Saga og árangursleysi sniðgöngu Araba á hendur Ísrael

Hugmyndin að sniðgöngu á Ísrael tók að vekja athygli á 21. öld með stofnun BDS- hreyfingarinnar árið 2005. Sniðganga, sem aðferð til að valda skaða og tilraun til að stuðla að eyðingu Ísraelsríkis, hófst þó snemma á 20. öld með viðskiptabanni Araba á hendur gyðingum.

Þegar árið 1922 reyndi samfélag arabískra íbúa á breska umboðsstjórnarsvæðinu Palestínu að skaða hið vaxandi samfélag gyðinga á svæðinu með efnahagslegri sniðgöngu fyrirtækja í eigu þarlendra gyðinga. Brotamenn sniðgöngunnar urðu fyrir árásum – bæði líkamlegum auk þess sem skemmdir voru unnar á söluvörum þeirra. Arabíska framkvæmdanefndin á Sýrlenskpalestínska útlagaþinginu í Genf [sem var hreyfing útlægra þjóðernissinnaðra Araba frá umboðsstjórnarsvæðunum tveimur] innleiddi sniðgöngu á fyrirtækjum gyðinga árið 1933 og Arabíska alþýðusambandið gerði slíkt hið sama 1934.

Leiðtogar arabískra íbúa Palestínu boðuðu stranga sniðgöngu árið 1936 og hótuðu beinu ofbeldi í garð þeirra sem brytu bannið [en þá hófst einnig uppreisn Araba gegn yfirráðum Breta þar í landi með skefjalitlu ofbeldi]. Með sniðgöngu þessari átti ekki aðeins að valda skaða þeim gyðingum sem þegar bjuggu á umboðsstjórnarsvæðinu heldur einnig að hræða gyðinga í dreifingunni [utan Landsins helga] frá því að halda áfram að flytja þangað. Sniðgöngur þessar báru ekki árangur vegna þess að samfélag Araba í Palestínu þurfti þá að treysta mjög á lækna og aðra sérfræðinga af gyðingaættum.

Arababandalagið var stofnað um miðjan fimmta áratuginn og 2. desember 1945 bannaði það kaup eða notkun á vörum sem fyrirtæki gyðinga framleiddu í Palestínu og bannaði Aröbum að nota verktaka af gyðingaættum, samgöngutæki þeirra, tryggingafélög og banka. Það kom á laggirnar varanlegri sniðgöngunefnd með skrifstofur í öllum ríkjum Araba og krafðist þess að allir sem seldu vörur til Arabaríkja sýndu fram á að þær ættu ekki upptök hjá gyðingum í Palestínu.

Sniðgangan skilaði ekki tilætluðum árangri og gaf fyrsta ársskýrsla sniðgöngunefndarinnar til kynna að fram færu traust viðskipti á milli Palestínu, þar sem flest fyrirtæki voru í eigu gyðinga, og arabísku nágrannaríkjanna. Nefndin var lögð niður í kjölfar sjálfstæðisyfirlýsingar Ísraels í maí 1948 en Arababandalagið hélt áfram að kalla eftir sniðgöngu á fyrirtækjum gyðinga í Ísrael. Arabaríkin lokuðu mærum sínum á landi, sjó og í lofti að hinu nýstofnaða ríki, gerðu upptækar ísraelskar vörur sem voru fluttar um nokkrar helstu hafnarborgir Egyptalands – og var það umtalsverð áskorun fyrir útflutning Ísraela.

Farúk Egyptalandskonungur gaf út fyrirmæli hinn 6. febrúar 1950 um að bannað væri að flytja vörur til Ísraels eftir suðurleiðinni um Tíransund og Akabaflóa. Fyrir utan að valda Ísrael miklum skaða, en á þeim tíma komu 90% allrar olíu til landsins frá Íran um þessar flutningaleiðir, varð þetta til að reynt var að víkka sniðgönguna út til að hindra öll viðskipti Ísraels við önnur lönd. Arababandalagið samþykkti útvíkkuðu sniðgönguna hinn 8. apríl 1950. Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna fordæmdi þessar aðgerðir en gerði engar ráðstafanir til að stöðva þær.

