„Flokkar verða ekki litlir við að missa fylgi“

Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, á ekki sjö dagana sæla. Samfylkingin stefnir í að verða áhrifalítill smáflokkur. Samkvæmt þjóðarpúlsi Gallup var fylgi Samfylkingarinnar í ágúst það minnsta í sögu flokksins eða 9,3%. Í október potaðist fylgið upp í 10,2%. Til samanburðar er meðalfylgi flokksins í þingkosningum 25,5% en mesta fylgi flokksins var 2003 þegar 31% kjósenda greiddu honum atkvæði.

Í viðtali í morgunþætti Rásar 1 föstudaginn 4. september skýrði Árni Páll ákvörðun sína um að sitja sem fastast á formannsstóli:

„Ef að ég teldi að Samfylkingin væri ein í einhverri sérstakri stöðu þá auðvitað væri nærtækast að horfa á mínu stöðu. En þegar maður horfir á að þetta er almenn kreppa allra gamalla flokka og þegar maður horfir á þær hræringar sem eru í stjórnmálum í nágrannalöndum og Bandaríkjunum og alls staðar í kringum okkur þá er það niðurstaða mín allavega að ég vil leggja mitt af mörkum til þess að breyta Samfylkingunni og gera hana færa til þess að takast á við þessar nýju aðstæður.”

Árni Páll ítrekaði síðan fyrri skýringar sínar á slakri stöðu Samfylkingarinnar:

„Það sem mér finnst mikilvægast er að horfa á hvað þessi dýfa er að segja okkur. Ég hef sett fram þá túlkunarskýringu og held enn fast við hana. Þegar ríkisstjórnin sveik annan ganginn loforðið um þjóðaratkvæðagreiðslu að þá hafi fólk fyllst reiði og vonleysi og sú reiði bitnar á okkur líka.“

Á flokksstjórnarfundi 19. september síðastliðinn komst Árni Páll ekki hjá því að fjalla um fylgishrunið en hann reyndi að hugga félaga sína með nýstárlegum hætti:

„Flokkar verða ekki litlir við að missa fylgi heldur við að hætta að hugsa stórt.“

Árni Páll hugsaði síðan stórt og ræddi um að „ný stjórnmál“ þurfi „nýja umgjörð“ og „við eigum að gera tilraun til að skapa hana á grunni Samfylkingarinnar“:

„Hér, eins og alls staðar annars staðar, spretta upp hreyfingar fólks til að berjast fyrir samfélagsumbótum. Flóttamenn. Makríll-inn. Druslugangan. Reynslan frá hruni. Það skortir ekkert á vilja fólks til að leggja gott af mörkum. En hér, eins og um alla Evrópu, er fólk líka að átta sig á þeirri hættu að sjálfsprottnar hreyfingar verði til af miklu afli, en skorti úthaldið til að koma breytingum í höfn. Þær geti orðið eins og glæsileg flugelda-sýning: Heillandi en endist alltof stutt til að knýja fram raunverulegar breytingar.“

Til að bjarga þessum hreyfingum en ekki síður Samfylkingunni lagði Árni Páll til að Samfylkingin bjóði sig „fram til að verða verkfærið sem vantar – farvegur fyrir fólk sem vill láta til sín taka“. Formaðurinn var á því að Samfylkingin geti verið afl sem hafi getu og úthald til að koma í gegn breytingum sem fólk kallar eftir.

Össur býður rólegur

Á Alþingi er þingflokkur samfylkinga sundurtættur og sundurþykkur. Árni Páll segir ástandið ekki sér að kenna og enginn þingmanna hreyfir mótmælum. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, sem gerði misheppnaða leifturárás á Árna Pál, hefur lítið til málanna að leggja. Össur Skarphéðinsson situr rólegur, býður eftir kallinu og minnir á að þegar hann sat á formannsstóli hafi Samfylkingin mælst með um og yfir 30% fylgi. Síðan hafi leiðin legið niður á við, fyrst með Ingibjörgu Sólrúnu, svilkonu Össurar og síðan Jóhönnu. Stuðningsmenn Árna Páls, þeir sem eftir eru, færa rök fyrir því að mestu ábyrgð á vanda flokksins beri Jóhanna.Össur og Jóhanna

En svo eru þeir sem standa utan Samfylkingarinnar og velta fyrir sér skýringum á hruni Samfylkingarinnar. Einn þeirra erArnar Sigurðsson, sem kallar Árna Pál fráfarandi formann. Í pistli á bloggsíðu sinni bendir Arnar á að á flokksstjórnarfundi laugardaginn 14. nóvember hafi Árni Páll sagt meðal annars:

„Fólk flýr Ísland þrátt fyrir gott efnahagsástand til að fá að búa við þau samfélagsgæði sem sósíaldemókratísk forgangsröðun hefur skilað.“

Daginn eftir, sunnudaginn 15. nóvember, var Árni Páll í viðtali á Eyjunni á Stöð 2 og sagði:

„Íslenskur vinnumarkaður stendur þannig núna að það er skortur á mannafla, aldrei verið betri aðstæður til að taka á móti útlendingum sem eru tilbúnir til þess að búa sér lífsviðurværi hér….það eru öfundsverðar aðstæður hér.“

Það er ekki hægt annað en taka undir með Arnari þegar hann skrifar:

„Já það er eitthvað svo skrítið af hverju sumir tapa tiltrú kjósenda……“