Svik og vanhæfni

Síðasta dagblaðið á vinstri vængnum
Höfundur: Elías Snæland Jónsson
Útgefandi: Sæmundur
Útgáfuár: 2020
221 bls.

Þegar litið er yfir sögu íslenskra fjölmiðla síðustu tuttugu árin eða svo kemur orðið varnarbarátta fyrst upp í hugann. Segja má að allan þennan tíma hafi íslenskir fjölmiðlar barist við vaxandi uppdráttarsýki sem að mestu byggist á minnkandi útbreiðslu, fallandi tekjum og þverrandi áhrifum. Fyrir því eru margar ástæður en vitaskuld má velta fyrir sér hvort sú hugmynd að afla tekna með því að selja fólki fréttir og upplýsingar hafi ekki runnið sitt skeið á enda. Heldur hefur harðnað á dalnum eftir fjármálahrunið 2008, þegar bankarnir fengu marga fjölmiðla í fangið og sumir urðu gjaldþrota.

Margt hefur stuðlað að þessu. Uppgangur samfélagsmiðla er nærtæk skýring, en þeir draga til sín athygli fólks og hafa tekið yfir umræður og upplýsingastreymi, með ýmsum alvarlegum fylgifiskum, svo sem falsfréttum og upplýsingafölsun. Streymisveitur hafa haft áhrif á áskriftarsjónvarp og fólk virðist ekki lengur tilbúið að greiða fyrir áskrift að hefðbundnum fjölmiðlum. Vill frekar greiða mánaðargjald til Netflix og Spotify, nú eða stöðugt hækkandi fjarskiptareikninga, enda snýst lífið nú um gagnamagn og hraða.

En auðvitað er þetta ekki einhlítt; einstaka miðlar hafa náð viðspyrnu, líklega helst þeir sem hafa reynt að efla blaðamennsku innan vébanda sinna í von um að fólk sækist enn eftir áreiðanlegum upplýsingum. Hér á landi er staðan þannig um þessar mundir að Ríkisútvarpið drottnar yfir fréttaumhverfinu með fylgitunglin Stundina og Kjarnann í slagtogi. Skammt er síðan frjálsir fjölmiðlar skiptu á milli sín 400 milljóna króna ríkisstyrk. Er það uppgjöf eða ný lína í varnarbaráttunni?

Bók Elíasar Snælands Jónssonar fjallar um einn þátt í hnignunarsögu íslenskra fjölmiðla. Upphaf tímabilsins sem hann tekur til nær til þess þegar flokksblöðin, Tíminn, Alþýðublaðið, Þjóðviljinn og Dagur, voru að leggja upp laupanna. Þessum blöðum hafði verið haldið uppi af stjórnmálaflokkunum, sem litu á þau sem málgögn sín í hugmyndabaráttunni. Þau áttu flest skammvinn velgengnistímabil af og til en áttu lengst af í vandræðum með að fóta sig í tilverunni; áttu þau að vera trú flokkunum sem studdu þau eða áttu þau að sinna lögmálum blaðamennskunnar? Stundum leystu menn þetta með því að hafa þau fjörlega skrifuð með menningarpólitísku ívafi en aðalhlutverk þeirra var þó að færa flokksmönnum ákveðna línu svo þeir gætu nú sagt eitthvað skynsamlegt í pólitískum þrætum á kaffistofunni. Önnur blöð á markaðnum voru Morgunblaðið, Vísir og Dagblaðið en þau tvö síðasttöldu höfðu sameinast árið 1981 og var sameinað blað, DV, rekið með ágætum hagnaði næstu 15 árin eða svo. Lengst af drottnaði Morgunblaðið yfir íslenska blaðamarkaðnum, rak langfjölmennustu ritstjórnina og hafði útbreiðslu sem var að mörgu leyti einstök á heimsvísu. Afkoman var góð og eigendur blaðsins höfðu þann metnað að fjárfesta í blaðinu sjálfu.

Elías Snæland var skólaður í heimi flokksblaða en fór yfir á DV og gerðist þar aðstoðarritstjóri og þar kynntist ég honum þegar ég hóf störf í blaðamennsku haustið 1985, en hann hafði komið þar til starfa árið á undan. Elías var öllum hnútum kunnugur í blaðamennskunni, nákvæmur og röggsamur, sannur fagmaður. En hann hafði pólitískar rætur inn í Framsóknarflokkinn þó að hann telji sig hafa goldið þess að vera „Möðruvellingur“. Lærði á Bifröst og hóf blaðamennsku sína hér á landi á Tímanum en hrökklaðist þaðan þegar „drengirnir hans Denna“, eins og hann kallar þá, settu NT-ævintýrið af stað sem kostaði Framsóknarflokkinn flestar hans eignir þegar upp var staðið.

Haustið 1997 ákvað Elías að taka tilboði þeirra DV-feðga, Sveins R. Eyjólfssonar og Eyjólfs Sveinssonar, um að taka við sem ritstjóri Dags-Tímans sem hafði byrjað að koma út árið á undan. Í bók sinni rekur Elías næstu þrjú árin, eða þar til blaðið hætti að koma út. Þetta voru að mörgu leyti undarlegir tímar og ekki er víst að allir muni eftir því að netbólan var að blása út á þessum tíma og margir töldu að það gæti fært fjölmiðlum ný tækifæri. Alla þessa sögu rakti ég í greinaflokki sem birtist nokkrum árum seinna í Viðskiptablaðinu þar sem ég starfaði í 15 ár, eða frá 1995 til ársins 2010. Netbólan (þekkt sem dot.com hrunið) villti mörgum sýn og eins og aðrar bólur byggðist hún á óraunhæfum væntingum sem leiddu til skuldsetningar sem að lokum sprakk með hvelli og gjaldþrotum.

