Flokkur án æsku

Ingvar Smári BirgissonIngvar Smári Birgisson-web

Flokkur án æsku er flokkur án framtíðar. Þetta eru orð sem útskýra sig sjálf, orð sem bergmála aftast í hausnum á sjálfstæðismönnum þegar þeir sjá dreifingu fylgis í Capacent könnunum. Flokkurinn sem eitt sinn hafði þá sérstöðu að vera eini flokkurinn sem gat gert tilkall til fylgis ungs fólks er nú jaðarflokkur meðal ungra kjósenda, sem flestir vilja kjósa Pírata, en samkvæmt könnunum njóta þeir 55% fylgis hjá kjósendum yngri en þrjátíu ára.

Forystumenn Sjálfstæðisflokksins á þingi og í borgarstjórn  hafa fá svör á hraðbergi þegar þeir eru spurðir um ástæður fylgishrunsins. Þeir benda á Valhöll. Svo á Heimdall. Síðan á grasrótina. Að lokum verða þeir svo ringlaðir af því að hafa bent í allar áttir, að þeir þagna og vona að næsta skoðanakönnun verði betri. Þegar það rætist ekki halda þeir í vonina um að eiga 2-3% fylgi „inni“ á kjördegi, enda mætir ungt fólk verr á kjörstað en gamla góða kjarnafylgið, sem þó fer þverrandi með hverju árinu.

Sjálfstæðisflokkurinn mælist með tæplega 15% fylgi á höfuðborgarsvæðinu hjá kjósendum á aldrinum 18-39 ára. Fylgishrunið er því ekki einungis bundið við fartölvukynslóðina sem er í háskóla.

Hrunið er einnig meðal fólks sem hefur komið upp fjölskyldu og mætir í vinnuna frá níu til fimm. Þessi hópur, kjósendur á aldrinum 18-39 ára, er stór meirihluti þjóðarinnar. Þetta fólk hefur ekki trú á því að Sjálfstæðisflokkurinn sé sá flokkur sem er best til þess fallinn að
tryggja þeim góða framtíð.

Fylgishrunið meðal ungs fólks jókst verulega á árunum eftir hrun. Það verður hins vegar ekki útskýrt með því að benda á eitt vandamál eða einn sökudólg. Ef vandamálið væri svo einfalt þá væri ekki um vandamál að ræða, heldur frekar misfellu sem aðeins þyrfti að slétta. Þrátt fyrir að vandinn  sé margslunginn og djúpstæður, þá er ég sannfærður um að Sjálfstæðisflokkurinn hefur mörg tækifæri ef hann snýr aftur til uppruna síns, sem borgaralegur og frjálslyndur stjórnmálaflokkur.

Ný hippakynslóð stígur fram

Upp er komin kynslóð sem minnir á hippana að mörgu leyti. Hún leggur mikla áherslu á persónufrelsi og hefur sterka réttlætiskennd. Efnahagsmál eru ekki efst á blaði og falla meðlimir þessarar kynslóðar beggja megin við pólitíska ásinn hvað þau mál varðar. Þetta er kynslóð sem er ekki vinstrisinnaðri en fyrri kynslóðir. Stríðið gegn fíkniefnum, mannréttindi, upplýsingafrelsi, netfrelsi og gagnsætt ríkisvald eru mál sem einkenna þessa kynslóð. Jafnframt eru þetta allt mál sem Sjálfstæðisflokknum hefur mistekist að vera leiðandi afl í, þrátt fyrir að um sé að ræða klassísk frjálshyggjumál. Ennfremur eru þetta mál sem Píratar hafa leitt frá fyrsta degi, þó ef til vill frekar í orði en á borði ef eitthvað er að marka framgöngu borgarfulltrúa Pírata í Reykjavík, sem hefur ítrekað hafnað tillögum Sjálfstæðisflokksins um aukið gagnsæi í fjármálum borgarinnar. Það gefur auga leið að ein leið til fylgisaukningar er að skilja og tala um þau mál sem ungt fólk ræðir sín á milli, þótt þau kunni að virðast vera „smámál” í augum eldri kynslóðarinnar, þá má hafa það í huga að smámál geta velt þungu hlassi. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa t.a.m. ekki forðast að tjá sig um smámál eldri kynslóðanna, eins og heilagan rétt Gídeonfélagsins til að dreifa trúarlegu efni í grunnskólum. Slík smámál skipta nefnilega marga kjósendur máli.

