Borgarstjóri „aðhalds“ og „útsjónarsemi“ leitar að tekjustofnun

Óli Björn Kárason

Frá því að Dagur B. Eggertsson, tók við lyklavöldum að Ráðhúsi Reykjavíkur ásamt Jóni Gnarr, hafa skuldir borgarsjóðs aukist um liðlega 13.300 milljónir króna á föstu verðlagi. Þannig hafa þeir félagar veðsett framtíðina og ekki geta þeir borið fyrir sig lækkandi tekjur. Á síðasta ári voru heildartekjur borgarsjóðs rúmlega 13.100 milljónum krónum hærri að raunvirði en 2010 þegar Jón Gnarr gerðist borgarstjóri og Dagur B. settist í stól formanns borgarráðs.

Það þarf enga sérfræðiþekkingu á rekstri sveitarfélaga til að átta sig á að rekstur A-hluta borgarsjóðs – þess hluta borgarinnar sem er fjármagnaður með sköttum og gjöldum á íbúana – er kominn í ógöngur. Útgjöldin virðast stjórnlaus enda hafa þau hækkað um 15.800 milljónir króna á föstu verðlagi, á valdatíma Dags B. Eggertssonar og samverkamanna hans.

Lóðasala og snjómokstur

Á fyrstu sex mánuðum þessa árs nam halli á A-hluta borgarinnar 3.038 milljónum króna og er líklega vanmetinn þar sem gjaldfærsla lífeyrisskuldbindinga verður hærri þegar árið er úti, en gengið var út frá. Nú er svo komið að rekstrarkostnaður er 128% af skatttekjum borgarinnar og stefnir að óbreyttu í að verða enn hærri, þó ekki væri nema vegna lífeyrisskuldbindinga. Þessu til viðbótar má reikna með að handbært fé lækki meira en áður var talið og þar með hækka skuldir og fjármagnskostnaður.

Hverju svarar borgarstjóri um hallareksturinn?

Í huggulegu viðtali við Ríkisútvarpið [27.08.] sagði Dagur B. Eggertsson að lóðasala hefði tafist en hann vonist til að „vinna það upp á seinni hluta árs“. Þá hafi snjómokstur verið meiri en reiknað hafi verið með, sérkennsla í skólum hafi farið fram úr áætlunum sem og launakostnaður í velferðarmálum. „Við þurfum að fara yfir þetta allt og almennt í rekstrinum er áskorunin sú að eiga fyrir nýju kjarasamningunum,“ sagði borgarstjóri. Þegar hann var spurður hvað eigi að gera og hvort hækka eigi gjaldskrár var svarið merkilegt:

„Við munum einfaldlega bara fara yfir það. Við höfum oft séð það svartara á undanförnum árum. En það þarf áfram að sýna aðhald, útsjónarsemi og við þurfum áfram að finna leiðir til að halda uppbyggingunni í borginni áfram.“

Reykvíkingar hafa ástæðu til að hafa verulegar áhyggjur ef borgarstjóri trúir því í einlægni að „aðhald“ og „útsjónarsemi“ einkenni störf meirihluta borgarstjórnar. Raunhækkun rekstrarkostnaðar A-hluta sýnir hið gagnstæða. Lifi menn í sjálfsblekkingum sigla þeir hraðbyri að feigðarósi.

Skortur á tekjustofnum!

Fyrir utan vandræði í lóðasölu, of mikinn snjómokstur og „dýra“ sérkennslu, er borgarstjóri sannfærður um að borginni glími við annað vandamál: Skort á tekjustofnum!

Þannig talar maðurinn, sem á valdatíma sínum hefur stöðugt hækkað skatta og gjöld á borgarbúa og fyrirtæki. Hækkunin jafngildir um 430 þúsund krónum á hverja fjögurra manna fjölskyldu (á verðlagi fyrri hluta þessa árs). Það er sem sagt skortur á tekjustofnum í öllu „aðhaldinu“ og „útsjónarseminni“ enda útsvarið eins hátt og lög leyfa.

Þess vegna vill borgarstjóri að góð sneið af skatttekjum ríkissjóðs komi í borgarsjóð. Þetta er vegna „hagvaxtar sem skapast í Reykjavík“, útskýrir borgarstjóri. Auðvitað ætlar borgin ekki að taka við verkefnum frá ríkinu – slíkt er ekki í takt við „aðhaldið“ sem er í rekstrinum. Kannski að borgarstjóri bendi fjármálaráðherranum, sem nú er upptekinn við að lækka tekjuskatt, tolla og vörugjöld, á að ekki sé ósanngjarnt að Austfirðingar fái aukna hlutdeild í ríkistekjunum með hliðsjón af því hve stór hluti tekna af vöruútflutningi landsmanna á uppruna sinn í austfirskum byggðalögum. Að ekki sé talað um Vestmannaeyjar og öll hin sveitarfélögin sem standa undir hagvexti, hvert með sínum hætti.

„Útsjónarsemi“ meirihluta borgarstjórnar birtist í sinni tærustu mynd þegar borgarfulltrúi og flokkssystir borgarstjóra, lagði til að sameina knattspyrnulið í efstu deild í sparnaðarskyni. Rökin eru sótt til Kaupmannahafnar þar sem einungis mun vera starfrækt eitt lið í efstu deild, FC København. Samkvæmt frétt Viðskiptablaðsins er borgarfulltrúinn á því að dýrt sé að reisa, reka og viðhalda stúkum og öðrum mannvirkjum fyrir sex knattspyrnulið. Betur fari á því að sá kostnaður verði lækkaður með sameiningum. Reykjavíkurfélögin sem eru í neðri deilum sleppa við „aðhaldið“.

Lausn á húsnæðisvandanum

Í örvæntingarfullri leit að tekjum ákvað meirihluti borgarstjórnar að leggja á sérstaka viðbótargreiðslu og gatnagerðargjald fyrir stækkun og nýbyggingar. Gjaldið er 14.300 krónur á fermetra vegna nýs íbúðarhúsnæðis, eða 1,43 milljónir á 100 fermetra íbúð. Gjaldið leggst ofan á gatnagerðargjald sem þegar er innheimt og er 10.400 krónur á fermetra í fjölbýli. Þannig ætlar Reykjavíkurborg að leggja tæplega 2,5 milljónir króna gjöld á nýja 100 fermetra íbúð.

Kannski hafa fulltrúar meirihlutans sannfært sjálfa sig um að auknar álögur á íbúðarhúsnæði sé snjöll leið til að leysa húsnæðisvandann sem glímt er við í Reykjavík. Þó er líklegra að Dagur B. Eggertssonar og samverkafólk hans í borgarstjórn séu búin að gefast upp á verkefninu og telja því best að næla í aukakrónur í tóman borgarsjóð.

Loforðið um allt að 3.000 leiguíbúðir er hætt að hljóma líkt og það gerði svo fallega í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga á liðnu ári. Nú segir borgarstjóri að betur verði rýnt í fjárlög ríkisins fyrir komandi ár og að fylgja verði eftir samkomulagi sem gert var í húsnæðismálum í nýgerðum kjarasamningum. Ríkisstjórnin er þannig helsta von Dags B. Eggertssonar í húsnæðismálum. Hann sér húsnæðismálaráðherra veifandi bjarghringnum rétt fyrir framan sig, með jafn hástemmdum loforðum um byggingu þúsunda félagslegra leiguíbúða, og fleytti Degi B. í stól borgarstjóra.

Ekki verður komist hjá því að skrifa um þá vitleysu síðar.