„Nú er tími til að horfa fram á veginn“

Eamonn Butler. Mynd: BIG

Dr. Eamonn Butler, framkvæmdastjóri Adam Smith-stofnunarinnar í London, var aðalgestur á ársfundi Samtaka atvinnulífsins sem haldinn var um miðjan apríl. Í ávarpi sínu fjallaði Butler m.a. um mikilvægi frjálsra markaða, lágra skatta og stöðugra gjaldmiðla. Í samtali við Gísla Frey Valdórsson, ritstjóra Þjóðmála, fjallar Butler um hagkerfið hér á landi, þörfina fyrir aukna velmegun og hagsæld, umræðuna um ójöfnuð og kapítalismann í verki.

Butler þekkir vel til mála hér á landi og hefur fylgst með uppbyggingu hagkerfisins á síðustu árum. Hann segir að árangur Íslendinga í efnahagsmálum sé undraverður þegar haft sé í huga að fyrir tíu árum hafi bresk stjórnvöld beitt hryðjuverkalögum á Ísland með tilheyrandi skaða.

„Það sem þið Íslendingar gerðuð var að þið endurskipulögðuð fjármálakerfið ykkar. Því miður var það ekki gert í Bretlandi,“ segir Butler. „Ég vildi óska þess að við hefðum gert hlutina með sambærilegum hætti og gert var hér á Íslandi. Það er í raun mikið áhyggjuefni hvernig menn tóku á fjármálakrísunni í Bretlandi.“

Butler nefnir sem dæmi Royal Bank of Scotland. Að hans sögn var bankinn aldrei neyddur til að taka til í rekstri sínum og breska ríkið situr enn uppi með eignarhlut í bankanum.

„Þetta hefur verið erfiður áratugur en þið hafið gert svo margt rétt,“ segir Butler. „Nú er tími til að horfa fram á veginn. Þið eigið að tala um kapítalisma, frjálsa markaði, lága skatta og svo framvegis. Þið þurfið að endurheimta sjálfstraust ykkar og eigið alveg innistæðu fyrir því.“

Butler nefnir þó að fyrra bragði að í góðæri sé hætt við því að fólk sofni á verðinum þegar verja þurfi frelsi og lýðræði. Hann nefnir sem dæmi að þrátt fyrir gott efnahagsástand víða í Evrópu séu ýmsar stjórnmálahreyfingar sem skjóti rótum og ali á óánægju þeirra sem telji að þeir hafi orðið eða geti orðið undir í samfélaginu.

„Við erum að sjá ýmsa flokka með óljósa hugmyndafræði koma fram á sjónarsviðið,“ segir Butler. „Þrátt fyrir að alþjóðaviðskipti hafi fært mannkyninu mikla hagsæld eru stjórnmálamenn víða um heim farnir að tala fyrir tollum og auknum viðskiptahindrunum, svo tekið sé dæmi. Við sjáum þess dæmi beggja megin Atlantshafsins. Vinstrimenn nýta einnig þetta tækifæri til að berja á kapítalismanum sem hugmyndafræði. Það sést til að mynda vel í umræðunni um ójöfnuð, umræðu sem fer mikið fyrir á Vesturlöndum. Stærstur hluti umræðunnar um ójöfnuð er þó í raun tóm vitleysa. Menn eru sífellt að taka ýktustu dæmin af fátækt eða gífurlegum ríkidómi og nota það sem einhvern mælikvarða á ójöfnuð og bæta við að það þurfi að dreifa auðnum með einhverjum hætti.“

Butler nefnir sem dæmi ungan einstakling sem er að ljúka námi. Samkvæmt hagtölum er sá einstaklingur illa staddur fjárhagslega, með litlar eða engar tekjur og skuldar mikið. Framtíð hans er hins vegar björt og hann hefur alla burði til að lifa farsælu lífi í efnahagslegu tilliti. Butler segir að hægt sé að tiltaka mörg svona dæmi og önnur til að sýna fram á efnahagslega stöðu tiltekinna hópa.

