Í þessari grein færi ég rök fyrir því að uppgangur „popúlískra“ afla í Evrópu eigi sér að hluta til skýringu í stofnanauppbyggingu Evrópusambandsins, sem grefur undan þjóðríkinu, sem er þrátt fyrir allt sú skipulagseining, sem nýtur hollustu þegnanna og er meginvettvangur lýðræðislegrar umræðu og pólitískrar ábyrgðar. Æskilegt væri að endurskipuleggja sambandið og færa völd aftur til aðildarríkjanna en vanhugsað efnahags- og myntbandalag hefur torveldað þá leið.
Á sama tíma er engin samstaða um þær breytingar, sem nauðsynlegar væru til að evrusamstarfið virkaði sem skyldi, enda væri sú aukna miðstýring sem því fylgdi óæskileg. Afleiðingin er sú að sambandið kemst hvorki aftur á bak né áfram og er fast í eins konar pattstöðu, sem ekki er augljóst hvernig hægt er að leysa. Vegna þess hversu ósveigjanleg stofnanauppbygging sambandsins er hafa allir valkostir hvað varðar fyrirkomulag samskipta við það talsverða ókosti í för með sér. Upptaka evru fæli í sér afdrifarík mistök sem mikilvægt er að forðast. Í því ljósi er lítið að græða á fullri aðild; áhrif Íslands yrðu nokkurn veginn jafn lítil innan sambandsins og þau eru utan þess meðan að aðild hefði í för með sér að vægi evrópskra laga í íslensku lagaumhverfi yrði mun meira en raunin er í dag. EES-samningurinn er skásti hugsanlegi valkosturinn, betri en bæði full aðild og hugsanlega vera utan innri markaðarins.
Vaxandi óánægja innan Evrópusambandsríkjanna
Evrópusambandið hefur þurft að takast á við margar áskoranir á undanförnum árum. Gagnrýni á sambandið frá bæði vinstri og hægri kanti stjórnmálanna hefur aukist verulega og takmarkast hún ekki aðeins við þau ríki, sem verst hafa farið út úr efnahagskreppunni, heldur nær hún nú einnig til lykilríkja sambandsins. Í síðustu þingkosningum í Þýskalandi fengu Kristilegir demókratar, flokkur Angelu Merkel kanslara, þannig verstu útreið sína í 30 ár og nýr flokkur, Alternative für Deutschland, sem gagnrýninn er á sambandið og andvígur evrunni, varð þriðji stærsti flokkurinn á þýska þinginu. Vinstra megin á litrófinu bætti Die Linke, sem einnig er andvígur evrunni, við sig þingsætum. Óánægja með sambandið er einnig víðtæk innan Kristilega demókrataflokksins sjálfs, þar sem margir eru gagnrýnir á peningastefnu Seðlabanka Evrópu og kaup hans á ríkisskuldabréfum á almennum markaði, sem þeir telja að brjóti í bága við stofnsáttmála sambandsins.
Í síðustu forsetakosningum í Frakklandi munaði litlu að Frakkar kysu sér forseta sem andsnúinn er ESB í núverandi mynd; Jean-Luc Mélenchon, sem áður tilheyrði vinstri armi sósíalistaflokksins, hlaut 19 prósent í fyrri umferð frönsku forsetakosninganna og hefði átt möguleika á að sigra hvort sem er Marine Le Pen, formann frönsku Þjóðfylkingarinnar, eða sigurvegarann, Emmanuel Macron, í annarri umferð kosninganna. Raunar hlutu Mélenchon og Le Pen, sem bæði eru gagnrýnin á sambandið, samtals um 41 prósent atkvæða í fyrri umferð kosninganna og valið hefði allt eins getað staðið milli þeirra tveggja í annarri umferðinni.
Á Ítalíu, þar sem kjósendur hafa þó verið einna jákvæðastir gagnvart ESB, hafa langvinnir erfiðleikar í efnahagslífinu magnað upp óánægju og raddir sem kalla eftir brotthvarfi Ítalíu úr evrusamstarfinu gerst háværari. Eins og frægt er orðið völdu breskir kjósendur svo að ganga úr sambandinu í þjóðaratkvæðagreiðslu sumarið 2016. Þá hafa sum ríki Mið- og Austur-Evrópu gert uppreisn gegn þeim gildum, sem þau þurftu að skrifa upp á við inngöngu í sambandið, en trúðu ef til vill aldrei fyllilega á.