Einn stærsti vandi Sjálfstæðisflokksins í dag er ímyndarvandi. Flokkurinn virkar stofnanalegur og gamaldags á ungt fólk. Stjórnmálamenn flokksins eru margir stirðlamalegir og gefa ungu fólki fáar ástæður til að fyllast eldmóði. Sjálfstæðisflokkurinn er ekki trúverðugur. Alls staðar á Vesturlöndum eru kjósendur, þá sérstaklega ungt fólk, að hafna atvinnustjórnmálamönnum sem láta spunameistara skrifa ræðurnar og kosningaloforðin fyrir sig með það að markmiði að veiða atkvæði. Kallað er eftir stjórnmálamönnum sem standa fyrir eitthvað meira en eigin pólitíska frama.

Að breyta ímynd flokksins og áherslum verður augljóslega ekki gert á einni nóttu. Ef til vill er það bæði styrkur flokksins og galli að hann er stofnun. Hann breytist hægt, sem ver hann gegn tímabundnum sveiflum í pólitík, en sama kjölfesta getur haldið honum frá því að þróast samhliða tíðarandanum og kröfum kjósenda. Að mínu mati verða áherslubreytingarnar hjá kjörnum fulltrúum flokksins ekki bara að eiga sér stað á fundum hjá almannatengslum og auglýsingastofum, heldur er jafnframt þörf á mikilvægri endurnýjun á fulltrúum flokksins.

Ungt fólk þarf að vera í forsvari

Vilji Sjálfstæðisflokkurinn ná til ungs fólks þarf hann að hafa fólk í forsvari sem skilur hvað knýr áfram pólitískan áhuga ungs fólks og deilir áhyggjum þeirra og vonum. Besta og fljótlegasta leiðin til að gera það, er að vera með ungt fólk á framboðslistum. Í síðustu alþingis- og sveitastjórnarkosningum var sorglegur skortur á ungu fólki í baráttusætum á framboðslistum Sjálfstæðisflokksins á höfuðborgarsvæðinu.  Við slíkar aðstæður er skiljanlegt að ungir kjósendur leiti frekar til flokka eins og Pírata þar sem frambjóðendur eru ungir og leggja áherslu á frelsismál sem ungt fólk ræðir frá degi til dags. Ungt fólk laðast að frambjóðendum sem láta ekki skoðanakannanir ráða för við val á málefnum til að tala um en sýna skilning á mikilvægi nútímalegra frelsismálefna.

Til að vera sanngjarn þá fellur Birgitta Jónsdóttir seint inn þennan hóp sem ég er að lýsa, en Helgi Hrafn og Jón Þór gera það svo sannarlega. Sem dæmi um frjálshyggjuáhrif Pírata á þessu kjörtímabili má nefna ötula baráttu gegn guðlastsákvæði hegningarlaga, stríðinu gegn fíkniefnum og valdníðslu í stjórnsýslunni. Sumum kann að finnast þessi mál smávægileg miðað við lækkun tryggingagjaldsins, en ungt fólk er ekki á sama máli. Allt eru þetta málefni sem Heimdallur hefur talað um svo árum skiptir, en boðskapurinn fallið í grýttan jarðveg meðal þingmanna Sjálfstæðisflokksins með örfáum undantekningum.