„Staðreyndin er sú að fátækt hefur minnkað um allan heim og mannkynið hefur heilt yfir aldrei haft það eins gott og nú,“ segir Butler. „Það angrar mig ekki að til séu ofurríkir menn á borð við Bill Gates. Af því að ég nefni hann sem dæmi er rétt að hafa í huga að hann hefur auðgast á því að búa til vörur sem hafa bæði auðveldað og auðgað líf milljóna manna úti um alla heim. Með öðrum orðum, uppfinningar hans hafa einnig skapað öðrum verðmæti. Það er frekar ástæða til að hafa áhyggjur af þeim sem enn búa við fátækt í heiminum. Til að hagsæld og velmegun sé í heiminum þarf að auka alþjóðaviðskipti en ekki hefta þau. Það er full ástæða til að vera á varðbergi gagnvart stjórnmálamönnum og stjórnmálaflokkum sem tala fyrir höftum.“

Eina kerfið sem allir græða á

En umræðan um ójöfnuð skýtur reglulega upp kollinum, til að mynda árlega útgáfu í skýrslu Oxfam. Þó að vitað sé um fjölmarga galla skýrslunnar vekur útgáfa hennar ávallt athygli og bæði stjórnmálamenn og fjölmiðlar fjalla um það sem þar kemur fram sem sannleik. Hvaða áhrif telur þú að það hafi?

„Þetta er í raun enn ein árásin á kapítalismann, menn hafa notað ýmislegt í gegnum árin,“ segir Butler. „En það er rétt sem þú nefnir, að þrátt fyrir að menn viti um galla skýrslunnar vitna menn til hennar eins og um sannleik sé að ræða. En burtséð frá því getum við ekki neitað því að það er fátækt til staðar í heiminum og eins og ég sagði áðan hef ég meiri áhyggjur af því en að aðrir séu ríkir. Hagkerfið þarf að stækka til að hjálpa þeim fátæku, hvar sem er í heiminum. Kapítalisminn er það eina sem hefur hjálpað fátækum ríkjum að vaxa með raunverulegum hætti og fækkað þeim sem lifa við fátækt. Skýrustu dæmin eru auðvitað Kína og Indland. Þó kommúnistar séu enn við völd í Kína hafa þeir tekið upp markaðshagkerfi svo langt sem það nær. Bæði þessi ríki eru nú orðin hluti af alþjóðahagkerfinu með tilheyrandi uppgangi efnahagslífsins og aukinni velmegun almennings. Við þurfum að koma fleiri einstaklingum inn í hið kapítalíska kerfi, það mun bæta hag allra.“

Butler segir að vestrænir stjórnmálamenn þurfi að vera óhræddir við að tala um kapítalismann og frjáls hagkerfi. En fyrst þurfi þeir að skilja hvernig hann virkar.

„Kapítalisminn er í grunninn framleiðsla og sala á vöru og þjónustu á verði sem fólk er tilbúið að greiða fyrir. Það er ekkert athugavert við það kerfi og í raun er það eina kerfið sem allir græða á,“ segir Butler.

Ríkisvaldið orðið of stórt

Skattlagning spilar stórt hlutverk í hagkerfum heimsins og hefur mikið með það að gera hvort hagkerfin vaxi eða dragist saman. Nú tala ýmsir stjórnmálamenn með þeim hætti að lækkun skatta sé í raun gjöf til þeirra sem afla þeirra tekna sem skattlagningin byggist á. Hvað er hægt að segja um slíkt viðhorf?

„Í þessu samhengi er rétt að rifja upp að Calvin Coolidge, John Kennedy og Ronald Reagan lækkuðu allir skatta þegar þeir voru forsetar Bandaríkjanna. Í öllum tilvikum jukust tekjur ríkisins. Þessi þróun hefur líka átt sér stað í þau fáu skipti sem skattar hafa verið lækkaðir í Evrópu, þannig að það er hæpið að tala um skattalækkun sem gjöf ríkisins þegar niðurstaðan er sú að tekjur ríkisins aukast,“ segir Butler. „Vandamálið er ekki að skattar séu of lágir heldur er ríkisvaldið orðið of stórt og þarf of mikið fjármagn til að reka sig. Það er auðvitað kúrfa sem menn fara eftir, 0% skattur gefur ríkinu engar tekjur en það gerir 100% skattur ekki heldur. Menn reyna að finna milliveginn en það hallar of oft á skattgreiðendur. Á sama tíma erum við með vel skipulagða hagsmunahópa sem þrýsta á hið opinbera og ná því í gegn að auknu fjármagni er varið í ýmis verkefni sem þyrftu ekki endilega að vera á vegum ríkisins.“

Butler segir að á valdatíma Margrétar Thatcher hafi farið fram mikil umræða um pólitíska hugmyndafræði, s.s. einkavæðingu og lækkun skatta. Það hafi þó minnkað.

„Við erum því miður búin að búa til atvinnustjórnmálamenn sem eru með minni hugmyndafræðilegan bakgrunn en áður. Þá eru menn bara að tala um daglegt amstur en ekki hugmyndafræði. Síðan búa menn til lög til að laga vandamál dagsins í stað þess að horfa á stærri myndina; frjálsa markaði, tjáningarfrelsi, eignarrétt og svo framvegis,“ segir Butler.

