Að kæra „sig kollótta“ um forkastanleg vinnubrögð

Valgerður Bjarnadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar og fyrrverandi formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis, kennir þingmönnum þáverandi stjórnarandstöðu um að ekki hafi tekist að breyta stjórnarskránni á síðasta kjörtímabili. Í pistli á vefritinu Herðubreið heldur þingmaðurinn því fram að stjórnarandstæðingar hafi kært „sig kollótta um úrslit þjóðaratkvæðagreiðslunnar“ um stjórnarskrárdrög sem haldin var 20. október 2012.

Í pistlinum viðurkennir Valgerður að á síðasta kjörtímabili hafi ekki verið þingmeirihluti fyrir að „keyra stjórnarskránna í gegn“, en hún er sannfærð um mestu hafi skipt að stjórnarandstaðan hafi ekki verið viljug til „samræðu“ hvorki fyrir eða eftir þjóðaratkvæðagreiðslu um tillögur stjórnlagaráðs. Í engu minnist Valgerður á þá staðreynd að ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttir sat í 14 mánuði á tillögum stjórnlagaráðs né að kosningaþátttakan í atkvæðagreiðslunni hafi verið innan við 50%. Og Valgerður er búinn að gleyma tveimur öðrum þjóðaratkvæðagreiðslum sem ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna „kærði sig kollaótta um“; um Icesave-samninga ríkisstjórnarinnar við Breta og Hollendinga. Í fyrri þjóðaratkvæðagreiðslunni 2010 var þátttakan 63% og liðlega 75% í þeirri síðari árið 2011.Valgerður Bjarnadóttir

Sem formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar tók Valgerður að sér það verkefni að „keyra“ breytingar á stjórnarskránni í gegn. Sama dag og innan við helmingur kjósenda tók þátt í atkvæðagreiðslu um nokkur atriði stjórnarskrárinnar, hafði fréttastofa Ríkisútvarpsins það eftir Valgerði að ekkert nema málþóf gæti komið í veg fyrir að málið yrði afgreitt fyrir þinglok vorið 2013. Rúmlega mánuði síðar (29. nóvember) ákvað stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis, að frestur aðila utan þings til að skila inn athugasemdum og umsögnum um frumvarp nefndarinnar um breytingar á stjórnarskránni, skyldi renna út 13. desember. Þessum stutta fresti mótmælt af stjórnarandstæðingum en ekki síður af fræðimönnum. Í umræðum á þingi taldi Valgerður það koma til greina að lengja frestinn eitthvað en ekki mikið:

„En við skulum líka átta okkur á því að þetta er verk sem við ætlum að klára hér fyrir kosningar og það hefst ekki ef við fáum ekki umsagnir fyrr en í lok janúar.“

Gunnar Helgi Kristinsson, prófessor í stjórnmálafræði, gagnrýndi málsmeðferðina harðlega í viðtali við Fréttablaðið 29. nóvember og sagði meðal annars:

„Í fyrsta lagi er plaggið sjálft ekki traustvekjandi vegna þess hvernig það er undirbúið. Rökstuðning vantar með mörgum af þeim hlutum sem lagðir eru til og samráðsferlið hefur verið með eindæmum lélegt. Þvert á móti virðist ferlið einkennast af tilraun til að þagga niður umræðu.“

Gunnar Helgi bætti við gagnrýni sína:

„Í öðru lagi er lagt til í þessu plaggi að breyta hér stjórnarfyrirkomulagi í grundvallaratriðum. Lagt er til að hverfa að einhverri útgáfu af beinu lýðræði sem hvergi er við lýði í heiminum. Þetta birtist meðal annars í því að tekið er upp mjög róttækt fyrirkomulag á þjóðaratkvæðagreiðslum sem er án hliðstæðu í nokkru þingræðisríki.“

Þá benti Gunnar Helgi á að hvergi í gögnum um stjórnarskrárdrögin að finna mat á heildaráhrifum breytinganna. Um sé að ræða gríðarlega fjölda af tillögum sem fullkomin óvissa ríki um hvernig muni virka.

Bryndís Hlöðversdóttir, fyrrverandi þingmaður Samfylkingarinnar, var á svipuðum nótum í gagnrýni sinni og Gunnar Helgi.

