Í byrjun nóvembermánaðar 2017 kom út bókin Með lognið í fangið – Um afglöp Hæstaréttar eftir hrun eftir Jón Steinar Gunnlaugsson hæstaréttarlögmann. Höfund þarf væntanlega ekki að kynna sérstaklega fyrir lesendum Þjóðmála, svo mjög sem hann hefur látið til sín taka á vettvangi þjóðmála, einkum dómsmála, síðastliðin 30-40 ár.
Til upprifjunar skal þess getið að bókarhöfundur er fæddur árið 1947. Hann lauk lagaprófi frá Háskóla Íslands árið 1973. Árin 1975-2004 starfaði hann sem lögmaður í Reykjavík, er hann var skipaður dómari við Hæstarétt Íslands. Því starfi gegndi hann til ársins 2012, að hann hóf aftur lögmannsstörf, sem hann gegnir enn. Höfundur hefur einnig fengist við kennslu í lögfræði. Árin 1977- 1981 var hann settur aðjúnkt og dósent við lagadeild Háskóla Íslands, og árin 2002-2004 gegndi hann prófessorstöðu við Háskólann í Reykjavík. Þess utan hefur bókarhöfundur verið stundakennari til margra ára við þessa háskóla.
Starfsreynsla bókarhöfundar er sem sjá má mjög fjölþætt. Höfundur hefur þó ekki gegnt opinberu embætti á vegum framkvæmdarvaldsins. Hann hefur hins vegar sem lögmaður marga rimmuna háð við embættismenn og hið opinbera, sem setja mjög mark sitt á skrif höfundar.
Bókarhöfundur hefur einnig verið mikilvirkur rithöfundur um lögfræði. Rit hans eru frábrugðin flestum, ef ekki öllum, íslenskum ritum um lögfræði, því að þau eru öðru fremur ádeilurit. Hefur gagnrýni bókarhöfundar ekki síst beinst að meðferð opinbers valds og umburðarlyndi eða jafnvel meðvirkni dómstóla, einkum Hæstaréttar, gagnvart ætlaðri misbeitingu opinbers valds.
Árið 1987 kom út bókin Deilt á dómarana (138 bls.) eftir bókarhöfund, sem olli talsverðum titringi, jafnvel hneykslan, á meðal ýmissa íslenskra lagamanna, enda voru efnistök hans, sem fólust ekki síst í hvassri gagnrýni á vinnubrögð dómenda í Hæstarétti, ekki til vinsælda fallin. Gagnrýni af þessum toga var almennt talin óviðeigandi.
Nokkurt hlé varð nú á ritstörfum bókarhöfundar, eða í 16 ár, uns næsta bók, Um fordæmi og valdmörk dómstóla (156 bls.), kom út árið 2003, árið áður en bókarhöfundur sótti um dómarastöðu við Hæstarétt Íslands. Þessi umsókn hans um dómaraembætti við Hæstarétt, sérstaklega þó viðbrögð dómenda í Hæstarétti við umsókninni, eins og höfundur hefur lýst þeim, koma mjög við sögu í síðari bókum og greinaskrifum bókarhöfundar. Bók þessi, sem fyrst og fremst virðist hafa verið hugsuð sem fræði- og kennslurit, er þó öðrum þræði ádeilurit og því að ýmsu leyti sama marki brennd og bókin Deilt á dómarana, sem út kom árið 1987. Á köflum er í bók þessari hvöss og óvægin gagnrýni á vinnubrögð dómenda í Hæstarétti. Meðal annars er gefið í skyn eða jafnvel fullyrt að kveðnir hafi verið upp bersýnilega rangir dómar vegna hroðvirkni.
Árið 2005 kom út bókin Um málskot í einkamálum (144 bls.). Sú bók er eingöngu fræði og kennslurit í réttarfari og því eina bók höfundar sem ekki getur talist ádeilurit.
Árið 2013, er bókarhöfundur hafði látið af störfum sem dómari við Hæstarétt árið áður, kom út bókin, sem höfundur nefnir reyndar sjálfur ritgerð, Veikburða Hæstiréttur – Verulegra úrbóta er þörf (95 bls.). Eins og heitið ber með sér er bók þessi eða ritgerð ádeilurit.
