Á toppnum en skrapa þó botninn

Ragnhildur KolkaRagnhildur Kolka

Þeir eru á mikilli siglingu í skoðanakönnunum þessa dagana flokkurinn sem kennir sig við sjóræningja. Minnir um margt á hjarðbylg
juna sem gekk yfir íslenska þjóð þegar Sylvía Nótt söng sig uppá og útaf Eurovisionpallinum. Sama þörfin og þá fyrir „eitthvað annað“. Fólk af öllum gerðum segist ætla að kjósa Píratana þótt þeir bjóði lítið annað en afgreiðslustörf við þjóðaratkvæðakassann – og auðvitað fría nettengingu. Þrátt fyrir þetta lítilræði segjast kjósen
dur tilbúnir að leggja traust sitt á þessa talsmenn tölvuleikja, því Píratar þreyta þá ekki með lausnamiðuðu stagli. Þeir bjóða engar lausnir og það þykir í dag bæði heiðarlegt og kúl. Sama þjóðin og hvatti galvaska bankstera, eins og Eva Joli kallaði útrásarhetjurnar okkar, til að velta um sparibaukum landsmanna, í rússneskri rúllettu fjármálamarkaða heimsins, er nú komin til vits og vill ekki lengur láta „staðnaða flokksjálka“ véla um sín mál. „Nú get ég“ segir þjóðarsálin og tekur örlög sín í eigin hendur. Það er svo sem ástæðulaust að gera því skóna að þessir geðþekku sjóræningjar hafi í hyggju að ræna þjóðarskútunni og sigla með hana í Karíbahafið, en traust upp á 35% er ekkert smá. Sérstaklega þegar ekkert liggur fyrir um hvað þeir geta annað en eigin orð um að standa fyrir lýðræði, gagnsæi og heiðarleika. Minnist einhver þess að stjórnmálamaður hafi gefið sig út fyrir að standa fyrir nokkuð annað? Og þótt ég vilji kannski ekki kasta köldu vatni á þetta nýjabrum í stjórnamálaflóru landsins finnst mér ástæða til að staldra við og skoða verk og stefnu Pírata, ef þau er einhvers staðar að finna.

Þegar stefnumál Pírata (sem þeir kalla reyndar grunnstef) eru skoðuð má segja að þau hljómi að ýmsu leyti sem músík í mínum eyrum. Réttindi borgaranna eru kjarninn sem þeir vinna útfrá; kosningarétturinn, trúfrelsið, tjáningarfrelsið, fjölmiðlafrelsið og rétturinn til að mótmæla á friðsaman hátt. Allt þetta höfum við nú þegar, það eina sem vantar í stefnuskrána er frelsið til athafna, þ.e.a.s. fyrir utan frelsi Pírata til að gramsa í eigum annarra. En trúir nafngift sinni þá er Pírötum eignarétturinn ekkert sérlega heilagur samanber nálgun þeirra við höfundarréttarvarið efni á netinu og sjávarútvegsstefnuna sem byggir á tillögu um eignarnám aflaheimilda. Lítið fer fyrir skyldum borgaranna. Auðvitað eiga borgaraleg réttindi alltaf að vera til skoðunar, en þegar nánar er að gáð fellur ósjaldan ryð á þennan anarkíska sjarma sem glitrar á yfirborði grunnstefsins, en það vill helst gerast þegar upp dúkka gamalkunnar klisjur úr hugmyndafræði sem margir trúðu hafa lognast útaf í Evrópu um 1990. Flokkur Pírata er nefnilega einhvers konar bræðingur af anarkisma, frjálshyggju, kommúnisma og rómantísku hipparússi síðustu aldar klætt í búning hátækninnar. Póstmódernísk fylking sem vill brjóta gamalt fyrirkomulag niður til að setja það saman á nýjan leik samkvæmt formúlum tölvuleikjanna án þess þó að vita hvað í því felst fyrir raunheiminn. Aðalatriðið virðist vera að gera það með hjálp átrúnaðargoðsins, tölvutækninnar. Þau vilja vel, elska næstum alla, en draumsýn sína mest.

