Skólamál á tímamótum

Hildur Björnsdóttir borgarfulltrúi.

Meðal Norðurlandaþjóða er hagvöxtur mestur á Íslandi. Hérlendis þurfa hlutfallslega fæstir á félagslegri aðstoð að halda. Þetta sýnir nýleg skýrsla Norrænu ráðherranefndarinnar. Samt sem áður mælist brottfall úr skóla mest hérlendis, en um þrjátíu prósent framhaldsskólanema ljúka ekki námi. Ísland hefur lægsta menntunarstig allra Norðurlandaþjóða og hér er mestur munur á getu nemenda af erlendum uppruna og innlendum.

Ísland er á niðurleið í stærðfræðilæsi, lesskilningi og vísindalæsi samkvæmt niðurstöðum PISA-könnunar. Ísland er undir OECD-meðaltali í öllum mældum námsgreinum og mælist verst allra Norðurlandaþjóða. Drengir eru helmingi líklegri en stúlkur til að flosna upp úr námi hérlendis. Eins geta 30% drengja og 12% stúlkna ekki lesið sér til gagns. Læsi er grunnforsenda þess að einstaklingur verði virkur þátttakandi í lýðræðissamfélagi. Staðan er því alvarleg.

Íslenskt skólakerfi hefur brugðist. Við drögumst aftur úr í samanburði þjóða. Ætli Íslendingar að standa fremstir í efnahagslegum og félagslegum samanburði þarf að lyfta grettistaki í menntamálum. Eitthvað þarf að breytast.

Einkarekstur í skólakerfinu

Víða um heim starfa skólar á bæði leik- og grunnskólastigi, reknir á sjálfstæðum grunni. Þeir tilheyra ekki opinberum rekstri skólakerfis. Þessir sjálfstæðu skólar eru almennt litrík viðbót við skólaflóru hvers lands. Þeir hafa gjarnan kynnt til leiks nýstárlega hugmyndafræði og nýjar framsæknar skólastefnur. Þeir hafa veitt foreldrum fleiri valkosti í skólamálum og tækifæri til að velja milli ólíkra áherslna í uppeldi og menntun barna sinna.

Hugmyndir um einkarekstur skóla vekja víða ugg. Upp vakna hughrif um bandaríska einkaskóla, himinhá skólagjöld og verulega stéttaskiptingu. Sjálfstæðir skólar á Norðurlöndum, og víða í Evrópu, eru þó gjarnan af allt öðrum meiði. Þeir eru almennt styrktir af almannafé og starfa samkvæmt námsskrám og lagaskyldu um að uppfylla kröfur um námsmarkmið og aðbúnað í skólum.

Árið 2008 var lögum um grunnskóla breytt hérlendis á þann veg að einkareknir skólar sem njóta viðurkenningar ríkisins skuli fá tiltekið lágmarksframlag frá sveitarfélögum fyrir hvern nemanda. Lágmarksframlagið nemur 75% af meðalrekstrarkostnaði á hvern nemanda í öllum opinberum grunnskólum landsins. Þetta takmarkaða opinbera framlag veldur því að rekstur einkarekinna skóla er háður innheimtu skólagjalda.

Framlög sveitarfélaga mega þó vera hærri en sem nemur þessu lögbundna lágmarksframlagi. Til að mynda hefur Garðabær veitt einkareknum grunnskólum í sveitarfélaginu sömu framlög á nemanda og bæjarreknum grunnskólum. Þó með því skilyrði að skólarnir innheimti ekki skólagjöld.

Fjölbreytileiki í fyrirrúmi

Hérlendis eru einkareknir leikskólar 37 talsins, en þá sækja um 15% allra leikskólabarna. Einkareknir grunnskólar eru 13 talsins en nemendur þeirra eru um 2,3% allra grunnskólabarna landsins. Fjölbreytileiki skólakerfisins er takmarkaður.

Samanburðurinn er áhugaverður við aðrar Norðurlandaþjóðir. Í Danmörku eru 12% allra grunnskólabarna í sjálfstæðum skólum en í Kaupmannahöfn er fjórðungur nemenda í sjálfstæðum skólum. Í Noregi eru um 57% allra leikskóla einkarekin. Árið 2014 voru um 20% leikskólabarna í Svíþjóð og um 17% leikskólabarna í Danmörku í einkareknum leikskólum. Ísland er því verulegur eftirbátur nágrannaþjóðanna hvað varðar einkarekstur í skólakerfinu.

Skýringin liggur eflaust meðal annars í því að einkaaðilum er gert nær ókleift að stofna leik- og grunnskóla. Engir opinberir styrkir bjóðast svo mæta megi stofnkostnaði við húsnæði og búnað. Eins er opinbert framlag með hverju skólabarni takmarkað með þeim hætti sem fyrr er lýst. Þannig hafa sveitarfélög tryggt sér hálfgerða einokun á uppeldi og menntun barna – einokun sem á öðrum samfélagssviðum, til að mynda í atvinnulífi og viðskiptalífi, þykir draga með óviðunandi hætti úr frelsi og fjölbreytni. Samfélagið þarf að treysta foreldrum betur til að velja þá menntun sem hentar börnum þeirra best.

