Í skugga réttlætisins

John Rawls (1921–2002) var heimspekiprófessor í Harvard-háskóla. Réttlætiskenning hans beinist að því að sætta hina fátækustu við hlutskipti sitt með því að tryggja, að hagur þeirra verði þrátt fyrir allt sem bestur. (Ljósm. Frederic Reglain/Gamma-Rapho - Getty Images.)

Í skugga réttlætisins
In the Shadow of Justice: Postwar Liberalism and the Remaking of Political Philosophy
Höfundur: Katarina Forrester
Útgefandi: Princeton University Press 2019
432 bls.

Í skugga réttlætisins (In the Shadow of Justice) eftir Katarinu Forrester segir sögu bókar eftir Bandaríkjamanninn John Rawls (1921–2002) sem kom út árið 1971 og heitir Kenning um réttlæti (A Theory of Justice). Þetta er merkileg saga því verk Rawls gnæfir hátt yfir flatneskjuna í stjórnmálaheimspeki síðustu aldar og hefur enn ómæld áhrif á rökræður og skrif um siðferði og réttlátt samfélag.

Áratugina á undan útkomu Kenningar um réttlæti höfðu heimspekileg skrif um stjórnmál hvorki farið hátt né haft mikil áhrif. Umfjöllun um slík efni var mest undir áhrifum heimspekikenninga sem mótuðust áður en tuttugasta öldin gekk í garð – sem sagt hvorki mjög frumleg né nýstárleg. Upp úr miðri öldinni bar mest á sjónarmiðum í anda nytjastefnu hjá þeim sem á annað borð töldu að vísindi og fræði hefðu eitthvað bitastætt að segja um rétt og rangt. Talsmenn þeirrar stefnu leggja gjarna meiri áherslu á hag heildarinnar en réttindi einstaklinganna og telja mestu varða að sem flestum líði vel.

Lungann af síðustu öld höfðu ýmis afbrigði af rökfræðilegri raunhyggju og framstefnu (e. positivism) mikil áhrif við háskóla vítt og breitt um heiminn. Þau áttu það flest sameiginlegt að vefengja að til væri neinn eiginlegur sannleikur um siðferðileg efni. Samkvæmt kokkabókum heimspekinga sem fylgdu þessum stefnum kvað vera til hlutlægur sannleikur um hvernig heimurinn er en aðeins huglæg viðhorf um hvernig hann ætti að vera. Þeir drógu gjarna skil milli staðreynda og gilda og töldu að rannsóknir, vísindi og fræði hlytu að snúast um staðreyndir en vera hlutlaus um gildi.

Bylting Rawls

Þankagangur lærdómsmanna sem fjölluðu um siðferði og réttlæti tók stakkaskiptum eftir að bók Rawls kom út. Í kjölfarið breyttust viðhorfin hjá stórum hluta almennings. Vissulega urðu þessar breytingar af fleiri ástæðum en þeirri einni að menn kynntust hugsun Rawls. Til dæmis skýrast þær um sumt af því að vinstrimenn gátu ekki lengur litið á Sovétríkin sem fyrirmynd. Einn mikilvægasti vendipunkturinn var samt bók Rawls. Þegar hún kom út hafði ekkert rit af því tagi hlotið ámóta viðtökur. Eins og Forrester rekur í þriðja kafla birtust innan skamms umsagnir um bókina í sérfræðitímaritum um heimspeki, stjórnmálafræði, lögfræði, hagfræði, félagsfræði, sálfræði, menntun, félagsráðgjöf, afbrotafræði og heilbrigðismál sem og í margs konar fjölmiðlum og New York Times útnefndi hana bók ársins.

Bók Rawls (1971) er um 600 blaðsíðna röksemdafærsla fyrir einu svari við spurningunni um hvernig stjórnskipan og samfélagshættir þurfi að vera til að samfélagið sé réttlátt. Hann kemur til móts við aldaranda sem greindi milli staðreynda og gilda með því að gefa sér aðeins forsendur um hagsmuni sem allir menn hljóti að hafa óháð gildismati, lundarfari og smekk. Hann reyndi að leiða reglur réttlætisins af sannindum sem hafa næstum því ekkert siðferðilegt innihald.