Næsta bók höfundar, Í krafti sannfæringar – Saga lögmanns og dómara, kom út árið eftir, 2014. Bók þessi er langmest að vöxtum bóka höfundar, eða 408 bls. Bókin er ádeilurit en jafnframt eins konar ævisaga og uppgjör á starfsferli, eins og ráða má af heiti bókarinnar. Munu þá ýmsir hafa andað léttar og talið eða vonað að bók þessi væri síðasta bók höfundar og að hann hefði loks talið nóg að gert í gagnrýni sinni á vinnubrögð dómenda í Hæstarétti. Stóðu vonir til þess að bókarhöfundur hefði nú slíðrað sverðið og myndi framvegis reyna að eiga friðsælt og notalegt ævikvöld að hætti fyrrverandi hæstaréttardómara.
Þessu fólki hefur ekki orðið að ósk sinni. Hafi fyrri bækur bókarhöfundar valdið skjálftum eða skjálftahrinum verður síðustu bók hans, Með lognið í fangið – Um afglöp Hæstaréttar eftir hrun, ekki jafnað til annars en stórskjálfta, sem ekki sér fyrir endann á.
Að framan er ekki getið greinaskrifa bókarhöfundar í dagblöð og tímarit. Greinar þessar skipta hundruðum. Bókarhöfundur er samkvæmt þessu örugglega einn fyrirferðarmesti íslenski lagamaður samtíðarinnar. Því virðist mega slá föstu að hann er einnig meðal umdeildustu lagamanna samtíðarinnar, ef ekki hinn umdeildasti. Ekki er að sjá að það trufli hann. Helst er að sjá að bókarhöfundi mislíki mest þöggunartilburðir – eða „lognið“, eins og hann nefnir þá í bókarheitinu – ýmissa stéttarbræðra hans, bæði í dómara- og lögmannastétt.
Um bókina Með lognið í fangið verður naumast fjallað nema setja hana í samhengi við önnur rit bókarhöfundar. Með nokkrum sanni má segja að bókin sé hin þriðja í eins konar ritröð höfundar, sem hófst árið 2013 með útkomu bókarinnar Veikburða Hæstiréttur og fylgt eftir árið 2014 með bókinni Í krafti sannfæringar. Áhugasömum er bent á að lesa þessar þrjár bækur í samfellu.
Í inngangsorðum bókarinnar, þar sem fram kemur að ritun bókarinnar hafi lokið í maí 2017, segir meðal annars:
„Enn eru ekki liðin þrjú ár frá því að bókin mín Í krafti sannfæringar kom út. Á þeim tíma hefur margt á dagana drifið sem ég finn hjá mér hvöt til að segja frá. Þess vegna er bók þessi skrifuð.“
Á bls. 32 segir höfundur enn fremur:
„Í þessari bók hef ég í hyggju að ræða um nokkra viðburði síðustu ára og þá einkum þá sem áttu sér stað eftir útkomu Í krafti sannfæringar haustið 2014. Ýmislegt hefur á dagana drifið sem ég tel frásagnar virði og nauðsynlegt sé að „færa til bókar“. Þar ber kannski hæst meðferð dómsmála á hendur mönnum sem margir Íslendingar töldu að borið hefðu ábyrgð á hruninu mikla haustið 2008. Við þá meðferð hefur margt verið athugavert, svo ekki sé fastar að orði kveðið. Mun ég reyna að víkja eitthvað að þessu í bókinni, þó að sú umfjöllun verði fjarri því tæmandi út frá vísindalegu sjónarmiði.“
Samkvæmt þessu er bókin svokölluð „eftirhruns“ bók og ekki hin fyrsta sinnar tegundar, einkum um atburði eftir útkomu bókar höfundar Í krafti sannfæringar árið 2014. Sem endranær er bók höfundar þó frábrugðin öðrum bókum um „hrunið“ (orðið „hrun“ er ýmist í bókinni innan tilvitnunarmerkja eða ekki, til dæmis ekki á bókarkápu og í bókarheiti). Í stað þess að leita að sökudólgum, eins og gert hefur verið í fjölda annarra bóka um þetta efni, snýst höfundur til varnar mörgum þeim sem ákærðir hafa verið og sakfelldir í Hæstarétti fyrir þátt sinn í atburðum um haustið 2008 og aðdraganda þeirra. Telur höfundur að brotinn hafi verið réttur á fjölda sakborninga í sakamálum vegna falls bankanna um haustið 2008. Eru þessi málaferli og dómar meginviðfangsefni bókarinnar, en þó borið víðar niður.
