Jón Magnússon
Samkomulag hefur náðst í stjórnarskrárnefnd um að leggja fram ákveðnar breytingar á stjórnarskrár lýðveldisins. Það er fagnaðarefni og þannig á að vinna að breytingum á stjórnarskrá í þróuðum lýðræðisríkjum, að ná sem víðtækastri sátt um þann þjóðfélagssáttmála sem stjórnarskráin er og á að vera.
Ekki hefur verið greint frá því nákvæmlega hvaða tillögur stjórnarskrárnefndin leggur til, en leiða má líkum að því að samkomulag sé um aðferð til að knýja fram þjóðaratkvæðagreiðslu um mál, auðlinda- og umhverfismál.
Aðsúgsfólk að stjórnarskránni náði að telja fyrrverandi ríkisstjórn og ákveðnum hópi þjóðarinnar trú um að nauðsyn væri að kollvarpa núverandi stjórnarskrá og fékk hana til að fara með sér í ólánsvegferð sem kostaði mikinn tíma og peninga og endaði í algjöru glóruleysi eins og svo margt annað sem þau Jóhanna og Steingrímur baukuðu saman.
Nú hillir undir að skynsemin fái að ráða og vitsmunir og hæfi ráði för við breytingar á stjórnarskránni, þannig að breytingar verði á henni gerðar til bóta, í samræmi við viðmið og venjur í þróuðum lýðræðisríkjum eins og okkar.