Þótt bók Rawls sé löng og rök hans flókin á köflum er meginhugmynd hans samt bæði einföld og sennileg. Hún er raunar keimlík hugmynd sem kemur fyrir í Laxdæla sögu þar sem Breiðfirðingi einum er lýst sem ranglátum því hann vildi „bæði kjósa og deila“ þegar aflahlut var skipt milli tveggja fiskimanna. Af sögunni má ráða að það hafi verið réttlætismál að sá sem deildi aflanum yrði ekki fyrri til að kjósa sér hlut heldur yrði að skipta fiskunum án þess að vita hvorn hlutinn hann sjálfur fengi. Samkvæmt Rawls er samfélagsskipan réttlát ef menn hljóta að samþykkja hana þótt þeir viti ekki sitt eigið hlutskipti: Hvort fjölskylda þeirra er rík eða fátæk, hvort þeir eru karlar eða konur, með mikla eða litla hæfileika, hraustir eða heilsulausir og þar fram eftir götunum. Rawls lýsti þessu ímyndaða samkomulagi svo að það færi fram undir fávísisfeldi (e. veil of ignorance). Þar vissu viðsemjendur öll almenn sannindi um mannlífið en væru fávísir um eigin þjóðfélagsstöðu, gildismat, innræti, smekk og áhugamál.

Rökfærsla Rawls er tilraun til að sýna fram á að skynsamir og hagsýnir viðsemjendur myndu allir samþykkja tvær meginreglur ef þeir semdu undir fávísisfeldi. Fyrri reglan kveður á um að hver einstaklingur hafi svo mikið frelsi sem vera má við skipan sem tryggir öllum öðrum sama frelsi. Seinni reglan segir að félagslegur og efnalegur ójöfnuður sé þá aðeins réttmætur að hann sé þeim verst settu til hagsbóta og hann veiti engum forréttindi sem öðrum er óheimilt að ávinna sér. Fyrri reglan hefur, segir Rawls, forgang ef þær stangast á.

Skrif Rawls um að ójöfnuður sé réttmætur ef hann bætir stöðu þeirra verst settu fela meðal annars í sér hugsun í þá veru að samkeppni, þar sem hæfileikar njóta sín, geti leitt til þess að kjör allra batni þótt hún leiði jafnframt til þess að bilið milli ríkra og fátækra breikki.

Öll rökfærsla Rawls gerir ráð fyrir að þótt það sé, eins og Tómas Guðmundsson sagði, „misjafnt, sem mennirnir leita að, og misjafn tilgangurinn, sem fyrir þeim vakir“ þá þurfi þeir allir frelsi og skapleg kjör til að geta, hver og einn, lifað góðu lífi í samræmi við sitt eigið gildismat. Það er líka undirliggjandi að réttlæti sé ekkert nema samkomulag um gagnkvæma hagsmuni. Það er eins og hver maður segi við alla hina: Þegar við komum undan fávísisfeldinum neyti ég ekki aflsmunar til að fá meira þótt ég geti það að því tilskildu að þið gerið það ekki heldur. Og það er sem þeir segi þetta af þeirri ástæðu einni að enginn veit hvort aflsmunur verður honum í hag eða óhag. Það er sem sagt ekki gefið að viðsemjendur láti sér annt um annað en eigin kjör og ef til vill sinna nánustu. Samningagerðin getur ekki stjórnast af því að þá hungri og þyrsti eftir réttlætinu. Ef hún gerði það hefði Rawls gefið sér forsendur með siðferðilegt innihald. Eins og áður sagði vildi hann sneiða hjá því.

Rawls neitaði þó ekki að á smærri vettvangi, eins og innan fjölskyldu, hugsuðu flestir um hag annarra ekki síður en sinn eigin en slíkur vettvangur var að hans mati ekki viðfangsefni stjórnmálaheimspeki. Hún skyldi fjalla um skipulag heils ríkis og líta á borgarana sem viðsemjendur fremur en vini.

Sagan sem Forrester segir

Í Inngangi bókar sinnar segir Forrester stuttlega frá því hvernig Rawls mótaði hugtökin sem hafa verið notuð í rökræðum um stjórnmálaheimspeki frá því á áttunda áratug síðustu aldar og hvernig frjálslynd jafnaðarstefna (e. liberal egalitarianism) mótaðist af þessari rökræðu. Fyrsti kaflinn fjallar svo um hvernig hugmyndir Rawls þróuðust á um 20 ára tímabili áður en bók hans kom út.

