Forsetar Bandaríkjanna í Hollywood-kvikmyndum

Josh Brolin í hlutverki George W. Bush í myndinni W.

Forsetakosningar í Bandaríkjunum (BNA) fóru fram í byrjun nóvember. Öll höfum við séð einhverja kvikmynd, heimildarmynd eða sjónvarpsþætti þar sem forseti BNA kemur við sögu. Á síðastliðnum áratugum höfum við t.d. séð fjölda frábæra sjónvarpsþátta sem snúast í kringum forsetann. RÚV bauð okkur upp á The West Wing, þar sem við fylgdumst með lífinu í vesturálmu Hvíta hússins hvar Jed Bartlet var forseti. Netflix færði okkur House of Cards, þar sem við sáum Frank og Claire Underwood sölsa undir sig forsetaembættið. Stöð 2 sýndi okkur 24, þar sem Jack Bauer kom forsetanum ætíð til bjargar, sama hvað það kostaði.

Forsetar sem skáldaðar persónur í kvikmyndum

Harrison Ford í hlutverki hins skáldaða forseta James Marshall, í kvikmyndinni Air Force One.

Í mörgum Hollywood-kvikmyndum hefur hlutverk forsetans farið frá því að koma fram í einu atriði alveg upp í að öll kvikmyndin snúist um hann og embætti hans. Oftast er það í hasar- og ævintýramyndum sem forsetinn er fenginn til að leika eitthvert hlutverk og sem dæmi mætti nefna myndirnar Escape from New York, The Pelican Brief, In the Line of Fire, Clear and Present Danger, The Rock, Independence Day, Armageddon, Deep Impact, The Sum of All Fears, The Day After Tomorrow, National Treasure: Book of Secrets og 2012.

Ofurhetjumyndir eru sérstaklega vinsælar þessa dagana og oft hefur forseti BNA eitthvað til málanna að leggja þar, til dæmis í Superman II, X2: X-Men United, X-Men: The Last Stand, The Dark Knight Rises og Iron Man 3.

Þá eru það hasarmyndirnar, sem snúast að öllu leyti í kringum forsetann. Þar má nefna myndina Air Force One þar sem Harrison Ford leikur forseta sem þarf að berjast við hryðjuverkamenn um borð í samnefndri flugvél forsetans. Jamie Foxx leikur forsetann í White House Down sem verður fyrir árás í Hvíta húsinu og Channing Tatum er fenginn til að bjarga málunum. Svo eru það „Fallen“-myndirnar þrjár, Olympus Has Fallen, London Has Fallen og Angel Has Fallen, þar sem Gerard Butler þarf reglulega að bjarga forsetanum.

Michael Douglas í hlutverki hins skáldaða forseta Andrew Shepherd, í kvikmyndinni The American President.

Þegar kemur að drama- og gamanmyndum hefur forsetinn komið fram í ýmsum hlutverkum. Michael Douglas lék forseta sem verður ástfanginn í The American President og Billy Bob Thornton leikur forseta sem gerir hosur sínar grænar fyrir aðstoðarkonu forsætisráðherra Bretlands (Hugh Grant) í jólamyndinni Love Actually.

Margir leikarar sem eru þekktir fyrir gamanhlutverk hafa verið fengnir til að leika forseta BNA, t.d. Peter Sellers í Dr. Strangelove, Leslie Nielsen í Scary Movie 3 og 4, Chris Rock í Head of State, Charlie Sheen í Machete Kills, Kevin James í Pixels og Harry Shearer í The Simpsons Movie, en hann lék þar forsetann Arnold Schwarzenegger.

Það sem þessar myndir og þættir eiga sameiginlegt er að þetta eru allt saman skáldaðar persónur af forseta BNA.

Raunverulegir forsetar leiknir í kvikmyndum

Árið 1908 var líklega í fyrsta skiptið sem vitað er að persóna byggð á raunverulegum forseta BNA kom fram í kvikmynd. Það var í stuttmyndinni The Spirit of ´76 þar sem Tom Santschi lék George Washington. Sagan í þeirri mynd gerist reyndar áður en Washington varð forseti en ári síðar kom út önnur stuttmynd sem hét Washington Under the American Flag, sem gerist á nokkrum áratugum og m.a. á þeim tíma þegar hann var forseti. Síðan þessar kvikmyndir komu út hafa verið gerðar yfir 200 kvikmyndir í fullri lengd þar sem persóna byggð á raunverulegum forseta BNA hefur komið fram. Hér ætlum við að skoða hvaða forsetar BNA hafa komið fram sem persónur í kvikmyndum og einblína á kvikmyndir sem hafa verið framleiddar í BNA í fullri lengd, ekki stuttmyndir, heimildarmyndir, sjónvarpsþáttaraðir eða sjónvarpsþætti.

Tom Selleck var nær óþekkjanlegur án yfirvaraskeggsins þegar hann lék Dwight D. Eisenhower í sjónvarpsmyndinni Ike: Countdown to D-Day.

