Varpar ljósi á ísjakann undir sjávarmálinu

Ríkisstjórn Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins, undir forystu þeirra Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar og Bjarna Benediktssonar, tók við völdum eftir þingkosningarnar 2013 og vann það afrek að afnema loks gjaldeyrishöftin. (Mynd: VB/HAG)

Afnám haftanna: Samningar aldarinnar?
Höfundur: Sigurður Már Jónsson
Útgefandi: Almenna bókafélagið, 2020
336 bls.

„Við lifum á sögulegum tímum“ hefur oft verið viðkvæðið undanfarinn rúman áratug eða svo, enda verið um að ræða vægt til orða tekið viðburðaríkan tíma. Þar vegur eðli málsins samkvæmt þyngst fall stóru viðskiptabankanna þriggja haustið 2008 og eftirleikur þess, en sjaldan ef einhvern tímann hafa meiri hagsmunir verið í húfi fyrir íslenzku þjóðina og því skipti öllu hvernig haldið var á þeim málum.

Viðfangsefni bókar Sigurðar Más Jónssonar Afnám haftanna: Samningar aldarinnar? er einmitt þessir örlagaríku atburðir sem enn eru mörgum í afar fersku minni enda ekki svo ýkja langt síðan þeir áttu sér stað. Fjallað er í bókinni um aðdraganda þess að viðskiptabankarnir féllu og fjármagnshöftunum var komið á, stöðuna sem kom upp í kjölfar þess og loks hvernig haldið var á málum fyrst af ríkisstjórn Samfylkingarinnar og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs og síðan ríkisstjórn Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins sem tók við völdum eftir þingkosningarnar 2013 og vann það afrek að afnema loks höftin.

ESB-umsóknin þvældist fyrir

Hvað vinstristjórnina varðar er meðal annars fjallað um það hvernig umsókn hennar um inngöngu Íslands í Evrópusambandið stóð í vegi fyrir vinnu við að afnema fjármagnshöftin, ekki sízt þar sem stór hluti stjórnsýslunnar var upptekinn við verkefni tengd umsókninni. Þekkt er enn fremur að forysta Samfylkingarinnar lýsti ítrekað því sjónarmiði sínu í kjölfar falls bankanna að höftin yrðu ekki afnumin nema með inngöngu í sambandið og upptöku evrunnar eins og rætt er um í bókinni. Raunin varð hins vegar vitanlega önnur, enda þótti alltaf ljóst að tilgangurinn með þessum yfirlýsingum væri einfaldlega að nota höftin til þess að reyna að afla stefnumáli Samfylkingarinnar um inngöngu í Evrópusambandið stuðnings.

Farið er enn fremur ítarlega yfir átökin við kröfuhafa föllnu bankanna í bókinni og þá einkum og sér í lagi erlenda vogunarsjóði sem keypt höfðu sig inn í bankana í kjölfar falls þeirra þegar bréfin í þeim voru ekki mikils virði. Ljóst er að beitt var öllum brögðum í þeirra röðum til þess að reyna að tryggja að fjármagnshöftin yrðu afnumin með þeim hætti að hagsmunir þeirra yrðu sem allra best tryggðir. Meðal annars með því að setja þrýsting á íslenzka ráðamenn. Bæði með góðu og ekki síður illu.

Til að mynda segir frá því að fljótlega eftir að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hafði sest í stól forsætisráðherra í kjölfar kosninganna 2013 hafi tilraunir kröfuhafa til þess að nálgast hann hafizt. Beitt hafi verið margvíslegum aðferðum og meðal annars reynt að freista hins nýja ráðherra með pólitískum gylliboðum. Þannig hafi verið algengt að málsmetandi fólk í samfélaginu með tengsl við kröfuhafana óskaði eftir fundi með Sigmundi Davíð þar sem iðulega hafi verið „útlistaðir fyrir honum allir þeir möguleikar sem gætu falist í því að ganga til samninga við kröfuhafa. Það hlyti til dæmis að vera eftirsóknarvert fyrir nýja ríkisstjórn að geta tilkynnt um margvíslega fjárfestingasamninga sem gætu eflt atvinnulíf landsmanna sem þurftu svo sannarlega á erlendum fjárfestingum að halda,“ eins og segir í bók Sigurðar Más.

