Þrömmum aftur til Keflavíkur

Þröstur dáðist alltaf af dugmiklum og róttækum vinstri mönnum sem þrömmuðu syngjandi einu sinni á ári, með mótmælaskilti milli Reykjavíkur og Keflavíkur. „Ísland úr Nató – herinn burt“, hljómaði hátt og skýrt. Oft mun hafa verið gaman meðal göngumanna en eftir því sem árin liðu fækkaði þeim sem nenntu að leggja á sig gönguferðina.

Samtök herstöðvarandstæðinga skipulögðu Keflavíkurgöngurnar en árið 2006 var nafninu breytt í Samtök hernaðarandstæðinga og hefur lítið farið fyrir þeim síðustu árin. En nú er von að kvikni í gömlum glæðum eða svo héldu gamlir göngumenn þegar fréttir að bandaríski sjóherinn vilji endurnýjar flugskýli á Keflavíkurflugvelli. Mbl.is sagði svo frá 9. febrúar:

„Banda­ríski sjó­her­inn hef­ur óskað eft­ir fjár­veit­ingu á fjár­lög­um 2017 til að taka í gegn flug­skýli á Kefla­vík­ur­flug­velli, þar sem til stend­ur að hýsa P-8 Poseidon; flug­vél sem notuð er til að hafa eft­ir­lit með rúss­nesk­um kaf­bát­um í Norður-Atlants­hafi.“

Og nú fór blóðið að renna aftur í æðum róttæklinga: Bandaríski herinn er að koma aftur! Óskað var eftir skyndifundi utanríkismálanefndar til að ræða hættuástandið og Þröstur frétti af því að verið væri að leita að gömlu mótmælaskiltunum. Gömlu göngugarparnir voru í viðbragðsstöðu.

Hvort vonbrigði herstöðvarandstæðinganna voru meiri en Þrastar, þegar í ljós kom að bandaríski herinn væri ekki að koma aftur, skal ósagt látið. En mikið hefði verið gaman ef hóað hefði verið í eina Keflavíkurgöngu eða svo. Sumir þrífast best þegar þeir geta barist gegn einhverju. Íslenskum vinstri mönnum hefur líður betur í andrúmslofti mótmæla en að berjast fyrir einhverju.

 

Gamlir herstöðvarandstæðingar eru þó ekki dauðir úr öllum æðum. Ögmundur Jónasson hefur lagt fram þingsályktun um þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild Íslands að Norður-Atlantsbandalaginu. Allir þingmenn Vinstri grænna eru meðflutningsmenn ásamt Birgittu Jónsdóttur pírata.