Bókin, sem telur 176 blaðsíður, án viðauka, skiptist í átta þætti, samtals 162 blaðsíður. Loks er 9. þáttur, bókarviðauki, þar sem birtar eru ýmsar greinar höfundar í blöðum „… og fleira smálegt“.
Með hverjum kafla í efnisyfirliti er stutt ágrip, þar sem lýst er meginefni hvers kafla. Er því auðvelt að átta sig á eða rifja upp efni bókarinnar með því að lesa efnisyfirlitið, sem telur samtals sjö blaðsíður. Í meginmáli eru millifyrirsagnir sem ekki eru í efnisyfirliti. Á hinn bóginn er hvorki atriðisorðaskrá né nafnaskrá, en hins vegar skrá um „Myndaheimildir“ á öftustu blaðsíðu.
Á bls. 14-23, „Þagað þunnu hljóði“, segir höfundur frá viðtökum umsóknar hans um dómaraembætti við Hæstarétt árið 2004, eða öllu fremur vonbrigðum höfundar með að rækileg frásögn hans af þessu máli í bókinni Í krafti sannfæringar (bls. 267-289) skyldi ekki hafa vakið meiri athygli og umræður en raun varð á. Frásögn höfundar af þessari umsókn og viðtökum hennar – en ekki er vitað til þess að henni hafi nokkru sinni verið andmælt eða athugasemdir gerðar við hana – er með nokkrum ólíkindum. Fullyrðir höfundur að allir dómendur Hæstaréttar, að einum undanskildum, hafi lagst á sveif til þess að koma í veg fyrir skipun hans sem hæstaréttardómara. Ef þessi frásögn höfundar er rétt virðist „fjölskyldan“ – en höfundi hefur löngum orðið tíðrætt um og fundið að svokallaðri fjölskyldustemningu í Hæstarétti – frá upphafi afneitað bókarhöfundi og jafnvel reynt eftir fremsta megni að varna honum inngöngu á heimilið. Lyktir urðu þó þær – eftir talsverðar sviptingar að sögn höfundar – að bókarhöfundur var skipaður hæstaréttardómari, enda fór þá ráðherra með óskorað veitingarvald, ef umsækjandi á annað borð hafði verið metinn hæfur samkvæmt lögum nr. 15/1998.
Einhver kynni að spyrja hvort höfundur hefði nokkru sinni verið skipaður hæstaréttardómari að gildandi lögum, þar sem ráðherra er bundinn af umsögn nefndar samkvæmt lögum nr. 45/2010. Höfundur telur reyndar að nefnd þessi sé hluti af „fjölskyldunni“ og að enginn fái skipun sem hæstaréttardómari ef hann er líklegur til þess að trufla fjölskyldustemninguna. Gagnrýni höfundar beinist mjög að þessu fyrirkomulagi og telur hann fámenna klíku dómara stjórna því hverjir hljóti dómaraembætti á Íslandi.