Sigmundur Davíð helzta hindrunin

Fulltrúar kröfuhafa höfðu áður beitt sér mjög til þess að hafa áhrif á vinstristjórnina en stjórnarskiptin voru slæmar fréttir að mati þeirra, enda hafði Sigmundur Davíð haft uppi stór orð í aðdraganda kosninganna um vogunarsjóðina og lýst aðferðafræði við losun haftanna sem var þeim engan veginn að skapi. Sjóðirnir voru einnig meðvitaðir um þá hörðu afstöðu sem Sigmundur hafði haft til Icesave-málsins, en ljóst má vera að kröfuhafarnir hafi talið forsætisráðherrann helztu hindrunina í vegi þess að niðurstaðan varðandi afnám fjármagnshaftanna yrði þeim í hag.

Fram kemur að sumt af því fólki sem fundaði með Sigmundi Davíð og talaði máli kröfuhafanna hafi verið hreinskilið og lítt leynt því hverra erinda það gekk. Fjallað er enn fremur í bókinni um þá heri almannatengla, lögfræðinga og annarra sem störfuðu fyrir kröfuhafana hér á landi í þeim tilgangi að þrýsta á stjórnvöld og hafa áhrif á umræðuna í landinu. Þar segir til dæmis að lausleg könnun í forsætisráðuneytinu haustið 2013 hafi leitt í ljós að erfitt væri að finna óháðan samstarfsaðila í almannatengslum á þeim tíma og það almannatengslafyrirtæki fyndist varla hér á landi sem ekki hefði í lengri eða skemmri tíma unnið fyrir kröfuhafana.

Mjög áhugavert er einnig að lesa um það hvernig nauðsynlegt þótti að fara út fyrir stjórnsýsluna í leit að lykilfólki til þess að leiða framkvæmdina við afnám haftanna og hvernig forystumönnum ríkisstjórnarinnar og þessu lykilfólki tókst að lokum að hafa betur í átökunum við kröfuhafana sem vel má segja að hafi kostað blóð, svita og tár. Ljóst er að mjög sterk bein þurfti í þeim efnum til þess að klára málið.

Mikill fróðleikur og spennandi frásögn

Flestir þekkja vafalaust yfirborð þessarar sögu ágætlega en eins og Sigurður Már segir réttilega í bók sinni birtist þessi saga almenningi oft á brotakenndan hátt þrátt fyrir að einstaka fjölmiðlamenn hafi gert heiðarlegar tilraunir til þess að rekja hluta hennar. Vafalaust hefur verið margt í þessum efnum sem fólk hefur ekki skilið til fulls og það bæði í röðum þeirra sem fylgdust grannt með gangi mála og hinna sem horfðu á úr meiri fjarlægð. Það sem bók Sigurðar Más gerir er einmitt ekki sízt að tengja saman brotin.

Viðfangsefni bókar Sigurðar Más má í raun líkja við ísjaka. Toppurinn hefur þannig alltaf staðið upp úr en stærstur hluti hans er undir sjávarmáli. Það sem gerðist á bak við tjöldin. Á þann hluta málsins varpar bókin virkilega góðu ljósi. Það má í raun segja að með lestri bókar Sigurðar Más séu tvær flugur slegnar í einu höggi ef ekki fleiri. Bókin er gríðarlegt samansafn fróðleiks um viðfangsefnið en einnig afar spennandi aflestrar. Þrátt fyrir að ég þekki málið ágætlega hélt bókin mér vel við efnið og velti ég því ítrekað fyrir mér hvað myndi gerast næst.

Tvennt stendur þannig einkum upp úr þegar bók Sigurðar Más um afnám haftanna er annars vegar. Fyrir það fyrsta skín í gegn við lestur nánast hverrar setningar sú gríðarlega heimildavinna sem liggur að baki verkinu. Í annan stað hversu lipurlega bókin er rituð og hve vel maður lifir sig inn í frásögnina. Það er óneitanlega ákveðin list þegar reglulega er fjallað um efni, á borð við margslungna fjármálagerninga, sem alla jafna þykir sennilega hvorki sérlega einfalt né áhugavert í hugum margra.

Hvernig staðið var að afnámi fjármagnshaftanna í kjölfar bankahrunsins haustið 2008 tilheyrir nú sögunni. Full ástæða er hins vegar til þess að halda þeirri sögu til haga og það hefur Sigurður Már gert afar vel í bók sinni, sem ljóst má vera að verður alger grundvallarheimild við alla síðari tíma umfjöllun um viðfangsefnið.

Höfundur er sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur.

Greinin birtist í hausthefti Þjóðmála, 3. tbl. 2020. Hægt er að gerast áskrifandi að Þjóðmálum með því að senda tölvupóst á askrift@thjodmal.is eða skilaboð á facebook síðu ritsins. Ritið færst einnig í lausasölu í verslunum Pennans/Eymundsson.