Ótrúlegra en nokkur skáldskapur

Kommúnismi byggður á Marx/Lenínískri hugmyndafræði var við líði í Rússlandi í um 70 ár. Hann leið undir lok undan oki eigin mótsagna, sligaður af siðferðilegu og pólitísku gjaldþroti og efnahagslegu skipbroti. Með öðrum orðum. Hið kommúníska þjóðskipulag stóðst ekki til lengdar.Eftirlýstur-kápa

Ýmsir höfðu spáð því í gegn um tíðina að svo færi að lokum. Engu að síður kom hið mikla hrun Sovétblokkarinnar almennt á óvart. Enginn hafði í huga að hið sósíalíska óskaland yrði sinni eigin glötun að bráð svo skjótt og nákvæmlega á þessari stundu. Röð atburða og jafnvel tilviljana leiddu til þess að hið úr sér gengna þjóðskipulag Sovétríkjanna og fylgihnatta þeirra í Austur Evrópu hrundi á örskammri stundu – og það í beinni sjónvarpsútendingu sem við fylgdumst með.

Þetta var ekki bara hrun hugmyndafræði sem margir höfðu trúað á og talið vera einhvers konar þjóðfélagslegt óskaástand. Við urðum einnig vitni að hruni samfélags og þeirra reglna sem höfðu móta þessi þjóðfélög. Í pólitískum og samfélagslegum skilningi stóðu eftir rústir einar.

Hvað átti að koma í staðinn? Hver var eigandi atvinnutækjanna sem ríkið hafði með höndum? Hvernig átti að reka þjóðfélag sem hafði búið við áætlunarbúskap í stóru og smáu án raunverulegs ríkisvalds sem laut lögum og reglum? Þessum spurningum gat enginn svarað til fullnustu. Við tók einhvers konar kaos, stjórnleysi, þar sem reglur réttarríkis og samfélagsgerðar sem við tökum sem sjálfsagaðan hlut voru ekki til staðar.

Viðskipti í samfélagi án leikreglna

Inn í þetta þjóðfélag gekk Bill Browder þegar hann nánast fyrir tilviljun örlaganna ákvað að hasla sér völl í viðskiptum þar eystra. Það er eftirminnilegt að lesa frásögn af því þegar hann, stráklingur innan við þrítugt, ný skriðinn út úr háskóla, lagði þangað leið sína í viðskiptalegum tilgangi. Undirbúningurinn sem hann hafði fengið í fínum viðskiptaskólum Bandaríkjanna bjó hann afar takmarkað undir það sem þar beið hans. Allt var í lausu lofti. Fyrirtækin sem til staðar voru höfðu ekki lotið agavaldi markaðarins, en höfðu verið í náðarfaðmi ríkisins og áætlunar-búskaparins. Verðmyndun á vörum og eignum var í skötulíki. Eignarréttarhugtakið var framandi í þessum aðstæðum. Leikreglur voru fjarlægur veruleiki. Spilling gróf um sig og nánast var það tilviljunum háð hvernig eignir í einhverjum skilningi þess hugtaks komust í hendur einstaklinga. Yfirleitt á spottprís sem ekki endurspeglaði vænt eða raunveruleg verðmæti. – Þetta er tími sem fram til þessa var einstæður í sögunni og mun líklega aldrei koma aftur, sagði Bill Browder höfundur bókarinnar Eftirlýstur, á fundi í Háskóla Íslands í tilefni af útgáfu bókarinnar hér á landi.

Gríðarleg verðmæti skiptu um hendur

Gleymum því ekki að í Rússlandi eru gríðarlegar auðlindir af fjölþættum toga þar sem olían spilar þó stærstu rulluna. Þarna fór fram margs konar framleiðsla fyrir stórþjóð og fylgihnetti hennar. Sovétríkin höfðu þrátt fyrir allt átt viðskipti við aðrar þjóðir. Meira að segja við hér uppi á litla Íslandi þekktum það. Olía var lengst af nær eingöngu keypt hingað til lands af Sovétríkjunum – i skiptum fyrir fisk og iðnaðarframleiðslu. Fyrirtæki sem höfðu stundað þessi viðskipti í Sovétríkjunum voru skyndilega í lausu lofti. Reksturinn í fullkomnu uppnámi og enginn vissi hvernig ætti að bregðast við. Eignir skiptu um hendur og gríðarleg verðmæti voru þannig flutt frá íbúum hins nýja Rússlands til kaupahéðna og braskara en auðvitað líka til alvöru kaupsýslumanna sem voru drifnir áfram að heilbrigðri hagnaðarvon.

Þeir lukkunnar pamfílar sem gátu komist yfir eignir við þessar aðstæður gátu ætlað að þeirra biði rósrauð framtíð. Þeir sátu með í höndunum eignir sem í mörgum tilvikum höfðu verið verðlagðar með afar frumstæðum hætti.

