Aftaka Jóns Arasonar Hólabiskups og sona hans Ara og Björns í Skálholti þann 7. nóvember 1550 er einn kunnasti atburður allra tíma í sögu Íslands. Hvert einasta mannsbarn þekkir að minnsta kosti slitrur af þessum atburði og eru ýmis ummæli sem látin voru falla í aðdraganda hans, meðan hann stóð yfir og í kjölfar hans samofin íslenskri málhefð.
Flestir þekkja hinar yfirborðskenndu ástæður þess að feðgarnir voru dregnir á höggstokkinn og gerðir höfðinu styttri – siðbót Marteins Lúthers, en færri þekkja til þeirra átaka sem til atburðarins leiddu eða hvers konar samfélagslegar umhleypingar áttu sér stað í samfélaginu um miðja sextándu öldina.
Að einhverju leyti skýrist það af því að aftakan sem slík er myndræn og hryllileg – yfirgengileg í öllum skilningi – en einnig því að greining á aldarfari svo fjarri nútímanum er margbrotin og á margan hátt illskiljanleg út frá mælikvörðum samtímans. Fáir búa yfir áhuga eða tíma til þess að setja sig inn í það ástand allt, aðrir en þrautlærðir sagn- og fornleifafræðingar sem sérstaklega beina sjónum sínum og kröftum að þessu tímabili.
Kirkjusaga og fjármálastöðugleiki
En á því eru undantekningar og ein þeirra birtist nú fyrir skemmstu þegar dr. Ásgeir Jónsson, hagfræðingur og seðlabankastjóri, sendi frá sér kver sem öðrum þræði fjallar um íslenskt samfélag á fyrri hluta 16. aldar og fram á hana miðja. Yfirskrift bókarinnar er „Uppreisn Jóns Arasonar“. Þótt útgáfa bókarinnar sæti að sjálfsögðu nokkrum tíðindum, ekki vegna efnistakanna, heldur vegna þess að hún er höfundarverk embættismanns sem stendur í ströngu þessi misserin við að varðveita fjármálastöðugleika í landinu, kemur áhugi Ásgeirs á viðfangsefninu ekki á óvart.
Þannig hefur hann m.a. ritstýrt verki sem nefnist „Ljóðmæli Jóns Arasonar“ og kom út árið 2006. Var það í fyrsta sinn sem öll ljóðmæli biskups komu út í einni bók, en í inngangi að verkinu, sem Ásgeir skrifar og telur tæplega 80 síður, er saga Jóns rakin og dregin upp mynd af því samfélagi sem hann lifði í. Áhugi seðlabankastjórans er því augljós og hann hefur raunar tjáð sig opinberlega um hann og rekur m.a. til þeirrar staðreyndar að hann er að hluta til alinn upp á Hólum í Hjaltadal, þar sem andi biskupsins svífur enn yfir vötnum.
Stutt og haldgóð umfjöllun
Verkið sem nú er komið út er stutt og haldgott, telur í heildina rétt ríflega 100 síður og meginmál um 87 síður. Það er í handhægu broti og textinn allur aðgengilegur og lipurlega skrifaður. Heimildir eru sóttar víða að, allt frá elstu heimildum Fornbréfasafnsins til nýlegra rannsókna sem lagt hafa til aukins skilnings á söguefninu. En það er ekki síst í gegnum skáldskapinn, Jóns Arasonar og annarra, sem Ásgeir bindur söguefnið saman. Þar er hann á heimavelli og sækir ekki aðeins í samtímakveðskap biskups heldur einnig síðari tíma skáld sem leggja út af atburðum eða vísa til Jóns og örlaga hans. Það gefur bókinni skemmtilegan blæ þótt í sumum tilvikum hefðu skýringar mátt fylgja ljóðum og hendingum sem eru torskilin eða nauðsynlegt að setja í samhengi þar sem lesandinn er í fæstum tilvikum jafn gjörkunnugur sögusviðinu og höfundurinn.
