Tilraunaútsendingar á sjónvarpi allra landsmanna og jóladagskráin fyrstu 20 árin

Sjónvarp RÚV byrjaði stundvíslega kl. 20:00 þann 30. september 1966. Þegar tilraunaútsendingar sjónvarpsins hófust var bara útsending í tvo daga vikunnar til að byrja með, á miðvikudögum og föstudögum, um þrjár klukkustundir hvern dag.

Flest okkar, ef ekki öll, eiga okkar uppáhalds jólakvikmyndir sem við horfum á um hver einustu jól. Þetta hjálpar okkur að komast í jólaskap og er samverustund sem öll fjölskyldan nýtur á aðventunni. Oftast er fjöldi stórmynda frumsýndur í bíó um jólavertíðina og landsmenn flykkjast í bíó. Svo eru það sjónvarpsstöðvarnar og streymisveitur sem bjóða upp á alls kyns jólaefni fyrir alla aldurshópa. En hvernig var þetta hér áður fyrr um jólin, fyrir tíma streymisveita, internets og úrvals sjónvarpsstöðva annarra en Ríkissjónvarpsins (RÚV)?

Tilraunaútsendingar RÚV hefjast

Sjónvarp RÚV byrjaði stundvíslega kl. 20:00 þann 30. september 1966. Mikil spenna ríkti og voru götur Reykjavíkur auðar þegar útsendingar sjónvarps hófust, skapaðist álíka ástand og kl. 18:00 á aðfangadagskvöldi. Bíóhúsin og skemmtistaðir voru hálftóm, fyrir utan bari sem buðu upp á sjónvarp; þeir voru fullsetnir. Mikil vandræði sköpuðust hjá leigubílastöðvum, þar sem margir vildu skjótast til vina og ættingja sem áttu sjónvarp, en fáir leigubílstjórar voru á vakt, þar sem þeir voru sjálfir heima að horfa á sjónvarpið.

Þegar þessar tilraunaútsendingar sjónvarpsins hófust var bara útsending í tvo daga vikunnar til að byrja með, á miðvikudögum og föstudögum, um þrjár klukkustundir hvern dag. Stefnan var að síðar yrði sjónvarpað fleiri kvöld vikunnar, bæði innlendu og erlendu efni. Dagskráin hófst ávallt á þættinum „Frá liðinni viku“, þar sem sýndar voru fréttamyndir utan úr heimi sem höfðu verið teknar upp vikuna áður. Fyrsta kvikmyndin sem var sýnd var eftir Osvald Knudsen, um Íslendingabyggðir á Grænlandi til forna. Fyrstu erlendu þættirnir voru The Saint (Dýrlingurinn), The Flintstones (Steinaldarmennirnir) og I Love Lucy (Lucy brýtur ísinn). Þetta var meðal þess sem var boðið upp á fyrstu daga sjónvarpsins.

Fyrsti íþróttaviðburðurinn var sýndur 14. október 1966, þegar sýndur var seinni hálfleikur í landsleik unglingaliða Dana og Norðmanna í fótbolta. Þetta var að vísu ekki bein útsending, þar sem leikurinn hafði farið fram nokkrum dögum áður og Danmörk vann leikinn 4-2 eins og kom fram í tilkynningu í sjónvarpsdagskránni. Í nóvember 1966 sýndi RÚV frá nokkrum landsleikjum sem höfðu farið fram á HM í knattspyrnu í Englandi í júlí sama ár. Fyrsti leikurinn sem var sýndur var leikur Portúgala og Sovétríkjanna, sem var leikur um þriðja sætið á mótinu. Var ákveðið að sýna þennan leik kl. 18:30 á föstudagskvöldi og voru ekki allir sáttir við þá tímasetningu, þar sem margir voru að vinna til kl. 19:00 á föstudögum og misstu af stórum hluta leiksins. Vildu margir að leikirnir yrðu sýndir um helgi í staðinn. RÚV varð ekki við þeirri beiðni en ákvað í staðinn að sýna íþróttaviðburði á miðvikudögum; þá voru flestir búnir fyrr að vinna en á föstudögum.