Hnattvæðing og Evrópusamruni
Það er óhjákvæmilegt að setja þessa þróun í samhengi við bæði langvarandi efnahagskreppu og getuleysi aðildarríkjanna til að bregðast við henni með afgerandi hætti. Ástæðu þessa er að miklu leyti til að rekja til áhrifa hnattvæðingarinnar en einnig Evrópusamrunans sjálfs. Hnattvæðingin felur í sér aukið flæði vöru, þjónustu, fjármagns og fólks yfir landamæri og dvínandi getu þjóðríkjanna til að setja slíku flæði takmarkanir. Evrópusamruninn eins og hann hefur þróast hefur svo magnað upp þessi áhrif hnattvæðingarinnar. Vega tveir veigamestu þættirnir í evrópsku samstarfi þar þyngst – annars vegar innri markaðurinn, sem varð til með Einingarlögum Evrópu, sem gengu í gildi árið 1987; og hins vegar efnahags- og myntbandalagið, sem komið var á fót með Maastricht-sáttmálanum árið 1992. Innri markaðurinn og nýjasta bylgja hnattvæðingarinnar, sem fylgdi endalokum kalda stríðsins, hófu því að hafa áhrif á svipuðum tíma, eða í byrjun 10. áratugar síðustu aldar. Afleiðingarnar á evrópsk stjórnmál hafa verið að koma fram í kjölfar efnahagskreppunnar sem hófst árið 2008.
Innri markaðurinn er róttækari hugmynd en margir gera sér grein fyrir: hann felur í raun í sér eins konar evrópskan „bræðslupott“ að bandarískri fyrirmynd. Fjórfrelsið þýðir að aðildarríki sambandsins afsala sér réttinum til að takmarka flæði vöru og þjónustu til að vernda innlenda framleiðendur; fjármagn getur leitað þangað sem ávöxtun er hæst; og borgarar í einu aðildarríki geta leitað sér atvinnu í öðru að eigin vali. Á svipaðan hátt og íbúi Idaho getur flutt til Kaliforníu eða Texas í leit að betra lífi getur íbúi í Grikklandi eða Portúgal flutt til Þýskalands eða Finnlands. Í efnahags- og myntbandalaginu felst svo að aðildarríkin halda úti sameiginlegri mynt, evrunni, og skuldbinda sig til að fylgja ákveðnum reglum sem takmarka verulega athafnafrelsi þeirra í efnahagsmálum. Þannig gefa aðildarríki evrunnar ekki aðeins upp á bátinn eigin peningastefnu heldur skuldbinda þau sig einnig til að reka aðhaldssama stefnu í ríkisfjármálum. Þetta skerðir möguleika þeirra til að nýta hvort sem er peningastefnuna eða ríkisfjármálin til að styðja við eftirspurn og atvinnustig.
Myntbandalag í mýflugumynd
Efnahags- og myntbandalagið er afleiðing af því langvarandi markmiði Frakka að ná evrópskri peningastefnu úr höndum þýska seðlabankans til að þurfa ekki að lúta ægivaldi þýska marksins. Allt frá endalokum Bretton Woods-kerfisins höfðu Vestur-Evrópuríkin unnið út frá þeirri forsendu að innbyrðis stöðugleiki evrópsku gjaldmiðlanna væri æskilegt markmið út af fyrir sig og festu því gengi þeirra í ýmiss konar kerfum: „snáknum“, EMS, ERM, o.s.frv. Í þessum kerfum kom það iðulega fyrir að aðlaga þurfti gengið vegna þess að raungengi frankans og lírunnar hafði styrkst um of gagnvart þýska markinu. En til þess að aðlögunin félli ekki að öllu leyti á veikari hagkerfin þurftu Frakkar iðulega að biðja Þjóðverja að hækka gengi marksins.