Við mat á verki sem þessu má alltaf velta fyrir sér hvað tekið er fyrir og hverju sleppt en einnig uppbyggingu frásagnarinnar. Ásgeir kýs að hefja för á atburðum fáum vikum fyrir aftökuna í Skálholti, nánar tiltekið þegar orrustan að Sauðafelli í Dölum á sér stað, þar sem Daði Guðmundsson sækir að biskupi og fylgdarmönnum hans og tekur þá höndum. Í kjölfar þess að lesandinn er settur inn í aðstæðurnar í árslok 1550 snýr umfjöllunin að aðdraganda þessara átaka og hvaða pólitíska þrátefli var uppi milli lútherskra og kaþólskra, Danakonungs og Þjóðverja.
Myndir af miklum manni
Í kjölfar þeirrar samantektar tekst höfundur á hendur það verkefni að draga upp mynd af Jóni Arasyni, æsku hans og uppvexti, barnaláni og fjölskylduhögum, listrænum þráðum í persónu hans sem birtast í veraldlegum og trúarlegum kveðskap og svo auðvitað framgangi innan kirkjunnar. Þegar þessar svipmyndir hafa verið dregnar fram snýr umfjöllunin í eðlilegu flæði að valdsmanninum sem tekur við biskupsdómi í upphafi þriðja áratugar 16. aldarinnar. Sú vegferð endaði svo undir öxinni í Skálholti eins og fyrr er getið.
Í fremur knöppum og skýrum texta dregur Ásgeir svo ályktanir sínar af söguefninu. Samúð hans er með Jóni þótt ekki dragi hann neitt undan þegar hann fjallar um þau mistök sem biskup gerði er hann vanmat stöðu sína, bæði gagnvart keisara en einnig Danakonungi og þeim innlendu höfðingjum sem snerust gegn honum og unnu á honum að lokum.
Athyglisverð er sú skoðun höfundar að aftakan í nóvember 1550 hafi forðað miklum blóðsúthellingum, en Ásgeir telur víst að herför Danakonungs hefði farið með öðrum hætti hefði Jón enn dregið lífsandann sumarið 1551. Hafi höfundur rétt fyrir sér, og hafi samtímamenn Jóns mögulega metið stöðuna með sama hætti, má segja að dauði Jóns hafi falið í sér þjóðlegt píslarvætti. Hans blóði var úthellt fyrir marga sem annars hefðu fallið í valinn. Lokaorð bókarinnar gefa raunar til kynna að þannig sé í pottinn búið. Jón hafi orðið þjóðhetja í dauða sínum. Víst er að minning hans er böðuð miklum ljóma, ekki síst vegna þess að hann stóð uppi í hárinu á erlendu valdi, en aðdáunin kann að eiga sér djúprættari skýringar og þá einmitt þær sem hér að ofan eru reifaðar.
Víðsýni skiptir sköpum
Það er fagnaðarefni þegar bækur um sögulegt efni koma út. Ekki er það síður jákvætt þegar efnið kemur ígrundað og vel fram sett úr óvæntri átt. Það er gott til þess að hugsa að maðurinn sem settur hefur verið til æðsta embættis í peningamálum landsins skuli gefa öðrum hlutum gaum en þeim sem einungis snúa að fjármagni og þjóðhagsstærðum. Það er til marks um víðari sýn en það sem þröngur vegur hagfræðinnar getur boðið upp á einn og sér.
Vonandi er þetta ekki síðasta bók Ásgeirs Jónssonar um sögulegt efni þótt ósennilegt sé að í miklum önnum gefist rúmur tími til skrifa af þessu tagi. Sem stendur er hann þátttakandi og áhrifamaður á sviði sögulegra atburða. Vendinga sem síðar verður fjallað um í söguspegli, af honum sjálfum mögulega en alveg ábyggilega öðrum.
Höfundur er blaðamaður og guðfræðingur.
—
Greinin birtist í vetrarhefti Þjóðmála, 1. tbl. 2021. Hægt er að gerast áskrifandi að Þjóðmálum með því að senda tölvupóst á askrift@thjodmal.is eða skilaboð á facebook síðu ritsins. Ritið færst einnig í lausasölu í verslunum Pennans/Eymundsson.