Skáksumarið 2021 – Hjörvar og Vignir á siglingu

Vorið í íslensku skáklífi var nokkuð líflegt þrátt fyrir ýmsa Covid-hiksta, t.d. þurfti að fresta Íslandsmótinu í skák, landsliðsflokki, en um miðjan apríl var slakað á samkomutakmörkunum og mótshaldarar vildu þá taka slaginn við veiruna ískyggilegu. Með skömmum fyrirvara var blásið í mótslúðra á ný og í lok apríl fór hið 10 manna lokaða mót fram við glæsilegar aðstæður í húsnæði Siglingafélagsins Ýmis í Kópavogi. Mótið var sterkt, en alls tóku fimm stórmeistarar þátt. Þáverandi blaðamaðurinn, en núverandi ritstjóri DV, alþjóðlegi meistarinn Björn Þorfinnsson (2.384), ritaði skemmtilega daglega pistla um mótið á visir.is og hafði það sjálfsagt áhrif á gengi hans sem keppanda á mótinu. Birni tókst samt sem áður að leggja að velli einn af sterkustu skákmönnum Íslandssögunnar, Jóhann Hjartarson (2.523), og var þeim úrslitum lýst, í einum pistli Björns, sem svo að moðreykur apaheilans, þ.e. Björns sjálfs, hefði fellt sjálfan geithafurinn, þ.e. Jóhann.

Geithafur er víst íslenska orðið fyrir ensku skammstöfunina GOAT (e. Greatest Of All Time).

Frá spennandi lokaumferð Íslandsmótsins. Mynd: Ingibjörg Edda Birgisdóttir.

Þótt Björn hafi stöðvað sigurgöngu Jóhanns í fjórðu umferð mótsins leit lengi út fyrir að „geithafurinn“ myndi landa Íslandsmeistaratitlinum, enda hafði hann m.a. lagt helsta keppinaut sinn, Hjörvar Stein Grétarsson (2.588), að velli í annarri umferð. Sá síðarnefndi hafði aldrei orðið Íslandsmeistari þrátt fyrir að vera stigahæsti skákmaður landsins um langt skeið og að fjórum umferðum loknum var útlitið ekki bjart fyrir hann, helmings vinningshlutfall var vart beysið ef ætlunin var að landa titlinum. Þá vaknaði risinn af værum blundi og fór að vinna hverja skákina á fætur annarri. Jóhann gaf þó lítið eftir og þegar tveim umferðum var ólokið hafði hann hálfs vinnings forskot á Hjörvar á meðan aðrir keppendur áttu takmarkaða möguleika að ná forystusauðunum tveim. Hörmungar dundu þá yfir Jóhann í næstsíðustu umferð, hann lagði of mikið á stöðu sína á móti hinum Þorfinnsbróðurnum, stórmeistaranum Braga, og tapaði. Á meðan saumaði Hjörvar, með svörtu, að greinarhöfundi eftir öllum kúnstarinnar reglum en í tímahraki beggja keppenda gaf Hjörvar greinarhöfundi kost á að bjarga töpuðu tafli í jafntefli:

Stöðumynd 1, hvítur á leik

Hér gat hvítur leikið 35. Kf1! og verður þá útilokað fyrir svartan að tefla til vinnings, þar eð eftir 35…Re2? 36. Kxg2 Rxf4+ 37. Kg3 hefur hvítur unnið tafl á meðan 35…Hxb2 36. Hxd4 Bxf3 37. e5 leiðir til jafnteflis. Á hinn bóginn lék hvítur 35. Kxg2?? og eftir 35…Bxf3+ 36. Kf2 Bxd1 var taflið gjörunnið á svart og innbyrti hann vinninginn nokkrum leikjum síðar.

Í lokaumferðinni knúði Hjörvar fram sigur gegn Sigurbirni Björnssyni (2.327) á meðan Jóhann sneri á þrettánfaldan Íslandsmeistara í skák, stórmeistarann Hannes Hlífar Stefánsson (2.532). Hjörvar varð því Íslandsmeistari í skák í fyrsta skipti með sjö vinninga af níu mögulegum. Frá og með þeim tímapunkti hefur Hjörvar borið alla helstu skáktitla landsins í opnum flokki, en hann varð sigurvegari Íslandsbikarsins sl. mars og í fyrra vann hann öll meistaramót á netinu sem hægt var að vinna, svo sem Íslandsmótið í atskák, hraðskák og slembiskák! Sú sögulega stund rann einnig upp 1. júní sl. að hann komst yfir 2.600 skákstig, en eingöngu Jóhann Hjartarson og Hannes Hlífar Stefánsson höfðu áður komist yfir þann stigaþröskuld (Friðrik Ólafsson var eitt sinn með slétt 2.600 skákstig).

Lokastaða annarra efstu keppenda á Íslandsmótinu yfir borðinu í ár varð sú að Jóhann endaði í öðru sæti með 6½ vinning og Íslandsmeistarinn árið 2020, hinn nýbakaði stórmeistari Guðmundur Kjartansson (2.503), tók bronsið með 6 vinninga. Vaskleg framganga hins 18 ára Vignis Vatnars Stefánssonar (2.327) vakti athygli á mótinu, en hann náði áfanga að alþjóðlegum meistaratitli. Nokkrum vikum síðar landaði hann öðrum áfanga og varð við það alþjóðlegur meistari.

Heimsbikarmót FIDE

Hjörvar Steinn Grétarsson, til hægri, í Sotsjí í júlí sl. ásamt íslenska yfirskákdómara heimsbikarmótsins, Omar Salama.