Umræður um myntbandalag má raunar rekja allt til 7. áratugarins, en þeim hafði ekki verið hrint í framkvæmd, ekki síst vegna takmarkaðs áhuga Þjóðverja. Við fall Berlínarmúrsins gátu Frakkar hins vegar nýtt sér tímabundinn pólitískan veikleika Þjóðverja til að gera myntbandalagið að veruleika. Nálgun Þjóðverja í Maastricht-viðræðunum var þó sú að gefa eins lítið og mögulegt var eftir. Afleiðingin var eins konar hálfbakað myntbandalag, sem skorti mikilvæga stofnanaþætti, sem almennt einkenna myntbandalög, ekki síst sameiginleg fjárlög.
Í umræðum um hugsanlegt myntbandalag hafði slík útfærsla raunar aldrei alvarlega verið rædd. Í MacDougall-skýrslunni svokölluðu, sem gefin var út 1977, var til dæmis talað um að hæfileg sameiginleg fjárlög þyrftu að vera á bilinu 2-5 prósent af landsframleiðslu aðildarríkjanna til að byrja með. Sameiginleg mynt án sameiginlegra fjárlaga hefði verið talin fjarstæðukennd, en sú varð samt niðurstaðan í Maastricht. Þá virðast ýmsir hafa gengið út frá því að myntbandalagið mundi valda menningarbreytingu í veikgengisríkjunum, sem mundi gera þeim kleift að taka þátt í myntbandalagi með mun agaðri hagkerfum. Síðan evran varð til hafa Þjóðverjar raunar einnig bundið kvaðir um jafnvægi í fjármálum hins opinbera í stjórnarskrá og kveðið er á um takmarkanir á hallarekstri í ríkisfjármálum í evrópska ríkisfjármálasáttmálanum. Niðurstaðan er alltof aðhaldssöm stefna í ríkisfjármálum í Evrópu, sem hægt hefur verulega á efnahagsbata í kjölfar kreppunnar og gert skuldsettum ríkjum erfiðara að vinna sig út úr skuldavandanum. Það hefur því fallið að mestu á herðar Seðlabanka Evrópu að halda hagkerfi evrusvæðisins á floti.
Popúlismi og vanmáttug þjóðríki
Áhrifin af þessum stofnananýjungum hafa ekki látið á sér standa. Frá því að fjölmörg ríki í Mið- og Austur-Evrópu gengu í sambandið árið 2004 hafa milljónir íbúa þeirra nýtt sér fjórfrelsið og flutt til Vestur-Evrópu og bættust þeir þar við þá talsverðu flóru innflytjenda frá ríkjum utan Evrópu sem þar var fyrir. Raunar er um að ræða eina mestu fólksflutninga sem átt hafa sér stað á friðartímum í sögunni. Hlutfall íbúa Vestur-Evrópuríkjanna, sem fæddir eru erlendis, hefur því farið mjög vaxandi á undanförnum tveimur áratugum. Hefur þessi þróun valdið pressu á ýmsa opinbera þjónustu í ríkjum Vestur- Evrópu, sem þegar er víða undirfjármögnuð vegna viðvarandi efnahagslægðar. Á sama tíma hefur íbúum í ýmsum ríkjum í austanverðri álfunni fækkað mikið og sum svæði nánast tæmst af ungu fólki. Ofan á þessa þróun hafa svo bæst örar tæknibreytingar, sem stundum virðast benda í átt til eins konar „Uber-væðingar“ hagkerfisins, þar sem hefðbundin störf hverfa og allir verða í staðinn sjálfstæðir verktakar án nokkurra þeirra réttinda og verndar sem launþegar fyrri tíma gátu reitt sig á.
