Þjóðmál: Nýtt hefti komið út

Nýtt hefti Þjóðmála er komið út og er efni þess fjölbreytt að vanda.

Björn Bjarnason skrifar um vettvang stjórnmálanna, þar á með um tilraunir til að umbylta stjórnarskránni. Þá beinir Björn athyglinni að Pírötum en Birgitta Jónsdóttir sagði skilið við Hreyfinguna, eftir að hún komst ekki á allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna árið 2012. Hún stofnaði Pírata-flokkinn. Nú er Birgitta í mótbyr og sökuð um valdabrölt. Á sama tíma logar Samfylkingin stafna á milli. Árni Páll Árnason, formaður flokksins, sendi félögum sínum bréf sem er ein samfelld árás á ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur.

Óli Björn Kárason heldur því fram að séreignastefnan og fjárhagslegt sjálfstæði einstaklinganna séu hornsteinar borgaralegs samfélags. Þetta viti sósíalistar og þess vegna eru þeir á móti séreignastefnunni og hafa engan skilning á löngun einstaklinganna að standa á eigin fótum með því að tryggja fjárhagslegt sjálfstæði sitt og sinna. Atlagan að séreignastefnunni er hluti af langvinnum átökum um samfélagsgerðina, þar sem takast á öfl stjórnlyndis og frjálslyndis, sameignarsinna og séreignasinna. Markmiðið er að grafa undan grunngildum samfélags sem byggist á frjálsum viðskiptum og frelsi
einstaklingsins þar sem ríkið er verkfæri borgaranna en ekki þegnar ríkisvaldsins.

Frosti Sigurjónsson, þingmaður Framsóknarflokksins og formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis, fjallar um rökin fyrir því að skilja að starfsemi viðskiptabanka og fjárfestingabanka. Hann segir að fjárfestingabankastarfsemi geti verið bæði arðbærari og áhættusamari en hefðbundin viðskiptabankastarfsemi. Áhætta í fjárfestingabankastarfsemi sé þó fyrst og fremst áhyggjuefni eigenda fjárfestingabankans en ekki ríkisins. Öðru máli gegnir um viðskiptabanka því þeir njóti í raun ríkisábyrgðar.

Sameiginleg vá

Vandamálið, hlýnun jarðar, og orsakir hennar – losun gróðurhúsaloft-tegunda, eru vel skilgreind, en viðbrögð mannkyns hingað til eru röng, enda hafa þau sára-litlu skilað, sem kalla mætti viðspyrnu, og hefur t.d. koltvíildisstyrkur andrúmslofts aukist um 14 % frá 1990. Bjarni Jónsson rýnir í hvað hefur mistekist í þessari „baráttu“ og bendir á hvað sé til ráða.

Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttir stundaði baktjaldamakk, segir Árni Páll. Loforðin voru hins vegar stór í upphafi. Leiða átti til öndvegis „ný gildi jöfnuðar, félagslegs réttlætis, samhjálpar, sjálfbærar þróunar, kvenfrelsis, siðbótar og lýðræðis”. Loforðum um siðbót og opna stjórnsýslu er haldið til haga í þessu vorhefti Þjóðmála.

Björn Jón Bragason skrifar peningaprentun og skipulag peningamála á fyrstu árum fullveldisins. Þá var hægt að skipta íslenskum krónum án vandræða í öðrum löndum.

Hægt er að gerast áskrifandi að Þjóðmálum með því að senda tölvupóst: askrift@thjodmal.is

Áskrift kostar kr. 4.900,- á ári + 11% vsk eða alls kr. 5.439,-.