögu Evrópu.

Sem fyrr segir er þetta langur tími í sögulegu samhengi. Það eru nokkrar ástæður fyrir því að Evrópubúar, sem í gegnum aldirnar hafa ítrekað og aftur barist á banaspjótum, friðmælast í nær 75 ár og jafnvel heila öld að öllu óbreyttu. Því er oft haldið fram að helst megi þakka Evrópusambandinu fyrir þetta friðsæla ástand. Það er að hluta til rétt, en skýringin er ekki alveg svo einföld. Evrópusambandið gat til að mynda lítið aðhafst vegna fyrrnefndra átaka á Balkanskaga.

Þó svo að hugmyndin að auknum Evrópusamruna hafi að einhverju leyti falið í sér að koma í veg fyrir frekari átök í Evrópu er ekki þar með sagt að sameiningarferli það sem átt hefur sér stað hafi haldið friðinn. Rétt er að taka inn í myndina nokkur atriði sem eiga mikinn þátt í því að ekki hafa brotist út vopnuð átök í álfunni. Það má með einföldum hætti telja upp fjórar veigamiklar ástæður fyrir því að friður hefur haldist í Evrópu frá lokum seinni heimsstyrjaldar.

1. Kalda stríðið – sameiginlegur óvinur og sameiginlegir hagsmunir

Um leið og byssurnar kólnuðu eftir seinni heimsstyrjöldina skall á annað stríð. Á milli vesturveldanna (með Bandaríkin í fararbroddi) og Sovétríkjanna myndaðist kalt stríð, sem var að mestu laust við vopnuð átök. Svokallað járntjald myndaðist um Evrópu miðja og engin þjóð hafði í raun tækifæri á að vera hlutlaus í þessu kalda stríði. Þess má geta að því hefur jafnframt verið haldið fram að sú spenna sem myndaðist á milli vesturveldanna og Sovétríkjanna, með ótta um notkun kjarnorkuvopna (sem leitt hefði til gereyðingar) hafi að hluta til haldið friðinn allt fram til 1989.

Frá upphafi kalda stríðsins áttu stórveldin tvö, Bandaríkin og Sovétríkin, í vopnakapphlaupi á meðan ríki Evrópu voru enn að sleikja sárin eftir lok seinni heimsstyrjaldar. Ekkert ríki í Vestur-Evrópu hafði í raun hernaðarlega eða efnahagslega getu til að hefja stríð við annað ríki. Að sama skapi hafði ekkert þeirra getu til að verjast mögulegri innrás Sovétríkjanna án aðstoðar Bandaríkjanna. Þannig áttu ríki Evrópu, ásamt Bandaríkjunum, sér sameiginlegan óvin austan járntjaldsins.

Þessu til viðbótar áttu ríki Vestur-Evrópu sameiginlegra hagsmuna að gæta; að byggja sig upp að nýju. Allir áttu sameiginlega hagsmuni í því halda friðinn og leysa frekar ágreining og deilur á vettvangi stjórnmála og viðskipta. Allir lögðust á eitt við að sinna sama markmiðinu.

2. Vera Bandaríkjamanna í Evrópu

Í seinni heimsstyrjöldinni komu Bandaríkjamenn sér upp herstöðvum víða í Evrópu og eru sumar þeirra enn starfræktar í dag. Við stríðslok sáu Bandaríkjamenn ekki ástæðu til að yfirgefa stöðvarnar og fara með lið sitt heim. Þess í stað lögðu þeir mikið á sig til að aðstoða við uppbyggingu Vestur-Evrópu á ný og vegur Marshall-aðstoðin þar þyngst. Ekkert ríki sem þáði þá aðstoð sá ástæðu til að vísa Bandaríkjaher úr landi.

Ógnin í austri var að sama skapi stór ástæða þess að Bandaríkin drógu herlið sitt ekki alfarið til baka frá Evrópu. Næstu ár á eftir snerist utanríkisstefna Bandaríkjanna að miklu leyti um að vernda Vestur-Evrópu og þannig er það að hluta til enn í dag. Sem fyrr segir var ólíklegt að nokkurt ríki Evrópu hefði burði til að ráðast á annað land. Við það bætist að engum datt í hug að ráðast á land þar sem Bandaríkjamenn voru þegar með herstöð. Í efnahagslegum skilningi hefðu Bandaríkjamenn, í miðri uppbyggingu, ekki sætt sig við vopnuð átök í álfunni. Öflug hernaðarleg návist Bandaríkjamanna hafði því mikið um friðarferlið að segja.

Bandaríkjamenn hafa í gegnum tíðina hvatt til ákveðins Evrópusamruna en fyrst og fremst hafa þeir haft hag af því að efnahagshjól Evrópu gengi sem skyldi.