Heita má einkennilegt að þessi rökstudda gagnrýni höfundar á gildandi fyrirkomulag (sjá einnig bls. 51-52, þar sem höfundur staðhæfir að gildandi fyrirkomulag sé stjórnarskrárbrot) skuli ekki hafa hlotið meiri athygli og umfjöllun. Áður þurftu ráðherrar oft að þola mikla gagnrýni fyrir pólitískar embættisveitingar eða jafnvel embættisveitingar vegna fjölskyldutengsla. Var veitingarvaldi ráðherra og meðferð þess oft og tíðum fundið allt til foráttu. Nú, þegar veitingarvaldið hefur nánast verið tekið af ráðherra og fengið fagaðilum svokölluðum eða nefnd samkvæmt lögum nr. 45/2010, heyrast naumast gagnrýnisraddir, nema þá helst þegar konur hreppa ekki hnossið. Er það til marks um betra fyrirkomulag? Ekki að dómi bókarhöfundar, sem vill gagngerar breytingar á þessu fyrirkomulagi og segir meðal annars á bls. 40:
„Við niðurröðun nefndarinnar [nefndar samkvæmt lögum nr. 45/2010] hafa kunningjarnir verið færðir upp á kostnað hæfari umsækjenda. Nú er svo komið að Hæstiréttur er samsettur úr þessu kunningjasamfélagi án mikilla undantekninga.“
Höfundur veltir fyrir sér (bls. 38-48) afsögn fyrrverandi innanríkisráðherra 21. nóvember 2014. Höfundur fullyrðir ekki beinlínis að skipulögð hafi verið aðför að ráðherranum. Lesa má þó á milli lína að höfundur útilokar ekki að tengsl hafi verið á milli skipanar ráðherrans í nefnd til þess að semja frumvarp að nýjum dómstólalögum og harðrar atlögu gegn ráðherranum úr mörgum kunnuglegum áttum samtímis. Með þessari skipan var sniðgengin réttarfarsnefnd svokölluð, en fram kemur að nefndarmönnum hafi mislíkað mjög þetta framtak ráðherrans og nefndarskipan.
Engin leið er fyrir þá sem eru utan við hringiðu atburða að leggja dóm á þessar vangaveltur höfundar. Hitt er víst að frumvarpið sem ráðherranefndin samdi var endursamið og felld úr því meðal annars ákvæði um skipun dómara, sem leysa áttu af hólmi nefndina samkvæmt lögum nr. 45/2010. Var „klíkuaðferðin“ (bls. 42), sem höfundur nefnir svo, þess í stað fest í sessi, sbr. III. kafla laga nr. 50/2016.
Á bls. 61-83 segir höfundur frá dómsmáli þar sem náinn vinur höfundar og samstarfsmaður til margra ára, fyrrverandi ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneytinu, var árið 2012 sakfelldur í Hæstarétti fyrir innherjasvik, hæstaréttarmál nr. 279/2011. Fyrirsögnin er „Dómsmorð“ (bls. 61). Á bls. 63 er þó tekið fram að átt sé við „intentional (ásetnings-) miscarriage of justice“. „Miscarriage of justice“, „intentional“ eða ekki, er sem kunnugt er algengt orðasamband í gagnrýni á dómstóla og verk þeirra.
Fram hefur komið í fréttum að eftirmál verða af þessari umfjöllun höfundar, þar sem einn dómenda hefur höfðað ærumeiðingarmál gegn bókarhöfundi af þessu tilefni. Kaldhæðnislegt er að bókarhöfundur sjálfur höfðaði án árangurs dómsmál gegn prófessor við Háskóla Íslands fyrir það sem höfundur taldi ærumeiðandi ummæli. Bókarhöfundur var þá óbeint sakaður um að hafa á árinu 2010 átt þátt í samningu kæru vegna kosninga til stjórnlagaþings og einnig átt þátt í samningu ákvörðunar Hæstaréttar vegna þessarar sömu kæru, þar sem kosningin var úrskurðuð ógild (bls. 87-95).
Prófessorinn var í máli þessu sýknaður að öllu leyti í Hæstarétti (hæstaréttarmál nr. 103/2014), eins og í héraðsdómi, á þeim forsendum aðallega að ekki yrði séð, að „… gagnáfrýjandi [prófessorinn] hafi með ummælum sínum vegið svo að æru aðaláfrýjanda að það hafi farið út fyrir mörk leyfilegrar tjáningar samkvæmt 3. mgr. 73. gr. stjórnarskrár“.
Fróðlegt verður að fylgjast með ærumeiðingarmálinu gegn bókarhöfundi og lyktum þess.
Umfjöllun um hæstaréttarmál nr. 279/2011 telur samtals 23 blaðsíður. Þótt málið virðist að ýmsu leyti flókið þarf ekki að lesa lengi til að sú spurning leiti á hvort sakborningur hafi verið sakfelldur fyrir aðra háttsemi en hann var ákærður. Að minnsta kosti færir bókarhöfundur sannfærandi rök fyrir því. Höfundur gagnrýnir þessi vinnubrögð meirihluta Hæstaréttar mjög harkalega.
