Á þeim tíma sem Indland var bresk nýlenda var tekin sú ákvörðun, líklega af breska landstjóranum, að losa skyldi Delí, höfuðborg Indlands, við kóbra-slöngur. Þær eru sem kunnugt er hættulegar og eðlilegt að menn vilji lítið með þær hafa nálægt borgum. Stjórnvöld buðu greiðslu hverjum þeim sem færði þeim dauða kóbra-slöngu. Upphæðin var myndarleg, það myndarleg að margir voru tilbúnir að taka það að sér að gerast veiðimenn. Fyrst um sinn var útkoman í takt við væntingar stjórnvalda, kóbra-slöngum snarfækkaði í og við Delí og íbúum borgarinnar stóð ekki lengur ógn af þessu hættulega dýri.
Þó það lægi fyrir að kóbra-slöngum hefði fækkað umtalsvert voru stjórnvöld enn að greiða háar upphæðir fyrir dauðar slöngur. Þegar það var kannað nánar kom í ljós að margir veiðimannanna höfðu tekið upp á því að ala kóbra-slöngur á heimilum sínum í þeim tilgangi einum að slátra þeim og innheimta af þeim greiðslu. Vissulega frjó nýsköpunarhugsun í fátæku ríki.
Stjórnvöld tóku því aðra ákvörðun; nú skyldi hætt að greiða fyrir slöngurnar. Þeir sem þá höfðu sjálfviljugir gerst kóbra-slöngubændur brugðust við þessari ákvörðun með einföldum hætti, þeir slepptu slöngunum aftur út í náttúruna. Það vill auðvitað enginn hafa heimili sitt fullt af kóbra-slöngum sem ekkert er hægt að gera við.
Niðurstaðan varð sú að vandamálið varð stærra en áður. Götur Delí fylltust aftur af kóbra-slöngum.
***
Þetta er kallað á máli hagfræðinnar Kóbraáhrifin (e. The Cobra Effect). Í stuttu máli fjallar það um að stjórnvöld eru ekki alltaf búin að hugsa það til enda hvort og hvernig vandamálin sem þau ætla að takast á við munu leysast. Margar ákvarðanir stjórnvalda geta þannig haft þveröfug áhrif á það sem þeim var upphaflega ætlað.
***
Við göngum nú inn í árið 2020, sem er síðasta ár 2. áratugar aldarinnar. Það eitt og sér er ekki merkilegt nema fyrir þær sakir að vissulega eru áramót alltaf merkilegur áfangi og hver dagur sem við lifum er þess virði að þakka fyrir. En það sem er þó merkilegt er að líklega er áratugurinn sem nú er að líða undir lok, árin 2011-2020, besta tímabil í sögu mannkyns. Það er þó væntanlega ekki myndin sem við upplifum af lífinu daglega. Við höfum fylgst með átökum í Úkraínu, Sýrlandi og annars staðar í Mið-Austurlöndum, nú upplifum við skrautlegar aðferðir forseta Bandaríkjanna og annarra stjórnmálaleiðtoga, við fáum fréttir af stanslausri efnahagskreppu í Evrópu og nú síðast er okkur sagt að jörðin líði undir lok á næstu 12-15 árum ef við bregðumst ekki við í umhverfismálum.
Fjölnir skal viðurkenna að umfjöllun helstu fjölmiðla gefur ekki þá mynd að við búum á besta tíma mannkynssögunnar.
***
Breski vísindarithöfundurinn Matt Ridley skrifaði nýlega áhugaverða grein í breska blaðið The Spectator. Þar rifjar Ridley upp að nú lifir aðeins 10% íbúa jarðarinna undir fátæktarmörkum og hefur sú tala aldrei verið minni. Ójöfnuður í heiminum hefur farið minnkandi, sem skýrist að hluta af því að hagkerfi Asíu og Afríku eru að vaxa hraðar en hagkerfi Evrópu og Norður-Ameríku, ungbarnadauði hefur farið hríðlækkandi út um allan heim, hungursneyð þekkist varla og hættulegir sjúkdómar borð við malaríu og hettusótt eru í algjörri hnignun.
Ridley var lengi vísindaritstjóri tímaritsins The Economist og hefur verið pistlahöfundur hjá stóru bresku blöðunum í gegnum árin. Árið 2010 gaf hann út bókina Rational Optimist (sem kom út í íslenskri þýðingu undir heitinu Heimur batnandi fer). Í fyrrnefndri grein í Spectator segir Ridley frá því að allt frá því að hann gaf út bókina hefur hann fengið „hvað með…“ spurningar. Þeir neikvæðu þættir sem fjallað var um hér að ofan eru meðal þeirra spurninga. Með einföldum hætti má spyrja; hvernig getur þú sagt að heimurinn hafi aldrei verið betri þegar allt þetta á sér stað? Ridley svarar spurningunni sjálfur í grein sinni og segir; Slæmir hlutir gerast en heimurinn verður samt betri.
***
Það eitt og sér skýrir ekki af hverju heimurinn verður betri, er mögulega einfalt svar við flókinni spurningu, en er þó rétt. Góðir hlutir eru sjaldnast fréttnæmir. Ef einhver tekur saman tölur um jákvæða þróun heimsins má viðkomandi hafa sig allan við til að koma þeim á framfæri í fjölmiðlum. Aftur á móti eru stríð, hungur og vandamál iðulega fréttnæm.