Pírötum er tíðrætt um gagnrýna hugsun og sannarlega leggjast þeir af alefli í hana. Með misjöfnum árangri þó. Hún birtist okkur úr þingsölum aðallega í tilraunum til að tala sig að niðurstöðu í ræðustól með ótæpilegum áherslum á aukaatriði og flækjustigi sem fylgir upplýsingaflóðinu. Fyrir bragðið ná þeir ekki að fylgjast með málum eða taka afstöðu til þeirra, því óendanleikinn sem besti vinur barnanna, internetið, býður uppá er allur á fótinn. Hvernig er líka hægt að komast yfir að lesa allt það sem upp kemur þegar slegin eru inn orð eins og gagnrýnin hugsun (critical thinking) eða borgaraleg réttindi (civil rights)? Og hve mikinn tíma má taka til að vinna úr niðurstöðunum og komast að endanlegri niðurstöðu? Svo ekki sé minnst á að móta stefnu að loknu samráði við allt baklandið í netheimum.

En þannig munu vinnubrögðin vera við ákvarðanatökur hjá Pírötum.

Á meðan Píratar strita við að sía hismið frá kjarnanum hringir bjallan í þingsal og málið ýmist tekið af dagskrá eða fest í lög. Kollegi þeirra Kapteinn Krókur hefði illa fótað sig í þessum sveimhuga félagsskap. Höfundur Reykjavíkurbréfs Morgunblaðsins 7. ágúst bendir á hve galið það er þegar stjórnmálaafl hefur enga sjálfstæða stefnu og hagsmunir íslensku þjóðarinnar liggja við. Grunnstef í efnahagsmálum eða utanríkismálum hefði komið að notum þegar Píratinn í utanríkismálanefnd var inntur eftir afstöðu síns flokks til viðskiptaþvingananna gegn Rússum og hann lýsti svo:

„Við stöndum áfram með þeim ríkjum sem við höfum alltaf staðið með þegar kemur að viðskiptaþvingunum.“

Eins og slíkar þvinganir séu daglegt brauð og við alltaf trygg í slagtoginu. Að aðrir fulltrúar í nefndinni hafi tekið sömu afstöðu til bannsins réttlætir ekki þetta einfeldningslega svar Píratans, því aðrir flokkar eru ekki að skreyta sig með slíkum glinguryrðum. Eflaust hefði það þó gagnast nefndinni að viðhafa gagnrýna hugsun og öguð vinnubrögð við lausn verkefnisins.

Einfaldari leið til

Annað málefni Pírötum hjartkært er svokallað beint lýðræði, þ.e. Píratar vilja að ákvarðanataka í sem flestum málum verði í höndum einstaklinganna sjálfra. Þetta segja þeir lið í baráttunni við útblásið ríkisvald, því Pírötum geðjast ekki fulltrúalýðræðið. Ég er innilega sammála Pírötum um að við búum við útblásið ríkisvald og vissulega mætti almenningur leggja það á sig að kynna sér og kjósa um ýmiss konar málefni. Þó er til einfaldari leið og kostnaðarminni sem líklegri er til að draga úr umsvifum ríkisins. Hún felst í að fækka verkefnum þess og draga úr útgjöldum. Ekkert í grunnstefjum Pírata bendir til að það sé á planinu. Beina lýðræðið þeirra á því bara að leggjast ofan á allt hitt. Sjálfsagt er að gefa almenningi kost á þátttöku í ákvarðanatöku þar sem það á við, en til að þjóðaratkvæðagreiðsla spegli vilja almennings verður að tryggja að spurningarnar sem lagðar eru í dóm kjósenda leiði til afdráttarlausrar niðurstöðu og að þátttaka sé almenn. Þjóðaratkvæðagreiðslur eiga ekki að vera leið sérhagsmunahópa til að ná vilja sínum fram á kostnað annarra. Við höfum vítin til að varast frá síðasta kjörtímabili. Gott dæmi um klúðurslega atkvæðagreiðslu og afdrif hennar er svokölluð þjóðaratkvæðagreiðsla um „nýja stjórnarskrá“. Þarf varla að fara fleiri orðum um hana svo vel situr allur sá sirkus í minni manna. Gallagripurinn sá virðist þó hafa fallið Pírötum í geð og barátta þeirra nú snýst um fleiri slíkar og þá rafrænar til að auka þátttökuna. Þar mun á brattann að sækja, því áhuginn er lítill. Reykjavíkurborg hefur tvisvar boðið upp á rafrænar kosningar, nú síðasta í upphafi árs og tóku heil 6.7% kjósenda þátt. Mest var þátttakan í þeim hverfum þar sem þjónusta borgarinnar hefur gersamlega verið í molum og náði hún þar þó aðeins til innan við 10% kjósenda. Þurftu kjósendur þó ekki að ómaka sig upp úr sófanum. Þessi lélega þátttaka segir manni að kjósendur vilji láta nálgast sig sem vitibornar verur en ekki sem leikskólabörn með sérþarfir.