***
Almennt má um bókina Með lognið í fangið segja að hún sé hin læsilegasta. Enginn sem lætur sig dómsýslu og lögfræði einhverju varða getur leyft sér að láta bók þessa ólesna, ekki fremur en aðrar bækur höfundar. Vonandi endist höfundi aldur og heilsa til þess að skrifa sem flestar bækur um þessi sígildu viðfangsefni. Ekki er rúm fyrir frekari umfjöllun um efni bókarinnar en skrifa mætti aðra bók, jafnvel fleiri, um efni hennar.
***
Árið 2000 kom út í Danmörku ritið „Dommeren i det 20. århundrede“ í tilefni 100 ára afmælis dómarafélagsins danska. Ritið telur 804 blaðsíður og er safn greina eftir danska lagamenn, einkum dómara. Á bls. 399-413 er stórmerkileg grein eftir H. Kallehauge, sem gegndi dómarastöðu í Östre Landsret er ritið kom út en er nú látinn.
Greinin ber heitið „Etik, idealer og habilitet“. Lokaorð greinarinnar eru þessi:
„Uden bestandig stræben efter retfærdighed i hver enkelt sag har dommeren ikke nogen eksistensberettigelse. Ellers er der jo ikke nogen forskel på dommere og enhver anden, som træffer en beslutning. Det er derfor heller ikke en tilstrækkelig anerkendelsesværdig målsætning blot at få sagerne ekspederet. Det skal vi naturligvis også, og vi skal formentlig også tillægge tidsfaktoren væsentlig större betydning, en domstolene tidligere har gjort, men det er ikke i sig selv nok. Dommeren skal have et höjere mål med sitt arbejde. Domstolene kan ikke göre sig fortjent til den almene tillid, vi ikke kan undvære, og de ressourcer, vi benytter på hver enkel sag, uden at leve op til de allerhöjeste krav med hensyn til uvildighed, grundighed og pligt til at give fyldestgörende begrundelser for vore afgörelser. Det stiller nogle særlige krav til dommerene, som kan sammenfattes i ordene: – Ærlighed, – Åbenhed, – Civilcourage. Disse krav kan vi som dommere desværre ikke altid fuldt ud leve op til, det viser erfaringen, men vi kan og skal altid stræbe for at göre det. Det er de ideelle krav, som vi skal forvalte og söge at opfylde i vort virke som dommere under vor bestandige stræben mod at udöve retfærdighed i hver eneste sag, som vi pådömmer.“
Merkilegur samhljómur er með ýmsu í grein þessari eftir H. Kallehauge fyrir hartnær 18 árum og ýmsu sem fjallað er um í bókinni Með lognið í fangið. Greinin eftir H. Kallehauge ætti að vera skyldulesning fyrir alla dómara, ekki síst á tímum siðareglna og siðvæðingar og áleitinna spurninga um sjálfstæði dómstóla. Þótt höfundur bókarinnar Með lognið í fangið kunni að vera umdeildur verður hann ekki sakaður um óheiðarleika í skrifum sínum. Um „åbenhed”, gagnsæi, hefur höfundi löngum orðið tíðrætt og er sérstaklega fjallað um gagnsæi að þessu sinni á bls. 33-38 í bókinni. Hvað sem líður sjónarmiðum og stundum sterkum skoðunum höfundar verður ekki með nokkurri sanngirni sagt að hann gangi erinda annarra með bókarskrifum sínum.
Fremur mætti segja að höfundur sé of sjálfstæður, eins og algengt er um „ídealista“, sem ef til vill birtist í „bestandig stræben efter retfærdighed i hver enkelt sag“.
Hann „leitar móti straumi sterklega“, ef svo ber undir, og hefur stundum þurft að gjalda fyrir með illu umtali og svæsnum árásum, jafnvel úr ólíklegustu áttum. Skyldi það vera þvílík framganga sem H. Kallehauge nefnir „civilcourage“, borgaralegt hugrekki, í grein sinni?
Höfundur er hæstaréttarlögmaður.
Umfjöllunin birtist í sumarhefti Þjóðmála, 2. tbl. 2018. Hægt er að gerast áskrifandi að Þjóðmálum með því að senda tölvupóst á askrift@thjodmal.is eða skilaboð á facebook síðu ritsins. Ritið færst einnig í lausasölu í verslunum Pennans/Eymundsson.