Icesave-skuld Svavars-samninganna: 208 milljarða eftirstöðvar

Ef Icesave-samningarnir, sem kenndir eru við Svavar Gestsson, hefðu verið samþykktir árið 2009 hefðu eftirstöðvar þeirra hinn 5. júní næstkomandi numið tæpum 208 milljörðum króna, að gefnu óbreyttu gengi punds og evru. Þetta er um 8,8% af áætlaðri vergri landsframleiðslu ársins 2016. Þetta kemur fram í svari Hersirs Sigurgeirssonar, dósent í fjármálum við Háskóla Íslands og er birt á Vísindavefnum.

Þessi fjárhæð hefði fallið á ríkissjóð og hefði verið til greiðslu í jöfnum ársfjórðungslegum afborgunum á næstu átta árum, eða um 26 milljarðar á ári auk vaxta.

Hersir rifjar upp að samningarnir hafi verið undirritaðir hinn 5. júní 2009. Svavar Gestsson var formaður samninganefndar íslenska ríkisins:

„Meginefni samninganna var að breska og hollenska ríkið lánuðu Tryggingarsjóði innstæðueigenda og fjárfesta jafnvirði rúmlega 700 milljarða króna, í pundum og evrum, til fimmtán ára á föstum 5,55% vöxtum. Lánið var veitt til að endurgreiða hollenska seðlabankanum og breska tryggingarsjóðnum það sem þeir höfðu greitt innstæðueigendum Landsbankans. Fyrstu sjö ár lánstímans skyldi aðeins greiða inn á lánið sem samsvaraði því sem Tryggingarsjóðurinn fengi greitt úr slitabúi Landsbankans og eftirstöðvar lánsins að loknum þeim tíma skyldu greiðast á átta árum með 32 jöfnum ársfjórðungslegum afborgunum. Með samningunum ábyrgðist ríkissjóður þessar greiðslur og þar sem eignir Tryggingarsjóðsins voru litlar sem engar hefðu þær að mestu fallið á ríkissjóð.“

Miðað við gengi punds og evru á fyrsta vaxtadegi samninganna, hinn 1. janúar 2009, var höfuðstóll skuldarinnar að jafnvirði 638 milljarða króna þann dag, en miðað við gengið við undirritun samninganna, hinn 5. júní 2009, var hann að jafnvirði 710 milljarða króna.

Hersir vitnar í áætlun sem fylgi með frumvarpi til laga um heimild til handa fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs til að ábyrgjast lánin. Þar kom fram hvað samningarnir myndu kosta ríkissjóð að því gefnu að heimtur forgangskröfuhafa (innstæðueigenda) úr búi Landsbankans yrðu 75%. Áætlað var að eftirstöðvar lánanna hinn 5. júní 2016 myndu nema jafnvirði 415 milljarða króna. Í frumvarpinu var einnig sett fram fráviksáætlun miðað við 15% minni og meiri heimtur og voru niðurstöður hennar að ef heimtur yrðu miklar gætu eftirstöðvar lánsins jafnvel orðið einungis 309 milljarðar króna en allt að 521 milljörðum ef heimtur yrðu litlar.

Hægt er að lesa meira um Svavars-samningana á Vísindavefnum.

Hér er síðan hægt að lesa um hvað sagt var í Icesave-baráttunni.