Efnahagskreppan hefur einnig afhjúpað það ójafnvægi sem ríkir í stofnanauppbyggingu sambandsins: fjármögnun almannatrygginga og annarrar opinberrar þjónustu hvílir að fullu á þjóðríkinu, sem á víða í erfiðleikum með að sinna því hlutverki vegna þeirra takmarkana sem bæði innri markaðurinn og ekki síst myntbandalagið hafa búið því. Sameiginlegur markaður án lágmarkssamræmingar á skattkerfum hefur gert aðildarríkjum erfiðara fyrir að skattleggja atvinnustarfsemi. Sum aðildarríki hafa gert sérsamninga við alþjóðleg stórfyrirtæki, sem gert hefur þeim kleift að minnka skattbyrði sína, sem kemur þeim ríkjum sem reka umfangsmestu velferðarríkin illa. Með tilkomu evrunnar er allri aðlögun nú líka velt á veikgengislöndin og í þetta sinn ekki með gengisfellingu, sem ekki er lengur möguleg, heldur með hægri verðhjöðnun og óþarflega miklu atvinnuleysi. Þá hefur sú menningarbreyting, sem einhverjir töldu að yrði í veikgengisríkjunum með upptöku evrunnar, ekki átt sér stað.
Stofnanauppbygging sambandsins hefur þannig bæði aukið á vandann og gert ríkjum erfiðara fyrir að bregðast við honum. Fræðilega séð geta þeir sem missa atvinnuna í heimalandinu auðvitað leitað sér að atvinnu annars staðar í sambandinu; sá er helsti kostur „bræðslupottsins“. Vandinn er hins vegar sá, að evrópskur bræðslupottur getur, eins og augljóst er, ekki virkað á sama hátt og hann gerir í Bandaríkjunum því þjóðríki Evrópu eru allt annars eðlis en ríki Bandaríkjanna; þau hvíla á gömlum merg, hafa eigin sögu, menningu og tungumál. Margir geta ekki flutt til annars Evrópulands því þeir tala ekki annað tungumál en sitt eigið; aðrir vilja það einfaldlega ekki: þeir geta ekki hugsað sér annað en að búa í eigin landi, í því umhverfi sem þeir þekkja og sem gæðir líf þeirra merkingu. Af þessu leiðir að stofnanauppbygging evrópskrar samvinnu hlýtur að þurfa að vera með þeim hætti að hún hlúi að þjóðríkinu.
Afleiðingin er stóraukinn stuðningur við ýmsar stjórnmálahreyfingar sem hlotið hafa viðurnefnið „popúlískar“. Ekki er þó ástæða til að gera lítið úr þessum hreyfingum. Efnahagslegum þrengingum fylgir skiljanlegt ákall til hins opinbera um að koma þegnunum til verndar. En efnahagskreppan og ískaldur agi evrunnar hafa líka leitt kjósendum fyrir sjónir vanmátt þjóðríkisins og úrræðaleysi Evrópu. Í stað sambands sem veitir þjóðríkjunum skjól í harðnandi alþjóðlegri samkeppni um efnahagsleg gæði, eins og Mitterrand Frakklandsforseti hélt fram að hún ætti að vera fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna um Maastrichtsamninginn, sem fór fram í Frakklandi árið 1992, er ESB í raun bara minni útgáfa af hnattvæðingarfyrirbærinu. Þversögnin í öllu þessu er svo sú að það var hin pólitíska miðja sem stóð að þessum róttæku breytingum og það hefur komið í hennar hlut að verja þær afleiðingar, sem af hafa hlotist. Hafandi ýtt bátnum úr vör virðist engin leið til annars en að róa hraðar í sömu átt. Flótti kjósenda af miðjunni er að hluta til viðleitni til að endurheimta þjóðríkið úr viðjum alþjóðahyggjunnar.
Krónan ekki ónothæf
Útfærsla myntbandalagsins var því gölluð frá upphafi, eins og síðar hefur komið greinilega í ljós, og því væri ekki hyggilegt að taka upp evru á Íslandi að svo stöddu. Þó eru smáríki auðvitað oft í þeirri stöðu að þurfa að velja á milli mismunandi óákjósanlegra valkosta því krónan er auðvitað ekki gallalaus heldur. Óþarflega háir raunvextir, tilhneiging til verðbólgu og hærra verðlag rýra lífsgæði og óstöðugt gengi gerir fyrirtækjum erfiðara fyrir að skipuleggja fjárfestingar fram í tímann. Hærri verðbólgu má að hluta til rekja til óvenju ósamhverfra viðbragða við gengissveiflum, m.a. vegna minni samkeppni en æskilegt væri víða í hagkerfinu. Líklegt er að raunvextir á Íslandi þurfi alltaf að vera eitthvað hærri en í nágrannaríkjunum til að vega upp á móti þeirri gengisáhættu sem tengist krónunni.
