Ríkislottóið sem elskar fátækt

Það er stundum sagt að lottó sé í raun skattur á heimsku, eða a.m.k. þá sem kunna ekki stærðfræði – það fer eftir því hversu grófir menn vilja vera. Ástæðan er einfaldlega sú að vinningsmöguleikarnir eru svo stjarnfræðilega litlir að það liggi í augum uppi að kaup á lottómiða er afskaplega slæm fjárfesting.

Í grein sem Arthur C. Brooks, forseti bandarísku hugveitunnar American Enterprise Institute, birti í Wall Street Journal sl. haust fjallar hann um Powerball lottóið sem spilað er í Bandaríkjunum. Powerball er spilað í flestum ríkjum vestanhafs og er í eigu þeirra ríkja þar sem það er spilað. Powerball er m.ö.o. ríkislottó og ágóðinn af því er notaður til að fjármagna ýmis gæluverkefni stjórnmálamanna. Brooks rifjar upp að stjórnmálamenn hafi ætlað sér að nýta hagnaðinn af lottóinu til að berjast gegn fátækt, en raunin sé sú að lottóið feli í raun í sér aukin útgjöld þeirra sem minna hafa á milli handanna.

Brooks bendir á að tekjur hins opinbera af Powerball lottóinu sé um 70 milljarðar Bandaríkjadala á ári hverju. Hagnaðurinn af lottóinu er um 33%, sem er mun hærri framlegð en hjá einkareknum veðmálafyrirtækjum og spilavítum. Með öðrum orðum, það eru meiri líkur á því að vinna með því að heimsækja spilavíti heldur en að spila í ríkislottóinu.

Að sögn Brooks eru þeir sem fátækari eru stærstu viðskiptavinir lottósins. Vissulega eru þeir til sem kaupa miða öðru hvoru, en rannsóknir sýni mikil tengsl milli fátæktar og kaup á lottómiðum. Þannig kaupir fátækasti þriðjungur um helming allra lottómiða vestanhafs, sem er einmitt ástæðan þess að lottó sé auglýst mikið í fátækari hverfum.

„Þú gætir sagt að hér sé um að ræða skaðlausa skemmtun en þeir sem fátækari eru sjá það ekki með þeim hætti. Þeir hafa tilhneigingu til að líta á kaup á lottómiða sem fjárfestingu,“ segir Brooks og vísar í rannsókn frá árinu 1990, sem framkvæmd var af þeim Charles Clotfelter og Philip Cook í Duke háskólanum. Þar kemur fram að þeir sem þéni undir 30 þúsund dali á ári séu líklegri til að spila lottó peninganna vegna frekar en til skemmtunar. Brooks segir að það komi í sjálfu sér ekki á óvart, enda séu lottómiðarnir auglýstir þannig og auglýsingunum meðvitað beint að þeim sem hópum sem hafa minnst á milli handanna. Þannig séu lagðar fyrir fátækt fólk tálsýnir um auðæfi, sem séu með öllu óraunhæfar.

Brooks bendir á að líkurnar á því að vinna í lottóinu séu 1 á móti 292 milljónum. Aftur á móti séu til gögn sem sýni að þeir sem ekki hafa lokið háskólaprófi telji líkurnar á vinningi 40% hærri en þær eru í raun og veru, á meðan þeir sem lokið hafa prófi hafi raunhæfari mynd af vinningsmöguleikum. Þá sé jafnframt algengt að kaupendur á lottómiðum kaupi miða sína á stöðum sem hafi áður selt vinningsmiða, þó staðreyndin sé sú að lottótölur hverju sinni komi upp af algjöru handahófi. Brooks vísar í rannsókn frá árinu 2008 sem sýni að staðir sem selt hafi vinningsmiða séu líklegir til að auka sölu á lottómiðum um 38% í vikunni á eftir. Þetta eigi sérstaklega við á svæðum hvar íbúar hafi hætt snemma í skóla og/eða reiða sig að miklu leyti á hið opinbera velferðarkerfi. Sama rannsókn sýni að þeir sem minna hafi á milli handanna verji hluta af því fjármagni sem annars hefði farið í matarinnkaup og greiðslur af lánum og leigu til lottókaupa.

„Það er ákveðin kaldhæðni fólgin í því að hið opinbera skuli verja milljörðum í matar- og húsnæðisúrræði fyrir fátækt fólk á sama tíma og það hvetur þessa sömu einstaklinga til að verja fjármagni sínu í ríkislottóið,“ segir Brooks í grein sinni og veltir því síðan fyrir sér hvort mögulega sé til meiri mótsögn en sú sem felst í því að ota lottómiðum að fátæku fólki og láta sama fólk skrá sig fyrir velferðarúrræðum og gera það enn fjárhagslega háðara hinu opinbera.