Skjótt skipast veður í lofti

En veður skipaðist skjótt í lofti. Hið nýja Rússland tók á sig nýja mynd. Í bókinni Eftirlýstur eftir Bill Browder sem Almenna Bókafélagið gaf út er gefin lýsing á þessu þjóðfélagi. Samkvæmt lýsingu höfundar er hið nýja Rússland í raun bófasamfélag, þar sem leikreglurnar eru sniðnar að hagsmunum ríkjandi afla, stjórnvalda sem maka krókinn og allsherjar spillingu. Réttarríki í þeim skilningi sem við leggjum í það hugtak fyrirfinnst ekki. Lögreglan er handbendi stjórnvalda; ekki þjónn almennings heldur óvinur. Í réttarsölum fer ekki fram málsmeðferð þar sem sakborningar eiga rétt, nema það henti þörfum þeirra sem ráða. Eignarrétturinn, hornsteinn siðaðrar samfélagsgerðar er í engu metinn. Og æðstu stjórnendur maka krókinn, ætla sér hlut af viðskiptalegum gripdeildum til persónulegra þarfa og eignar. Browder hélt því til dæmis blákalt fram á fundinum í Háskóla Íslands að Pútín Rússlandsforseti sé ríkasti maður heims; ríkari en Bill Gates, Warren Buffet, Carlos Slim Helu og þeir allir. Allt með þeim hætti að hann krafðist hlutar af þeim sem hann heimilaði að stunda viðskipti sem náðu máli í Rússlandi. Í kring um hóp æðstu stjórnenda er síðan flókinn vefur minni spámanna sem fá sína sneið af kökunni; milljón hér og milljón þar, sem dugir umtalverðum hópi fólks til þess að lifa í vellystingum praktuglega. Eins og Browder lýsir þessu hafa þessir menn (og konur eru auðvitað líka menn, þó þeirra hlutur virðist rýrari) beina hagsmuni af því að viðhalda þessu valdakerfi og fyrirkomulagi. Þetta eru lögreglumenn og dómarar, minniháttar kaupsýslumenn, stjórnmálamenn, kerfiskallar og kellingar og svo framvegis. Eins konar köngulóavefur sem teygir sig um samfélagið og tryggir þetta fyrirkomulag. Þessu fólki er það í hag að þannig verði þetta áfram og gætir þess að rugga engum bátum svo hagmunir þess raskist ekki. Efst trónir svo elítan skipuð „ólígörkum“ af ýmsum toga. En fróðlegt er að þetta hugtak er enskusletta byggð á rússnesku orði og vísar til einhvers konar klíku eða fámennisstjórnar sem makar krókinn.

Lýsing Browdens

Bók Bill Browder er auðvitað einhliða lýsing hans á Rússlandi. Æsispennandi og reyfarakennd svo ekki sé meira sagt, en byggð á ævi hans og reynslu af rússnesku samfélagi og viðskiptalífi eftir hrun kommúnismans. Það er stundum sagt að sannleikurinn geti stundum verið ótrúlegri en nokkur skáldsaga og oft kom það upp í hugann við lestur bókarinnar. Á köflum er hún líka átakanleg, svo sem eins og lýsingin á örlögum lögfræðingsins Sergej Magnítskí, vinar höfundarins. Hann var tekinn höndum, bornar á hann sakir og að lokum lést hann af völdum skelfilegra pyntinga í rússnesku fangelsi aðeins 37 ára gamall. Reyfarakenndar eru svo lýsingarnar af sviptingum í fjármálalífinu, hvernig útvaldir fengu að sölsa undir sig eignir ríkisins eða annarra einstaklinga. Ekki síður þegar Browder og samverkamenn hans unnu að því að koma eignum sínum í Rússlandi í var og losa sig þannig undan ægivaldinu.

Að ná fram réttlæti

Af lestri bókarinnar má ráða að Browder hafi helgað líf sitt síðustu árin því að ná fram einhvers konar réttlæti vegna þeirra misgjörða sem vinur hans Sergei Magnítskíj mátti þola og í rauninni að sjá til þess að þeir sem ábyrgð bera á óhæfuverkunum sem hann lýsir í bókinni fengju einhvers konar málagjöld. Fróðlegt er að lesa af samskiptum hans við stjórnkerfið í Bandaríkjunum og stjórnmálamenn þar í landi. Árangurinn af þrautseigju hans er löggjöf sem kennd er við vin hans, Magnítskíj – löggjöfin – og beinist gegn þeim sem unnu óhæfuverkin í Rússlandi.

Bókin Eftirlýstur eftir Bill Browder er hluti af baráttu höfundar og hefur orðið metsölubók, þýdd á mörg tungumál og komið víða út. Þessi bók verðskuldar mikla athygli. Hún er mjög spennandi eiðanlegum hætti. En eins og bækur af þessu tagi vekur hún upp áleitnar spurningar sem ætíð munu koma upp í hugann um stjórnarhættina austur á Volgubökkum.

Einar K. Guðfinnsson er foseti Alþingis.