Hinn 19. maí 1951 stofnaði Arababandalagið miðstýrðar sniðgönguskrifstofur í öllum Arabaríkjunum. Viðfangsefni þeirra var að samræma aðgerðir og greina frá brotum fyrirtækja sem fóru á svig við sniðgönguna á Ísrael. Arababandalagið sendi frá sér ályktun 11. desember 1954 þar sem arabískum ríkjum og fyrirtækjum var bannað að eiga samskipti við fólk eða fyrirtæki sem tæki að sér verkefni fyrir Ísrael eða hefðu útibú í landinu. Þeir sem yrðu uppvísir að því að flytja út arabískar vörur með það í huga að senda þær áfram til Ísraels yrðu beittir hörðum viðurlögum og þrælkunarvinnu.

Sniðgangan gegn Ísrael efldist um miðjan 6. áratuginn þegar ráðstjórnarríkin hófu að taka þátt í henni. Þátttaka ráðstjórnarinnar í sniðgöngunni gaf henni bæði alþjóðlegt lögmæti og efnahagslegt vægi. Air France var fyrsta stóra fyrirtækið sem lét undan þrýstingi sniðgönguaðila og hætti samskiptum við Ísrael eftir að hafa verið neitað um leyfi til að fljúga yfir og lenda í arabískum ríkjum í 18 mánuði í kjölfar þess að hafa fjárfest í verkefnum Ísraela. Sama ár var sniðgangan útvíkkuð til að banna nú einnig allar vörur sem einstakt ríki flutti út og samsvaraði að einhverju leyti afurðum sem sama ríki flutti inn frá Ísrael. Einnig voru skip sett á bannlista ef í ljós kom að þau sigldu til hafna í arabískum ríkjum og Ísrael í sömu ferð.

Mesta áskorunin á þessu sviði kom í október 1973, í kjölfar Yom Kippur-stríðsins, þegar Arabaríki bönnuðu olíusendingar til Bandaríkjanna, Kanada, Bretlands, Hollands og Japans vegna stuðnings þessara landa við Ísrael. Þau hótuðu að draga úr olíuframleiðslu um 5% á mánuði „uns ísraelskur herafli yrði að fullu kallaður til baka frá öllum arabískum svæðum sem hernumin voru í júnístríðinu 1967“. Viðskiptabannið stóð þó aðeins yfir í fimm mánuði.

Þótt sum stórfyrirtæki eins og McDonald‘s, Pepsi, Nestle og Toyota tækju þátt í sniðgöngunni héldu mörg önnur áfram að stunda viðskipti við Ísrael og glata þannig mörkuðum í ríkjum Araba. Meðal þeirra voru: Coca-Cola, Ford Motor Company, Revlon, RCA, Barclays Bank, Bantam Books, Zenith, McDonnell Douglas, Sears Roebuck, General Electric, Hilton, Avis, Citibank, Hewlett Packard, Mercedes-Benz, Colgate og IBM.

Á 20. öld sniðgekk Arabaheimurinn jafnframt skemmtikrafta sem komu fram í eða studdu Ísrael. Þetta hindraði ekki fjölmarga skemmtikrafta í að eiga samskipti við Ísrael. Meðal þeirra voru Elizabeth Taylor, Louis Armstrong, Frank Sinatra, Harry Belafonte, Marilyn Monroe, Jerry Lewis, Kirk Douglas, Mick Jagger, Paul McCartney, Elton John, Paul Simon og Raquel Welch.

Meðan sniðganga Araba stóð yfir fundu fyrirtæki, sem höfðu mikinn áhuga á að stunda viðskipti við Ísrael og njóta hagræðis af vörum sem voru hannaðar og framleiddar þar í landi án þess að hverfa af arabískum markaði, leiðir til að komast í kringum sniðgönguna. Sum þeirra földu tengslin með því að stofna dótturfélög sem áttu í viðskiptum við Ísrael. Aðrir réðu einfaldlega undirverktaka úr hópi fyrirtækja sem voru þegar á svörtum lista Araba vegna samstarfs við Ísrael. Sum fyrirtæki þróuðu á hinn bóginn það góð samskipti við Arabaleiðtoga að þeir hunsuðu samstarfið sem þau áttu í við Ísrael.