Holland í fremstu röð

Holland mælist meðal efstu þjóða í PISAkönnunum, jafnvel ofar en fyrirheitna landið Finnland. Í Hollandi er löng hefð fyrir einkareknum skólum, en um 70% allra grunnskólabarna sækja nám í sjálfstæðum skólum. Starfræktir eru margs konar skólar á grunnskólastigi og réttur manna til að stofna skóla hefur þótt afar mikilvægur. Um þann rétt er sérstaklega fjallað í stjórnarskrá landsins. Hefur stjórnarskrárákvæðið tryggt að allir skólar njóti jafnræðis í fjármögnun af hálfu hins opinbera.

Grunnskólar í Hollandi innheimta engin skólagjöld, óháð rekstrarformi. Þannig er foreldrum af ólíkum efnahag tryggt val milli opinberra skóla og einkaskóla. Með jöfnum opinberum framlögum í bæði kerfi má jafna aðstöðumun barna – þannig fá öll börn jöfn tækifæri til að sækja ólíka skóla óháð efnahag foreldra.

Sjálfstæðir skólar í Hollandi hafa víða vakið athygli fyrir framúrskarandi menntun og góðan rekstur. Skólarnir keppa um nemendur og hvatinn til framfara er mikill. Ein helsta ástæðan þykir sú að skólarnir búa við meiri sveigjanleika í skólastarfi og byggja á nánari samskiptum við foreldra. Hollenska skólakerfið er gott dæmi þess að aukið valfrelsi og meiri samkeppni í skólamálum leiðir til árangurs.

Jöfn tækifæri

Rekstrarumhverfi sjálfstæðra skóla hérlendis er erfitt. Það er augljóst, enda opinber framlög til sjálfstæðra skóla almennt takmörkuð við 75% af framlögum til bæjarrekinna skóla. Innheimta skólagjalda bætir ekki upp þennan fjárhagslega mismun. Auk þess getur innheimta skólagjalda gert nemendahópinn einsleitan, enda ekki öllum kleift að greiða með börnum sínum skólagjöld. Börn efnameiri foreldra eiga nú aukin tækifæri til að velja milli ólíkra skóla hérlendis. Þannig ýtir núverandi fyrirkomulag, sem síður styður við einkarekstur í skólakerfinu, enn frekar undir stéttaskiptingu meðal barna.

Það er réttlætismál að tryggja jöfn opinber framlög með hverju barni í skólakerfinu, óháð rekstrarformi þess skóla sem um ræðir. Þannig kæmust sjálfstætt starfandi leik- og grunnskólar hjá innheimtu skólagjalda. Þannig mætti tryggja öllum börnum jöfn tækifæri til þeirrar menntunar sem býðst, óháð efnahag foreldra.

Frelsi og val

Mikilvægt er að tryggja frelsi og val í skólamálum. Lykilforsenda valfrelsis er fjölbreyttara rekstrarform. Þannig skapast svigrúm til framþróunar og tækifæri til nýsköpunar.

Það hefur sýnt sig að menntakerfi sem veitir kennurum og skólastjórnendum aukið sjálfstæði skilar betur undirbúnum nemendum. Eins sýna rannsóknir að sjálfstæðir skólar veita stjórnendum og kennurum gjarnan aukið frelsi, svigrúm og sjálfstæði í starfi. Skólarnir bjóða jafnan hærri laun, meiri hlunnindi og aukið faglegt frelsi – enda mælist starfsánægja gjarnan meiri.

Við þurfum aukið valfrelsi foreldra og tryggari starfsgrundvöll fyrir einkarekna skóla. Einkaframtak í skólakerfinu ýtir undir framfarir og nýsköpun – og stuðlar um leið að aukinni fjölbreytni öllum til heilla.

Niðurlag

Íslensku skólakerfi er vandi á höndum. Við stöndum ekki nægilega sterk í alþjóðlegum samanburði. Námsárangur við lok grunnskóla er slakur og menntakerfið hefur brugðist í undirbúningi fyrir síðari stig skólagöngu. Við stöndum á tímamótum. Eitthvað þarf að breytast. Mikilvægt er að hefja umræðu um ólík rekstrarform og tækifærin í hinu sjálfsprottna. Svo stuðla megi að aukinni fjölbreytni og fjölgun ólíkra valkosta þarf að styðja betur við einkaframtakið. Ýta þarf undir nýbreytni og framþróun – það verður lykill að árangri.

 

Höfundur er borgarfulltrúi fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Reykjavík.

  • Greinin birtist í hausthefti Þjóðmála, 3. tbl. 2018. Hægt er að gerast áskrifandi að Þjóðmálum með því að senda tölvupóst á askrift@thjodmal.is. Ritið færst einnig í lausasölu í verslunum Pennans/Eymundsson.