Umræðuhefðin hér á landi er ekki endilega vel til þess fallin að takast á við verkefni eins og þjóðaratkvæðagreiðslur sem geta haft afdrifaríkar afleiðingar. Vill umræðan gjarnan snúast meira um flokkspólitík en efnisatriði málsins. Taka má dæmi um umræðu sem fram fór á ágætlega fjölmennum vinnustað um þjóðaratkvæðagreiðslu vegna lagasetningar um eignarhald á fjölmiðlum árið 2004. Svo gott sem einhugur ríkti um að greiða atkvæði gegn lögunum. Áhugi á að kynna sér lögin var enginn, því „sannleikurinn“ stóð, jú, skrifaður stórum stöfum í Fréttablaðinu. Komust lögin þó í heild sinni fyrir á einu A4 blaði. Í kvöldbænum hinna „upplýstu“ var beðið fyrir að síkvikur forsetinn sæti sem fastast á setri sínu. Má leiða að því líkur að ýmsir hafi iðrast þess síðar að sú lagasetning hafi ekki notið náðar þjóðarinnar. Þjóðaratkvæðagreiðslurnar um Icesave snérust illilega í höndum stjórnvalda þótt allt væri gert, jafnvel hákarlar sóttir í djúpið, til að skjóta örþjóðinni skelk í bringu. Útkoman var fyrirsjáanleg, því fullvalda fólk kýs ekki yfir sig skuldaklafa að óþörfu. En þótt Íslendingar hafi haft vit fyrir ríkisvaldinu í það sinn eru þeir góðviljað fólk sem vill helst ekki neita neinum bónar. Án ábyrgðar gætum við endað í sporum Kaliforníufylkis í Bandaríkjunum sem riðar sífellt á barmi gjaldþrots. Í anda Pírata kjósa Kaliforníubúar nefnilega að vera góðir við alla og aðallega sjálfa sig án þess að íhuga hvaðan peningarnir koma eða á hverjum góðmennskan bitnar. Tillaga Pírata um þjóðaratkvæði um áframhald ESB-viðræðna, þegar upplýst hafði verið að Evrópusambandið sjálft hafði endað viðræðurnar, var fullkomlega vanhugsuð og stenst enga mælikvaða gagnrýninnar hugsunar. Sýnir í raun að ákvarðanataka Pírata er tilviljanakennd og án yfirvegunar. Við búum nefnilega enn í raunheimum hvað sem verður í framtíð. Ruglingur Pírata með hugtök eins og gagnrýna hugsun og beint lýðræði kemur upp um siglingu þeirra á grunnsævinu og er ég ekki ein um að búa að þeirri skoðun. Nýlega ritaði Hjörleifur Guttormsson fyrrverandi þingmaður og ráðherra grein í Morgunblaðið þar sem hann bendir á þennan grundvallar galla í hugmyndafræði þeirra.:

„Kátbroslegust er þó líklega afstaða Pírata til aðildar Íslands að ESB, eins og hún birtist í stefnuyfirlýsingu þeirra: „Það er ekki hlutverk stjórnmálaflokka að taka afstöðu með eða á móti aðild en aftur á móti eiga þeir að vera búnir undir hvora niðurstöðuna sem er“, þ.e. útkomu úr bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu. Píratar virðast ekki hafa áhyggjur af því að það gæti orðið síðasta kosning af því tagi hérlendis um stórmál, þar eð þjóðaratkvæðagreiðslur eru sem kunnugt er eitur í beinum Evrópusambandsins.“

Píratar hefðu ekki þurft að sitja undir þessari háðung ef þeir hefðu, á opinn og heiðarlegan hátt, lýst strax yfir afstöðu sinni til inngöngu í ESB.

Vilja flestum vel

Eitt og annað í grunnstefjum Pírata undir liðunum jafnrétti, menntun, velferð og hagkerfi sýnir að þeir vilja flestum vel. Undir margt af því má taka, s.s endurskoðun og einföldun á ýmis konar regluverki. Sumt er nú þegar til athugunar hjá sitjandi ríkisstjórn eins og breyting á hluta námslána í styrk, einföldun skattkerfisins og endurskoðun á örorkumati. En þrátt fyrir viðleitni í frjálsræðis átt er undirtónn Pírata bara gamaldags sósíalismi að hætti Karls Marx. Reyndar má ganga svo langt að segja að bullandi forræðishyggja ríki þar undir merkjum mannkærleika. Tryggja þarf…. kemur mikið við sögu í málefnaskránni og auðvitað er það ríkið sem á að tryggja allt milli himins og jarðar. Lágmarks framfærslu, afþreyingu og menntun fyrir alla, viðeigandi húsnæði sem ríkið á að taka, að því er virðist, til afnota fyrir „þurfandi“ með góðu eða illu. Og til að tryggja frið um aðgerðirnar leggja Píratar til að „[a]fnema […] hugtakið „bótakerfi’”.” Það vill segja, að þegar ekki er lengur um að ræða að tilfærslan sé form bóta, svo óskiljanleg sem það hugtak er þegar stærsti hluti þjóðarinnar er á einhvers kona bótum, þá er tilfærslan bara réttmæt dreifing auðsins. Þetta orwellska newspeak tröllríður umræðunni nú um stundir. Til að toppa gömlu kommana sem nú kalla sig Vinstrigræn, sem fyrir aðeins liðlega ári síðan lögðu fram frumvarp til laga um lágmarkslaun (Lilja Rafney Magnúsdóttir, Steingrímur Sigfússon og með þeim í slagtogi Birgitta Jónsdóttir nú kapteinn Pírati), gera Píratar nú kröfu um að allir njóti lágmarksframfærslu. Þessi krafa er af sama meiði og lágmarkslaunin enda aðkallandi eftirfylgni þegar atvinnuleysi lágmarkslaunanna fer að bíta. En svo undarlegt sem það má virðast þá gera Píratar sér ekki grein fyrir að nú þegar njóta allir landsmenn lágmarksframfærslu, þ.e. lágmarkslauna eða lágmarksbóta. Það er hinsvegar ekkert að því að Píratar hafi það að markmiði að hækka framfærsluviðmiðin. Þeir hafa t.d. núna gullið tækifæri til að láta að sér kveða í þeim málum með sinn mann í borgarstjórn. Mættu þeir t.d. stinga því að borgarfulltrúanum að lækkun útsvars myndi svo sannarlega koma þeim tekjulægstu vel. Eins mætti inna borgarstjórann eftir kosningaloforði hans um gífurlegar framkvæmdir í félagslega íbúðakerfinu. En síðustu fregnir af þeim vettvangi eru að félagslegum leiguíbúðum hefur fækkað um 27 frá árinu 2010 þrátt fyrir kosningaloforð borgarstjórans um fjölgun sem svarar 100 félagslegum íbúðum á ári frá 2010-2014. Loforð sem enn er falið upp í jakkaermi borgarstjórans. Það gleymdist nefnilega að taka fram að hann ætlaði öðrum að standa undir kostnaði við ofrausn sína. Má þakka skeleggum fulltrúum Framsóknarflokksins fyrir hversu iðnir þeir eru við að upplýsa almenning um snákaolíuna sem núverandi meirihluti smurði á kosningaloforð sín við síðustu og þar síðustu borgarstjórnarkosningar.