George Washington var kjörinn fyrsti forseti BNA árið 1789 og síðan þá hafa 44 einstaklingar gegnt embættinu. Allir hafa þeir komið fyrir í kvikmyndum fyrir utan einn. John Tyler, sem var tíundi forseti BNA og gegndi því embætti á árunum 1841-1845, hefur aldrei verið notaður sem persóna í kvikmynd í fullri lengd.

Um 20 af forsetunum hafa verið notaðir fimm sinnum eða sjaldnar sem persónur í kvikmyndum og tíu af þeim hafa aðeins komið fram einu sinni í kvikmyndum. Það eru átta forsetar sem hafa verið einstaklega vinsælir sem persónur í kvikmyndum: George Washington (1789-1797), Thomas Jefferson (1801-1809), Abraham Lincoln (1861-1865), Ulysses S. Grant (1869-1877), Theodore Roosevelt (1901-1909), Franklin D. Roosevelt (1933-1945), John F. Kennedy (1961-1963) og Richard Nixon (1969-1974). Mjög mikið er fjallað um þá í sögubókum og höfðu þeir mikil áhrif á sinni stjórnartíð.

Fyrir utan að vera fyrsti forseti BNA barðist George Washington sem hershöfðingi í frelsisstríðinu og Thomas Jefferson var aðalhöfundur að sjálfstæðisyfirlýsingu BNA. Báðir þessir menn eru því meðal stofnfeðra BNA. Abraham Lincoln var forseti þegar borgarastyrjöldin var í hámarki og átti stóran þátt í að afnema þrælahald. Ulysses S. Grant var hershöfðingi í borgarastyrjöldinni. Þegar William McKinley var myrtur tók Theodore Roosevelt við embættinu og varð sá yngsti til að gegna embætti forseta, aðeins 42 ára. Franklin D. Roosevelt var forseti lengst allra, eða í 12 ár, og gegndi því embætti þegar kreppan mikla var í hámarki og nær alla seinni heimsstyrjöldina. John F. Kennedy var næstyngstur til að gegna embættinu og var Kúbudeilan eitt af stærstu verkefnum hans. Að lokum er það svo Richard Nixon, en Watergate-hneykslið var eitt af stærstu málum á hans tíð og í kjölfar þess varð hann fyrsti og eini forsetinn til að segja af sér embætti. Abraham Lincoln og John F. Kennedy voru báðir myrtir þegar þeir sinntu embætti forseta. Andlitsmyndir George Washington, Thomas Jefferson, Abraham Lincoln og Theodore Roosevelt eru höggnar út í Rushmore-fjall og byggðir hafa verið miklir minnisvarðar þeim til heiðurs í Washington-borg, ásamt Franklin D. Roosevelt. Þannig að sjá má að ansi margt á ferli þessara manna hefur heillað kvikmyndaframleiðendur og handritshöfunda.

Kvikmyndir sem koma út á kosningaári

Í 30% tilvika voru þessar kvikmyndir, sem innihéldu raunverulega forseta BNA, frumsýndar á kosningaári þegar forsetakosningar í BNA fóru fram. Forsetakosningar hafa alltaf farið fram á fjögurra ára fresti og var það fyrst árið 1924 þegar Calvin Coolidge var kjörinn forseti að þrjár myndir voru frumsýndar þar sem George Washington, Thomas Jefferson og Abraham Lincoln komu fyrir sem kvikmyndapersónur. Ekki var tekin til sýninga nein mynd með raunverulegum forseta árið 1928, en næstu áratugi eftir það komu út kvikmyndir um forseta BNA á hverju kosningaári. Það var ekki fyrr en kosningarnar 1964 og 1968 sem engin mynd kom út sem innihélt raunverulegan forseta BNA. Frá árunum 1960–1999 komu örfáar myndir út á kosningaári og fjölluðu að einhverju leyti um raunverulegan forseta, en minnst átta kvikmyndir komu út á þessum fjórum áratugum. Frá aldamótunum og til dagsins í dag er orðið mjög vinsælt að gefa út kvikmynd á kosningaári þar sem raunverulegur forseti BNA kemur fyrir, en að minnsta 23 slíkar myndir hafa komið út.

Kvikmyndir um sitjandi forseta

Það hefur komið í það minnsta 25 sinnum fyrir að sitjandi forseti er tekinn fyrir í kvikmynd. Það gerðist fyrst árið 1942 þegar Franklin D. Roosevelt var forseti. Í kvikmyndinni Yankee Doodle Dandy lék Jack Young forsetann og Art Gilmore léði honum röddina. Á þessum tíma var seinni heimsstyrjöldin í hámarki og Franklin D. Roosevelt hvatti kvikmyndaverin í Hollywood til að framleiða kvikmyndir sem myndu hjálpa bandamönnum að vinna stríðið. Hollywood svaraði kallinu og árið eftir komu út tvær kvikmyndir þar sem Franklin D. Roosevelt kemur fyrir sem forseti og aftur var Jack Young fenginn til að leika hann í báðum myndunum. Þetta voru myndirnar Mission to Moscow og This Is the Army. Eftir þetta komu út kvikmyndir af og til þar sem forseti, sem enn gegndi embættinu, kom fyrir. Árið 1947 kom út myndin The Beginning or the End og 1952 kom út Glory Alley, þar sem Harry S. Truman er tekinn fyrir. Árið 1955 kom út The Long Gray Line, þar sem Dwight D. Eisenhower kemur fyrir. Árið 1963 kom út PT 109, sem fjallar um John F. Kennedy þegar hann var í hernum og barðist í seinni heimsstyrjöldinni. Hann stýrði eins og frægt er skipi sem kallaðist PT 109 og varð fyrir tundurskeyti Japana og sökk.

