Sagan af skrítna hnettinum

Andri Snær Magnason (Mynd - Gassi-Forlagid)

Í frétt sem birtist á heimasíðu Háskólans á Akureyri í október 2019 sagði um nýjasta höfundarverk Andra Snæs Magnasonar:

„Andri Snær Magnason hefur undanfarin ár viðað að sér rannsóknum um tímann og vatnið, hvernig allt í heiminum mun taka breytingum á næstu hundrað árum með loftslagsbreytingum. Hann setur málefnið í samhengi, birtir okkur stærðargráðuna, leitar að vonarglætum og veltir upp spurningunni, hvað þýðir það að vera ung manneskja og standa frammi fyrir þessari áskorun.“

Um tímann og vatnið
Höfundur: Andri Snær Magnason
Útgefandi: Mál & menning, 2019
320 bls.

Með lýsingunni var boðað til viðburðar í Hofi, menningarhúsi Akureyrar þar sem höfundur fór yfir efni bókarinnar. Aðgangseyrir var 3.900 krónur. Þarna var um að ræða gestasýningu frá Borgarleikhúsinu sem hefur boðið upp á sama viðburð á stóra sviðinu frá útgáfu bókarinnar og mun halda áfram þar á nýju ári.

Bókin sem um ræðir nefnist Um tímann og vatnið og líkt og lýsingin á viðburðinum í Hofi vitnar um tekst höfundur í henni á við spurningar tengdar loftslagsmálum og þá vá sem virðist fyrir dyrum í þeim efnum.

Að mörgu leyti er bókin rökrétt framhald af vinsælli bók höfundar, Draumalandið – sjálfshjálparbók handa hræddri þjóð sem kom út hjá Máli og menningu árið 2006. Allt frá útgáfu hennar hefur Andri Snær skipað sér í hóp ötulustu málsvara umhverfisverndar í landinu. Náði sú barátta líklega hápunkti þegar hann árið 2016 bauð sig fram til forseta Íslands.

Þegar hann tilkynnti um framboðið sagði hann umhverfismálin langstærstu áskorun 21. aldarinnar og að ef jörðin ætti að geta borið allan þann mannfjölda sem stefndi í þyrfti að „endurhanna og endurhugsa nánast alla 20. öldina.“ Þá sagði hann að þjóðgarðar á Íslandi væru ein af þeim stóru hugmyndum sem þjóðin þyrfti að láta verða að veruleika. „Þjóðgarður myndi staðfesta mikilvægi og gildi náttúrunnar í sjálfri sér. Hálendið er hluti af sjálfsmynd okkar. Hálendið er kjarninn í ímynd Íslands og þjónar þannig öllum landsmönnum. 40.000 ferkílómetra þjóðgarður væru mikilvæg skilaboð út í heim þar sem náttúran á alls staðar í vök að verjast.“

Hljómgrunnur

Þótt ekki hafi þessi nálgun hlotið hljómgrunn í kosningunum hefur Andri Snær haldið ótrauður áfram. Sífellt færist meiri þungi í umræðuna um loftslagsbreytingar og þær aðgerðir sem grípa þurfi til í því skyni að sporna við þeim. Skýrasta dæmið um þessa þróun er sú frægð sem unglingsstúlkan Greta Thunberg hefur hlotið á undraskömmum tíma og skipað henni í hóp áhrifamestu aðgerðasinna í heimi. Fyrir rúmu ári vissu fáir hver hinn ungi eldhugi var en nú í desember var hún útnefnd maður ársins af Time magazine.

Og bókin hefur tekið flugið, líkt og Greta (jafnvel þótt hún neiti að fljúga). Hún hefur fengið gríðarlega umfjöllun í fjölmiðlum og augljóst að margir hafa gefið sér tíma til þess að kynna sér efni hennar. Athyglin er verðskulduð og kemur það til af nokkrum ástæðum. Í fyrsta lagi brennur málefnið á mörgum, í öðru lagi er Andra Snæ einkar lagið að koma hugsunum sínum á framfæri með frumlegum hætti og þá skemmir alls ekki fyrir að bókin er snotur, fer vel í hendi og hönnunin er á heimsmælikvarða.