Elías rekur með ágætum þær hugmyndir sem bjuggu að baki útgáfu Dags-Tímans (DT), sem átti að verða þriðja dagblaðið á markaðnum. Blaðinu var ætlað að vera í samkeppni við hægriblöðin, Morgunblaðið og DV, og stóðu vonir til þess að geta sameinað pólitískan áhuga vinstrimanna í blaðinu og þannig rennt stoðum undir útgáfuna. Eins og kom á daginn voru þetta óraunhæfar væntingar og rekur Elías þá sögu skilmerkilega. Margt kemur til en líklega skipti þó mestu að útgefendurnir gátu aldrei staðið við þau fyrirheit sem þeir gáfu lesendum og starfsmönnum DT. Útgáfufélagið Frjáls fjölmiðlun var umsvifamikið en að mörgu leyti fjárvana. Glöggir menn sáu að það rann ekki blóð í kerfinu. Það var aðeins DV sem skilaði einhverju til fyrirtækjasamsteypunnar sem féll undir Frjálsa fjölmiðlun og þeir feðgar virtust oft á tíðum ekki hafa nægilega yfirsýn á rekstur samsteypunnar, auk þess sem alls konar fjármálaævintýri fönguðu athygli þeirra um lengri eða skemmri tíma.

Elías hefur haldið ítarlega dagbók sem er helsta heimild hans enda birtir hann langar tilvitnanir í hana. Það eykur auðvitað heimildargildi bókarinnar að hún skuli styðjast við svo nákvæmar samtímaheimildir. Einnig vitnar hann oft í starfsævisögu Jónasar Kristjánssonar, Frjáls og óháður, sem kom út 2009. Sömuleiðis er vitnað talsvert til bókar Einars Kárasonar um Jón Ólafsson, Jónsbók, sem kom út 2005 og einnig sögu Silju Aðalsteinsdóttur um Svein R. Eyjólfsson, Allt kann sá er bíða kann, sem kom út 2017. Allar þessar bækur tengjast umsvifum Frjálsrar fjölmiðlunar.

En eins og áður sagði er Elías að mestu leyti að vinna með eigin dagbókarfærslur og tilfallandi tölvupósta sem hann hefur varðveitt. Þessar heimildir túlka vel vonbrigði hans yfir því hvernig til tókst. Fyrsta árið var unnið að endurskipulagningu á rekstri Dags-Tímans og þá ríkti þokkaleg bjartsýni um að það tækist að renna stoðum undir útgáfuna. Á öðru ári tók smám saman að renna upp fyrir mönnum að það myndi ekki takast að búa til lífvænlegt blað og þriðja árið birtist sem langvarandi dauðastríð. Þetta er heldur dapurleg saga. Vanhæfni og svik vegast þarna á og eins og oft áður gjalda starfsmenn fyrir þessa óráðsíu. Elías lýsir því hvernig heilu mánuðirnir gátu liðið án þess að hann fengi laun og þegar yfir lauk var hann með stærri kröfuhöfum í þrotabúið. Aðrir starfsmenn lentu í þessu sama enda vel þekkt stef í blaðaútgáfu. Í slíkum tilvikum fellur það á Ábyrgðasjóð launa að standa skil á síðustu mánaðarlaununum.

Eftir stendur þó spurningin, var hægt að blása lífi í slíkt blað? Blað sem væri einhvers konar hugmyndafræðilegt andsvar við hægri pressunni og þjónaði hinum ósamstæða vinstri armi stjórnmálanna. Gátu kratar, kommar og framsóknarmenn lesið sameiginlegan boðskap úr einu blaði? Eftir á að hyggja er það í raun fráleit hugmynd, enda kom á daginn að þó að áskriftarstokkar viðkomandi flokksblaða hefðu átt að fylgja með saxaðist hratt á þá. Áskrifendur gömlu flokksblaðanna vildu augljóslega ekki þýðast hið nýja blað. Elías lýsir yfir vonbrigðum sínum með það að vinstrimenn skyldu ekki stökkva á vagninn og þá sérstaklega framsóknarmenn, enda hét blaðið eftir tveimur framsóknarblöðum. En þær væntingar sem voru um stuðning vegna flokkspólitískra sjónarmiða brugðust að mestu, það virðist enginn hafa litið á blaðið sem sitt málgagn þó að menn létu stundum vinsamleg orð falla. Inn í þessa súpu var síðan steypt ýmsum landsmálablöðum og að endingu varð þetta hálf bragðlítið sull. Það er rétt hjá Elíasi, hjá blaðinu vann margt ágætra blaðamanna og blaðið átti sína spretti en það varð aldrei fugl né fiskur í samanburði við DV, hvað þá Morgunblaðið. Gilti þetta bæði faglega og rekstrarlega og að endingu staðfestu lesendakannanir það.

Það er fengur að þessari bók Elíasar fyrir þá sem hafa áhuga á fjölmiðlasögu okkar. Efnistökin og heimildavinnan þrengja að sumu leyti lesendahópinn. Eins og áður sagði er í bókinni verið að endurbirta í löngu máli dagbókarfærslur og mótar það flæði frásagnarinnar og getur virkað fráhrindandi fyrir suma. Fyrir þá sem vilja kafa dýpra í þessi mál eru þessar færslur mikilvægar og upplýsandi.

Höfundur er blaðamaður.

Greinin birtist í hausthefti Þjóðmála, 3. tbl. 2020. Hægt er að gerast áskrifandi að Þjóðmálum með því að senda tölvupóst á askrift@thjodmal.is eða skilaboð á facebook síðu ritsins. Ritið færst einnig í lausasölu í verslunum Pennans/Eymundsson.