„Þetta reddast“

Hið séríslenska slagorð „þetta reddast“ átti svo sannarlega við þegar útsendingar RÚV hófust. Eftirspurn eftir sjónvarpstækjum jókst og salan gekk svo vel að sjónvarpsverslanir seldu tækin í kössum af götunni, þar sem ekki vannst tími til að taka utan af þeim. Bíóhúsin tóku eftir því að aðsókn minnkaði fyrstu vikurnar eftir að RÚV hóf útsendingar. Félagsbíó í Keflavík brá á það ráð að setja upp sjónvarp í anddyrinu þannig að ef bíógestir vildu ekki missa af einhverjum sjónvarpsþætti gætu þeir skotist út úr kvikmyndasalnum og inn í anddyri til að geta horft á þáttinn sinn og farið svo aftur inn í sal og klárað að horfa á bíómyndina. Raftækjaverslun í Vestmannaeyjum var alltaf með kveikt á sjónvarpi í búðarglugganum en þegar RÚV fór i loftið var slökkt á öllum tækjunum. Ástæðan var sú að þau voru öll uppseld. Einn verslunareigandi gekk svo langt að rífa niður sjónvarpsloftnetið á húsi sínu svo að sjónvarpskaupandi gæti notað það til að horfa á sjónvarpið sem hann keypti hjá honum. Um áramótin 1966-67 var áætlað að um 14.000 sjónvarpstæki væru á landinu en mannfjöldinn á Íslandi 1. janúar 1967 var 197.221.

Keflavíkursjónvarpið

Kanasjónvarpið svokallaða var umdeilt. Þegar stöðin hóf útsendingar árið 1955 var hún eina sjónvarpsstöðin á Íslandi og náðu útsendingar hennar út fyrir herstöðina á Keflavíkurflugvelli, yfir Suðurnes og á hluta Höfuðborgarsvæðisins. Árið 1964 skrifuðu 60 þekktir einstaklingar undir áskourn þar sem þess var krafist að útsendingar stöðvarinnar yrðu takmarkaðar. Meðal þeirra sem skrifuðu undir voru Halldór Laxness, Sigurður Nordal, Gunnar Gunnarsson, Kristján Eldjárn og Sigurbjörn Einarsson.

Áður en RÚV hóf sjónvarpsútsendingar var ekkert sjónvarp í boði fyrir meirihluta landsmanna. Það átti ekki við þá sem bjuggu í nágrenni við herstöðina í Keflavík. Keflavíkursjónvarpið (oftast kallað Kanasjónvarpið) hóf útsendingar árið 1955 í þeim tilgangi að þjónusta þá hermenn sem bjuggu á herstöðinni. Fljótlega kom í ljós að útsendingin náði alla leið til Reykjavíkur og fóru margir að verða sér úti um sjónvarpstæki til að geta fylgst með dagskrá stöðvarinnar. Urðu miklar deilur út af þessu í þjóðfélaginu og kom það oft inn á borð hjá Alþingi, þar sem deilt var um hvort loka ætti á stöðina eða takmarka útsendingu, en það náði ekki í gegn. Varð þetta til að auka þrýsting á að komið yrði af stað íslenskri sjónvarpsstöð, þar sem m.a. var óttast að íslensk ungmenni yrðu fyrir óæskilegum menningaráhrifum og glötuðu jafnvel íslenskunni ef Keflavíkursjónvarpið yrði eina sjónvarpið sem væri í boði hér á landi. Árið 1974 færðust sjónvarpsútsendingar Keflavíkursjónvarpsins yfir á kapalkerfi og þá var ekki hægt að nálgast dagskrána fyrir utan herstöðina. Eftir það var RÚV eina sjónvarpsstöðin sem var í boði hér á landi, þangað til Stöð 2 hóf útsendingar 9. október 1986.

Ekki voru allir sáttir við tilkomu Ríkissjónvarpsins og er hægt að fletta upp í dagblöðum þess tíma skrifum frá sjónvarpsnotendum. Einn lýsti því yfir að sjónvarpið væri ágætt en kvartaði undan því að það væri að sýna þættina Dýrlinginn (The Saint). Væru börnin á heimilinu svo ólm að vilja sjá þáttinn að ef þau fengju ekki sínu fram ríkti ófriður á heimilinu. Annar sjónvarpsnotandi kvartaði undan því að sjónvarpað væri á föstudagskvöldum, þar sem kvikmyndahús, leikhús og aðrir samkomustaðir væru mjög vinsæl á þeim tíma. Óttast var að það myndi minnka eftirsókn á þá staði ef fólk væri heima hjá sér að horfa á sjónvarpið. Ein kvartaði undan sjónvarpsgestum, þar sem fólk kom óboðið í heimsókn á miðvikudags- og föstudagskvöldum bara til að geta horft á sjónvarpið hjá viðkomandi af því að það átti ekki sjónvarp sjálft. En svo voru aðrir sem voru ánægðir að fá inn til sín gesti sem litu inn á sjónvarpstíma. Vinsælasti dagskrárliðurinn á RÚV var fréttamyndir, sem Keflavíkursjónvarpið sýndi í mjög litlum mæli. Sagði einn sjónvarpsnotandi að hann óttaðist að þegar RÚV færi að sýna oftar en tvisvar í viku myndi hann ekki hafa tíma til að horfa á sjónvarpið, en hann vildi helst ekki missa af neinu sem var í boði.