Síðastnefnda atriðið kemur ekki á óvart. Hönnun bókarinnar var í höndum Barkar Arnarsonar og Einars Geirs Ingvarssonar en sá síðarnefndi hefur hlotið mikið lof fyrir hönnun bóka ljósmyndarans RAX á síðustu árum. Sérstök ástæða er til að nefna myndirnar sem birtar eru í bókinni. Framsetningin er óvenjuleg en mjög áhrifamikil, þekur ávallt opnu í senn, allar myndir svarthvítar og ekki endilega lögð áhersla á myndgæðin heldur þau hughrif sem þær kalla fram í samhengi við textann sem þær fylgja. Þar er mjög vel að verki staðið.

Villur

Að öðru leyti er frágangur texta í nokkuð góðu horfi, letrið læsilegt og passlega stórt. Verkið líður hins vegar fyrir að það er ekki nægilega vel yfirlesið og á allnokkrum stöðum má sjá innsláttarvillur eða að orð hafi fallið brott eða þeim ofaukið (dæmi má sjá um þetta á s. 66, 107 og 211). Þetta er í raun talsverður ágalli á verkinu sem skrifað er á kynngimögnuðu og góðu nútímamáli og gefur lesandanum óþægilega tilfinningu fyrir því að ekki hafi verið vandað nægilega til verka, að minnsta kosti í frágangi, jafnvel öðru. Þegar ráðist er í útgáfu bókar af þessu tagi, þar sem búist er við miklu af höfundi, má prófarkalestur ekki bregðast.

Áður en orðum er vikið að innihaldi bókarinnar er nauðsynlegt að nefna eitt atriði umfram önnur sem vanda hefði mátt betur til. Á nokkrum stöðum í bókinni, nánar tiltekið sjötíu og fjórum, notast höfundur við aftanmálsgreinar til þess að gera lesandanum kleift að átta sig á því hvert tilteknar beinar tilvitnanir eða þekkingaratriði eru sótt. Það á við um skýrslur, fréttir, heimasíður, blaðagreinar o.fl., tímarit og bækur. Þótt halda verði vísunum af þessu tagi innan eðlilegra marka er þó nauðsynlegt að gæta samræmis, ekki síst þar sem um beinar tilvitnanir eða vísanir í rannsóknir er að ræða. Þar verður höfundi oftar en ekki fótaskortur á svellinu, m.a. þar sem vitnað er til ummæla Roberts Oppenheimer í „einhverju“ viðtali (s. 126) og eins þar sem fjallað er um hvernig jöklar í Alaska hafa hopað á síðustu árum (s. 180). Það dregur úr vigt textans að ekki sé gætt að þessu atriði.

Stíllinn

Bestu dæmin um þau sterku tök sem Andri Snær hefur á íslenskri tungu koma fram í myndlíkingum þar sem hann kemur lesendum á óvart. Það kemur t.d. skemmtilega fram þegar hann líkir sambandi mannsins við olíunotkun heimsins við það samband sem Sæmundur fróði átti við sjálfan Kölska (s. 200). Annað dæmi má taka af síðu 190 þar sem í raun má finna hinn rauða þráð verksins, gagnrýni á umgengni mannsins við náttúruna á nýliðinni öld og fyrstu tveimur áratugum þeirrar sem við nú lifum:

„Núna erum við sjö milljarðar talsins, við svindluðum á kerfinu og grófum okkur niður á ævaforn jarðlög úr löngu dauðum lífverum. Eins og særingamenn þá röskuðum við ró þeirra með því að dæla þeim aftur upp á yfirborðið, tendra bál og beisla hundrað milljón ára gamalt sólskin sem lá dormandi í iðrum jarðar. Við látum eldinn lúta vilja okkar. Við rekum skipin mót stormi og mokum upp fiskinum, þreskjum kornið, reisum borgir og fljúgum yfir hafið í málmdrekum, allt í krafti brunans. Þannig hefur þetta stigvaxið í meira en tvær aldir og aldrei verið meira en einmitt núna.“