Annar og þriðji kafli tengja rökræður heimspekinga sem voru undir áhrifum frá Rawls við samfélagsumræðu um herskyldu og þátttöku Bandaríkjanna í stríðinu í Víetnam, stúdentauppreisnir og blómabörn. Fjórði kaflinn er um hvernig stjórnspeki Rawls varð hluti af þankagangi vinstrimanna (e. liberals) í Bandaríkjunum og víðar. Fimmti kaflinn fjallar um tilraunir til að beita hugtökum á borð við þau sem Rawls mótaði í hnattrænu samhengi og skilja hvers lags réttlæti skuli gilda í samskiptum ríkja. Sjötti kaflinn segir frá rökræðum heimspekinga um rétt þeirra óbornu og framtíðina. Sá sjöundi rekur hvernig stjórnmálaviðhorf bæði til vinstri og hægri breyttust undir lok áttunda áratugarins meðal annars vegna samræðna sem spunnust af bók Rawls. Áttundi og síðasti kaflinn fjallar svo um andóf gegn þankagangi Rawls og fylgismanna hans og þar er fjallað um margs konar efasemdir um frjálslyndi og einstaklingshyggju.

Forrester gerir andmælendum Rawls ekki síður góð skil en honum sjálfum og fylgismönnum hans. Lesandi fær því nasasjón af hugsun margra af þekktustu siðfræðingum og stjórnspekingum samtímans. Þar á meðal eru Ronald Dworkin, Alasdair MacIntyre, Thomas Nagel, Robert Nozick, Michael Sandel, Peter Singer, Charles Taylor og Michael Walzer.

Bókin er skrifuð af skilningi á miklum fjölda heimspekilegra rita á sviði siðfræði og stjórnmálaheimspeki. Hún veitir líka víða yfirsýn og tengir frásagnir um rökræður heimspekinga við breytingar á menningu og stjórnmálum síðustu hálfa öld. Með þessu eru frjálslyndið og einstaklingshyggjan sem hafa mótað heiminn undanfarna áratugi sett í sögulegt samhengi. Um leið er mörgum hugarfóstrum sem kynntu sig eins og þau væru tímalaus sannindi lýst sem börnum sögu og siðar.

Frá hægri til vinstri

Meginreglurnar tvær sem Rawls rökstuddi eru í anda frjálslyndis og margt sem hann segir styðst við skrif frjálshyggjumanna frá fyrri tíð. Þegar hann hóf að móta kenningu sína fljótlega eftir seinni heimsstyrjöld var honum einkum umhugað um að verja einstaklingsfrelsi. Á bókarkápu útgáfunnar frá 1971 er þessari hlið á hugsun Rawls hampað og andstaða hans gegn nytjastefnu áréttuð þar sem segir að samkvæmt kenningu hans eigi hver maður „sína friðhelgi sem grundvallast á réttlæti og eigi má hunsa jafnvel þótt velferð samfélagsins sé í húfi. Í réttlátu samfélagi eru réttindin sem réttlætið tryggir því ekki háð pólitísku samkomulagi eða niðurstöðu útreikninga á því hvað er heildinni til hagsbóta“.

Nú, næstum hálfri öld seinna, er hægt að sjá að fræði Rawls voru hluti af viðleitni sem birtist á marga vegu og snerist um að gera það pólitíska ópólitískt. Aðrar birtingarmyndir hennar voru tilraunir til að skilja efnahagslífið eins og það fylgdi leikreglum sem væru hafnar yfir valdsorðaskak og skoða rétt borgaranna sem tímalaus mannréttindi, óháð stund og stað og utan við karp og þref (Atli Harðarson, 2015).

Rawls mótaði hugmyndir sínar að miklu leyti nær tveimur áratugum áður en Kenning um réttlæti var gefin út og þær voru að nokkru leyti svar við alræðisstefnu og kúgun – kommúnisma og fasisma – sem eyðilögðu samfélög manna víða um heiminn á fyrri hluta síðustu aldar. En þegar bókin kom út var veröldin orðin öðruvísi en hún var þegar hugsunin í henni mótaðist. Áhyggjur manna voru aðrar því á áttunda áratugnum þótti mörgum að jafnaðarstefnan, sem fékk byr í seglin eftir stríð, ætti sök á verðbólgu, atvinnuleysi og minnkandi hagvexti. Hún hafði lagt meiri áherslu á hag heildarinnar en réttindi einstaklinganna og hún hafði líka blandast hagfræðilegum útgáfum af nytjastefnu. Þeir sem höfðu hana að blóraböggli boðuðu gjarna meiri frjálshyggju með áherslu á réttindi einstaklinganna. Á sama tíma var æskan víða í uppreisnarhug sem kenndur var við árið 1968. Mörgum fannst kominn tími til að breyta.

