Maríusystur í Darmstadt

Kór Maríusystra syngur af svölum kapellunnar.

Eina septembernótt árið 1944 var miðborg Darmstadt í Þýskalandi nánast jöfnuð við jörðu í sprengjuregni sem varð að minnsta kosti 11 þúsund borgarbúum að aldurtila. En gereyðilegging borgarinnar markaði líka nýtt upphaf. Tvær ungar konur í Darmstadt, dr. Klara Schlink og Erika Madauss, höfðu starfað sem leiðtogar í biblíuskóla og beðið fyrir vakningu meðal stúlknanna sem störfuðu með þeim. Upp úr þessum bænahópi spratt samfélag Maríusystra, sem þær dr. Klara og Erika veittu forstöðu. Þær tóku sér ný nöfn, Klara varð Móðir Basílea og Erika Móðir Martyría.

Móðir Basílea lýsti því svo að Guð hefði talað til sín í gegnum þessi ritningarorð: „Og þeir skulu gera mér helgidóm, að ég búi mitt á meðal þeirra.“

Úr varð að systurnar reistu kapellu með eigin höndum úr múrsteinum sem þær söfnuðu saman úr rústum Darmstadt-borgar, en samfélag þeirra telst formlega stofnað 1947.

Fyrsta systraheimilið byggðu þær sömuleiðis sjálfar og öfluðu sér tæknikunnáttu og byggingarefnis þrátt fyrir að eiga aðeins 30 mörk í sjóði. Þessi hús og fjöldi annarra risu næstu áratugi án þess að nokkru sinni væri slegið lán eða að hið opinbera veitti fyrirgreiðslu. Saga Maríusystra í Darmstadt er því mikið undur og táknþrungin fyrir hið nýja sambandsríki sem óx úr rústum stríðsins. Hún markar afturhvarf til kristinna gilda sem nasistar höfðu vanhelgað.

Á evangelískum grunni

Klausturlíf er vel þekkt meðal rómverskkaþólskra og í Austurkirkjunni. Aftur á móti er það ákaflega sjaldgæft í söfnuðum mótmælenda, en samfélag Maríusystra er stofnað á evangelískum grunni innan lúthersku kirkjunnar í Þýskalandi.

Maríusystur eru þó fjárhagslega óháðar kirkjunni og samfélag þeirra er sjálfstætt meðal annars í þeim skilningi að þar má ekki einungis finna systur úr lútherskum söfnuðum heldur einnig úr rómverskkaþólsku kirkjunni, ensku biskupakirkjunni, frjálsum söfnuðum og ýmsum öðrum kirkjudeildum, en Móðir Basílea leitaðist við að stuðla að eindrægni meðal kristinna manna og Maríusystur hafa meðal annars átt gott samstarf við fjarlæga söfnuði rétttrúnaðarkirkjunnar og koptísku kirkjuna svo dæmi séu tekin.

Systurnar reistu byggingarnar í Kanaan með eigin höndum.

Systrunum er ekki heimilt að giftast, rétt eins og gildir um kaþólskar nunnur, en hver sem er getur gengið í systrasamfélagið svo fremi sem hún er 18–30 ára, ógift og hafi hlotið köllun til starfsins. Þær eru nú um 200 talsins, af mörgu þjóðerni og starfa um víða veröld. Starfsstöðvarnar eru í tólf löndum; í Ástralíu, Bandaríkjunum, Brasilíu, Bretlandi, Danmörku, Finnlandi, Hollandi, Ísrael, Japan, Kanada, Noregi og Paragvæ, auk höfuðstöðvanna í Þýskalandi.