Vísanir

Í bókinni er Andri Snær duglegur við að vekja eldra efni, sem náð hefur flugi hjá öðrum höfundum, til nýs lífs. Augljósasta dæmið þar um er heiti bókarinnar sem augljóslega vekur hugrenningatengsl við bók Steins Steinarr, Tíminn og vatnið, sem út kom árið 1948. Önnur dæmi eru af augljósum vísunum í upphafsorð fjórða hluta Heimsljóss þar sem segir svo eftirminnilega:

„Þar sem jökulinn ber við loft hættir landið að vera jarðneskt, en jörðin fær hlutdeild í himninum, þar búa ekki framar neinar sorgir og þessvegna er gleðin ekki nauðsynleg, þar ríkir fegurðin ein, ofar hverri kröfu. “

Það mætti þó halda því fram að ákveðin klifun felist í því að sækja í þessa víðfrægu lýsingu oftar en einu sinni, eins og reyndin er í bókinni. Þá er einnig rétt að nefna, jafnvel þótt Andri Snær hafi talsvert svigrúm og skáldaleyfi, að þá hefur mikil viðkvæmni ríkt gagnvart notkun annarra höfunda á textum nóbelskáldsins, sbr. dóm Hæstaréttar nr. 221/2007. Því má spyrja hvort höfundur hefði ekki þurft að geta þess hvert hugsunin er sótt, annaðhvort beint eða með aftanmálsgrein. Í mati á þessu mun þó alltaf sannast að oftast skiptir meira máli hver skrifar en hvað er fest á blað.

Heimsósómi

Andra Snæ tekst snilldarlega til þegar hann útskýrir hvernig kynslóðirnar tengja saman ótrúlega vítt tímaskeið. Sá sem fæðist í dag mun þekkja fólk sem fætt var á fyrri hluta tuttugustu aldar og ef að líkum lætur mun hann lifa inn á nýja öld, þá tuttugustu og aðra. Þar mun viðkomandi tengja við einstakling sem aftur mun hafa færi á því að lifa aðra öld. Eða hvað?

Í þessum vangaveltum um tímana tvenna og jafnvel þrenna liggur undirtónn sem er málaður dökkum litum. Getur verið að það verði engin öld á eftir þeirri sem nú stendur? Sumstaðar glittir í slíkar hugmyndir. Að minnsta kosti þannig að ef framtíðin muni yfir höfuð eiga sér stað, þá verði hún ekki það velsældarskeið sem við nú lifum.

„Ef við gerum ekkert verðum við kynslóðin sem fékk paradís upp í hendurnar og rústaði henni. Af því að við vorum föst í viðjum hagsmuna og græðgi.“ (s. 260). Hann bendir einnig á að hagvöxtur nútímasamfélagsins sé drifinn áfram af kröftum sem tosi okkur í ranga átt, þ.e. í átt frá paradísinni og í eyðilegginguna. Hann gagnrýnir hugsunarhátt þar sem það eru „talin jákvæð teikn þegar bílainnflutningur eykst,“ og segir í raun að það hafi verið vond tíðindi þegar nýr vegur var lagður í gegnum Gálgahraun árið 2014 á grunni þarfagreiningar þar sem miðað var við að „umferð myndi aukast úr 4000 bílum í 20.000 bíla á sólarhring.“ (s. 218).

Gagnrýni af þessum toga er þekkt og fyrrnefnd Greta Thunberg hefur gengið langt í að kalla eftir breyttum lífsháttum og neysluvenjum. Móðir hennar ritaði raunar bók, sem að einhverju leyti er í nafni dótturinnar, þar sem kallað er eftir því að öll flugumferð í heiminum verði stöðvuð. Svo langt gengur Andri Snær ekki, en miðað við vandann sem hann lýsir og þær hræðilegu afleiðingar sem hann mun að hans sögn leiða yfir mannkynið væri það í raun ekki fórn heldur varnarsigur að kyrrsetja flugvélaflota heimsins.