Fyrir þá sem hugðu að aukið einstaklingsfrelsi svaraði kalli tímans, en vildu jafnframt halda í áherslu vinstriflokka á jöfnuð, kom bók Rawls eins og himnasending. Hún fylgdi straumnum í því að rökstyðja að takmarka skyldi vald ríkisins yfir borgurunum en fól jafnframt í sér fyrirheit um að frelsið og einstaklingsréttindin yrðu þeim fátæku í hag. Úr þessu varð til ný tegund vinstristefnu sem gjarna er kölluð frjálslynd jafnaðarstefna. Það er samt álitamál hvar réttast er að staðsetja Rawls sjálfan á litrófi stjórnmálanna. Meðan hann vann að bók sinni átti hann um margt samleið með frjálshyggjumönnum. Eftir því sem Forrester segir þáði hann boð Miltons Friedman um að ganga í Mont Pèlerin-samtökin árið 1968. Aðild hans að þeim lauk þó 1971, árið sem Kenning um réttlæti kom út. Hún rifjar líka upp að Friedrich von Hayek lauk lofsorði á skrif Rawls og kvaðst að mestu sammála þeim.

Eins og frjálshyggjumennirnir Friedman og Hayek tortryggði Rawls ríkisvaldið og vildi í senn verja eignarétt og frelsi einstaklinganna en jafnframt skapa stöðugleika með varanlegu kerfi af reglum og stofnunum sem stjórnvöld hrófluðu sem minnst við. En Rawls tók samt um sumt mið af rökræðum sem áttu sér stað innan breska Verkamannaflokksins og hallaði sér í vaxandi mæli til vinstri eftir því sem á ævina leið. Forrester segir frá því í sjötta kafla að á efri árum hafi hann haft nokkrar áhyggjur af að kenning sín væri helst til hliðholl auðvaldinu. Það er þó álitamál hvort Rawls þokaðist til vinstri eða hvort miðjan færðist svo langt til hægri að hann endaði vinstra megin við hana.

Eitt af því sem gerði Rawls að leiðtoga vinstrimanna var að þau andmæli gegn kenningu hans sem vöktu mesta athygli komu frá heimspekingi sem hélt fram afar strangri frjálshyggju. Sá hét Robert Nozick og ritaði bókina Stjórnleysi, ríki og staðleysa (Anarchy, State, and Utopia) sem út kom árið 1974 og var svar við bók Rawls. Nozick (1974) taldi rétt að hver maður ráðstafaði sjálfur aflafé sínu og mælti gegn því að ríkisvaldið gerði neitt til að jafna kjör borgaranna. Það skyldi aðeins verja eignir manna, líf og frelsi gegn ofbeldi en ekki hlutast til um skiptingu lífsgæða. Bók Nozicks vakti býsna mikla athygli og mörgum þóttu rök hans hitta í mark. Fleirum var þó um og ó yfir þeim boðskap að félagsleg velferðarkerfi skyldu með öllu afnumin og það átti sinn þátt í að margir vinstrimenn fylktu sér að baki Rawls. Þessa sögu rekur Forrester afar vel í fjórða kafla bókar sinnar.

Áhrif Rawls á stjórnmálahugsun ýttu undir að vinstriflokkar legðu vaxandi áherslu á stofnanir samfélagsins og formleg réttindi einstaklinga en gerðu minna en fyrr úr mikilvægi verkalýðsfélaga, samskipta á smærri vettvangi og þátttöku almennings í menningar- og félagsmálum. Þessi áhrif áttu líka þátt í því að jafnaðarmannaflokkar tóku markaðsbúskap og einkaeign á fyrirtækjum í sátt en hugmyndir um þjóðnýtingu urðu, að minnsta kosti í bili, minna áberandi.

Skuggi réttlætisins

Kenning Rawls var mótuð á árunum eftir síðari heimsstyrjöld þegar ríkti almenn bjartsýni um framfarir og hagvöxt til langs tíma og flestir höfðu litlar áhyggjur af að brambolt samtímans skaðaði afkomumöguleika komandi kynslóða. Þetta tók mjög að breytast um svipað leyti og bók Rawls kom út. Spurningar um ranglæti sem bitnaði á framtíðinni urðu áleitnari með hverju ári og eru nú um stundir daglegt efni frétta um loftslagsvanda og vistkreppu. Ég nefni þetta því kenning Rawls á bágt með að svara spurningum um hvers vegna við ættum að hirða um hag þeirra óbornu. Það má rifja upp í þessu sambandi að síðasta áramótaskaup Ríkissjónvarpsins endaði á að draga dár að þeirri hugsun að við skulduðum framtíðinni ekkert, þar sem þeir óbornu gerðu ekkert fyrir okkur. Þótt slík skoðun hafi ef til vill sjaldan verið orðuð skýrt á íslensku hefur hún verið töluvert til umræðu meðal þeirra sem rökrætt hafa kenningu Rawls og frá því segir Forrester ítarlega í sjötta kafla.