Barnslega falleg atvinnustefna

Atvinnustef Pírata er einfalt. Það felst í því að koma umheiminum í skilning um hverslags snillingar búa á Íslandi og hve vel þeir séu netvæddir. Í krafti þess eiga atvinnutilboðin að streyma inn svo að öll þjóðin geti setið sveitt við tölvur sínar. En þar sem þeir sjá framá að þessi ofuruppgötvun geti tekið tíma þykir þeim réttast að bregðast strax við og stytta vinnuvikuna um 12.5% í einum rykk. Val um að stytta hana enn frekar ef ekki rætist úr verkefnum er í option pakkanum. Enginn skal þó lækka í launum og mun Stóri Bróðir eiga að fylgjast vel með því. Aðrir atvinnuvegir eru ekki tilnefndir og varð maður hugsi yfir hver ætti að sjá um allt hitt. En Píratar leyna á sér. Með því að lýsa sig fjölmenningarsinna og kalla eftir óheftum innflutningi flóttafólks megi auka fjölbreytni starfa í samfélaginu. Fjölmenning er fínt orð yfir aðflutt vinnuafl í störf sem innfæddir nenna ekki lengur að sinna; fólk í fiskvinnslu og öðrum þjónustustörfum. Það er eitthvað óendanlega krúttlegt við þessa einfeldni himinblámans sem umlykur Píratana. Trú þeirra á að öll þjóðin geti leikið á lyklaborð sér til framfærslu er svo barnslega falleg. Einhvers konar aldingarðurinn Eden, hér og nú.

En svo gerðist það einn dag að Píratar vöknuðu upp við veruleikann; hrjúfan og kaldann. Það gerðist þegar fögru orðin og hugmyndirnar á spjallborðinu keyrðu á steinsteyptan vegg raunheimsins. Áreksturinn olli stórfelldu tjóni á ímynd hreinleikans. Þannig fauk gagnsæið í maí síðastliðnum, þegar Píratinn í borgarstjórn greiddi atkvæði gegn auknu gagnsæi í skólamálum foreldrum til handa. Hið háleita gagnsæi, sem átti að vera þríheilagt með gagnrýninni hugsun og lýðræðiskröfunni keyrði þarna beinustu leið útaf. Í einu vetfangi var hugsjónum Pírata sturtað niður þegar Halldór Auðar Svansson greiddi atkvæði gegn hagsmunum foreldra og barna. Samfylkingin á langa sögu að baki með slíkar svikabrellur, en Píratinn, hvað hafði hann að óttast við að foreldrar fengju vitneskju um stöðu skóla barnanna sinna innan skólakerfisins? Þessi atkvæðagreiðsla Píratans var ekki hvað síst athyglisverð fyrir þær sakir að hún skipti niðurstöðu málsins engu (HAS er aðeins varadekk í borgarstjórn sem hefur það hlutverk að halda aftur af yfirgangi atkvæðis VG). Trúverðugleiki Pírata hékk á þessari atkvæðagreiðslu og því hefði hún átt að skipta þá öllu máli. Í lognmollu sumarsins hefur málið legið niðri en með haustinu þurfa Píratar að girða upp sínar pólitísku brækur. Hvernig ætla þeir þá að gera kröfu á pólitíska andstæðinga um gagnsæ vinnubrögð? Benda á Halldór Auðar sem fyrirmynd?

