Ólympíuskákmótið, það 43. í sögunni, er haldið í Batumi í Georgíu dagana 24. september til 5. október. Batumi, sem er við Svartahafið, er stundum kallað Las Vegas Georgíu. Þar eru spilavíti víðs vegar og þangaðflykkjast til dæmis Tyrkir og Ísraelsmenn í fjárhættuspilin sem eru bönnuð í þeirra löndum.
Ólympíuskákmót eru einn stærsti og fjölmennasti íþróttaviðburður heims. Saga Ólympíuskákmótanna er löng. Fyrsta opinbera Ólympíuskákmótið var haldið í London árið 1927 en fyrir þann tíma höfðu tvo óopinber Ólympíuskákmót farið fram; í París 1924 og Búdapest og 1926. Mótin voru haldin reglulega fram til ársins 1939 en þá féllu þau niður vegna heimsstyrjaldarinnar. Síðan 1950 hafa mótin ávallt verið haldin á tveggja ára fresti. Alls hafa verið haldin 42 opinber Ólympíuskákmót. Óopinbert Ólympíuskákmót var haldið árið 1936 í München í Þýskalandi nasismans. Hitler sló af kröfunum og gyðingar fengu að taka þátt. Gráglettni örlaganna var að sveitir Ungverjalands og Póllands, að mestu leyti skipaðar gyðingum, unnu heimamenn.
Árið 1976 var Ólympíuskákmótið haldið í Haifa í Ísrael. Þá mótmæltu flestar arabaþjóðir og héldu sitt eigið Ólympíuskákmót í Trípólí sem var lítið og fámennt. Það snerist svo við þegar mótið var haldið í Dubai í Sameinuðu arabísku furstadæmunum árið 1986. Þá mættu Ísraelsmenn ekki. Pólítík hefur því sett stóran svip á Ólympíuskákmótin í gegnum tíðina. Armenar mættu heldur ekki á Ólympíuskákmótið í Bakú 2016 í Aserbaídsjan enda eiga þjóðirnar formlega í stríði.
Allir eru velkomnir á Ólympíuskákmótið í Batumi í Georgíu, nema þeir sem hafa komið til Suður-Ossetíu og Abkasíu, en þau héruð voru hertekin af Rússum árið 2008. Þeir sem hafa komið þangað geta verið handteknir við komuna til Georgíu, sem lítur á þau sem sitt landsvæði.
Ísland á Ólympíuskákmótum í gegnum tíðina
Íslendingar hafa alls tekið þátt 37 sinnum á Ólympíuskákmóti; fyrst á þriðja Ólympíuskákmótinu árið 1930. Síðan 1952 hefur Ísland ávallt tekið þátt. Þess fyrir utan tefldi Ísland á hinu umdeilda Ólympíuskákmóti í Þýskalandi nasismans árið 1936.
Íslandi hefur oftsinnis gengið vel á Ólympíuskákmóti. Fræg er þátttakan á Ólympíuskákmótinu í Buenos Aires 1939 sem fram fór í stríðsbyrjun. Þá þurftu íslensku keppendurnir að ferðast í þrjár vikur til að komast til baka!
Þá vann liðið b-keppnina og Copa Argentina-bikarinn, sem var mikið afrek. Tímabilið 1984-1996 var sannkallað gullaldartímabil Íslands. Þá endaði íslenska liðið aldrei neðar en í 22. sæti og þrívegis á topp 10. Besti árangurinn var í Dubai 1986 þegar íslenska liðið endaði í fimmta sæti. Um það afrek skrifuðu dr. Kristján Guðmundsson og Jón L. Árnason stórgóða bók; Skákstríð við Persaflóa.
Ísland hefur heldur gefið eftir á heimsvísu þrátt fyrir að vera enn með sterkasta landslið heims miðað við höfðatölu! Síðustu ár hefur íslenska liðið endað í kringum í 40. sæti.
Kvennaliðið
Á Ólympíuskákmótum er teflt í opnum flokki og kvennaflokki. Skákkonur geta teflt í opnum flokki og gera það stundum. Judit Polgar tefldi ávallt í opnum flokki fyrir Ungverjaland.
Ísland sendi fyrst kvennalið til keppni árið 1978. Þá ætlaði Skáksambandið ekki að senda lið. Birna Norðdahl, sem þá var ein sterkasta skákkona landsins, barði þá í borðið og sagði „Við förum samt“ og safnaði sjálf fullum farareyri. Ísland sendi ekki lið á árunum 1986-1998, enda voru þá afar fáar konur teflandi hérlendis.
Síðan árið 2000 hefur íslenskt kvennalið ávallt tekið þátt. Kvennaliðið hefur síðustu ár verið í kringum 50-60. sæti.
Íslensku liðin nú
Íslenska liðið í opnum flokki skipa stórmeistararnir Héðinn Steingrímsson, Jóhann Hjartarson, Hannes Hlífar Stefánsson og Helgi Áss Grétarsson ásamt alþjóðlega meistaranum Guðmundi Kjartanssyni. Helgi Áss, sem varð óvænt Íslandsmeistari í skák fyrr á árinu, er að tefla á fyrsta Ólympíuskákmóti sínu í 16 ár. Helgi Ólafsson er liðsstjóri.
