Óli Björn Kárason
Repúblikanar eru margir áhyggjufullir. Þeir óttast að bandarískir kjósendur neiti þeim um lyklavöldin að Hvíta húsinu enn einu sinni. Þeir hafa ástæðu til að hafa áhyggjur.
Fyrir hálfu ári var gert góðlátlegt grín að Donald Trump – kjaftfora auðmanninum sem ákvað að sækjast eftir að verða forsetaefni Repúblikanaflokksins í nóvember næstkomandi. Fáir tóku framboðið alvarlega og jafnvel enn færri töldu Trump eiga nokkra raunhæfa möguleika. Annað hefur komið á daginn.
Með sérlega snjöllum hætti hefur Trump nýtt sér lýðskrum og spilað á lægstu hvatir kjósenda. Hann nýtur mestrar hylli kjósenda í forkosningum og að óbreyttu virðist fátt geta komið í veg fyrir að hann verði forsetaefni repúblikana.
Fyrir utan hugsanleg lagaleg vandræði er ekkert sem kemur í veg fyrir að demókratinn Hillary Clinton verði keppinautur Trumps um forsetaembættið. Skoðanakannanir eru allar á einn veg. Hillary verður næsti forseti Bandaríkjanna og situr að líkindum að völdum næstu átta ár enda fá dæmi um að sitjandi forseti nái ekki endurkjöri. Gangi það eftir verður repúblikönum úthýst úr Hvíta húsinu í 16 löng samfelld ár. Þeir geta gert sér vonir um að endurheimta völdin árið 2024. Þá hafa þeir þurft að sætta sig við demókrata á forsetastóli í 24 ár af síðustu 32.
Hvar eru Lincoln, Reagan og Kemp?
Er nema von að margir repúblikanar spyrji: Getum við ekki fundið annan Abraham Lincoln? Hvar er Ronald Reagan okkar tíma? Hvar er hægri maðurinn – íhaldsmaðurinn með hið meyra, blæðandi hjarta? Hvar er arftaki hugsjóna Jacks Kemp?
Ólíkt Lincoln og Reagan varð Jack Kemp aldrei forseti. En hann var einn áhrifamesti hugmyndafræðingur hægri manna í bandarískum stjórnmálum á áttunda og níunda áratug síðustu aldar. Kemp, líkt Lincoln og Reagan, hafði djúpstæða sannfæringu fyrir frelsi einstaklingsins og frjálsum viðskiptum.
Jack Kemp var einarður baráttumaður fyrir umfangsmiklum skattalækkunum. Hann var „prédikari“ framboðshliðar-kenningarinnar (supply-side economics) enda þess fullviss að hægt sé að auka framleiðslu og verðmætasköpun með lægri sköttum og minni ríkisafskiptum.
Þegar Kemp hóf afskipti af stjórnmálum var Richard Nixon forseti. Repúblikanaflokkurinn var upptekinn af aðhaldsaðgerðum. Hallalaus fjárlög var fyrsta og eina boðorðið. Öllu öðru var vikið til hliðar. Hallalaus fjárlög skyldi tryggja, jafnvel með hækkun skatta og niðurskurði velferðarkerfisins.
Vítamínsprauta fyrir efnahagslífið
Þessi hugmyndafræði Nixon-áranna var eitur í beinum Jacks Kemp. Eftir að hann var kjörinn í fulltrúadeild Bandaríkjaþings árið 1971 barðist hann af einurð fyrir umfangsmiklum lækkunum skatta, sem hann var sannfærður um að yrðu líkt og vítamínsprauta fyrir efnahagslífið. Árangurinn yrði aukin almenn velsæl, sem leiddi til lægri velferðarútgjalda, hækkun tekna ríkisins vegna aukinna umsvifa og þar með væri auðveldara að ná jafnvægi í ríkisfjármálum.
Ronald Reagan tileinkaði sér tillögur og hugmyndir sem Jack Kemp hafði í skattamálum. Þegar Reagan tók við forsetaembættinu í janúar 1981 glímdu Bandaríkin við efnahagslega stöðnun, háa verðbólgu og vaxandi atvinnuleysi. Árangurinn varð eins og til varð sáð. Efnahagslífið tók kipp, atvinnuleysi minnkaði og tekjur ríkisins jukust.
Góði hirðirinn
Jack Kemp var maður drenglyndis í stjórnmálum. Hann taldi sig eiga pólitíska andstæðinga en enga pólitíska óvini. Í hverjum andstæðingi sá hann mögulega bandamenn og var óhræddur við að hrósa demókrötum og eiga við þá samvinnu til að vinna að hagsmunum almennings.
Ronald Reagan og Jack Kemp sannfærðu samherja sína í Repúblikanaflokknum um að með bjartsýni á efnahagslega framtíð væri hægt að ná eyrum og stuðningi kjósenda sem áður höfðu fylgt demókrötum að málum – allt frá verkamönnum til minnihlutahópa, frá fátækum fjölskyldum stórborganna til millistéttarinnar.
Kemp átti sér þann draum að rífa fjölskyldur úr fátæktargildru stórborganna. Sem húsnæðismálaráðherra 1989-1993 lagði hann áherslu á ódýrt húsnæði, að félagslegar íbúðir væru undir stjórn íbúanna sjálfra og að þeir ættu möguleika á að eignast húsnæðið.
Kemp var „góði hirðirinn“ og var umhugað um að hjálpa þeim sem villast af leið eða glíma við erfiðleika. Hann var óþreytandi að minna flokkssystkini sín á skyldur þeirra að vinna að almannaheill og huga sérstaklega að minnihlutahópum, láglaunafólki og þeim sem orðið hafa undir í lífsbaráttunni. Hann taldi að hver og einn hefði skyldur gagnvart náunganum.
Mannúð og samkennd
Donald Trump er andstæða alls þess sem Jack Kemp stóð fyrir. Í hugmyndabaráttunni spilaði Kemp aldrei á lægstu hvatir mannlegra tilfinninga. Þvert á móti. Hann blés bjartsýni í brjóst almennings – hann vildi gefa einstaklingum tækifæri með lágum sköttum og takmörkuðum ríkisafskiptum um leið og þeir axla ábyrgð, ekki aðeins á eigin gjörðum heldur ekki síður gagnvart öðrum með því að rétta þeim hjálparhönd sem á þurfa að halda.
Jack Kemp lést árið 2009. Hann var og er holdgervingur hins ástríðufulla íhaldsmanns þar sem hugsjónir hægri manns eru ofnar saman við mannúð og samkennd. Engan skal undra þótt margir repúblikanar spyrji hvar arftaki hans sé niðurkominn.
Við, sem skipum okkur í sveit íslenskra hægri manna, getum sótt ýmislegt úr Kemp-smiðjunni. Ekki síst hvernig hægt er að standa fast á hugsjónum, falla ekki í freistni lýðskrumsins og átta sig á að þeir sem ekki eru sammála eru mótherjar en ekki óvinir. Við gætum jafnvel fundið í smiðjunni ástríðuna og enn eina staðfestingu þess hvernig samkennd og mannúð eru órjúfanlegur hluti af frelsi einstaklingsins.