***
Heimurinn er samt að verða betri. Í daglegu tali heyrum við mikið talað um neyslusamfélagið og neysluhyggju vestrænna þjóða. Við eigum of mikið af fötum sem við notum ekki, við kaupum of mikið af leikföngum fyrir börnin okkar, við keyrum of mikið, verjum of miklu fjármagni í afþreyingu sem við þurfum ekki og síðast en ekki síst þá sóum við of mikið af matvælum. Allt er þetta sjálfsagt rétt.
Það að þetta skuli yfir höfuð vera rætt er ákveðið merki um framþróun. Á lélegri íslensku mætti segja að það sé mikið fyrstaheims vandamál fólgið í því að hafa áhyggjur af því að maður eigi of mikið af einhverju. Sjálfsagt þurfum við ekki allan þennan munað, en við höfum samt efni á því.
***
Það þarf líka að hafa í huga að neyslan breytist.
Tökum lítið en gott dæmi um farsíma. Farsímar nútímans búa yfir meiri tækni en við höfum nokkurn tímann kynnst áður. Fyrir 30 árum áttu fáir tölvu á heimilinu, þær voru dýrar, stórar og eyddu miklu rafmagni (það gerðu önnur heimilistæki líka). Í dag notum við símann okkar í stað myndavélar, útvarps, korta, dagbóka, geislaspilara, dagblaða og nú nýlega í stað greiðslukorta. Þessari þróun er hvergi lokið. Þeir sem búa til nýjar vörur hugsa helst um það hvernig þeir geta komið henni að í símanum okkar. Á móti kemur að við erum ekki að nýta auðlindir heimsins í að búa til myndavélar, útvörp eða geislaspilara, við prentum minna af pappír og þannig mætti áfram telja.
***
Það er hægt að nefna fleiri svona dæmi. Það sem skiptir þó máli er að tækniþróunin hefur og mun áfram leysa flest okkar vandamál. Sumt tekur meiri tíma en annað, en vandamálin verða ekki leyst á þjóðþingum landa eða hjá alþjóðlegum stofnunum. Þá er einnig vert að hafa í huga að þó svo að við hér á Vesturlöndum njótum mikilla gæða (það mikilla að við eigum skv. orðræðunni að hafa samviskubit yfir því) þá er það ekki þannig alls staðar í heiminum. Íbúar Venesúela þjást undir ofríki stjórnvalda þar og munu að öllu óbreyttu gera næstu árin. Það verður ekki sagt nógu oft að vandamál heimsins verða heldur ekki leyst með miðstýrðu valdi ríkisins, þvert á móti.
***
Það er aftur á móti eðlilegt að velta því fyrir sér hvernig framtíðin lítur út. Við vitum það ekki, en við vitum að það ríkir óvissa víða um heim. Það munu geysa stríð, það ríkir óvissa um framtíð Evrópusambandsins og einstaka hagkerfa á meginlandi Evrópu og það ríkir óvissa í alþjóðastjórnmálum. Okkur er sagt að ef við grípum ekki til aðgerða í umhverfismálum þá eigi jörðin ekki mikið eftir. Við erum að vísu búin að heyra þann söng í áratugi en vissulega er ekki hægt að horfa alfarið framhjá því. Við munum sjá einhverjar dýrategundir hverfa, það munu geysa óveður og aðrir umhverfisþættir eiga eftir að koma fram.
***
Til að svara spurningunni þá vitum við ekki hvernig framtíðin lítur út. En við vitum að við búum yfir hugviti, þekkingu, tækni og fjármagni til að takast á við flest vandamál heimsins. Hagkerfi heimsins munu finna leiðir til að takast á við þær áskoranir sem eru framundan. Það hefur enginn hag af því til lengri tíma að viðhalda matarsóun, mengun eða ofneyslu. Við erum að sjá stanslausa þróun í heilbrigðismálum, bíla- og flugvélaframleiðendur leita sífellt leiða til að minnka umhverfisáhrif af framleiðslu sinni, menntun er að aukast út um allan heim sem og jafnrétti, við erum að nýta minna land undir landbúnað en við gerðum og þannig má áfram telja.
***
Það eina sem getur stöðvað framþróun mannkynsins eru of mikil afskipti stjórnmálamanna. Þeir geta komið í veg fyrir aukin alþjóðaviðskipti og með of miklum afskiptum geta þeir hindrað frekari nýsköpun og tækniþróun. Þess vegna eigum við að stíga varlega til jarðar þegar þess er krafist að ríki heimsins taki ábyrgð og sýni í verki að þau séu meðvituð um hvað það vandamál sem rætt er hverju sinni.
***
Það er rétt að hafa Kóbra-áhrifin í huga þegar kallað er eftir því að stjórnvöld bregðist við hinu og þessu með einhverjum hætti. Það færir okkur ekki alltaf þá niðurstöðu sem við viljum.
—
Greinin birtist í vetrarhefti Þjóðmála, 4. tbl. 2019. Hægt er að gerast áskrifandi að Þjóðmálum með því að senda tölvupóst á askrift@thjodmal.is eða skilaboð á facebook síðu ritsins. Ritið færst einnig í lausasölu í verslunum Pennans/Eymundsson.