Fyrirhuguð útganga Bretlands úr Evrópusambandinu undirstrikar ýmislegt sem vitað var fyrir og margoft hefur verið bent á í umræðum um Evrópumálin hér á landi. Ekki sízt þá staðreynd að ekki er beinlínis hlaupið út úr sambandinu þegar einu sinni er komið þangað inn.
Óhætt er að segja að Evrópusambandið hafi gripið til flestra ef ekki allra mögulegra ráða til þess að reyna að gera Bretum erfitt fyrir að yfirgefa raðir þess. Hræða á greinilega aðra frá því að fara með því að refsa þeim sem það reyna. Ekki er hægt að segja að nokkuð af þessu komi mjög á óvart.
Sömu sögu er að segja um ítrekaðar tilraunir Evrópusambandsins til þess að halda í sem mest af þeim völdum sem sambandið hefur haft yfir brezkum málum. Til að mynda kröfur ráðamanna í Brussel um að Bretar samþykki að vera áfram undir vald æðsta dómstóls Evrópusambandsins settir eftir að út úr sambandinu er komið og að fiskiskip frá ríkjum þess geti áfram veitt í brezkri efnahagslögsögu eins og ekkert hafi í skorizt eftir útgönguna. Það kemur heldur ekki á óvart. Krafa Evrópusambandsins um áframhaldandi aðgang að brezkum fiskimiðum kom sérstaklega lítið á óvart.
Ég hef á liðnum árum bent á það í skrifum mínum að ef Ísland gengi í sambandið og vildi síðan fara þaðan út yrði slík krafa án efa gerð í okkar garð. Líkt og ráðamenn í Brussel gerðu þegar Grænlendingar sögðu skilið við forvera Evrópusambandsins á fyrri hluta 9. áratugar síðustu aldar, en sambandið hefur enn í dag rétt til að veiða í grænlenzkri lögsögu.
Tilraun Davids Cameron, þáverandi forsætisráðherra Bretlands, til þess að endursemja um veru landsins í Evrópusambandinu í aðdraganda þjóðaratkvæðisins 2016, þar sem meirihluti brezkra kjósenda ákvað að yfirgefa það, var hliðstæð við viðræður um inngöngu í sambandið. Cameron fór af stað með talsvert metnaðarfullar yfirlýsingar en afar lítið var orðið eftir af þeim í lokin þegar hann hafði rætt um málið við forystumenn innan Evrópusambandsins.
Með því athyglisverðasta fyrir okkur Íslendinga er að Cameron var hvattur eindregið af áhrifafólki innan brezka Íhaldsflokksins, sem hann veitti forystu, til þess að endurheimta völd yfir brezkum sjávarútvegsmálum. Að minnsta kosti að einhverju marki.
Niðurstaðan var hins vegar sú, eftir samtöl við forystumenn sambandsins áður en formlegar viðræður hófust um breytt tengsl Bretlands við það, að ekki var minnzt einu orði á sjávarútveginn í samkomulaginu.
„Þið vitið hvað þið væruð að fara út í“
Tilgangur Camerons var að reyna að skapa valkost sem hann gæti selt Bretum í aðdraganda þjóðaratkvæðisins til þess að koma í veg fyrir að þeir tækju þá ákvörðun að yfirgefa Evrópusambandið. Hann vissi að ekki þýddi að bjóða þeim upp á sambandið eins og það er. Þetta minnir á umræðuna hér á landi.
Talsmenn þess að Ísland gangi í Evrópusambandið tala jú einatt um að kanna þurfi hvað sé í boði í stað þess að tala einfaldlega um sambandið eins og það er. Talað hefur gjarnan verið um það að kíkja í pakkann í þeim efnum og fullyrt að ekki sé hægt að taka afstöðu til inngöngu í Evrópusambandið nema fyrir liggi hvað sé í þessum pakka. Engu að síður hafa regnhlífarsamtök þeirra sem vilja í sambandið hér á landi, Já Ísland, ítrekað látið framleiða fyrir sig skoðanakannanir þar sem spurt er um afstöðu fólks til inngöngu í það. Síðast í október 2017. Merkilegt að greiða fyrir kannanir um eitthvað sem ekki er hægt að svara.