Þessi vaxtamunur milli Íslands og nágrannaríkjanna getur gert íslenskum fyrirtækjum erfiðara fyrir í alþjóðlegri samkeppni. Þó er íslenska hagkerfið þannig byggt upp, að stór hluti atvinnulífsins byggist á staðbundnum þáttum: stóriðjan byggist á ódýrri raforku, fiskveiðarnar á fiskstofnum í efnahagslögsögunni, ferðamannaiðnaðurinn á íslenskri náttúru og flugiðnaðurinn á hagfelldri legu landsins á milli Evrópu og Ameríku. Að auki geta stærri útflutningsfyrirtæki almennt fjármagnað sig á alþjóðlegum fjármálamarkaði. Vaxtamunurinn hefur því líklega ekki jafn afgerandi áhrif á samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja og ætla mætti. Á móti kemur að þau fyrirtæki sem eru fyrst og fremst á innlendum markaði, sem og sprotafyrirtæki, þurfa að sætta sig við hærri raunvexti og velta þeim að mestu út í verðlagið. Þó ber að hafa í huga að upptaka evru er engan veginn trygging fyrir því að vextir lækki til jafns við það sem lægst gerist á evrusvæðinu; vextir eru talsvert breytilegir milli landa.
Ólíkt því sem sums staðar er haldið fram er það því ekkert náttúrulögmál að lítill gjaldmiðill hljóti sjálfkrafa að vera ónothæfur. Vandi krónunnar á sér ákveðnar orsakir, m.a. uppsafnað vantraust vegna þess að hagstjórn í landinu hefur lengi verið ábótavant. En það er hægt að endurheimta trúverðugleika og raunar bendir ýmislegt til þess, að núverandi aðstæður séu hagstæðar til að rétta stöðu krónunnar. Þar má nefna tiltölulega hagstæða ytri stöðu hagkerfisins og betra samkeppnisumhverfi með aukinni þátttöku erlendra fyrirtækja á íslenskum markaði. Sú staðreynd að gengið hefur haldist nokkuð stöðugt þrátt fyrir nýleg áföll í efnahagslífinu bendir til að trúverðugleiki hagstjórnarinnar hafi aukist. Sú reynsla sem hlaust af setningu fjármagnshaftanna hefur aukið möguleika íslenskra yfirvalda til inngripa á gjaldeyrismarkaði ef þörf krefur. Með frekari aðgerðum ætti því að vera hægt að undirbyggja traust á gjaldmiðlinum, auka stöðugleika og lækka raunvexti.
Mikilvægasta verkefnið hlýtur að vera að endurskipuleggja og minnka bankakerfið enn frekar og koma í veg fyrir að það kyndi undir óstöðugleika, eins og gerðist fyrir hrun. Þá er einnig mikilvægt að takmarka flæði skammtímafjármagns inn í hagkerfið, sem verið getur mikil uppspretta óstöðugleika fyrir jafn lítinn gjaldmiðil og krónuna. Skoða mætti þann möguleika að taka upp skatt á ákveðnar fjármagnsfærslur til og frá landinu, eins og Frakkland og Bretland hafa að hluta til þegar gert. Slíkt fyrirkomulag mundi hefta innflæði fjármagns í leit að hærri skammtímaávöxtun og gefa stjórnvöldum örlítið meira svigrúm til að stuðla að innra jafnvægi í hagkerfinu. Til þess að gera viðbrögð krónunnar við gengissveiflum samhverfari væri loks æskilegt að stuðla að samkeppni með því að auðvelda einstaklingum að stofna og reka fyrirtæki og halda uppi virku samkeppniseftirliti.