Þessar myndir voru oftast dramatískar eða með léttu ívafi án þess að vera gamansamar. Það átti eftir að breytast þegar sjónvarpsþátturinn Saturday Night Live fór í loftið árið 1975. Í nánast hverjum einasta þætti var sitjandi forseti tekinn fyrir á gamansaman hátt. Hollywood tók eftir þessu og fljótlega var sitjandi forseti tekinn fyrir í hinum ýmsu farsakenndu grínmyndum. Árið 1976 var Ford tekinn fyrir í The Pink Panther Strikes Again, 1978 var Carter tekinn fyrir í Sextette, 1982 var Reagan tekinn fyrir í Airplane II: The Sequel, 1991 var George H. W. Bush tekinn fyrir í The Naked Gun 2½: The Smell of Fear og árið 1993 var Bill Clinton tekinn fyrir í Naked Gun 33 1/3: The Final Insult. Ford, Carter, Reagan og Bush voru bara teknir einu sinni fyrir á meðan þeir sátu í embætti en eftir að þeir yfirgáfu embættið var samt haldið áfram að notast við þá í hinum ýmsu kvikmyndum og voru þeir reyndar allir teknir fyrir í gamanmyndinni Hot Shots! Part Deux. Þetta breyttist þegar Bill Clinton varð forseti og fjölgaði þá kvikmyndum þar sem fjallað var um sitjandi forseta. Komu í það minnsta fjórar slíkar myndir út meðan Clinton var forseti. Þegar George W. Bush var í embætti komu út minnst fimm slíkar kvikmyndir og fjórar þegar Barack Obama var í embætti. Í mörgum þeirra kom fyrir fleiri enn einn raunverulegur forseti. Sú kvikmynd sem sýndi flesta forseta var myndin The Butler, sem kom út árið 2013. Í þeirri mynd komu fyrir sex forsetar.

Stórleikarar taka að sér forsetahlutverkið

Daniel Day-Lewis er eini leikarinn sem hefur unnið Óskarsverðlaun fyrir að leika forseta Bandaríkjanna, en það var fyrir túlkun hans á Abraham Lincoln í kvikmyndinni Lincoln sem Steven Spielberg leikstýrði.

Í gegnum tíðina hafa margir raunverulegir forsetar verið leiknir af þekktum Hollywood-leikurum og má þar nefna George Washington (Jeff Daniels, Jon Voight), Thomas Jefferson (Nick Nolte), John Quincy Adams (Anthony Hopkins), Andrew Jackson (Charlton Heston), Abraham Lincoln (Henry Fonda, Daniel Day-Lewis), Ulysses S. Grant (Kevin Kline), Theodore Roosevelt (Robin Williams), Franklin D. Roosevelt (Jon Voight, Kenneth Branagh, Bill Murray), Harry S. Truman (Gary Sinise), Dwight D. Eisenhower (Tom Selleck, Robin Williams), Lyndon B. Johnson (Bryan Cranston, Woody Harrelson), Richard Nixon (Anthony Hopkins, Frank Langella, John Cusack, Kevin Spacey), Ronald Reagan (Alan Rickman) og George W. Bush (Josh Brolin, Sam Rockwell).

Sumir ofangreindra leikara hafa fengið að leika tvo raunverulega forseta. Jon Voight hefur leikið George Washington og Franklin D. Roosevelt, Robin Williams hefur leikið Theodore Roosevelt og Dwight D. Eisenhower og Anthony Hopkins hefur leikið John Quincy Adams og Richard Nixon, en hann var einmitt tilnefndur til Óskarsverðlauna fyrir að leika báða þessa forseta, annars vegar í myndinni Amistad og hins vegar í myndinni Nixon. Samtals hafa sjö leikarar verið tilnefndir fyrir að leika raunverulegan forseta BNA í kvikmynd, en Daniel Day-Lewis er sá eini sem hefur unnið verðlaunin og var það fyrir aðalhlutverk í kvikmyndinni Lincoln sem Steven Spielberg leikstýrði.

Höfundur er sagnfræðingur.

Greinin birtist í hausthefti Þjóðmála, 3. tbl. 2020. Hægt er að gerast áskrifandi að Þjóðmálum með því að senda tölvupóst á askrift@thjodmal.is eða skilaboð á facebook síðu ritsins. Ritið færst einnig í lausasölu í verslunum Pennans/Eymundsson.