Ofmetið þrekvirki

Og afrekaskrá Píratar heldur áfram. Píratar unnu það þrekvirki á síðasta þingi að fá eitt mál samþykkt. Ekkert smámál en þó ofmetið. Píratar standa nefnilega í þeirri trú að þeir hafi unnið gríðarlegan sigur tjáningarfrelsinu til handa með afnámi 125. gr. almennra hegningalaga. En í raun var þessi grein, sem kveður á um refsingar vegna guðlasts, tiltölulega auðveldur veggur að klífa. Aðeins nokkrir umsagnaraðilar andmæltu niðurfellingar greinarinnar en þar sem þeir tilheyra flestir kristnum söfnuðum voru þeir léttvægir fundnir. Allt frá því að Nietzshe varð þess áskynja að Guð var ekki lengur lifandi afl í hinum veraldlega heimi Vesturlanda hefur rödd kristinnar kirkju orðið sífellt mjórri. Langvarandi árásir og níð um kristna trú hafa dregið allan kraft úr kirkjunni hér sem annars staðar. Á móti kemur að í seinni tíð hefur rödd trúarbragða „friðar“ frá Miðausturlöndum orðið sífellt háværari. Andmæli úr þeirri átt hefðu trúlega fengið meiri hljómgrunn hjá nefndinni sem fjallaði um málið og hugsanlega eiga guðlastslögin eftir að taka hælkrók á Píratana og birtast okkur aftur, þ.e. ef Sádi-Arabía hefur sitt í gegn með alheims staðal um guðlast undir verndarvæng Sameinuðu þjóðanna. Sádar áttu dágóðan sprett þegar þeir tóku málið fyrst upp og léð forseti Bandaríkjanna, Barack Obama því þá stuðning. Aldrei að vita nema Píratar greiði þá fyrir endurkomu laganna haldi þeir enn fast við stefnu sína að „[standa] áfram með þeim ríkjum sem við höfum alltaf staðið með.

Kveikjan að frumvarpi Pírata var viðurstyggileg árás á starfsfólk skrifstofu franska vikublaðsins Charlie Hebdoe í París sl. janúarmánuð, þar sem morðóðir íslamistar myrtu fjölda manns vegna meints guðlasts. Í grunninn beindist árásin þó að tjáningarfrelsinu í öllum sínum myndum. Það má segja Pírötum til hróss að þeir höfðu áður gert tilraun til að aflétta refsiákvæði um fangelsisdóm af fleiri greinum almennra hegningarlaga svipaðs eðlis, en orðið frá að hverfa. En gott og vel, samþykkt frumvarps Pírata felur í sér að nú skal enginn lengur sæta sektum eða fangelsi samkvæmt 125. gr. hafi sá hinn sami leyft sér að draga dár að eða smána trúarkenningar [.. ] löglegs trúarbragðafélags. En er það svo? Í yfirferð sinni komst allsherjar- og menntamálanefnd að þeirri einróma niðurstöðu að grein 233 í almennum hegningarlögum komi fyllilega í stað 125. greinar og því enginn skaði skeður að fella hana úr gildi. Þessi mikli sigur Pírata fyrir hönd frjálsrar tjáningar var því varla sigurvímunnar virði. Sigríður Á Andersen, þingmaður Sjálfstæðisflokksins hreyfði nýlega við þessu máli í pistli í Morgunblaðinu, þ.s. hún spurði hvers vegna ekki hafi komið til skoðunar að afnema líka 233. gr. a. en þar segir:

„Hver sem opinberlega hæðist að, rógber, smánar eða ógnar manni eða hópi manna með ummælum eða annars konar tjáningu, svo sem með myndum eða táknum, vegna þjóðernis, litarháttar, kynþáttar, trúarbragða, kynhneigðar eða kynvitundar, eða breiðir slíkt út, skal sæta sektum eða fangelsi allt að 2 árum.“

Fyrsta grein þessara laga þar sem segir að hver, „sem hefur í frammi hótun um að fremja refsiverðan verknað, og hótunin er til þess fallin að vekja hjá öðrum manni ótta um líf, heilbrigði eða velferð sína eða annarra, þá varðar það sektum …1) eða fangelsi allt að 2 árum“ ætti að duga ágætlega til að verja hvern sem er fyrir slíkum hótunum. Að móðgast eða finnast einhver lítillækka sig hlýtur alltaf að vera huglægt mat hvers einstaklings og ætti því ekki teljast til refsiverðra glæpa. Í samfélagi sem vill kenna sig við jafnrétti ætti grein 233. a. að vera að mestu óþörf. Það mætti hins vegar skoða hvort rógburður, þ.e. álognar sakir ætti ekki að geta staðið sem sjálfstæð grein innan 233. greinarinnar.

