Margt smátt gerir eitt stórt

Stóllinn Kollhrif var hannaður af Sölva Kristjánssyni hjá Studio Portland.

Pétur Blöndal, framkvæmdastjóri Samáls.

Ekki er það alltaf sem maður fær óvæntan glaðning í vinnunni. En það gerðist þó þarsíðustu jól þegar ágætur kollegi minn birtist í gættinni og afhenti mér formlega tvö notuð sprittkerti – og var glettinn í bragði. Þá hafði Samál hleypt af stokkunum ásamt endurvinnslugeiranum söfnunarátaki á álinu í sprittkertum. Það kom honum spánskt fyrir sjónir að álver á Íslandi beittu sér fyrir slíku átaki. Álið í einu sprittkerti vegur jú einungis um 0,9 grömm en álframleiðslan á Íslandi nemur 900.000 tonnum.

En safnast þegar saman kemur. Ekki er óvarlegt að áætla að í skammdeginu logi flest kerti á Íslandi miðað við margfræga höfðatölu. Og viðtökur almennings voru frábærar. Álbikararnir streymdu til Sorpu og Endurvinnslunnar, í dósagáma Grænna skáta og í tunnur Gámaþjónustunnar og Íslenska gámafélagsins, þar sem þeir voru flokkaðir frá. Svo mikið safnaðist að ákveðið var að þetta yrði varanlegur kostur í endurvinnslu á Íslandi. Í byrjun síðasta árs voru hönnuðir fengnir til að hanna vörur fyrir íslensk heimili úr endurunnu álinu. Sigga Heimis, Ingibjörg Hanna, Olga Ósk Ellertsdóttir og Studio Portland útfærðu hugmyndir sínar með Málmsteypunni Hellu og afraksturinn var sýndur á afmælisopnun Hönnunarmars í Hafnarhúsinu.

Á meðal álsins sem brætt var hjá Al álvinnslu voru sprittkertin tvö frá kolleganum ásamt hundruðum þúsunda sprittkerta, sem voru þó einungis brot af því sem safnaðist. Enn streymir álið úr sprittkertum inn til endurvinnslu og til skoðunar er að víkka út átakið til annars áls í hversdagsvörum. Og það var líka hugmyndin með átakinu – að vekja athygli fólks á því áli sem til fellur á heimilum og gildi þess að safna og endurvinna það.

Tímaskekkja að henda drykkjardósum úr áli

Stöðugt meiri áhersla er lögð á endurvinnslu áls í heiminum, en um 75% alls áls sem framleitt hefur verið eru enn í notkun. „Every Can Counts,“ er átak sem þau alþjóðlegu álfyrirtæki sem hér starfa hafa staðið fyrir víða um heim. Síðustu tvö árin hefur Samál beitt sér fyrir söfnun áls á Fiskideginum mikla, en þar er fiskinum pakkað í álpappír og drykkir eru í áldósum. Komið hefur verið upp skilvirku flokkunarkerfi og eru gestir hvattir til að leggja sitt af mörkum. Endurvinnsluskilaboðin rata til tugþúsunda gesta í þessum annáluðu veisluhöldum hinna gestrisnu Dalvíkinga, Gámaþjónustan sér um söfnunina og Fura sendir álið út til endurvinnslu.

Ekki er sama hvort áldósin er hálftóm eða hálffull. Hér á landi eru um 90% allra drykkjardósa úr áli endurunnin og hlutfallið er hvergi hærra en hér og á Norðurlöndum. Víst eru dæmi um að áldósum sé hent, en dæmin eru fleiri um að þær fari til endurvinnslu sem betur fer. Það er tímaskekkja að henda endurvinnanlegum drykkjarumbúðum! Í þessum mánuði bárust nýjar tölur um endurvinnslu áldósa í Evrópu árið 2017 og enn var slegið met, en 74,5% þeirra voru endurunnar. Það gera 31 milljarður dósa eða 420 þúsund tonn af áli. Til að setja það í samhengi er það tvöföld ársframleiðsla álversins í Straumsvík.

Einn helsti kostur álsins er að það má endurvinna aftur og aftur án þess það tapi upprunalegum eiginleikum sínum. Við þá endurvinnslu sparast 95% orkunnar sem fór í að framleiða það upphaflega. Sá orkusparnaður skiptir máli fyrir loftslagið. Almennt er það nefnilega orkuvinnslan sem losar mest við álframleiðslu á heimsvísu. Sú losun er hverfandi hér í landi endurnýjanlegrar orku, en álframleiðsla knúin af kolaorku losar tífalt meira af gróðurhúsalofttegundum og ál sem framleitt er með gasorku sexfalt meira.