Fjölgun sjónvarpsdaga og kosningasjónvarp

RÚV bætti þriðja útsendingardeginum við sunnudaginn 11. desember 1966. Hófst dagskráin kl. 16:00 með erlendum fréttaþætti og eftir það var þátturinn „Á ferð um Alaska“ endursýndur vegna fjölda áskorana. Að lokum var sýndur landsleikur í knattspyrnu á milli Englands og Portúgals frá HM í júlí og voru dagskrárlok kl. 18:15.

Útvarpsráð gaf út að sjónvarpsdögum skyldi fjölgað í fjóra daga í viku 1. febrúar 1967, í fimm daga 15. maí og svo í sex daga 1. september 1967. Var byrjað að fjölga í fjóra daga 6. Febrúar, þegar RÚV hóf sjónvarpsdagskrá á mánudögum. Sýningartíminn á sunnudögum var 4 klst. en á virkum dögum styttist dagskráin um 30 mínútur og var oftast lokið um kl. 22:30. Árið 1967 voru páskarnir í lok mars og því var ekki dagskrá á föstudeginum langa heldur var hún færð yfir á laugardaginn. RÚV var þó með sjónvarpsdagskrá á páskadag og annan í páskum. Páskadagskráin stóð frá kl. 16:00–18:15 og innihélt m.a. páskaguðsþjónustu og Stundina okkar.

Í lok maí 1967 stóð kosningabaráttan fyrir alþingiskosningar yfir og fékk hver flokkur 20 mínútna dagskrá sem þeir fengu að ráða sjálfir. Eftir fréttir mánudaginn 29. maí og miðvikudaginn 31. maí komu fulltrúar stjórnmálaflokkanna fram sem buðu sig til alþingiskosninga og fluttu 20 mínútna stefnuræðu. Föstudaginn 2. júní fór svo fram framboðsfundur í sjónvarpssal þar sem fulltrúar stjórnmálaflokkana áttust við og mánudaginn 5. júní fór fram samtalsfundur forystumanna þingflokkana. Kosningarnar fóru fram 11. júní og voru þær fyrstu sjónvarpskosningar á Íslandi. Dagskrá sjónvarpsins á kosningadeginum var 6 klst. löng en kl. 23:00 hófst kosningasjónvarp sem lauk um miðnætti. Daginn eftir hófst sjónvarpsdagskrá kl. 18:30 með kosningasjónvarpi sem stóð yfir í klukkustund. Klukkan 22:05 byrjaði aftur kosningasjónvarp, þar sem sagðar voru nýjustu fréttir af talningu atkvæða. Þetta fyrsta kosningasjónvarp tókst mjög vel og var fylgst með talningu atkvæða alveg fram að síðustu tölum. Enda varð það svo að Viðreisnarstjórn Alþýðuflokks og Sjálfstæðisflokks rétt hélt velli með 32 kjörna þingmenn.

Sjónvarpið var enn með útsendingar fjóra daga vikunnar þegar það fór í sumarfrí þetta árið og var síðasta útsendingin miðvikudaginn 28. júní 1967. Samkvæmt áætlun átti að byrja fimm daga útsendingar um miðjan maí en ekkert varð úr því. Útsendingar hófust aftur mánudaginn 31. júlí og var þá svo komið að RÚV var búið að fá leyfi til að ráða fleiri starfsmenn svo að hægt væri að senda út sex daga vikunnar. Á þessum tíma var landinn ekki allur sammála um hvort ætti að fjölga útsendingardögunum. Flestir færðu þau rök fram að ekki ætti að fjölga útsendingardögunum heldur bæta framleiðslu á íslensku efni. Í Alþýðublaðinu 30. júlí 1967 birtist viðtal við nokkra íslenska sjónvarpseigendur sem voru spurðir hvort þeir vildu fjölga útsendingardögum RÚV og hvort loka ætti Keflavíkursjónvarpinu. Ein af þeim sem svöruðu var kennari sem „vildi fjölga útsendingardögum sjónvarpsins tafarlaust í ljósi þess, að þá yrði bandarískt sjónvarp lagt niður“. Hún var ánægð með „efni hins íslenzka sjónvarps og kvaðst hafa orðið vör við að það hefði dregið mjög úr glápi á Keflavíkursjónvarpið, sem væri þjóðarhneisa“. Þessi kennari hét Vigdís Finnbogadóttir.