Pattstaða á evrusvæðinu
Í erindi sem Macron Frakklandsforseti hélt í september 2017 um framtíð sambandsins kallaði hann eftir sameiginlegum fjárlögum fyrir evrusvæðið og samræmingu á skattkerfum og almannatryggingum evruríkjanna. Næðu tillögur Macrons fram að ganga mundi ójafnvægið í uppbyggingu evrusvæðisins að hluta til leiðréttast. En um leið yrði líka enn eitt skrefið tekið í átt að því að búa til eins konar fjölþjóðlegt ríki á evrópskum skala. Slíkt væri stórt veðmál gegn þeirri þróun mála í Evrópu undanfarin 200 ár að þjóðir kljúfi sig út úr fjölþjóðlegum ríkjum og myndi þess í stað eigin þjóðríki. Slík voru örlög Austurríkis- Ungverjalands fyrir rétt um hundrað árum; og Sovétríkjanna og Júgóslavíu í lok kalda stríðsins. Stærri og fjölbreyttari Evrópuríkin eru raunar þegar í vandræðum með að halda úti sameiginlegum ríkisfjármálum: Katalónía vill ekki niðurgreiða fátækari héruð Spánar; NorðurÍtalía vill ekki borga fyrir héruðin í suðri; Englendingar kvarta yfir niðurgreiðslum til Skota; og svo mætti áfram telja. Ef ráðstöfun skattfjár innan landamæra núverandi aðildarríkja er jafn miklum erfiðleikum háð og raun ber vitni verður að efast um að samevrópsk fjárlög séu æskilegt eða raunhæft skref.
Þá mundi slík þróun óhjákvæmilega vekja áleitnar spurningar um lýðræðislegt aðhald. Útséð er með að Evrópuþingið geti sinnt því hlutverki sem skyldi. Ákvarðanir um ráðstöfun þess fjár, sem úthluta þyrfti af samevrópskum fjárlögum, yrðu því teknar í umhverfi þar sem erfitt er að koma við hefðbundinni pólitískri ábyrgð. Meginveikleiki Evrópusamrunans hefur raunar alltaf verið sú rökvilla að hægt sé að búa til eins konar yfirþjóðlegt lýðræði. Beinar kosningar til Evrópuþingsins, sem fóru fyrst fram fyrir rúmum fjórum áratugum, voru einmitt tilraun til þess að leiðrétta þann lýðræðishalla sem oft er talinn einkenna sambandið. En eins og de Gaulle og fleiri bentu á er lýðræðið samofið fullveldinu; það á sér rætur í menningu og hefðum ákveðins samfélags. Samevrópskt lýðræði verður alltaf þversögn svo lengi sem engin er evrópsk þjóðin.
Ýmsir hafa þó réttilega bent á að fullveldishugtakið er stundum misnotað í Evrópuumræðunni. Ríki getur vissulega verið fullvalda og verið aðili að sambandinu. Lykilatriðið er hins vegar það að aðild breytir því að sumu leyti hvernig ákvarðanataka fer fram. Erfitt getur verið fyrir land að standa gegn þrýstingi í ráðinu um samstöðu um ákveðna stefnumótun. Þá geta aðildarríki einfaldlega tapað atkvæðagreiðslu. Ríki geta því þurft að lögleiða eitthvað sem þau eru í grunninn ósammála. Afleiðingin er sú að ákvarðanir eru í auknum mæli teknar í Brussel og síðan afgreiddar heima fyrir án þeirrar umræðu sem þyrfti að fara fram. Lagasetning, sem ekkert ákall er um í samfélaginu og ekki talin þörf á, verður samt sem áður að veruleika. Pólitísk umræða heima fyrir verður veigaminni og innihaldslausari.
Margir hafa þá tilfinningu að valdið hafi horfið af vettvangi stofnana þjóðríkisins til Brussel, þar sem rödd þeirra heyrist síður. Í öllu falli er augljóst að aldrei hefur verið nægur stuðningur við tillögur um að setja á fót umtalsverð sameiginleg fjárlög fyrir evrusvæðið. Jafnframt er ljóst að myntsamstarfið getur ekki haldið lengi áfram í óbreyttri mynd. Verði engin breyting á núverandi stofnanafyrirkomulagi og nái lykilríki eins og Frakkland og Ítalía ekki að koma á einhvers konar jafnvægi í sínum hagkerfum, sem geri þeim kleift að halda áfram með evruna sem mynt, gætu einstaka ríki ákveðið að draga sig út úr myntbandalaginu eða ytri áföll valdið því að slíkt yrði óhjákvæmilegt. Þá er ekki óhugsandi að ímynda sér endurkomu marksins, frankans eða lírunnar; eða þá skiptingu evrusvæðisins í tvö myntsvæði: „germanskt“, með þátttöku þorra ríkja í norðanverðri álfunni, og „rómanskt“, fyrir ríkin í sunnanverðri álfunni. Hið síðarnefnda á sér raunar enduróm í rómanska myntbandalaginu sem var við lýði milli 1865 og 1927.