Þetta þurfum við Íslendingar að hafa í huga þegar rætt er um loftslagsmál, því þau eru í eðli sínu hnattræn en ekki staðbundin. Um 50% af loftslagsvanda heimsins má rekja til brennslu jarðefnaeldsneytis, þar af um 30% til kolaorku. Orkuskipti eru því stóra viðfangsefnið og það skiptir höfuðmáli að orkusækinn iðnaður sé staðsettur þar sem orkan er endurnýjanleg.

Flugvélaflök sótt á heiðar

Afurðir Málmsteypunnar Hellu eru fjölbreyttar, en fyrirtækið framleiðir m.a. fyrir álver, sjávarútveg og ferðaþjónustu.

Það vita ekki allir að söfnun og endurvinnsla áls hefur tíðkast í áratugi á Íslandi. Á skömmtunarárunum um miðbik síðustu aldar var skortur á áli og öðrum málmum hér á landi. Þá urðu stofnendur fjölskyldufyrirtækisins Málmsteypunnar Hellu að sækja brotaál til sinnar framleiðslu, sem var að mestu fengið úr flugvélaflökum og gengu þeir jafnvel á fjöll til að sækja þau. Smám saman vatt það upp á sig og þar er endurunnið umtalsvert magn af áli á ári hverju, m.a. úr bílum og byggingum.

Þá vinnur Alur álvinnsla álið úr álgjalli sem til fellur við framleiðsluna hjá Norðuráli og í Straumsvík og er það endurnýtt í framleiðsluferli álveranna. Árlega tekur Alur við sjö þúsund tonnum af álgjalli og endurheimtir 2.500 tonn af áli. Söfnunarstöðvar í endurvinnslugeiranum safna svo áli sérstaklega og sjá Hringrás og Fura um að flytja það út til endurvinnslu, enda er það verðmætur málmur.

Verðmætt brotaál sem flutt er út til endurvinnslu frá Hringrás.

Það er skemmtileg staðreynd að stærsta renniverkstæði með ál á Íslandi er hjá stoðtækjaframleiðandanum Össuri. Þar er saginu safnað saman af starfsfólki og endurnýtt í framleiðsluferlinu og rennur andvirði þess í starfsmannasjóðinn. Það kæmi áreiðanlega svipur á kollega minn með sprittkertin tvö ef hann heyrði hverju sagið skilaði hjá Össuri.

Um endurvinnslu gildir nefnilega hið fornkveðna, að margt smátt gerir eitt stórt. Álið heldur vel verðgildi sínu við endurvinnsluna og skapar verðmæti fyrir þá sem því safna og einnig fyrir endurvinnslufyrirtækin, en það eru gjarnan lítil og meðalstór fjölskyldufyrirtæki í Evrópu. Þetta er svo mikilvægur tekjupóstur fyrir þann geira að hann berst fyrir því að brotaálið verði ekki selt úr álfunni – enda missi þá ESB af verðmætasköpuninni og þeirri dýrmætu orku sem býr í málminum.

Losunarheimildir hafa fimmfaldast í verði

Óhætt er að segja að bylting hafi orðið í loftslagsmálum, jafnt hér á landi sem erlendis. Almenningur hefur tekið við sér svo um munar og um leið rumska stjórnarmálamenn og fyrirtæki. Ekki þarf þó alltaf utanaðkomandi þrýsting til þess að fyrirtæki hugi að umhverfismálum, fjárfesti í tækninýjungum, nýti hráefni betur og skerpi á vinnulagi. Oftast nær er það einfaldlega skynsamlegt út frá rekstrarsjónarmiðum. Þannig hefur losun gróðurhúsalofttegunda frá álverum hér á landi dregist saman um 75% á hvert framleitt tonn frá árinu 1990, en sá árangur hefur náðst með agaðri kerrekstri, endurnýtingu flúorefna og fjárfestingum í öflugri hreinsivirkjum og framleiðslubúnaði.

Hér má sjá hversu mikið hefur dregið úr losun gróðurhúsalofttegunda á hvert framleitt tonn af áli frá 1990.

Stundum er talað um að leggja þurfi á kolefnisskatt eins og hann sé ekki til staðar á Íslandi, en þá gleymist að ákveðnir geirar heyra undir ETS-kerfið, viðskiptakerfi ESB um losunarheimildir. Hér á landi gildir það um málmframleiðendur, flugfélög og orkuver. Fyrirtæki í þessum geirum kaupa heimildir fyrir losun sína ár hvert. Verð á losunarheimildum hefur fimmfaldast frá árinu 2017 og miðað við gangverð þeirra má gera ráð fyrir að álverin greiði yfir milljarð fyrir þær á þessu ári. Íslensk stjórnvöld fá úthlutað samsvarandi uppboðsheimildum og geta selt þær, sem þýðir að andvirðið rennur í ríkissjóð.

