Almenningur fái 12% í bönkunum og Íslendingar verða kapítalistar

Mynd: Örlygur Hnefill

Allir íslenskir ríkisborgarar með skattalega heimilisfesti hér á landi eiga að fá afhent hlutabréf í viðskiptabönkunum; Landsbanka, Íslandsbanka og Arion banka, á næstu þremur árum. Í grein sem Óli Björn Kárason, skrifar í Morgunblaðið leggur hann til að almenningur fái alls 12% hlutafjár í bönkunum og miðað við eigið fé þeirra er um að ræða 74 milljarða króna verðmæti. Hlutur hvers og eins verður alls liðlega 243 þúsund krónur eða 973 þúsund á hverja fjögurra manna fjölskyldu.

Í greininni kemur fram að í lok þriðja ársfjórðungs síðasta árs hafi eigið fé bankanna numið 620 milljörðum króna. Frá árslokum 2009 hafði eigið fé því hækkað um liðlega 280 milljarða króna. Óli Björn telur rétt að almenningur fái að njóta góðs hagnaðar bankanna með því að eignast með beinum hætti og eignast hlutbréf. Það er hægt að líta á þessa fjármuni sem beinar endurheimtur heimilanna vegna áfalla síðustu ára:

„Það er í takt við grunntón í stefnu Sjálfstæðisflokksins að senda landsmönnum beinan hlut í bönkunum. Slíkt rennir stoðum undir fjárhagslegt sjálfstæði einstaklinga, styrkir hlutabréfamarkaðinn, eykur aðhald að mikilvægum stofnunum samfélagsins og eykur tiltrú á fjármálakerfið“.

Óli Björn segir að þegar almenningur hafi rétt til að sækja hluthafafundi bankanna, leggja þar fram spurningar fyrir stjórn og helstu stjórnendur í krafti eignarhlutar, verði aðhaldið meira en áður. Bankarnir verða ekki líkt og lokaður klúbbur nokkurra útvalinna einstaklinga eða andlistlausa fjárfesta, heldur opinn vettvangur almennings til að láta til sín taka og hafa áhrif. Mikilvægt sé að efla traust á íslenskt fjármálakerfi.

Í lok greinarinnar segist Óli Björn gera sér greina fyrir því að einhverjir úrtölumenn munu leggjast gegn því að einstaklingar eignist milliliðalaust hlut í bönkunum:

„Enda yrði stigið stórt skref í að gera Íslendinga að kapítalistum og styrkari stoðum skotið undir fjárhagslegt sjálfstæði einstaklinganna. Þeir eru til sem virðast ekki vilja hugsa þá hugsun til enda.“