Á dögum þriðja ríkisins hafði dr. Klara Schlink hafnað stefnu nasista þess efnis að Gyðingar mættu hvorki vera starfsmenn kirkna né opinberir starfsmenn, en hún var á þeim tíma forseti kvennadeildar Kristilegra námsmannasamtaka Þýskalands. Þessi afstaða hennar varð til þess að hún var litin hornauga af yfirvöldum þriðja ríkisins og yfirheyrð af Gestapo. Sem Móðir Basílea að stríði loknu samsamaði hún sig sekt þjóðar sinnar með því að heimsækja þá staði í nágrannalöndunum þar sem nasistar höfðu framið grimmdarverk.

Móðir Basílea og Móðir Martyría. Þær eru nú báðar látnar.

Í viðleitni til að bæta fyrir syndir nasista gengust Maríusystur fyrir stofnun gistiheimilis í Jerúsalem handa þeim sem höfðu lifað af helför nasista. Þá taka systurnar enn virkan þátt í minningarathöfnum um fórnarlömb nasismans víðs vegar, meðal annars í hinum alræmdu útrýmingarbúðum.

Í sönnum kærleika og gleði

Ég varð þeirrar gæfu aðnjótandi að fá að dvelja um nokkurra daga skeið meðal Maríusystra í júní á þessu ári og kynnast starfsemi þeirra, en ég get vart hugsað mér friðsælli stað. Kapellan og fyrsta systraheimilið, sem áður voru nefnd, urðu upphafið að dálitlum landskika sem fékk nafnið Kanaan, sem merkir fyrirheitna landið. Þar hefur risið fjöldi bygginga, stór kirkja og víðáttumikill lystigarður þar sem áður voru tún og engi. Á sjötta áratugnum stóð til að þessi landareign yrði skorin sundur af hraðbraut, en svæðið var þá í eigu fjölda manns.

Skrúðgarðurinn í Kanaan er undurfagur.

Móðir Basílea hafði fengið vitrun þess efnis að þarna skyldi ræktaður garður systrafélagsins og er sagan af því hvernig allt þetta svæði varð að hinum fagra skrúðgarði með miklum undrum.

Í hluta landareignarinnar er bænagarður þar sem píslarsagan er rakin frá Getsemane til Golgata með áhrifaríkum hætti. Þar, sem og víðs vegar um landareignina, hefur lágmyndum og líkneskjum verið haganlega komið fyrir, en öll þau listaverk voru unnin af systrunum sjálfum.

Systrunum er skylt að ganga veg trúarinnar og vera Guði algjörlega háðar með allar nauðsynjar. Í Kanaan lifa þær í sönnum kærleika, einingu og gleði. Hið fallega og friðsæla umhverfi er sannarlega mikil andleg uppörvun.

Sjálfur fékk ég vistlegt herbergi í gestaskála. Veran hafði ákaflega sterk áhrif á mig, ekki hvað síst dagleg bænastund systranna í kapellunni, þar sem heyra má himneskan söng þeirra.

Boðun fagnaðarerindisins

Meginverkefni Maríusystra hefur vitaskuld alla tíð verið boðun orðs Guðs og bænagjörð, en Móðir Basílea var afkastamikill rithöfundur. Systurnar eignuðust brátt fjölritunarvél, en hún dugði skammt og þá var stofnuð prentsmiðja og útgáfufyrirtæki. Ritverk Móður Basíleu eru á annað hundrað og þau hafa verið þýdd á yfir sextíu tungumál, þar með talið íslensku. Hún samdi einnig stuttar útleggingar á ritningunni sem þýddar hafa verið á fleiri en 80 tungumál og hafa fjölmargir, víðs vegar um heiminn, vitnað um að þeir hafi snúist til trúar á Krist eftir að hafa lesið rit hennar.

Greinarhöfundur með Systur Lumenu sem er norsk að uppruna.

