Helgi hættir og Hringbraut sögð til sölu

Þröstur var spurður eftirfarandi spurningar:

Er það tilviljun að um leið og Helgi Magnússon yfirgefur stjórn Lífeyrissjóðs verslunarmanna, skuli þau boð látin út ganga að sjónvarpsstöðin Hringbraut sé til sölu?

Þröstur var ekki klár á hvernig þetta tvennt tengdist og spurði af hverju viðkomandi væri að velta þessu fyrir sér. Kunningi Þrastar svaraði:

Jú, í gegnum lífeyrissjóðinn hefur Helgi verið einn helsti áhrifa- og valdamaður í íslensku viðskiptalífi – áhrifin hafa verið langt umfram hans eigin umsvif. Það hefur verið opinbert leyndarmál að Helgi hefur verið aðalbakhjarl Hringbrautar og áhrif Helga hafa opnað sjónvarpsstöðinni ýmsar dyr sem annar hefðu verið lokaðar og auðveldað sölu auglýsinga. Þrátt fyrir þetta hefur rekstur Hringbrautar ekki gengið sem skyldi. Markaðsstaða Hringbrautar hefur síðan versnað eftir brotthvarf Helga úr stjórn lífeyrissjóðsins.

Þröstur hafði ekki forsendur til að bera á móti þessum staðhæfingum en benti kunningja sínum á að Hringbraut hefði ekki náð því flugi sem að var stefnt og því ekki haft þau áhrif á þjóðfélagsumræðuna sem bakhjarlar stöðvarinnar létu sig dreyma um. Þar skipti kannski ekki minnstu að allt loft væri úr baráttunni fyrir aðild að Evrópusambandinu, Viðreisn Benedikts Jóhannessonar, sem Helgi hefur stutt, væri týnd og Samfylkingin eitt blæðandi sár. Á sama tíma væri gríðarlegur uppgangur í efnahagsmálum, kaupmáttur að aukast, höftin að hverfa og almennt góðæri framundan ef rétt er haldið á spilunum.

Níu ár í stjórn

Helgi Magnússon lét af stjórnarmennsku í Lífeyrissjóði verslunarmanna síðastliðinn þriðjudag eftir níu ár setu. Hann var fulltrúi atvinnurekenda í stjórninni. Auk setu í stjórn lífeyrissjóðsins hefur Helgi verið umsvifamikill fjárfestir í íslensku atvinnulífi. Í skýrslu sem Samtök sparifjáreigenda létu gera á liðnu ári kom fram að Helgi ætti sæti í stjórnum þriggja félaga sem lífeyrissjóðurinn á eignarhlut í, þ.e. N1, Marel og Símanum. Alls sat hann í stjórnum fimmtán félaga, er framkvæmdastjóri þriggja, prókúruhafi fjögurra og stofnandi fjögurra.

Stjórnarseta Helga í Lífeyrissjóði verslunarmanna var lengi umdeild og í byrjun desember síðastliðins sagði Ólafía B. Rafnsdóttir formaður VR í Vikulokunum Ríkisútvarpsins að það væri ekki boðlegt að stjórnarformaður eða varaformaður Lífeyrissjóðs verslunarmanna sitji í stjórnum þeirra fyrirtækja sem lífeyrissjóðurinn sé að versla við. Stjórn VR samþykkti síðan ályktun 13. janúar um að stjórnarmenn í lífeyrissjóðum ættu ekki að sitja í stjórnum fyrirtækja.

Helgi vísaði þessari gagnrýni á bug og sagði að ákvörðun um að hætta í stjórn lífeyrissjóðsins hefði ekkert með gagnrýni VR að gera. VR segði Samtökum atvinnulífsins ekki fyrir verkum.