Heimsbikarmót FIDE (e. World Cup) fór fram frá 12. júlí til 8. ágúst í Sotsjí við Svartahaf í Rússlandi, en um stærsta skákviðburð sumarsins var að ræða, t.d. var norski heimsmeistarinn Magnús Carlsen (2.847) á meðal keppenda í opnum flokki. Það var einstaklega áhugavert og spennandi að fylgjast með þessari keppni í beinni útsendingu á netinu, sérstaklega var Nigel Short áheyrilegur skákskýrandi, enda sagnaþulur mikill og mergjaður sóknarskákmaður. Okkar maður, áðurnefndur Hjörvar Steinn, bar sigurorð af hvítrússneskum stórmeistara í fyrstu umferð mótsins en í þeirri næstu mætti hann rússneskum ofurstórmeistara og fyrrverandi Evrópumeistara, Maxim Matlakov. Sá rússneski lagði Hjörvar að velli, 1½ gegn ½ vinningi.

Mörg óvænt úrslit litu dagsins ljós á mótinu en framan af hélt heimsmeistarinn vel á spöðunum. Í undanúrslitum mætti hann hins vegar hinum pólska Jan-Krzysztof Duda (2.738) og eftir að einvígið fór úr kappskákhluta í atskákhluta tókst hinum 23 ára Pólverja að leggja heimsmeistarann að velli. Í framhaldinu bar Pólverjinn sigurorð af Rússanum Sergey Karjakin (2.757) í úrslitaeinvígi á meðan í keppninni um bronsið tefldi heimsmeistarinn af miklu listfengi gegn Rússanum Vladimir Fedoseev (2.696). Tefli sá norski þannig í heimsmeistaraeinvíginu gegn Rússanum Ian Nepomniachtchi (2.792), sem hefst í lok nóvember næstkomandi, mega skákáhugamenn vænta frábærs einvígis.

Skákvíkingur Vignis Vatnars og annarra íslenskra skákmanna

Áðurnefndur alþjóðlegi meistarinn Vignir Vatnar Stefánsson fór í mikinn skákvíking í Evrópu í sumar, ferðalagið hófst um miðjan júlí og lauk mánuði síðar. Hann tefldi í þrem sterkum lokuðum skákmótum í Serbíu, það fyrsta hófst 17. júlí og því síðasta lauk 6. ágúst. Í öllum mótunum sýndi Vignir skemmtilega takta. Þótt úrslitin hafi einstaka sinnum mátt vera hagstæðari bar öll taflmennska hans þess vitni að hann væri á réttri leið í sinni skákþróun. Reynslan af því að tefla í svona lokuðum skákmótum í A-Evrópu er gríðarlega mikilvæg fyrir unga skákmenn í framför.

Eftir mótin í Serbíu skundaði Vignir til alþjóðlegrar skákhátíðar í Uppsölum í Svíþjóð þar sem hann tefldi í lokuðu skákmóti, en margir aðrir íslenskir skákmenn tóku þátt í þessari skákhátíð. Vignir fékk sjö vinninga af níu mögulegum í sínu móti og lenti í öðru sæti á eftir úkraínskum alþjóðlegum meistara. Í einni skákinni í Uppsölum hafði Vignir hvítt í eftirfarandi stöðu gegn heimamanninum Alexander Hart:

Stöðumynd 2, hvítur á leik

Vignir sýndi hér glöggt auga sitt fyrir taktík og lék hinum magnaða leik 29. Dc8!! og svarta staðan hrynur til grunna þar eð hann verður mát eftir 29…Hxc8 30. Hxc8+ og 29…fxe4 30. Dxe6+ Kh8 31. Rf7+. Framhald skákarinnar varð eftirfarandi: 29…Rf4 30. Bxa8 g6 31. Dc4 og svartur gafst upp. Það er ánægjulegt fyrir skákhreyfinguna hér á landi hversu miklum framförum Vignir hefur tekið og hefur hann alla burði til að verða stórmeistari innan nokkurra ára.

Talandi um íslenska stórmeistara, þrettánfaldi Íslandsmeistarinn Hannes Hlífar Stefánsson sýndi enn á ný hversu traustur og öflugur stórmeistari hann er þegar hann vann lokað alþjóðlegt skákmót í Prag. Það mót var annað í röð þriggja móta sem Hannes tók þátt í á tékkneskri grundu í júlí. Frammistaðan í hinum tveim mótunum var ekki heldur slæm. Nýbakaði stórmeistarinn Guðmundur Kjartansson átti hins vegar ekki góðu láni að fagna á tveim alþjóðlegum skákmótum í júlí, en annað var haldið í Varsjá í Póllandi og hitt í Pardubice í Tékklandi.

Skáksumri lokið með mikilli veislu í Reykjavík – EM einstaklinga 26. ágúst til 5. september

EM einstaklinga í opnum flokki, Reykjavíkurskákmót Kviku, fer fram á Hótel Natura í Reykjavík dagana 26. ágúst til 5. september. Margir af sterkustu skákmönnum Evrópu eru skráðir til leiks. Vegna Covid-takmarkana verður mótið ekki alveg eins sterkt og sum önnur EM einstaklinga. Hjörvar Steinn, sem stigahæsti íslenski stórmeistarinn, ætti að eiga raunhæfa möguleika á að blanda sér í baráttuna um að ná í efstu 23 sæti mótsins, en þau gefa rétt til að taka þátt í heimsbikarmóti FIDE árið 2023. Vænta má að íslenskir skákáhugamenn fylgist spenntir með þessu móti.

Höfundur er stórmeistari í skák.

Greinin birtist í sumarhefti Þjóðmála, 3. tbl. 2021. Hægt er að gerast áskrifandi að Þjóðmálum með því að senda tölvupóst á askrift@thjodmal.is eða skilaboð á facebook síðu ritsins. Ritið færst einnig í lausasölu í verslunum Pennans/Eymundsson.