Systurnar reistu einnig hljóðver til útvarpssendinga og síðar myndver til sjónvarpsupptöku. Hljóðsnældur og myndbönd fóru því einnig að berast frá systrunum til viðbótar við bækurnar. Þær smíða sömuleiðis svokallaða lofgjörðarskildi með biblíu- eða sálmaversum sem komið hefur verið fyrir á vinsælum ferðamannastöðum víðs vegar um heiminn, til að mynda við Miklagljúfur í Bandaríkjunum, Himalajafjöll í Nepal, Kilimanjaro í Kenýa og á Jungfrau í Sviss, en í svissnesku Ölpunum reistu systurnar sömuleiðis tvær kapellur. Til skamms tíma voru lofgjörðarskildir frá Maríusystrum á fjórum stöðum hérlendis; við Goðafoss, Þingvallakirkju, á Hornbjargi og í Vestmannaeyjum, en mér er ókunnugt um hvort þá er enn að finna á þessum stöðum og þá hvort þeim hefur verið haldið við.

Maríusystur á Íslandi

Systurnar fara víða til að boða fagnaðarerindið. Þær heimsækja gjarnan söfnuði og kirkjur sem óska eftir samkomum, helgisamverum eða kyrrðardögum með biblíutímum og öðrum samverum. Margir norrænir hópar sem og einstaklingar hafa heimsótt Kanaan síðustu áratugi, þar af nokkrir Íslendingar. Frá árinu 1982 og allt þar til um aldamótin komu Maríusystur árlega hingað til lands og héldu samkomur.

Í fyrstu heimsókninni, árið 1982, komu hin þýska systir Phanuela og finnska systir Júlíana. Þær heimsóttu þá fjölmarga söfnuði og kirkjur víðs vegar um land. Þrátt fyrir að systurnar séu í minni tengslum við Ísland nú en áður hafa verið starfandi bænahópar meðal Maríusystra sem biðja reglulega fyrir Íslandi og Íslendingum.

Fransiskanar

Greinarhöfundur með bróður Rufino.

Árið 1967 bættust bræður í hópinn, en ákveðið var að kenna þá við heilagan Frans frá Assisí (1182–1226) sem stofnaði munklífi það sem við hann er kennt árið 1209, en móðir Basílea hafði mikið dálæti á heilögum Frans. Fransiskanarnir í Kanaan eru nú sjö, en voru um tíma á þriðja tug talsins, og búa í bræðraheimili sem er lágreist og látlaus bygging.

Þessi viðbót varð mikil lyftistöng fyrir samfélag Maríusystra, en bræðurnir tóku að sér margvísleg störf. Þeir hafa einnig verið í sambandi við fransiskana innan Rómarkirkjunnar og eru, líkt og systurnar, úr ýmsum kirkjudeildum.

Einn fransiskana í Kanaan, bróðir Kaleb heitinn, var ýmsum Íslendingum kunnur, en hann tók þátt í Hátíð vonar sem haldin var í Reykjavík árið 2013 og kom aftur hingað til lands árið eftir vegna Kristsdagsins sem haldinn var í Hörpu.

Gildi lifandi kristins samfélags

Á okkar tímum er tískan að hrista af sér kristindóminn, troða hann fótum eða þagga í hel þrátt fyrir að margt það besta í evrópskri menningu sé af honum sprottið. En hvað sem öllu andstreymi líður er kristin trú lifandi og virkur áhrifavaldur í samfélögum okkar og vonandi má svo verða um alla framtíð.

Lifandi kristin samfélög á borð við Kanaan í Darmstadt eru ákaflega þýðingarmikið fyrir vöxt og viðgang trúarinnar. Ég hvet sem flesta kristna menn og konur til að kynna sér störf Maríusystra og fransiskana í Kanaan og sækja þau heim eigi fólk þess kost. Frekari upplýsingar má nálgast á heimasíðunni kanaan.org.

Höfundur er doktorsnemi í lögfræði og sagnfræði.

Greinin birtist í sumarhefti Þjóðmála, 2. tbl. 2019. Hægt er að gerast áskrifandi að Þjóðmálum með því að senda tölvupóst á askrift@thjodmal.is eða skilaboð á facebook síðu ritsins. Ritið færst einnig í lausasölu í verslunum Pennans/Eymundsson.