Staðreyndin er vitanlega sú að það er nákvæmlega enginn leyndardómur hvað felst í því að ganga í Evrópusambandið, eins og til að mynda Uffe Ellemann-Jensen, fv. utanríkisráðherra Danmerkur, benti á í samtali við Morgunblaðið á síðasta ári þar sem hann sagði inntur viðbragða við málflutningi Evrópusambandssinna:
„Þið vitið fullkomlega hvað er í pakkanum. […] Vitanlega er Evrópusambandið ekki lokaður pakki. Þið vitið hvað þið væruð að fara út í. Og ef þið eruð ekki reiðubúin til þess, haldið ykkur þá fyrir utan sambandið. Það er það besta sem þið getið gert.“
Forystumenn Evrópusambandsins hafa talað á sömu nótum. Olli Rehn, þáverandi stækkunarstjóri sambandsins, var spurður að því í viðtali við Morgunblaðið 10. september 2009, skömmu eftir að sótt var um inngöngu, hvort það myndi loksins sýna á spilin og upplýsa hvað væri í boði. Rehn svaraði:
„Ef ég nota myndlíkingu þína þá eru spil Evrópusambandsins þegar á borðinu, fyrir allra augum. Það er að segja regluverk Evrópusambandsins og meginreglur þess.“
Ellemann-Jensen verður seint sakaður um að vilja ekki að Ísland gangi í Evrópusambandið enda þvert á móti lengi verið mikill stuðningsmaður þess. Áðurnefndur málflutningur margra hérlendra Evrópusambandssinna í gegnum tíðina bendir vitanlega ekki til þess að þeir hafi mikla trú á málstað sínum fyrst þeir telja sig tilneydda að reyna að telja samborgurum sínum trú um að innganga í Evrópusambandið feli eitthvað annað í sér en inngöngu í Evrópusambandið.
Spurt spurninga sem ekki er hægt að svara?
Milli þess sem Já Ísland hefur haldið því á lofti að ekki sé hægt að taka afstöðu til inngöngu í Evrópusambandsins nema fyrir liggi samningur þess efnis hafa samtökin lýst hinu gagnstæða yfir. Þannig segir til að mynda á vefsíðu þeirra þar sem gerð er grein fyrir þeim: „Þeir einstaklingar sem styðja Já Ísland hafa margar og ólíkar skoðanir en eru sammála um að framtíð okkar Íslendinga sé betur borgið í samfélagi þjóðanna innan Evrópusambandsins en utan þess.“
Hvernig er hægt að vera þeirra skoðunar að Íslendingum sé betur borgið innan Evrópusambandsins en utan þess þegar enginn samningur um inngöngu í sambandið liggur fyrir? Jú, vegna þess að slíkan samning þarf vitanlega ekki. Enda hefur skortur á honum ekki beinlínis komið í veg fyrir að ófáir Evrópusambandssinnar hafi fyrir löngu tekið afgerandi afstöðu til málsins. Eins virðist málið almennt ekki vefjast mikið fyrir Íslendingum miðað við niðurstöður skoðanakannana.
Þessi framganga endurspeglast sömuleiðis í skoðanakönnunum sem farið var að gera fyrir um tveimur áratugum að frumkvæði Evrópusambandssinna, þar sem ekki er spurt um afstöðuna til inngöngu í Evrópusambandið heldur hvort hefja eigi aðildarviðræður. Tilgangurinn með því hefur ljóslega verið að gera því skóna að hægt sé að sækja um inngöngu aðeins til þess að kanna hvað sé í boði og í von um að fá fram hagstæðari niðurstöður en þegar spurt er beint um inngöngu.
Þessi framganga Evrópusambandssinna varpar vitanlega fyrst og síðast ljósi á það hversu veikum fótum málstaður þeirra stendur hér á landi og það sem meira er, að þeir eru vel meðvitaðir um það.