3. Hlutverk Atlantshafsbandalagsins

Í framhaldi þess að hafa fjallað um sameiginlegan óvin í austri og veru öflugs herliðs Bandaríkjamanna í Evrópu er nauðsynlegt að líta á hlutverk Atlantshafsbandalagsins (NATO) í því að tryggja að friður haldist í Evrópu. Atlantshafsbandalagið var fyrst og fremst varnarbandalag vesturveldanna gegn ógninni í austri. Hins vegar undirrituðu öll aðildarríki bandalagsins sáttmálann með það að leiðarljósi að sameinast um varnir ríkjanna ef til þess kæmi. Skýrt kemur fram í 5. grein sáttmálans að litið sé á árás á eitt ríki sambandsins sem árás á þau öll.

Rétt er að rifja upp að það þjónaði heldur ekki hagsmunum nokkurs ríkis á meginlandi Evrópu að ráðast á annað ríki í álfunni. Varnarbandalag sem þetta hafði ekki verið myndað áður með eins sterkum hætti, enda tíðarandinn orðinn annar. Ekki er heldur hægt að líta framhjá hlutverki Breta í því að tryggja frið í Evrópu. Bretland var eitt af stofnríkjum Atlantshafsbandalagsins en kom nokkru síðar inn í Evrópubandalagið (sem síðar varð Evrópusambandið).

4. Lýðræði og viðskipti

Aukin lýðræðisþróun í Evrópu að lokinni síðari heimsstyrjöld spilar veigamesta hlutverkið í friðarferlinu í álfunni. Evrópa var sár eftir tvær styrjaldir á stuttum tíma. Öllum var ljóst að byggja yrði álfuna upp á nýtt eftir það niðurrif sem styrjaldirnar ollu.

Til að þetta gæti gerst var tvennt sem varð að tryggja; lýðræði og almenna velmegun. Ekki eru dæmi um það í sögunni að lýðræðisríki hafi lýst yfir stríð gegn öðru lýðræðisríki. Þýskaland var vissulega lýðræðisríki þegar nasistar náðu völdum, en það er óhætt að segja að lýðræðið hafi verið afnumið um það leyti sem seinni heimsstyrjöldin hófst.

Evrópuríkin gerðu sér jafnframt grein fyrir því að til að tryggja stöðugan frið í Evrópu yrði að bæta kjör almennings. Af þeirri ástæðu voru mynduð bandalög um viðskipti fyrst og fremst. Með bættum lífsskilyrðum og aukinni hagsæld var vonast til þess að lýðræðið festi sig í sessi.

Það voru sex lýðræðisríki sem mynduðu Kola- og stálbandalag Evrópu árið 1952 og lagði það grunninn að frekari Evrópusamruna. Stofnaðilar voru Þjóðverjar, Frakkar og Ítalir ásamt Benelux-þjóðunum Hollandi, Lúxemborg og Belgíu. Þessar sömu þjóðir stofnuðu Efnahagsbandalag Evrópu (forvera Evrópusambandsins) nokkrum árum síðar.

Hlutverk ESB og forvera þess

Með þessi fjögur atriði í huga eru allar líkur á því að friður hefði haldist í Evrópu óháð því hversu hraður eða hversu mikill Evrópusamruninn hefði verið á þessum tíma. Engin ástæða er til að gera lítið úr því að Evrópusambandið og forverar þess spila stórt hlutverk í þessu ferli, en leiðin að friði var alltaf í gegnum frjáls viðskipti og lýðræði – í bland við stuðning og veru Bandaríkjamanna.

Á þeim tíma sem liðinn er hafa orðið til nýjar ógnir sem ríki Evrópu munu þurfa að takast á við með sameiginlegum hætti. Hryðjuverkaógnin vofir yfir að einhverju leyti en nú bætast við umhverfisógnir og óróleiki vegna innflytjenda (þ.e. það er ágreiningur milli ríkja á meginlandinu við ríki sem eiga landamæri að Miðjarðarhafi og Mið-Austurlöndum), að ónefndu misvægi í efnahag ríkjanna innan Evrópusambandsins sem kemur fram í atvinnuleysi, verðbólgu, minnkandi kaupmætti og óvissu í lífeyrisskuldbindingum tiltekinna ríkja.

Það er ljóst að áskoranir ríkja innan Evrópu eru margar. Allar eru þær lýðræðisþjóðir, flestar eiga aðild að NATO, Bandaríkjamenn eru enn með herstöðvar í sumum þeirra en þær eiga sér ekki allar sama óvin. Því til viðbótar eru hagsmunir þeirra ólíkir að mörgu leyti.

Sem fyrr segir má telja ólíklegt að innan Evrópu brjótist út vopnuð átök á milli ríkja – en það verða átök á vettvangi stjórnmála og viðskipta á næstu árum.

Þá er spurning hvort Evrópusambandið, sem margir vilja eigna friðinn síðustu áratugi, getur haldið friðinn?

 

Höfundur er stjórnmálafræðingur og ritstjóri Þjóðmála.

Greinin birtist í sumarhefti Þjóðmála, 2. tbl. 2019. Hægt er að gerast áskrifandi að Þjóðmálum með því að senda tölvupóst á askrift@thjodmal.is eða skilaboð á facebook síðu ritsins. Ritið færst einnig í lausasölu í verslunum Pennans/Eymundsson.