Sé réttlæti afsprengi samkomulags manna sem hugsa aðeins um eigin hag leggur það ekki á þá neinar skyldur við aðra en samningsaðila. Þeir óbornu eru ekki þar á meðal, því ekkert sem fólk framtíðarinnar gerir þjónar sjálfhverfum hagsmunum þeirra sem nú lifa. Við höfum engin gagnkvæm tengsl við komandi kynslóðir því þær geta ekkert gert okkur. Sé hins vegar vikið frá því að miða aðeins við sjálfhverfa hagsmuni – séu siðferðileg gildi gerð að keppikefli þegar menn koma saman undir fávísisfeldinum – þá er réttlætið ekki leitt af sannindum sem eru hlutlaus um gildi og þá er siðferðilegur veruleiki ekki útskýrður með vísun til hagsmuna sem menn hljóta að hafa óháð því hvort þeir láta sér annt um réttlætið.

Kenning um að réttlæti sé eins og samkomulag skynsamra og hagsýnna jafningja sem gæta aðeins að eign hag getur líklega ekki skýrt skyldur okkar við komandi kynslóðir. Mikilsmetnir siðfræðingar hafa einnig rökstutt að forsendur líkar þeim sem Rawls gefur sér dugi skammt til að skýra muninn á réttlæti og ranglæti í samskiptum við aðra en jafningja. Þarna fer Martha Nussbaum fremst í flokki, en hún rökstyður að réttlæti taki til víðara sviðs en rúmast innan hugtakaramma Rawls og ræðir meðal annars um réttlæti og ranglæti í samskiptum okkar við dýr, sem auðvitað geta ekki átt aðild að samkomulagi af því tagi sem Rawls ímyndaði sér að menn hlytu að ná ef þeir kæmu saman undir fávísisfeldi (Nussbaum, 2006).

Sjálfum þykir mér trúlegt að margir helstu annmarkarnir á kenningu Rawls séu sameiginlegir allri siðfræði sem reynir að leiða rétt og rangt af sannindum um hagsmuni sem eru óháðir siðferðilegum gildum. Þræðir lífsins mynda þéttari flóka en svo að hægt sé að greiða sundur staðreyndir og gildi og skýra réttlæti sem afleiðingu af sannindum um hagsmuni sem ekki fela í sér neitt gildismat. Sumir mikilvægustu hagsmunir okkar eru siðferðilegir. Maðurinn lifir ekki af brauði einu saman. Til þess að þrífast almennilega þurfum við líka ást og virðingu, frelsi og jöfnuð, og ekkert af þessu er til utan við heim siðferðilegra gilda. Hér er ekki rúm til að skýra þetta svo vel sé. Ég læt því duga að nefna sem dæmi að eins og Kristján Kristjánsson (1996) hefur rökstutt með sannfærandi hætti verður frelsi ekki skilgreint nema nefna ábyrgð og réttmæti. Frelsi eins manns er ekki skert nema aðrir beri siðferðilega ábyrgð á hindrun sem hann verður fyrir: Björg geta verið farartálmar en þau skerða ekki frelsi okkar þótt þau liggi vítt og breitt af náttúrulegum ástæðum – en ef ég ber ábyrgð á að lagður sé stein í götu annars manns, svo hann komist ekki leiðar sinnar, þá skerði ég frelsi hans.

Ef grunur minn er réttur hefur stór hluti af þeirri rökræðu um stjórnspeki sem Forrester segir frá í bók sinni mótast af tilraun Rawls til að gera hið ómögulega, nefnilega að skilgreina réttlæti án vísunar í siðferðileg gildi. Bókin heitir Í skugga réttlætisins (In the Shadow of Justice) því að mati höfundar hefur öll sú umræða sem frá segir farið fram í skugganum af kenningu Rawls. Forrester gerir samt ekki lítið úr þessari kenningu – viðurkennir að hún sé með helstu stórvirkjum í heimspeki seinni tíma – en gefur samt í skyn að nú sé tímabært að færa sig úr skugganum og sjá réttlætið í nýju ljósi.

Höfundur er heimspekingur og dósent við Menntavísindasvið Háskóla Íslands.

Greinin birtist í vorhefti Þjóðmála, 1. tbl. 2020. Heimildarskrá er að finna í prentútgáfu blaðsins.
Hægt er að gerast áskrifandi að Þjóðmálum með því að senda tölvupóst á askrift@thjodmal.is eða skilaboð á facebook síðu ritsins. Ritið færst einnig í lausasölu í verslunum Pennans/Eymundsson
.