Ósk Samfylkingarinnar um kalt hagkerfi

Verri lífskjör almennings felur jafnframt í sér verri afkomu ríkissjóðs.

Nú stefnir í að niðursveiflan í íslenska hagkerfinu verði dýpri og lengri en áður hafði verið gert ráð fyrir. Það stafar fyrst og fremst af þeim áhrifum sem Covid-19 vírusinn er þegar farinn að valda hér á landi.

Ef fer sem horfir verður samdráttur í ferðalögum á heimsvísu – og Ísland er þar ekki undanskilið. Ferðaþjónustan skapar nú hátt í 9% af þjóðarframleiðslu landsins og tæplega 40% af útflutningstekjum auk þess sem hún skapar hinu opinbera tekjur sem nú nema yfir 60 milljörðum á ársgrundvelli. Um 25-30 þúsund manns starfa í eða við ferðaþjónustu og hefur þeim störfum fjölgað um nær helming á liðnum áratug.

Það má því öllum vera ljóst að mikill samdráttur í ferðaþjónustu mun hafa gífurleg áhrif á hagkerfið – og þar með á líf og störf Íslendinga. Þá eru ótalin áhrifin sem veiran kann að hafa á aðrar atvinnugreinar og alþjóðaviðskipti almennt.

En ekkert er svo slæmt að það boði ekki eitthvað gott. Kristín Soffía Jónsdóttir, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar, er í það minnsta búin að finna jákvæðu hliðina á mögulegri kólnum hagkerfisins hér á landi og vill ekki að landsmenn vinni gegn henni.

Á twitter síðu sinni segir Kristín Soffía;

Kólnun hagkerfisins er áhyggjuefni en gleymum því samt ekki að minni framleiðsla, minni eyðsla, færri flugferðir og minni mengun er samt nákvæmlega það sem við stefnum að. Kalt hagkerfi – köld pláneta. Þurfum að vinna með þessa kólnun – ekki gegn henni.

Það er alltaf virðingarvert þegar stjórnmálamenn segja hug sinn og fara ekki í grafgötur með skoðanir sínar. Kjörnir fulltrúar Samfylkingarinnar hafa á liðnum árum ítrekað talað fyrri hærri sköttum á einstaklinga og fyrirtæki, en það er nokkuð nýtt að þeir fagni opinberlega kólnum hagkerfisins.

Gallinn við þessa draumsýn Samfylkingarinnar um kólnandi hagkerfi er þó sá, að samhliða henni eykst atvinnuleysi og kaupmáttur rýrnar. Það felur í sér verri lífskjör almennings og um leið lækka tekjur hins opinbera. Þaðan heldur hringrásin áfram, velferðarkerfið verður veikara, framlag til menntamála verður minna og það verður ekki mikið eftir í kassanum til að leggja Borgarlínu.

Þeir sem mögulega missa vinnuna á næstu vikum og mánuðum geta þó huggað sig við það að þeir eru að leggja sitt af mörkum fyrir kaldari plánetu.