Í umfjöllun sinni tengir Andri Snær með skemmtilegum hætti Himalaja-fjöllin og íslensku jöklana. Bendir hann á að fyrrnefndur fjallgarður í Asíu sé lífæð hundraða milljóna manna þar sem þaðan streymi vatnið sem öllu lífi er nauðsynlegt. Þegar hann talar um svæðið bendir hann á að í Indlandi einu bíði um milljarður manna þess að rísa úr fátækt. Það er rétt mat og ákall um slíka þróun er víða að finna, m.a. í ályktunum Sameinuðu þjóðanna en einnig annarra alþjóðastofnana sem berjast fyrir mannréttindum, útrýmingu hættulegra sjúkdóma sem helst leggjast á fátækasta hluta heimsins.

Það sem Andri Snær ákveður hins vegar að taka ekki til umfjöllunar – ekki frekar en móður Gretu Thunberg – er hvaða afleiðingar það hefði ef skrúfað yrði fyrir alla olíuframleiðslu heimsins á næstu 5 til 10 árum. Kannski er það spurning sem ekki er þarft að velta fyrir sér í samhengi við loftslagsvána en þó er ósennilegt að almenningur sé þeim sammála. Að minnsta kosti er ósennilegt að almenningur í fátækasta hluta heimsins sé á þeirri skoðun.

Sé litið til flugumferðarinnar sérstaklega er ljóst að hún er einn helsti drifkraftur aukinnar hagsældar í þróunarríkjunum og ef stórlega yrði dregið úr henni í heiminum myndi það hafa geigvænlegar afleiðingar í för með sér fyrir hagkerfi ríkja á borð við Indland og Kína. Sem dæmi má nefna að af þeim 30 flugvöllum þar sem umferð er í mestum vexti eru 12 vellir bara í fyrrnefndum tveimur löndum.

Í umfjöllun um loftslagsmálin og þær aðgerðir sem grípa verður til er nauðsynlegt að krefja þá sem harðast ganga fram um svör við áleitnum spurningum sem þessum. Ekki vegna þess að svörin liggi augljós fyrir eða vegna þess að það einfaldi umræðuna, heldur vegna þess að þetta verður allt að skoðast í samhengi.

Þar er hins vegar við ramman reip að draga. Þeir sem kalla eftir svörum sem þessum eru stimplaðir sem „afneitunarsinnar“ og sífellt verður sú krafa háværari að þeim sé með handafli haldið utan við umræðuna. Sú afstaða kom t.a.m. skýrt fram í viðtali við Andra Snæ sem birt var í Morgunblaðinu 29. nóvember 2019. Kvartaði hann þar sáran undan því að „afneitunarsinnar“ fengju alltof mikið pláss í fjölmiðlum og virtist fella þá sem einfaldlega leyfðu sér að benda á að þessi mál væru „umdeild“ í sama flokk. Segir hann áhrif slíks málflutnings slík að almenningur láti glepjast. Svo virðist sem sú staðreynd kalli á að mati Andra Snæs að farið sé í yfirgripsmikla ritskoðun til að fjarlægja röng eða óæskileg sjónarmið af hinu opinbera sviði.

Í sama viðtali segir Andri Snær að hann hafi ekki ástæðu til þess að vantreysta vísindamönnum og kallar eftir því að almenningur geri slíkt hið sama. Kallast það mjög á við það sem fram kemur í bók hans. Vísar hann þar í ýmsar rannsóknir sem að nokkru marki, en ekki öllu, er hægt að rekja sig í áttina að í fyrrnefndum aftanmálsgreinum.