Lög um ófrægingar- eða haturs orðræðu gagnvart einstökum hópum fólks hafa verið að tínast inn í lagabálka í flestum löndum hins Vestræna heims síðan stuttu eftir síðari heimsstyrjöldina þegar þörfin fyrir vinnuafl til uppbyggingar var hvað mest. Tilurð þeirra má má rekja til nokkurra alþjóðlegra sáttmála um mannréttindi auk borgaralegra- og pólitískra réttinda (s.s. ECHR, CERD og ICCPR)*. Miða allir þessir sáttmálar að því að setja tjáningarfrelsinu skorður. Reyndin hefur þó verið sú að aðeins sum þessara réttinda eru virk og þá aðeins fyrir afmarkaða hópa. Enn er í flestum Evrópulöndum refsilaust að hæða og hóta kristnu fólki og gyðingum útrýmingu þótt finna megi undantekningar frá þeirri reglu. Og regluverkið er furðu flókið. Franski fatahönnuðurinn John Galliano var t.d. dæmdur fyrir andgyðingleg ummæli um nafngreint fólk árið 2011 og danski leikstjórinn Lars von Trier var stimplaður persona non grata í Cannes fyrir andgyðingleg ummæli sama ár. Víðast hvar í Evrópu mega múslímar þó hóta gyðingum tortímingu. Í Bretlandi er það lögbrot að bera kristin trúartákn á sumum opinberum stofnunum, en ekki að klæðast alkhimār eða shaylah slæðum af trúarástæðum. Víða í Evrópu eru gyðingar hættir að ganga með kippah (kollhúfur) sínar af ótta við árásir. Þrátt fyrir skýr ákvæði um trúfrelsi í stjórnarskrá Bandaríkjanna hafa dómstólar að mestu sniðgengið rétt borgaranna til að fylgja trúarsannfæringu sinni þegar málefni kvenna eða hinsegin fólks rekast á. Kynsegin fólk (hverrar gerðar sem er) getur orðið fyrir aðkasti vegna hneigða sinna. Í Bretlandi brýtur það ekki lög að segja að samkynhneigð sé synd. Það er hins vegar refsivert að gera kröfu um að samkynhneigð verði bönnuð. Á Íslandi kostaði það kennara atvinnumissi að standa við trúarskoðanir sínar. Dómstól hér dæmdi honum í hag en starfsmissinn stóð óhaggaður.