Marklausar kosningar
Islands statsminister Jóhanna Sigurðardóttir vid Nordiska rådets session i Reykjavik på Island. 2010-11-02. Foto: Magnus Fröderberg

Mynd: Magnus Fröderberg

Í raun hafði Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra gert þjóðaratkvæðagreiðsluna um stjórnarskrártillögurnar marklausar fyrirfram. Nokkrum dögum fyrir kjördag lýsti forsætisráðherra því yfir á Alþingi að jafnvel þótt meirihluti landsmanna samþykki tillögur stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá geti þingmenn gert efnislegar breytingar á þeim. Þannig var ljóst að þeir sem sögðu já í þjóðaratkvæðagreiðslu höfðu enga tryggingu fyrir því að hugmyndir þeirra næðu fram að ganga og höfðu enga hugmynd um hvaða breytingar meirihluti þingmanna myndi gera á þeim tillögum sem liggja fyrir. Atkvæðagreiðslan var marklaus.

Salvör Nordal, formaður stjórnlagaráðs, gagnrýndi framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslunnar og sagði í samtali við Morgunblaðið:

„Mér hefði hins vegar fundist skynsamlegast að þeirri vinnu [lögfræðinganna] lyki áður en frumvarp stjórnlagaráðs er lagt í hendurnar á þjóðinni. Það væri að mínu viti eðlilegur framgangsmáti. Við sögðum þetta strax eftir að við skiluðum frumvarpinu og það eru fjórtán mánuðir síðan. Alþingi ákvað hins vegar ekki fyrr en í júní að skipa hóp til að fara yfir frumvarpið.“

Salvör og Ari Teitsson, varaformaður stjórnlagaráðs, kölluðu eftir því að Alþingi skýrði betur spurningarnar sem settar voru fram í þjóðaratkvæðagreiðslunum. Það skipti öllu að spurningar væru markvissar og auðskildar svo að vilji kjósenda kæmi afdráttarlaust í ljós og ekki rísi deilur eftir á um túlkanir á niðurstöðum.

Spurningarnar:

  1. Vilt þú að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá?
  2. Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði náttúruauðlindir sem ekki eru í einkaeigu lýstar þjóðareign?
  3. Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um þjóðkirkju á Íslandi?
  4. Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði persónukjör í kosningum til Alþingis heimilað í meira mæli en nú er?
  5. Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um að atkvæði kjósenda alls staðar að af landinu vegi jafnt?
  6. Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um að tiltekið hlutfall kosningarbærra manna geti krafist þess að mál fari í þjóðaratkvæðagreiðslu?
Misstu þingmeirihluta

Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd sendi öllum fastanefndum þingsins stjórnarskrárdrögin til umsagnar og gerði þeim að skila áliti 10. desember en engin taldi sig geta unnið verkið á þeim hraða. Allar nefndir þingsins voru undir stjórn þingmanna stjórnarflokkanna:

  • Allsherjar- og menntamálanefnd: Björgvin G. Sigurðsson
  • Atvinnuveganefnd: Kristján L. Möller
  • Efnahags- og viðskiptanefnd: Helgi Hjörvar
  • Fjárlaganefnd: Björn Valur Gíslason
  • Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd: Valgerður Bjarnadóttir
  • Umhverfis- og samgöngunefnd: Guðfríður Lilja Grétarsdóttir
  • Utanríkismálanefnd: Árni Þór Sigurðsson
  • Velferðarnefnd: Sigríður Ingibjörg Ingadóttir

 

Ríkisútvarpið hafði það eftir Valgerði að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hefði sent nefndarformönnum bréf það sem sagt var að þeir „hlytu náttúrlega að forgangsraða eins og þeir teldu heppilegast og ef þeir geta ekki skilað fyrir þennan tíma þá gerum við ráð fyrir því að þeir geri það eins fljótt og þeim er unnt“.

Fréttastofa Ríkisútvarpsins fullyrti í frétt 9. desember að eftir samtöl við formenn og varaformenn nefnda megi „ráða að flestir þeirra teldu sig geta skilað inn umsögn fyrir jól“ en þó ekki allir.

Bægslagangurinn við að koma breytingum á stjórnarskrá í gegnum þingið – eftir að hafa setið á tillögum stjórnlagaráðs í 14 mánuði án þess að gera nokkuð – varð til þess að ríkisstjórnarflokkarnir misstu stuðning meirihluta þingsins. Flestum varð ljóst að vinnubrögðin væru með þeim hætti að ekki væri forsvaranlegt að standa að breytingum á stjórnarkrá fyrir kosningar 2013. Það var því ekki þáverandi stjórnarnandstaðan sem koma í veg fyrir breytingarnar heldur forysta ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstri grænna.