Íslenska kvennaliðið skipa Lenka Ptácníková, stórmeistari kvenna, Guðlaug Þorsteinsdóttir, Nansý Davíðsdóttir, Jóhanna Björg Jóhannsdóttir og Sigurlaug R. Friðþjófsdóttir.
Nansý, sem er aðeins 16 ára, er að tefla á fyrsta Ólympíuskákmóti sínu. Guðlaug tefldi á Ólympíuskákmótinu árið 1978, fyrir 40 árum, þegar kvennaliðið tók fyrst þátt, þá á svipuðum aldri og Nansý nú. Björn Ívar Karlsson er liðsstjóri.
Íslenska liðið í opnum flokki er í kringum 40. sæti á styrkleikalistanum af um 180 þjóðum. Kvennaliðið er í um 60. sæti af um 150 þjóðum sem taka þátt.
Ingvar Þór Jóhannesson er fararstjóri hópsins. Greinarhöfundur mun sitja fund alþjóðaskáksambandsins. Ísland á þrjá skákstjóra á mótinu. Omar Salama, varaforseti Skáksambandsins, er einn yfirdómara mótsins en að auki eru Kristján Örn Elíasson og Ingibjörg Edda Birgisdóttir meðal skákstjóra á mótinu.
Flestir sterkustu skákmenn heims nema heimsmeistarinn
Í opnum flokki eiga Bandaríkjamenn stigahæstu sveitina. Slíkt heyrir til mikilla tíðinda, en Rússar og þar áður Sovétmenn hafa átt stigahæsta liðið frá upphafi skákstiga. Rússar eru næststigahæstir og Kínverjar þeir þriðju.
Kínverjar eru stigahæstir í kvennaflokki, Úkraínukonur næststigahæstar og heimamenn í Georgíu í þriðja sæti. Mikil hefð er fyrir kvennaskák í Georgíu.
Nánast allir sterkustu skákmenn heims tefla í Batumi. Heimsmeistarinn, hinn norski Magnús Carlsen, situr þó heima. Hann kýs að tefla frekar á Evrópumóti taflfélaga í október með norskum skákklúbbi sínum, en hann teflir heimsmeistaraeinvígi við Fabiano Caruana í London í nóvember næstkomandi. Meira að segja indverski tígurinn Vishy Anand teflir á Ólympíuskákmótinu, en hann hefur ekki teflt á slíku móti síðan 2004.
Baráttan utan skákborðsins
Í síðasta tölublaði Þjóðmála sögðum við frá baráttunni um forsetaembætti FIDE. Þar berjast þrír um forsetastöðuna.
Þar kljást Grikkinn Georgios Makropoulos, Rússinn Arkady Dvorkovich og enski stórmeistarinn Nigel Short um vegtylluna.
Við sögðum frá þeim Makropoulos og Short í síðasta tölublaði en þá var framboð Rússans ekki komið fram. Dvorkovich þessi er ekkert peð. Hann var áður aðstoðarforsætisráðherra Rússlands og var formaður mótsnefndar HM í fótbolta í Rússlandi. Baklandið er sterkt, sjálfur Vladimír Pútín! Rússar beita óspart pólitískum þrýstingi, sem varð t.d. til þess að skipt var um FIDE-fulltrúa í Serbíu.
Nigel Short er ekki talinn eiga neinn möguleika á sigri. Hann vonast til þess að hvorugur hinna fái meirihluta í fyrstu umferð. Þá geti hann komið sínum áherslum að í samningaviðræðum við annan hvorn hinna, væntanlega þá Dvorkovich, en enski stórmeistarinn er svarinn óvinur Makropoulos.
Það flækir málin að samlandi Shorts, Malcolm Pein, er meðframbjóðandi Makropoulos og greiðir einnig atkvæði fyrir hönd enska skáksambandsins. Fyrir skemmstu var mynd tekin saman af Short og Dvorkovich þar sem þeir gagnrýndu báðir Makropoulos. Sumum finnst þessi „samvinna“ Englands og Rússlands á skáksviðinu sérkennileg í ljósi samskipta þjóðanna, sem eru við frostmark eftir morðtilraun á Skripal-feðginunum.
Á þessu augnabliki er erfitt að segja til um hvort Grikkinn eða Rússinn vinni. Örugglega á mikið eftir að ganga á bæði fyrir framan og bak við tjöldin í Batumi.
Skákáhugamenn og áhugamenn um skákpólitík geta fylgst með á www.skak.is. Þar verða baráttunni bæði innan og utan skákborðsins gerð góð skil á meðan á mótinu stendur.
Höfundur er forseti Skáksambands Íslands.
—-
Greinin birtist í hausthefti Þjóðmála, 3. tbl. 2018. Hægt er að gerast áskrifandi að Þjóðmálum með því að senda tölvupóst á askrift@thjodmal.is eða skilaboð á facebook síðu ritsins. Ritið færst einnig í lausasölu í verslunum Pennans/Eymundsson.