Ísraelar svöruðu fyrir sig og hvöttu gyðinga sem áttu fyrirtæki úti um allan heim til að skipta ekki við þau fyrirtæki sem tóku þátt í sniðgöngu á Ísrael. Á diplómatíska sviðinu vann Ísrael með Bandaríkjunum við að setja lög sem gerðu það saknæmt fyrir bandarísk fyrirtæki að taka þátt í sniðgöngunni og lagði sektir á þau sem gerðu svo. Fyrirtæki eins og McDonald‘s kusu þó frekar það efnahaglega hagræði sem hlaust af viðskiptum í Arabaheiminum, greiddu sektirnar og héldu áfram að styðja sniðgönguna.

Ísrael fann einnig leiðir til að stunda viðskipti við Arabaheiminn þrátt fyrir sniðgöngu. Stundum keyptu fyrirtæki í eigu aðila utan Ísraels hráefni eða tækni frá landinu og notuðu hana til að framleiða eigin vörur. Þau fluttu þær síðan til Arabalanda án þess að veita vísbendingar um uppruna þeirra. Sum ísraelsk fyrirtæki settu einfaldlega á fót skálkaskjól í öðrum löndum. Slík fyrirtæki fluttu vörur frá Ísrael og fluttu þær síðar út til Arabalanda undir eigin merkjum. Bandarísk fyrirtæki gerðu eins, þ.e. fluttu inn ísraelskar vörur og sendu þær áfram sem „framleiddar í Bandaríkjunum“.

Viðleitni Ísraelsmanna til að komast hjá sniðgöngu voru afar árangursríkar. Í lok níunda áratugar var talið að um 10% árlegs útflutnings Ísraels, að virði á milli 750 milljóna og milljarðs bandaríkjadala, næðu til Arabalanda.

Þrátt fyrir þessar tilraunir til að eyðileggja efnahag Ísraels hafa landsmenn byggt upp eitt sterkasta hagkerfi í Mið-Austurlöndum. Einnig fylgja mörg Arabaríki ekki lengur sniðgöngu vegna samninga sem þau undirrituðu við Ísrael-Egyptaland árið 1979, heimastjórn Palestínumanna árið 1993, Jórdaníu árið 1994 og Persaflóaríkin sama ár þegar samvinnuráð Arabaríkja við Persaflóa hætti að taka þátt í sniðgöngunni. Þetta leiddi til mikillar uppsveiflu fjárfestinga í Ísrael og varð til þess að margs konar samvinna komst á milli Ísraels og Arabaríkja.

Saga sniðgöngu Araba gegn Ísrael sýnir og sannar að sniðgöngutilraunir eru gagnslausar. Þeir sem styðja Ísraelsríki halda því áfram þrátt fyrir sniðgönguna og jafnvel meðal þeirra sem eru andsnúnir því kjósa flest ríki, fyrirtæki og einstaklingar að horfa frekar til þess efnahagslega og tæknilega hagræðis sem viðkomandi hljóta af samskiptum við Ísrael.

BDS-hreyfingin ætti að taka þetta til greina.

Höfundur er fv. þingmaður á ísraelska þinginu. Greinin birtist upphaflega á vefsíðunni Honestreporting.com en er hér birt í íslenskri þýðingu með góðfúslegu leyfi höfundar.

Bókarýnin birtist í vetrarhefti Þjóðmála, 4. tbl. 2019. Hægt er að gerast áskrifandi að Þjóðmálum með því að senda tölvupóst á askrift@thjodmal.is eða skilaboð á facebook síðu ritsins. Ritið færst einnig í lausasölu í verslunum Pennans/Eymundsson.