Hér má sjá losun perflúorefna, sem er öflug gróðurhúsalofttegund, á hvert framleitt tonn af áli.

Reglur ESB gera ráð fyrir að helmingur tekna vegna sölu á uppboðsheimildum renni til loftslagsverkefna og samkvæmt skýrslu ESB var yfir 80% af uppboðstekjum aðildarríkja á árunum 2013-2015 varið til verkefna á sviði loftslags- og orkumála. EES-samningurinn hefur ekki að geyma sams konar reglu, þar sem ráðstöfun ríkisfjármála heyrir ekki undir gildissvið hans, og eru íslensk stjórnvöld því óbundin af því. Væntingar þeirra fyrirtækja hér á landi sem greiða fyrir losunarheimildir hljóta þó að liggja til þess að fjármunirnir skili sér til slíkra verkefna, enda eru þeir innheimtir undir merkjum loftslagsmála. Annars verður þetta eins og hver önnur skattheimta.

Það er áhugavert að í Noregi hafa stjórnvöld komið á fót ENOVA-fjárfestingarsjóðnum, sem heyrir undir umhverfis- og loftslagsráðuneytið. Enova styrkir verkefni sem eru til þess fallin að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, þróa orku- og umhverfistækni og efla raforkuöryggi. Á heimasíðu Enova kemur fram að það geti verið kostnaðarsamt fyrir fyrirtæki að fjárfesta í nýjasta og umhverfisvænsta búnaðinum. Þess vegna veiti sjóðurinn ríkisstyrki, sem ætlað er að tryggja að þau ráði við slíkar fjárfestingar, og nema þeir á hverju ári um tveim milljörðum norskra króna, eða rúmum 27 milljörðum íslenskra króna. Slíkir styrkir fjármögnuðu 40% af kostnaðinum við nýja kerlínu álvers Norsk Hydro í Karmøy, sem notar minni raforku við framleiðsluferlið, en styrkur Enova nam tæpum 22 milljörðum. Á meðal þeirra fyrirtækja sem komu að verkefninu voru íslensku verkfræðistofurnar Verkís og Mannvit.

Samstarfsvettvangur stjórnvalda og atvinnulífs

Samstarfsvettvangi í loftslagsmálum og grænum lausnum var hleypt af stokkunum 19. september síðastliðinn, en þar taka stjórnvöld og atvinnulíf höndum saman í baráttunni gegn loftslagsvánni.

Á stofnfundinum sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra: „Samstarfsvettvangur atvinnulífs og stjórnvalda um grænar lausnir er innblásinn af bjartsýnis- og sóknaranda gagnvart stórri áskorun og trú á nýsköpun.“

Ef árangur á að nást þurfa allir að ganga í takt. „Grænar lausnir spretta upp í fyrirtækjum landsins og skapa ómæld útflutningsverðmæti,“ sagði Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, við þetta tækifæri. „Atvinnulífið styður eindregið markmið um kolefnishlutleysi hér á landi bæði með því að draga úr losun kolefnis og að auka bindingu þess í jarðlögum og gróðri.“

Eggert Benedikt Guðmundsson, forstöðumaður samstarfsvettvangsins, rakti þríþætt hlutverk hans. Í fyrsta lagi að efla samstarf atvinnulífs og stjórnvalda við að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og stuðla að kolefnishlutleysi árið 2040. Í öðru lagi að vinna með fyrirtækjum að markaðssetningu grænna lausna á alþjóðamarkaði. Í þriðja lagi er vettvangnum ætlað að styðja við orðspor Íslands sem leiðandi lands á sviði sjálfbærni.

Metnaðarfullt þróunarverkefni

Óhætt er að taka undir mikilvægi nýsköpunar í þessum efnum. Ef atvinnulífið leggst á árarnar með öllum sínum frumkvöðla- og nýsköpunarþrótti er það vænlegasta leiðin til árangurs. Eins og alþjóð veit verða lausnirnar ekki til á kontórum stjórnsýslunnar. Það er hugvit og sköpunargleði fólks um allt land sem kallar þær fram. En með réttum hvötum geta stjórnvöld ýtt undir þá þróun.

Mig langar til að nefna tvö dæmi um það. Það vakti heimsathygli í fyrra þegar tvö af þeim alþjóðlegu álfyrirtækjum sem starfa hér á landi, Alcoa og Rio Tinto, hleyptu af stokkunum viðamiklu verkefni sem lýtur að þróun á kolefnislausum skautum, en það var gert í samstarfi við Apple og kanadísk stjórnvöld. Að baki verkefninu liggur margra áratuga rannsóknarvinna og ef hún skilar árangri, eins og stefnt er að árið 2024, verður hægt að breyta álverum þannig að útblásturinn verði súrefni en ekki koldíoxíð eða CO2. Það myndi vitaskuld umbylta álframleiðslu í heiminum. Vert er að geta þess að einnig er unnið að þróun kolefnislausra skauta hjá Nýsköpunarmiðstöð og hefur það verkefni fengið styrk úr Tækniþróunarsjóði.

