Þegar Jóhanna Sigurðardóttir settist í stól forsætisráðherra í minnihlutastjórn Samfylkingar og Vinstri grænna í febrúar 2009, hafði hún verið ráðherra frá maí 2007. Þar áður hafði hún verið ráðherra í sjö ár frá 1987 til 1994.
Jóhanna var einhver vinsælasti stjórnmálamaður landsins þegar hún tók sæti sem félagsmálaráðherra í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar í maí 2007. Hún naut trausts umfram flesta aðra.
Samkvæmt könnun Gallup í september 2007 voru 70,3% landsmanna ánægð með störf Jóhönnu í félagsmálaráðuneytinu. Í apríl og september 2008 voru 60% landsmanna ánægð með Jóhönnu.
Ánægjan með störf Jóhönnu var liðlega 26 prósentustigum meiri en Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, menntamálaráðherra og varaformanns Sjálfstæðisflokksins, sem kom næst Jóhönnu.
Þegar Jóhanna tók við sem forsætisráðherra í febrúar 2009 jókst ánægjan og um 65,4% voru ánægð sem nýjan forystumann ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstri grænna. Frá þeim tíma var Jóhanna hins vegar nær stöðugt í frjálsu falli í hugum kjósenda.
Samkvæmt könnun Gallup í mars 2012 um ánægju með störf ráðherra voru aðeins 18 af hverjum 100 kjósendum ánægðir með forsætisráðherra. Þannig höfðu sjö af hverjum tíu, sem sögðust ánægðir með Jóhönnu í febrúar 2009, snúið baki við henni. Aðeins Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra naut minni vinsælda en Jóhanna. Tæplega 23% voru ánægð með Steingrím J. Sigfússon.
Jóhanna náði að rétta stöðu sína nokkuð og undir lok 2012 sögðust 26% vera ánægð með störf hennar sem forsætisráðherra.