2. september 1967 hófust sjónvarpsútsendingar sex daga vikunnar og bættust þá við laugardagar og þriðjudagar. Ekki var sjónvarpað á fimmtudögum. Til að byrja með voru engir fréttatímar á þessum nýju útsendingardögum og var aðallega erlent efni sýnt. Á þriðjudögum voru sýndar fræðslumyndir og á laugardögum íþróttaefni, en þarna var byrjað að sýna frá enska boltanum. Sýndir voru leikir sem höfðu farið fram viku áður, en leikirnir voru samt bara um 45 mínútur að lengd, þar sem þeir höfðu verið klipptir til. Á laugardagskvöldum voru sýndar kvikmyndir í fullri lengd en kvikmyndin var svo endursýnd á miðvikudagskvöldum. Sjónvarp á miðvikudögum hófst kl. 18:00 á barnaefni.

Jóladagskrá sjónvarpsins

Þar sem desembermánuður er nú liðinn og margir hafa eflaust þurft að treysta á afþreyingu vegna samkomutakmarkana, er athyglisvert að skoða hvað var í boði fyrir landsmenn að horfa á um jólin fram til ársins 1986, þegar Stöð 2 hóf útsendingar. Það var dagskrá flesta daga um jólin en stundum var ekki dagskrá á Þorláksmessu og á fimmtudögum ef þeir lentu ekki á hátíðardegi. Fyrsta skipti sem sjónvarpað var á fimmtudegi var á annan í jólum 1968. RÚV var með sjónvarpsdagskrá í fimm daga í kringum jólin 1966. Ekki var nein dagskrá á Þorláksmessu en á aðfangadagskvöld var dagskrá í tvær klukkustundir sem hófst kl. 22:00 með guðsþjónustu í sjónvarpssal. Var það biskup Íslands sem predikaði og að því loknu sungu guðfræðinemar. Lauk guðsþjónustunni kl. 23:00 og við tóku jólatónleikar frá kirkjunni í Birnau við Constance-vatn. Lauk dagskránni á miðnætti. Þetta var í fyrsta skipti sem RÚV sjónvarpaði á laugardegi.

Á jóladag hófst dagskráin kl. 16:30 með Stundinni okkar, sem var jólagleði í sjónvarpssal fyrir börnin. Var þessi þáttur, sem enn lifir í dag, sendur þarna út í fyrsta skipti. Miðvikudaginn 28. desember var nokkuð hefðbundin dagskrá eins og hafði verið undanfarna miðvikudaga. Á gamlársdag byrjaði dagskráin kl. 15:00 þar sem sýnt var frá úrslitaleik á HM í knattspyrnu þar sem England og V-Þýskaland áttust við. Svo voru sýndir innlendir og erlendir fréttaannálar. Kl. 20:00 var svo komið að ávarpi Bjarna Benediktssonar forsætisráðherra og kl. 22:25 var komið að þættinum Áramótaspaug. Á nýársdag hófst útsendingin kl. 13:00 á ávarpi frá forseta Íslands, Ásgeiri Ásgeirssyni. Svo voru fréttaannálar frá deginum áður endursýndir. Ekki voru neinar kvikmyndir í fullri lengd sýndar um þessa fyrstu jólahátíð RÚV.

Eins og sést á þessari upptalningu er margt í þessari fyrstu jóladagskrá RÚV sem enn er notast við í dag. Næstu jól lengdist dagskrártíminn og meira efni bættist við. Barnaefni, leikrit, óperur, sirkusatriði og ballettsýningar voru vinsælt efni yfir jólahátíðina. Margar góðar og veglegar kvikmyndir voru sýndar yfir hátíðarnar. Þetta voru oftast vinsælar kvikmyndir sem höfðu unnið til Óskarsverðlauna, eins og t.d. Mr. Deeds Goes to Town, The Life of Emile Zola, The Miracle Worker, Tom Jones, Miracle on 34th Street, How Green Was My Valley, Cabaret, Born Free, Paper Moon, Murder on the Orient Express, Who‘s Afraid of Virginia Woolf?, The Graduate, Julia og Network.

Nú til dags er jóladagskráin á RÚV með marga dagskrárliði yfir hátíðina sem margir landsmenn missa aldrei af, t.d. fréttaannála og áramótaskaupið. Væri því hægt að segja að jóladagskráin á RÚV sé orðin hluti af jólahefðinni hjá mörgum landsmönnum.

Höfundur er sagnfræðingur.

Greinin birtist í vetrarhefti Þjóðmála, 1. tbl. 2021. Hægt er að gerast áskrifandi að Þjóðmálum með því að senda tölvupóst á askrift@thjodmal.is eða skilaboð á facebook síðu ritsins. Ritið færst einnig í lausasölu í verslunum Pennans/Eymundsson.