Þeir sem helst hafa haft gagn af þessum „haturs orðræðu“ ákvæðum í vestrænum lögum eru múhameðstrúar menn, sem nýta sér ákvæðin til að skapa sér og sinni trú meira rými og þagga niður í tjáningarfrelsi annarra. Upphaflegur tilgangur með lögunum var að varðveita „samfélagsfriðinn“, en hefur haft þveröfug áhrif. Þau hafa ekki fært neinn frið heldur kynnt undir illindum og gefið kærendum „móðgana“ og ýmiss konar „særinda“ vegna trúarskoðana enn fleiri tækifæri til að kvarta. Þessi þróun stendur ekki undir tilgangi sínum þegar vestrænn almenningur má ekki lengur tjá sig um trúarskoðanir 1,4 milljarða manna. Dönsku lögin, banna t.d. opinbera gagnrýni á Íslam og gefa ekkert fyrir það þótt það sem sagt er sé satt og rétt. Til að ná fram sakfellingu nægir að kærandi hafi upplifað sig móðgaðan. Lars Hedegaard hefur staðið í margra ár málaferlum vegna ummæla sinna um að barnaníð væri ástundað víða í múslímskum samfélögum. Og þó að hann hafi á endanum verið sýknaður af alvarlegustu ákærunni þá er tekið fram í dómi hæstaréttar að eftir sem áður hafi innihald ummæla hans verið brot á 266. b. grein hegningarlaga sem bannar gagnrýni á Íslam. Nýlega var fyrrverandi þingmaður á danska þinginu, Mogens Camre, dæmdur í 150 þúsund króna sekt fyrir að segja að íslam hafi tekið við þar sem Hitler hætti. Fjöldi fólks víða í Evrópu; Austurríki, Finnlandi, Þýskalandi, Frakklandi, Ítalíu og Hollandi hafa staðið frami fyrir svipuðum ákærum og ekki komist allir jafn vel frá málinu. Starfsfólk Charlie Hebdoe, sem allir vilja nú sýna stuðningi, var árið 2006 sótt til saka af franska ríkinu fyrir guðlast. Rithöfundurinn Michael Houellebecq slapp naumlega við dóm fyrir að segja að Íslam væri „heimskuleg trúarbrögð“ og að „Kóraninn væri illa skrifaður“. Leikkonan Brigitte Bardot hefur 5 sinnum verið ákærð fyrir að „hvetja til kynþáttahaturs“ vegna afstöðu sinnar til ógeðfelldrar meðferðar múslima á sláturdýrum. Síðasta ákæran endaði með €15.000 (ca. 2.17 milljónir króna) sekt. Og ítalski rithöfundurinn og baráttukonan Oriana Fallaci mátti, dauðvona eyða sínum síðustu árum í útlegð frá heimalandi sínu vegna ákæru um íslamsníð. Hún hafnaði lögmæti ákærunnar og fékk aðeins snúið heim deyjandi á börum. Í dag stendur 78 ára gamall írskur prestur frammi fyrir dómara ákærður af íslömskum öfgamanni um hatursáróður gegn íslam. Réttarhöldunum yfir prestinum hefur nú verið frestað til 3ja september og bíða margir eftir að heyra hvaða niðurstöðu málið fær. Sektir og fangelsisdómar falla hægri vinstri í Evrópu, þar sem frelsi til tjáningar er ekki lengur í hávegum haft nema þegar atburðir á borð við árásina á Charlie Hebdoe eiga sér stað. Tilraunin til að skapa „samfélagsfrið“ hefur aðeins ýtt undir þöggunartilburðina eins og fréttir frá Birmingham í Bretlandi herma. En þar viðgengjust í áravís hópnauðganir unglings stúlkna (talið að um 1400 stúlkur hafi þar verið afhentar eins og stykkjavara milli manna) án þess að nokkur, þar með talin félagsmálayfirvöld, þyrði að tilkynna það af ótta við ásakanir um kynþáttahatur, því gerendurnir voru af
pakistönskum uppruna. Og svona má lengi telja.

Það var stæll yfir sýningunni þegar atkvæðagreiðsla um afnám 125. gr. fór fram og Píratar gengu hver af öðrum í pontu og gerðu grein fyrir atkvæði sínu: „Ég er Charlie Hebdoe.“ En það hefði verið glæsilegra hefðu þeir meint eitthvað með því og borið kjark til að knýja á um afnám greinar 233. a, því þar liggur meinið. Grundvallaratriði í frjálsu samfélagi er að almenningur geti tjáð skoðanir sínar án ótta við refsingar. Hversu ögrandi eða illa þokkaðar sem þær eru.

  • European Convention on Human Rights (ECHR), International Convention on the Elimination of All Forms of Racial Discrimination (CERD),  International Covenant on Civil and Political Rights (ICCPR)

Heimildir:
Stefnuskrá Pírata.
Almenn hegningarlög #19/1940.
Alþingisvefurinn.
Mbl.is/… Bann við guðlasti verði afnumið
The Legal Project.org/… Euroean Hate Speech Laws.
Gatestoneinstitute.org/…Free speech found guilty by Europe.
Nationalreview.com/…Hate-speech laws aren´t the answer to islamic extremism- they´re part of the problem.