Frjálsir markaðir gera meira fyrir atvinnulífið en einstaka ívilnunarsamningar

Sem fyrr segir var Butler gestur á aðalfundi SA fyrr í vor. Í ræðu sinni sagði Butler að til þess að verða ríkur þurfi lága skatta, stöðugan gjaldmiðil og frjálsan markað.

„Það sem gerir lönd rík er kraftur einkaframtaksins,“ sagði Butler. „Þess vegna þurfum við að leyfa einkaframtakinu að njóta sín. Það sem heldur hagkerfunum gangandi er fólk sem er tilbúið að taka áhættu, tilbúið að fjárfesta í verkefnum og tilbúið að verja tíma sínum í þau verkefni sem það tekur sér fyrir hendur.“

Butler vék einnig að sköttum og sparaði ekki stóru orðin þegar hann sagði að íslensk stjórnvöld væru að gera allt rangt í skattamálum.

„Skattayfirvöld gætu einfaldað skattkerfið til muna með því að segja; hversu mikils aflar þú og nú skaltu afhenda allt,“ sagði Butler. „Það er til lítils að fjárfesta ef ríkið tekur til sín helminginn af ágóðanum. Nú er rétti tíminn til að lækka skatta, á meðan hagkerfið er í uppsveiflu, því það má fastlega gera ráð fyrir því að ríkið lækki ekki skatta í niðursveiflu.“

Í samtali við Þjóðmál, spurður um það hvort einstaklingar í atvinnulífinu séu of ragir við að tala um um kapítalismann og frjálsa markaði, segir Butler að allur gangur sé á því.

„Hlutverk stjórnenda í atvinnulífinu er að reka fyrirtæki. Þeir eru ekki stjórnmálamenn og þurfa í raun ekki að reka pólitíska dagskrá,“ segir Butler. „Þeir eru heldur ekki stjórnmálaheimspekingar en þurfa þessa í stað að ráða gott fólk til starfa fyrir hagsmunasamtök atvinnulífsins. Fyrir utan það að gæta hagsmuna atvinnulífsins og fyrirtækja í praktískum atriðum er það jafnframt hlutverk þeirra að huga að hugmyndafræðinni um frjálsa markaði, lægri skatta o.s.frv. Frjálsir markaðir gera meira fyrir atvinnulífið en einstaka ívilnunarsamningar, þannig að fólk þarf alltaf að huga að stóru myndinni.“

Vilja ekki vera hluti af sambandsríki

Ekki verður hjá því komist að spyrja Butler um útgöngu Breta úr Evrópusambandinu (ESB) sem mun eiga sér stað von bráðar og viðhorf hans til þess. Spurður um þetta segir Butler að ESB sé á góðri leið með að verða ofurvaxið skrifræðisbákn sem sé sífellt að læsa sig innan múrs of hárra tolla þar sem ábati milliríkjaviðskipta verður sífellt minni, með tilheyrandi stöðnum hagkerfa.

„Það er orðið vandamál hversu fá ný fyrirtæki verða til í Evrópu samhliða minni nýsköpun,“ segir Butler. „Með því að ganga úr ESB fá bresk stjórnvöld tækifæri til að semja við hvaða ríki sem er á sínum eigin forsendum. Ég tel jafnframt að Bretland sé búið að fá það sem það þurfti út úr veru sinni í ESB og lengri dvöl í sambandinu hefði aðeins orðið til þess að búa bresku hagkerfi þrengri stakk. Það er reyndar rétt að taka fram að Bretar hafa alltaf verið skeptískir á stækkun ESB vegna þess að við viljum ekki vera hluti af sambandsríki, sem er einmitt sú átt sem ESB stefnir í. Þess vegna tóku Bretar ekki upp evru á sínum tíma, svo tekið sé dæmi.“

Butler segir að flestir íbúar á meginlandi Evrópu geti ekki hugsað sér lífið utan ESB og að mörgu leyti sé það skiljanlegt. Það eigi hins vegar ekki við um Breta.

„Löggjöfin í Bretlandi er í grunninn þannig að þú getur gert það sem þú vilt, nema það skaði aðra. Löggjöfin í ESB er þannig að þú gerir ekki neitt nema það sé sérstaklega leyft. Á þessu er mikill munur,“ segir Butler að lokum.

 

Viðtalið birtist í sumarhefti Þjóðmála, 2. tbl. 2018.
Hægt er að kaupa áskrift að Þjóðmálum með því að senda tölvupóst á askrift@thjodmal.is