Eftir ríkisstjórnarfund þriðjudaginn 29. september 2009 sagði Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra að nauðsynlegt væri að fá niðurstöðu í Icesave-málið í vikunni. Lengur væri ekki hægt að bíða. Mbl.is hafði það eftir Jóhönnu að ekki væri hægt að fara með málið inn í þing nema öruggt sé með meirihluta:
„Við förum ekki með það inn á þing nema við séum sátt við málið. Ég mun aldrei samþykkja þetta mál nema ég sé sátt við þá niðurstöðu og treysti mér til þess að fylgja henni fram fyrir íslenska þjóð með minni ríkisstjórn.“
Ummæli Jóhönnu er í besta falli sérkennileg þegar yfirlýsingar hennar um ágæti Svavars-samninganna eru hafðir í huga. Án nokkurra fyrirvara hélt hún því fram að samningarnir væru Íslendingum hagstæðir og gæfu tækifæri til þess að hefja uppbyggingu efnahagslífsins, enda hefði sjö ára „skjól“ fengist með þeim.
Jóhanna komst í mótsögn við sjálfa sig um tengsl Icesave-samninganna og fyrirgreiðslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins [AGS]. Í þingræðu 13. júlí 2009 þvertók hún fyrir að AGS hefði nokkru hótað vegna deilunnar við Breta og Hollendinga:
„Að því er varðar það sem hv. þingmaður spyr um, hvort Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafi gert einhverjar kröfur eða tengingar á milli Icesave-samninganna og þeirrar endurskoðunar sem nú fer fram á því samkomulagi sem við höfum gert við AGS hafa þeir ekki verið með neinar hótanir uppi í þessu sambandi eða gert einhverjar kröfur um að við gengjum frá Icesave-samningunum fyrst.“
Raunar er það kurteisi að tala um mótsögn því halda má því fram að forsætisráðherra hafi í þingræðunni veitt þingheimi rangar og villandi upplýsingar um skilyrði AGS. Eftir áðurnefndan ríkisstjórnarfund sagði:
„Ég er auðvitað mjög óánægð með hvað er verið að tengja Icesavemálið og endurskoðunina hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum saman. Mér finnst það afar óeðlilegt.“