Það er kominn tími til að Sjálfstæðisflokkurinn endurheimti fyrri ímynd sína sem frjálslyndur, borgaralegur og framsækinn flokkur. En til þess að það sé mögulegt, verður hann að hafa þingmenn sem trúa á grunngildi Sjálfstæðisflokksins, gildin um einstaklings- og verslunarfrelsi, og eru í stjórnmálum vegna hugsjóna og láta ekki stjórnast af hversdagslegum pragmatisma og embættismennsku.

Frjálshyggjumenn hafa líka blæðandi hjörtu

Frumvarp sem heimilar fólki að leigja út bílinn sinn á ekki einungis að vera rökstutt í sjónvarpsfréttum með því að „eigið fé“ fólks sé betur nýtt verði lagafrumvarpið samþykkt. Frekar ætti þingmaðurinn að útskýra að honum finnist sjálfsagt að fólk geti leigt út bifreiðina sína án þess að þurfa að príla í gegnum reglugerðarfrumskóg, sem þjónar fyrst og fremst stórum fyrirtækjum sem eiga auðvelt með að hoppa yfir þær hindranir sem ríkið setur. Eigi frelsisstefnan að eiga sér einhverja von, þá verður hún að vera rökstutt þannig að venjulegt fólk geti samsamað sig við hana. Því má nefnilega ekki gleyma að frelsi er mannúðarstefna. Engin önnur stefna er betur til þess fallin að bæta kjör almennings, og á þeirri forsendu þarf að sækja fram á við og sannfæra fólk að í frelsinu felist tækifæri og lausnir við þeim vandamálum sem ríkið hefur skapað með afskiptum af markaðnum.

Skýrt dæmi um þetta er húsnæðismarkaðurinn í Reykjavík, þar sem velmeinandi en íþyngjandi byggingareglugerðir ýta húsnæðisverði upp samhliða tilbúnum lóðaskorti í boði borgarinnar.

Um leið og fólk finnur að kjörnir fulltrúar tala af sannfæringu og frá hjartanu, sannfærist það um að þeir séu í pólitískum störfum á eigin forsendum. Þannig stjórnmálamenn er hægt að treysta – og kjósa á Alþingi og í sveitarstjórnir.

Við megum ekki eftirláta jafnaðarmönnunum manngæskuna. Það er of hættulegt.

Er það hlutverk Heimdallar að sannfæra unga kjósendur?

Sumir af þeim kjörnu fulltrúum, sem síst ná til ungs fólks, telja það vera verk ungliðahreyfingarinnar að ná til ungra kjósenda. Þeir fría sig allri ábyrgð og kenna ungliðahreyfingunni um fylgistapið. Ef meiri bjór væri á boðstólum og skemmtilegra fólk í stjórn Heimdallar, þá væri flokkurinn á grænni grein, segja þeir sumir. Ég hef vissra hagsmuna að gæta gagnvart þessari gagnrýni, sem fyrrverandi formaður Heimdallar, enda finnst mér hún missa marks. Vissulega geta skemmtilegir og fjölbreyttir viðburðir laðað fleira ungt fólk að starfi Sjálfstæðisflokksins. En þegar öllu er á botninn hvolft, þá eru stjórnmálamenn sem geta ekki náð til kjósenda á aldrinum 18-39 ára, ef til vill ekki mjög góðir stjórnmálamenn. Væri það boðlegt ef ég, 22 ára, segðist ekki geta náð til aldurshópsins 35-60 ára? Ron Paul og Bernie Sanders, báðir jaðarþingmenn í Bandaríkjunum, njóta gífurlegs fylgis hjá ungu fólki þrátt fyrir að vera á áttræðisaldri. Einu pólitísku vopnin sem þeir hafa þurft til að ná til ungs fólks er pólitísk sannfæring.  Sömu lögmál gilda á Íslandi.

Kapphlaup vinnast ekki með því að elta andstæðingana og draga þá niður í forarpyttinn, heldur með því spyrna fótunum í jörðina og horfa fram á við. Það á líka við um hið pólitíska kapphlaup, sem Sjálfstæðisflokkurinn er ekki að vinna í dag.