Ef þróun kolefnislausara skauta verður að veruleika mun innleiðing þeirra draga nánast alfarið úr losun frá álframleiðslu hér á landi. En það sama á ekki við um álframleiðslu á heimsvísu. Meðallosun frá álframleiðslu í heiminum myndi einungis dragast saman um 20%. Ástæðan er sú að losun frá álframleiðslu stafar fyrst og fremst af orkuvinnslunni og kolefnislaus skaut breyta engu þar um. Þessi samanburður sýnir vel hversu loftslagsvænt það er að staðsetja orkusækinn iðnað á borð við álframleiðslu á Íslandi, þar sem orkan er sjálfbær og endurnýjanleg.

Gas í grjót

Annað þróunarverkefni sem vert er að nefna snýst um kolefnisbindingu, eða „gas í grjót“, en því var ýtt úr vör í júní. Í því felst að stóriðjan á Íslandi mun taka þátt í rannsókn á því hvort fýsilegt sé, bæði tæknilega og fjárhagslega, að binda kolefnisútstreymi hennar í berglögum með CarbFix-aðferðinni sem þróuð hefur verið við Hellisheiðarvirkjun. Jafnframt er unnið að því hjá stjórnvöldum að slík niðurdæling fáist metin innan ETS-kerfisins með losunarheimildir.

Orkuveita Reykjavíkur hefur þróað „CarbFix“- aðferðina í samstarfi við Háskóla Íslands og erlenda aðila frá árinu 2007. Aðferðin felst í því að CO2 er fangað úr jarðhitagufu, gasið leyst upp í vatni undir þrýstingi og vatninu dælt niður á 500-800 m dýpi í basaltjarðlög, þar sem CO2 binst varanlega í berggrunninum í formi steinda. Orka Náttúrunnar, dótturfélag OR, hefur nú rekið lofthreinsistöð og niðurdælingu við Hellisheiðarvirkjun samfellt í fimm ár með góðum árangri.

Sótt hefur verið um styrk frá Evrópusambandinu fyrir verkefnið úr sjóðnum „Horizon 2020“ og má vænta niðurstöðu úr því undir lok ársins. Ekki skortir því á að íslenskt atvinnulíf sæki fram í loftslagsmálum og þar er samtal atvinnulífs og stjórnvalda mikilvægt. Umgjörðin þarf að vera rétt og gagnkvæmur skilningur fyrir hendi. Um leið og nýsköpun er lykillinn að frekari árangri er það stór áskorun að atvinnulífið viðhaldi samkeppnishæfni sinni – þar er verk að vinna.

Sjálfbær stóll á loftslagsráðstefnu

Hönnuðirnir á afmælisopnun Hönnunarmars, frá vinstri: Ingibjörg Hanna, Olga Ósk, Sigga Heimis og loks Sölvi, Sóley og Karen hjá Studio Portland. (Mynd: BIG)

Það var ánægjulegt þegar ég heyrði af því að Sölvi Kristjánsson hjá Studio Portland hefði borið sigur úr býtum hér á landi í fyrrasumar í hönnunarsamkeppni á stólum sem framleiddir væru með sjálfbærum hætti. Stóllinn Kollhrif var afrakstur sprittkertaátaksins, en í hann eru notuð um 14.400 sprittkerti. Í umsögn dómnefndar sagði að stóllinn væri bæði „frumlegur og umhverfisvænn, gott dæmi um sjálfbæra hönnun“.

Norræna ráðherraráðið stóð fyrir samkeppninni og voru sigurstólarnir frá Norðurlöndum sýndir í norræna skálanum á loftslagsráðstefnunni í Katowice í Póllandi. Fyrr á þessu ári voru svo allir stólarnir í Norræna húsinu á Hönnunarmars. Vandfundið er betra dæmi um hversu öflugt hringrásarhagkerfið getur verið þegar allir leggja krafta sína saman. Næst þegar kollegi minn kemur færandi hendi með sprittkerti vísa ég honum til sætis í stólnum og óska honum til hamingju.

Höfundur er framkvæmdastjóri Samáls.

Greinin birtist í hausthefti Þjóðmála, 3. tbl. 2019. Hægt er að gerast áskrifandi að Þjóðmálum með því að senda tölvupóst á askrift@thjodmal.is eða skilaboð á facebook síðu ritsins. Ritið færst einnig í lausasölu í verslunum Pennans/Eymundsson.