Breyta þarf fyrirkomulagi evrópsks samstarfs
Evrópusambandið þarf umfram allt að ná betra jafnvægi milli þjóðríkisins og „bræðslupottsins“. Sú leið, sem farin var með Einingarlögum Evrópu og Maastricht-sáttmálanum, að fela framkvæmdastjórn ESB í jafn ríkum mæli að stýra innri markaðnum og takmarka rétt aðildarríkjanna til að beita neitunarvaldi, var óþörf. Allt eins hefði verið hægt að byggja á öðru módeli, þar sem aðildarríkin sjálf lékju stærra hlutverk, t.a.m. með gagnkvæmri viðurkenningu á stöðlum og samstarfi eins og því, sem fer fram á vettvangi OECD, þar sem sérfræðingar frá stofnunum aðildarríkjanna koma saman í fagnefndum og vinna saman að þróun staðla og annarra alþjóðlegra viðmiða. Jafnframt var óþarfi að taka upp jafn ósveigjanlegar reglur og felast í fjórfrelsinu; í öllu falli hefði þurft að endurskoða þær frá grunni fyrir stækkunina til austurs. Í aðdraganda atkvæðagreiðslunnar um áframhaldandi aðild að ESB reyndi breska stjórnin raunar að telja önnur aðildarríki á að leyfa sér að setja fjórfrelsinu ákveðin takmörk, en þeirri beiðni var ekki vel tekið. Yfirvofandi útganga Bretlands hefði getað orðið Evrópubúum tækifæri til að staldra við og velta því fyrir sér hvort ástæða sé til að hugsa málin upp á nýtt. Í stað þess hefur hún styrkt marga í misráðinni trú á ríkjandi hugmyndafræði.
Hvað Ísland varðar virðist því hæpið að ganga í sambandið á grundvelli núverandi fyrirkomulags. Evrópskt samstarf verður að byggjast á þjóðríkjunum en ekki á miðstýrðu sérfræðingaveldi og markaðsnauðhyggju, sem takmarkar getu þeirra til að koma til móts við væntingar þegnanna. Mikilvægt er að Evrópusamruninn hætti að grafa undan þjóðríkinu og hefji þess í stað að styrkja það og gera að hornsteini evrópskrar samvinnu. En meðan Evrópubúar eru staðráðnir í að halda áfram á núverandi braut; meðan gallað myntbandalag sviptir aðildarríkin nauðsynlegum tækjum til að jafna út sveiflur, mæta ytri áföllum og tryggja lágmarksvelferð; er líklegt að hinum „popúlísku“ stjórnmálaöflum vaxi ásmegin. Viðhorfsbreytingar er þörf því annað og betra fyrirkomulag evrópskrar samvinnu er bæði mögulegt og æskilegt. Ríki eru ólík og þurfa að geta tekið þátt í evrópsku samstarfi á sínum eigin forsendum. Færi svo að sambandið þróaðist í þá átt að stuðla að almennri velferð innan ramma þjóðríkisins gætu skapast sterkari forsendur til að endurskoða afstöðu til aðildar.
Höfundur er fyrrverandi nemandi franska stjórnsýsluskólans.
—
Greinin birtist í vetrarhefti Þjóðmála, 4. tbl. 2019. Hægt er að gerast áskrifandi að Þjóðmálum með því að senda tölvupóst á askrift@thjodmal.is eða skilaboð á facebook síðu ritsins. Ritið færst einnig í lausasölu í verslunum Pennans/Eymundsson.