Óli Björn Kárason
Borgarbúar og aðrir landsmenn, hafa fengið góða innsýn í hvernig Píratar, Björt framtíð, Vinstri-grænir og Samfylkingin standa að ákvörðunum og afgreiðslu mála. Að þessu sinni í borgarstjórn en engin ástæða er til að ætla að verklagið verði með öðrum hætti þegar og ef þessir flokkar komast til valda og mynda ríkisstjórn. Mál verða afgreidd án hugsunar, fyrirhyggju eða skilnings á afleiðingunum.
Samþykkt meirihluta borgarstjórnar var í sjálfu sér einföld:
„Borgarstjórn samþykkir að fela skrifstofu borgarstjóra í samvinnu við innkaupadeild Reykjavíkurborgar að undirbúa og útfæra sniðgöngu Reykjavíkurborgar á ísraelskum vörum meðan hernám Ísraelsríkis á landsvæði Palestínumanna varir.“
Borgarstjóri leitar skjóls
Þegar kom í ljós hvaða alvarlegu afleiðingar samþykkt tillögunnar hafði reyndi Dagur B. Eggertsson borgarstjóri að leita skjóls. Annars vegar í því að um væri að ræða eins konar kveðjugjöf til flokkssystur hans, Bjarkar Vilhelmsdóttur, sem ákvað að hætta í borgarstjórn og hins vegar að tillagan beindist aðeins að fyrirtækjum á hernumdu svæðunum. Í viðtali við fréttastofu Ríkisútvarpsins sagði borgarstjóri:
„Þannig að þarna er um það að ræða hjá okkur að ef vörur koma frá fyrirtækjum sem eru með starfsemi eða eru framleiddar inni á ólöglegum landtökubyggðum eða hernumdu svæðunum og tengjast þannig mannréttindabrotum þá viljum við sniðganga þær.“
Allir sem búa yfir sæmilegum lesskilningi gera sér grein fyrir að borgarstjóri fer með rangt mál. Í örvæntingu reynir hann að telja landsmönnum trú um að í „kveðjutillögunni“ felist eitthvað allt annað en stendur þar skýrum stöfum.
Kannski og ef til vill
Í samtali við mbl.is upplýsti Dagur B. Eggertsson að málið hefði verið til umræðu í „borgarstjórn og í fleiri höfuðborgum Norðurlanda undanfarna mánuði“. Undirbúningurinn hefði fyrst og fremst falist í „að fara yfir lagalega þætti sem snúa að innkaupastefnunni og framfylgd þessa ákvæðis í henni að virða mannréttindasjónarmið“. Og borgarstjóri bætti við:
„En útfærslan er auðvitað eftir.“
Þegar borgarstjóri var spurður hvort ekki hefði verið eðlilegt að búið hefði verið að útfæra tillöguna nánar áður en hún var lögð fram svaraði hann:
„Jú, kannski má alveg segja það. Þetta tengist auðvitað líka því að þetta er lokatillaga Bjarkar sem er að hætta í borgarstjórn þannig að við gerðum þetta svona.“
Kannski?! Er þetta línan sem borgarstjóri ætlar að fylgja þegar hann þarf að standa frammi fyrir borgarbúum til að skýra og verja stefnu borgarstjórnar í einstökum málum? Kannski, ef til vill, og má vera, að borgarstjórn hefði átt að sýna meira aðhald í fjármálum borgarinnar, gæta þess að safna ekki skuldum og stórauka útgjöld, hækka álögur. Það er ekki óhugsandi að gera ráð fyrir að þannig verði vörn borgarstjóra þegar hann mætir kjósendum.
Ekki kveðjugjöf
Í viðtali á sjónvarpsstöðinni Hringbraut, síðastliðinn sunnudag, neitaði Björk Vilhelmsdóttir að samþykkt tillögunnar hefði verið „kveðjugjöf“ til hennar. Undirbúningur hefði staðið í eitt ár og verið til skoðunar hjá lögfræðingum borgarinnar og innkaupaskrifstofu. Samþykkt tillögunar hefði verið pólitísk stefnumörkun en útfærsla hefði verið eftir. Flokkssystkinin, Dagur B. og Björk, eru sammála um að útfærslan hafi verið eftir en ósammála um að samþykkt borgarstjórnar hafi verið „kveðjugjöf“, sem er ein helsta afsökunin fyrir klúðrinu.
Björk Vilhelmsdóttir upplýsti í viðtalinu að hún hefði ekki haft frumkvæði að tillögunni um að Reykjavíkurborg sniðgengi vörur frá Ísrael. Frumkvæðið hefði komið frá félögum hennar í innkauparáði borgarinnar en þar situr flokksbróðir hennar í forsæti. Meirihluti innkauparáðs hefði samið tillöguna fyrir nokkrum mánuðum, en Björk tekið að sér að leggja hana fram á fundi borgarstjórnar.
Sem sagt: Í eitt ár var tillagan í undirbúningi en ekki vannst tími til að útfæra framkvæmd hennar. Enginn – ekki lögfræðingar borgarinnar, starfsmenn innkaupaskrifstofu, fulltrúar í innkauparáði, borgarfulltrúar meirihlutans eða aðrir sem unnu að málinu í að minnsta kosti tólf mánuði – sá neitt athugavert við að setja „viðskiptabann“ á Ísrael. Engar lagalegar flækjur eða lögfræðileg álitsefni og engar viðvörunarbjöllur hringdu. Og samkvæmt upplýsingum Bjarkar hafði 27 orða tillaga legið fyrir í nokkra mánuði áður en hún var samþykkt.
Hin óskráða regla
Samþykkt borgarstjórnar var klúður, hvernig sem á málið er litið. Klúður sem hefur skaðað íslenska hagsmuni og líklega verður aldrei ljóst hversu mikill fjárhagslegur skaðinn er og orðspor verður aldrei metið til fjár.
Samþykkt meirihluta borgarstjórnar um „viðskiptabann“ borgarinnar gagnvart Ísrael er sýnishorn stjórnsýslu sem verður innleidd í stjórnarráðinu þegar Birgitta Jónsdóttir, Dagur B. Eggertsson og fylgifiskar setjast við ríkisstjórnarborðið.
Þegar þetta er skrifað hefur verið boðað til aukafundar í borgarstjórn þar sem lagt er til að samþykkt um sniðgöngu verði afturkölluð. Forvitnilegt verður að sjá hvort og þá hvernig meirihluti borgarstjórnar vill bæta þann skaða sem hann hefur valdið.
Það er skiljanlegt að krafa um afsögn borgarstjóra hljómi. Dagur B. Eggertsson verður að eiga þá ákvörðun við sig sjálfan og stuðningsmenn í borgarstjórn. En líkurnar á að fallist verði á kröfu um afsögn eru hverfandi enda verður farið eftir óskráðri reglu:
Hægrimenn skulu segja af sér og víkja en vinstrimenn sitja áfram og læra af mistökum.