Á síðu 137 vísar hann m.a. til rannsókna um að „75% fljúgandi skordýra virðast horfin miðað við rannsóknir á verndarsvæðum í Þýskalandi.“ Þótt ekki sé vísað á þessa rannsókn með viðhlítandi hætti er þetta eflaust mál sem höfundur hefur pikkað upp í gegnum umfjöllun New York Times eða The Guardian sem bæði slógu þessum ógnvænlegu tíðindum upp svo eftir var tekið. Rannsóknin og aðferðafræðin sem hún byggðist á hefur hins vegar verið harðlega gagnrýnd – en væntanlega af fólki sem ekki má tala við.

Sú staðreynd að um hana sé deilt er hins vegar einfaldlega staðfesting á því að vísindin felast í því að ólíkar hugmyndir og ólík viðhorf takast á. Það er heilbrigt en ekki hættulegt eins og Andri Snær virðist halda fram.

Lausnirnar

Ekki er ástæða til að eyða löngu máli í þær leiðir sem höfundur varpar fram, vandamálum þeim sem bókin er helguð til lausnar. Vandinn er sá að þær eru fáar. Þó glittir í hugmyndir:

„Ef raforkuþörf Bandaríkjanna væri mætt með sólarorku þyrfi um 10.000 km2 svæði, sem er álíka stórt og Vatnajökull. Þök í Ameríku þekja um 5000 km2 á meðan bílastæði þekja um 60.000 km2.“ (s. 303).

Svo virðist sem þarna sé komin lausn fyrir Bandaríkin, sem eyða meiri orku á hvern íbúa en nokkur önnur þjóð í heiminum. En því er hins vegar algjörlega ósvarað hvernig mögulegt sé að útfæra hugmyndina. Algjörlega er skautað fram hjá því hvaða umhverfisáhrif það myndi hafa ef smíða ætti búnað upp á 10.000 ferkílómetra til að fanga sólarorku í Bandaríkjunum. Varla heldur höfundur að það yrði gert án námugraftar og uppbyggingar stórra verksmiðja sem þyrftu margfalt meiri raforku en Kárahnjúkar framleiða.

En það eru ekki endilega delluhugmyndir eins og sú sem hér að ofan er nefnd sem stinga mest í stúf. Það er miklu frekar það að raunhæfar hugmyndir sem verið er að vinna að fá lítið sem ekkert rými í bókinni. Það á m.a. við um leiðir til að binda koltvísýring í jarðlögum – en þar hafa Íslendingar unnið brautryðjendastarf. En einnig mætti nefna önnur stórmerkileg verkefni. Þar á meðal er TerraPower-verkefnið sem Bill Gates hefur unnið að um langt árabil með merkum vísindamönnum – sumum sem í dag halda á fleiri einkaleyfum en sjálfur Thomas Alva Edison gerði á sínum tíma. Þeir stefna að því að byggja örugg kjarnorkuver þar sem öryggiskröfur og orkuvinnslan yrði á allt öðru stigi en þau kjarnorkuver sem í dag eru rekin víða um heim. Auk þess yrði kjarnorkuúrgangur, sem nú staflast upp af öðrum ástæðum, nýttur til þess að mæta orkuþörf heimsins með þessari tækni.

Það er undirrituðum í raun óskiljanlegt af hverju þessara verkefna er ekki getið í bók af því tagi sem Um tímann og vatnið er. Kann að vera að það sé vegna þess að þau falli ekki að markmiðum málflutningsins? Kann að vera að sumar hugmyndir falli ekki að því sem söfnuðurinn vill heyra?

Einhver kynni að spyrja þeirrar spurningar – bara að það mætti.

Höfundur er blaðamaður.

Bókarýnin birtist í vetrarhefti Þjóðmála, 4. tbl. 2019. Hægt er að gerast áskrifandi að Þjóðmálum með því að senda tölvupóst á askrift@thjodmal.is eða skilaboð á facebook síðu ritsins. Ritið færst einnig í lausasölu í verslunum Pennans/Eymundsson.