Það er athyglisvert að bera málflutning þeirra saman við málflutning skoðanasystkina þeirra í Noregi. Þar tala þeir sem vilja í Evrópusambandið einfaldlega um sambandið eins og það er og spurt er í könnunum þar í landi einfaldlega um afstöðuna til inngöngu og annað ekki. Hinum megin við Noregshaf gerir fólk sér grein fyrir því að ekki verður komizt hjá spurningunni um inngöngu enda snýst málið um hana þegar allt kemur til alls.
Fleira má læra af umræðunni í Noregi. Þar segja meira að segja harðir Evrópusambandssinnar að lítið vit sé í því að sækja um inngöngu í Evrópusambandið nema viðvarandi mikill meirihluti sé fyrir því samkvæmt könnunum. Reynslan sýni að gera þurfi ráð fyrir að stuðningurinn minnki samhliða inngönguferlinu.
Meiri umræða kallar á meiri andstöðu
Fjölmörg dæmi eru um það að aukin umræða um skref í átt til aukins samruna á vettvangi Evrópusambandsins hefur leitt til aukinnar andstöðu við að taka þau. Dæmi um það er þjóðaratkvæðið í Svíþjóð haustið 2003. Evrunni var hafnað en þegar stjórnvöld boðuðu til atkvæðagreiðslunnar mánuðum áður en hún fór fram töldu þau sig ekki vera að taka neina áhættu enda sýndu skoðanakannir þá að meirihluti væri fyrir því að taka hana upp.
Fleiri dæmi má taka um þetta. Til að mynda þjóðaratkvæðin um Stjórnarskrá Evrópusambandsins í Frakklandi og Hollandi 2005. Meirihluti kjósenda hafnaði stjórnarskránni í báðum löndum. Sem þó kom ekki í veg fyrir áform sambandsins, sem kom henni samt í gegn undir nafninu Lissabon-sáttmálinn. Í báðum tilfellum töldu stjórnvöld að niðurstaðan yrði á annan veg. Cameron taldi enn fremur að sama skapi að því yrði hafnað í þjóðaratkvæðinu í Bretlandi sumarið 2016 að yfirgefa Evrópusambandið. Hins vegar skilaði aukin umræða um málið annarri niðurstöðu sem kunnugt er.
Við Íslendingar þekkjum þetta líka. Til að mynda sýndu skoðanakannanir í byrjun árs 2002 meirihluta fyrir inngöngu í sambandið, sem leiddi til aukinnar umræðu með stofnun Heimssýnar, hreyfingar sjálfstæðissinna í Evrópumálum um sumarið og póstkosningar innan Samfylkingarinnar um haustið þar sem samþykkt var að setja inngöngu á oddinn fyrir þingkosningarnar vorið 2003. Í byrjun þess árs var hins vegar kominn meirihluti á móti inngöngu og Samfylkingin tók málið af dagskrá.
Við þekkjum þetta líka í kjölfar falls viðskiptabankanna þriggja haustið 2008, þegar skoðanakannanir sýndu í fyrstu mikinn meirihluta fyrir inngöngu í Evrópusambandið. Stuðningurinn fór hins vegar fljótlega minnkandi og sumarið 2009 var kominn meirihluti á móti henni. Þannig hefur staðan verið síðan í hverri einustu könnun sem birt hefur verið, eða í bráðum níu ár samfellt. Þess má geta að í Noregi hefur meirihluti verið gegn inngöngu í öllum könnunum í rúm 13 ár.
Tilraun vinstristjórnarinnar sem tók við árið 2009 til þess að koma Íslandi inn í Evrópusambandið sýndi líka það sem vita mátti fyrir fram, að nauðsynlegur pólitískur stuðningur við málið var ekki síður mikilvægur en öflugur stuðningur á meðal almennings. Hann var hins vegar ekki fyrir hendi enda meðal annarra bæði einstakir ráðherrar og stjórnarþingmenn andvígir málinu. Það kom því ekki beinlinis á óvart hvernig fyrir því fór. Við því hafði enda ítrekað verið varað.
Höfundur er sagnfræðingur og MA í alþjóðasamskiptum.
– Greinin birtist í sumarhefti Þjóðmála, 2. tbl. 2018. Heimildarskrá má finna í prentútgáfu.
Hægt er að gerast áskrifandi að Þjóðmálum með því að senda tölvupóst á askrift@thjodmal.is.